Færeyjaferð - Ísafjörður
Signar á Brúnni menntamálaráðherra Færeyja var hér á ferð 20. ágúst í tilefni af 30 ára afmæli Norræna hússins. Notaði hann og ráðuneytisstjóri hans, Petur Petersen, tækifærið til að kynna sér starfsemi ýmissa menningarstofnana auk þess sem við hittumst. Bauð Signar mér þá að heimsækja Færeyjar og fórum við Rut þangað laugardaginn 19. september og snerum heim mánudaginn 21. september. Vorum við gestir Signars og konu hans Gunnvarar.
Þetta var fyrsta ferð mín til Færeyja. Ég hafði eins og aðrir heyrt sögur af því, að ekki væri ávallt auðvelt að lenda á flugvellinum í Vágar. Við fórum með þotu færeyska flugfélagsins Atlantic og var hún þéttsetin, voru margir farþega að snúa aftur til Færeyja af vestnorrænni ferðakaupstefnu, þá var forsætisnefnd Alþingis í vélinni að endurgjalda heimsókn forsætisnefndar færeyska Lagþingsins frá því í fyrra. Eftir klukkutíma var vélin komin yfir Færeyjar, þá var svo mikil þoka þar, að ekki var unnt að lenda. Þá sagði flugmaður, að hann myndi fljúga í klukkutíma yfir vellinum og bíða þess að þokunni létti, annars yrði hann að fara til Bergen. Gekk þetta eftir og eftir klukktuíma tilkynnti hann, að ferðinni væri heitið til Bergen, þá breyttist hljóðið skyndilega og vélin snarlækkaði flugið, steypti sér niður úr háloftunum, undir lágskýin og inn á flugvöllinn með nokkrum dramatískum sveiflum í firðinum að brautinni, ríkti spenna meðal farþeganna og hrópuðu margir upp yfir sig, sumir grétu, en vélin lenti heilu og höldnu. Sögðu menn, að enginn nema færeyskur flugmaður hefði getað lent við þessar aðstæður. Vorum við heppin, að komast niður þennan laugardagsmorgun, því að enginn vél lenti á vellinum fyrr en mánudaginn, sem við héldum heim með Fokker-vél Flugfélags Íslands. Hún var tveimur tímum eftir áætlun vegna þoku.
Dvölin í Færeyjum var mjög ánægjuleg og fróðleg. Fljótlega eftir komuna til Þórshafnar fórum við um borð í sluppen eða kútterinn Norðlýsið og sigldum í nokkrum vindi að Nólsoy, sem blasir við framan við höfnina í Þórshöfn. Fórum við í var vestan við eyjuna og þar um borð í gúmmbáta , sem sluppurinn dró, og sigldum á þeim inn í hella á eyjunni, þar sem tónlistarmenn léku á hljóðfæri sín, svo að undirtók í hvelfingunni. Síðan héldum við inn í höfnina á Nólsoy, þar sem búa nokkrir tugir manna. Hafði ég beðið um að fá að hitta Emil Juul Thomsen bókaútgefanda, sem hefur meðal annars átt mikil viðskipti við Prentsmiðjuna Odda. Hann er 83 ára gamall og hefur reist sér hús í fornum færeyskum stíl á þessari fámennu eyju, þar sem flest er enn í gömlum skorðum og ekki neina bíla að sjá. Hefur Emil verið heiðraður fyrir afrek sín í útgáfumálum meðal annars með stórriddarakrossi íslensku fálkaorðunnar og doktorsnafnbót frá Lundi. Nú vinnur hann að því að gefa út Færeysk kvæði í 40 bindum, en kvæðin hafa sama gildi fyrir Færeyinga og Íslendingasögurnar fyrir okkur. Stundin á heimili Emils mun seint gleymast. Höfðu hann og kona hans undirbúið móttökur af kostgæfni og sýndi hann okkur handrit af kvæðasafninu mikla. Honum er hlýtt til Íslendinga og telur Færeyinga eiga að feta í fótspor okkar í sjálfstæðismálum. Eftir heimsóknina til Emils héldum við í barnaskólann, þar sem hópur nemenda beið okkar, söng fyrir okkur og steig færeyskan dans. Á leiðinni til Þórshafnar snæddum við dýrindis fiskisúpu og fiskrétt, sem skipstjórinn á Norðurlýsinu hafði matreitt. Var þar greinilega þúsundþjalasmiður á ferð og sagðist oft hafa komið til Íslands.
Signar á Brúnni kemur úr Þjóðveldisflokknum, sem nú á flesta þingmenn í Lögþinginu, fylgir flokkurinn einarðri stefnu í sjálfstæðismálum og hafði talast þannig til með okkur, að ég greindi Færeyingum frá brotum úr sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga. Þennan fyrirlestur flutti ég í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn síðdegis sunnudaginn 20. september um leið og Peter Turtschaninoff forstjóri hússins sýndi okkur það. Ég talaði á íslensku en hafði með mér fjölritaða þýðingu á færeysku, sem dreift var til áheyrenda, sem voru um 150. Karlakór söng og Signar flutti ávarp, tók athöfnin um klukkustund og að henni lokinni rituðum við Signar undir samstarfsyfirlýsingu í menntun, vísindum og menningu. Þá skoðuðum við Listaskálann.
Um kvöldið fórum við í Kirkjubæ, þar sem Páll Patursson bóndi tók á móti okkur. Jóhannes Patursson bóndi, skáld og baráttumaður fyrir sjálfstæði Færeyja, stofnandi Sjálvstýrisflokksins 1906, var afi Páls og á hann frændur á Íslandi. Eru Páll og Sølvá kona hans 16. ættliðurinn, sem býr í Kirkjubæ. Var einstakt að fara um Ólafskirkju og kirkjumúrinn eða rústir Magnúsardómkirkju undir leiðsögn Páls, sagan varð ljóslifandi í frásögn hans. Er þessi staður meðal hinna merkustu fyrir norræna menn, því að þarna sjáum við, hve vel var búið á biskupssetrum. Reykstofan, eða baðstofan, þar sem við snæddum glæsilegan kvöldverð er 900 ára gömul og hin elsta á öllum Norðurlöndum, sem enn stendur. Þar gekk Sverrir konungur um gólf ásamt Erlendi biskupi. Þá fórum við í Loftstofuna, þar sem Erlendur biskup skrifaði Sauðabréfið 1298.
Mánudaginn 21. september héldum við snemma morguns frá Þórshöfn í klukkustundar bílferð til Fuglafjarðar, þar sem Signar á Brúnni býr og hefur starfað sem grunnskólakennari. Fyrst heimsóttum við verslunarskóla og menntaskóla í Kambsdal. Fórum við í margar kennslustofur og kynntumst því hvernig nemendur og kennarar nýta fistölvur við kennslu og nám. Nemendur eiga tölvunnar og fá alhliða þjálfun í notkun þeirra. Einnig fórum við í tónlistarstofuna og hlýddum á söng auk þess sem við vorum hinir fyrstu, sem fengum tækifæri til að hlusta á söng í nýjum og fallegum samkomusal skólanna. Væri fróðlegt fyrir okkur Íslendinga að kynnast því, hvernig tölvur eru nýttar í þessum skólum.
Þá fórum við í grunnskólann í Fuglafirði, þar sem nemendur og kennarar fluttu glæsilega dagskrá, sungu og dönsuðu, og við vorum frædd um gildi færