14.10.1998

Vinstrimennska - samfylkingarmál - kosningaþing

Eftir að Helmut Kohl tapaði kosningunum í Þýskalandi hefur nokkuð borið á því, að menn hafi túlkað þau þáttaskil, sem sigur vinstristefnu. Hið sama var uppi á teningnum í Bretlandi vorið 1997, þegar Tony Blair vann Íhaldsflokkinn í Bretlandi. Loks líta menn einnig til sigurs sósíalista undir forystu Lionels Jospins, sem varð forsætisráðherra Frakklands og ýtti hægri mönnum nokkuð langt til hliðar á síðasta ári. Látið er í veðri vaka, að þetta sé til marks um að ný hugmyndafræði sé að ná undirtökunum í Evrópu. Full ástæða er til að draga þetta í efa. Þótt flokkarnir séu til vinstri, sem nú stjórna í þessum fjölmennu Evrópulöndum, er hitt ljóst, að forystumenn þeirra keppast allir við að skilgreina sjálfa sig og stefnu sína sem miðjustefnu, þeir treysta sér ekki til að ganga lengra á leið sinni til hægri. Hin nýja miðja, svar slagorðið á ræðupúlti Gerhards Schröders, kanslaraefnis þýskra sósíalista. Hann var ekki að boða neitt, sem gat valdið hugmyndafræðilegum deilum, höfumáli skipti, að minna kjósendur á þá staðreynd, að Kohl hefði verið kanslari í 16 ár, tími væri kominn til að skipta. Raunar var það hið sama, sem helst varð vinstrisinnum til fylgisaukningar í Þýskalandi og Bretlandi, það er að tími væri kominn til að skipta, það væri ekki hollt fyrir lýðræðið, að sami flokkurinn sæti of lengi við völd. Ef við skiptum ekki núna, erum við að innleiða einsflokks-kerfi í Bretlandi, var sagt þar í fyrra, þegar íhaldsmönnum var ýtt úr ráðherraembættum eftir næstum tveggja áratuga samfellda setu þar.

Við upphaf UNESCO-ráðstefnunnar um æðri menntun í París á dögunum flutti Lionel Jospin forsætisráðherra ræðu. Hann sagði, að menn ættu ekki að líta á markaðinn sem markmið í sjálfu sér heldur tæki til að ná ákveðnum markmiðum. Ef vinstrisinnar hér á landi töluðu með þessum hætti, væri það í sjálfu sér tímamót. Þeir hafa ekki neinn kjark til þess, heldur eru þeir með gæluverkefni og patentlausnir án þess að hafa þrek til að ræða um hugmyndafræðileg viðfangsefni, þeir leggja á flótta, þegar grundvallaratriði í utanríkismálum eru til umræðu og boða stefnu gagnvart NATO, sem er svo útúrboruleg, að það ekki unnt að skýra hana út fyrir erlendum mönnum.

Jospin þykir lengst til vinstri í hópi þeirra sósíalista, sem hafa verið valdir til forystu í stóru Evrópuríkjunum. Hann notar hugtök eins og aðlögun í stað þess að tala um einkavæðingu, svo að dæmi sé nefnt, og þykir honum hafa tekist nokkuð vel að þoka hinu fastmótaða og stirða franska kerfi inn á nýjar brautir. Þó var ég undrandi að lesa í blöðum þar, hve mikil spenna og heift ríkir í garð ríkisstjórnarinnar vegna stefnu hennar í menntamálum. Er fráleitt að líta þannig á, að það sé trygging fyrir ánægju allra með menntamál, að vinstrisinnar haldi um stjórnvölinn. Göran Persson, forsætisráðherra sænsku sósíalistastjórnarinnar, sem tapaði miklu fylgi í kosningum þar en situr þó áfram sem veik minnihlutastjórn skipti um báða ráðherrana í stjórn sinni, sem fóru með stjórn mennta- og skólamála.

Nýlega var haldinn fundur í New York, þar sem þeir hittust Tony Blair, Bill Clinton og fleiri til að ræða um það, sem þeir kalla 'þriðju leiðina' í stjórnmálum eða efnahagsmálum, einhverja milli leið milli kapítalisma og sósíalisma. Allir aðrir, en þeir, sem vilja nota þennan stimpil í pólitískum tilgangi, eru sannfærðir um, að þessi leið sé óskilgreind og í raun óskilgreinanleg.

Ef við færum þessar umræður meðal vinstrisinna um nýja ímynd þeirra yfir á íslenskt stjórnmálalíf, er auðvelt að greina svipaða strauma hér og erlendis, nema hvað hér eru menn að reyna að sameina jafnaðarmenn og sósíalista undir óljósri stefnu, sem enginn skilur, hvert á eftir að leiða þá, sem fylgja henni. Ég tek hér glefsur úr ræðum þriggja vinstrisinna, sem nú kalla sig óháða, í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 1. október sl.

Steingrímur J. Sigfússon (óháður áður í Alþýðubandalgi):

„Viðbrögðum vinstri manna við nýfrjálshyggjunni í heiminum má í aðalatriðum skipta í tvennt. Það eru annars vegar þeir sem hafa gefist upp fyrir henni, aðlagað sig að henni, tekið hana upp en boðist til að framkvæma hana með félagslegu ívafi og það eru hins vegar hinir sem hafa ákveðið að berjast gegn henni, bjóða upp á skýran valkost móti þeirri stefnu og láta kjósendur velja um það hvort þeir vilja þjóðfélag mótað af hugsunarhætti nýfrjálshyggjunnar eða vinstri stefnu. Það er enginn vafi á því að umræðan um samstarf vinstri flokka á Íslandi hefur mótast af sterkri stöðu nýfrjálshyggjunnar. Svo rammt hefur kveðið að þessu að mönnum hefur langleiðina tekist að sannfæra sig um að þeir væru einskis nýtir, gagnslausir og áhrifalausir smáflokkar jafnvel þó þeir njóti fjöldafylgis sem á alla venjulega mælikvarða evrópskra stjórnmála teldust umtalsverðir.

Lýðræðið, herra forseti, snýst um meira en það að mæta á kjörstað á fjögurra ára fresti og kjósa. Lýðræðið snýst einnig og ekki síður um að í boði séu skýrir valkostir til að kjósa um. Íslensk stjórnmál þurfa ekki á fleiri mórauðum lækjum að halda sem hvorki eru bergvatnsár né jökulvötn. Íslensk stjórnmál þurfa á öflugri vinstri stefnu að halda sem svari við nýfrjálshyggjunni sem hefur verið leiðandi hugmyndafræði. Þeir sem vilja nýfrjálshyggjuna eiga að boða hana og þeir sem vilja slíkt þjóðfélag eiga að kjósa hana og svo geta menn hagrætt og hagrætt með því að hætta að skipta á rúmunum hjá gamla fólkinu eins og dæmin frá Bretlandi og Svíþjóð sanna. Þeir sem vilja aðild að Evrópusambandinu eiga að boða það og þeir sem vilja inn í slíkt batterí eiga að kjósa það. En þeir sem vilja eitthvað annað eiga að boða það og standa fyrir því og bjóða kjósendum þannig skýra valkosti.

Um allt land, herra forseti, er fólk nú að gera upp hug sinn til nýs landslags í íslenskum stjórnmálum. Ég skora á alla þá sem vilja að til verði á Íslandi og í íslenskum stjórnmálum rödd sem boðar einarða vinstri stefnu, boðar umhverfisvernd, boðar jafnrétti og boðar þjóðfrelsi og andstöðu við her og hernaðarbandalög að fylkja liði. Það er að hefjast ummótunartími í íslenskum stjórnmálum. Það er veður til að skapa og það er verk að vinna í þágu réttlátara samfélags.”

Hér talar maður, sem getur ekki sætt sig við neina af þeim flokkum, sem hafa aukið fylgi sitt mest í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi undanfarna mánuði. Hann segir andstæðinga sína á vinstrikantinum hafa gefist upp fyrir hugmyndafræðilegum andstæðingum sínum og gengið óvininum á hönd.

Kristín Ástgeirsdóttir (óháð áður í Kvennalista) :

„Hæstv. forseti. Íslensk stjórnmál einkennast af mikilli upplausn um þessar mundir. Afleiðingar breyttra þjóðfélagshátta, t.d. mikill flutningur fólks frá landsbyggðinni og kvótakerfið er að kalla fram ný framboð meðal fyrrv. stuðningsmanna Sjálfstfl. Mér segir svo hugur um að mörgum framsóknarmanninum svíði stóriðjustefna síns flokks sem virðist reiðubúinn til að sökkva hálfu landinu í þágu stóriðju sem innan nokkurra ára verður svo tæknivædd að þar mun varla nokkur mannshönd koma nærri. Tilraunir svokallaðra jafnaðarmanna til að búa til krataflokkinn mikla, samfylkinguna, hefur leitt til þess að í stað þess að sameina er búið að sundra rétt einu sinni eins og gerðist 1930, 1938, 1956, 1967, 1983 og 1995. Í valnum liggja Kvennalistinn og Alþb. [Alþýðubandalagið] klofin í herðar niður og ómögulegt er að átta sig á hvert stefnir. En til hvers er þetta allt saman? Að hvers konar samfélagi er verið að stefna og í þágu hverra? Þeim spurningum er enn ósvarað.”

Hér bendir Kristín á, að samfylkingin hafi í raun sundrað vinstrisinnum. Krataflokkurinn mikli sé ekki annað en nýtt vinstra flokksbrot, sem hafi ekki markað sér neina skýra stefnu.

Ögmundur Jónasson (óháður, farinn úr þingflokki Alþýðubandalags) :

„Hið gleðilega er hins vegar það að nú eru teikn á lofti um að þeim fjölgi sem eru búnir að fá nóg af stjórnmálum sem einkennast af auglýsingamennsku, valdagræðgi og hentistefnu. Upp er að rísa ný hreyfing fólks sem leggur áherslu á jöfnuð í þjóðfélaginu, hreyfing sem hafnar frjálshyggjukreddum, leggur áherslu á umhverfismál og reisn í samskiptum við aðrar þjóðir heims. Þetta er að gerast víða um lönd og mun einnig gerast hér á landi. Senn verður kallað eftir stuðningi allra þeirra sem hafna forræði peningavalds og gróðahyggju en setja á oddinn virðingu fyrir umhverfinu, jöfnuð og félagslegt réttlæti.”

Kosningaþingið á ekki einvörðugu eftir að einkennast af átökum milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur eiga átök milli vinstrisinna eftir að setja mikinn svip á það. Við blasir, að samfylkingarmenn standa á mjög veikum grunni, hugmyndafræðilega og skipulagslega, svo virðist sem þeir hafi unnið of mikið við skrifborðið eða í reykmettuðum bakherbergjum, eins og áður var sagt, til að komast að niðurstöðu um texta, sem flestir aðrir telja næsta marklitla moðsuðu.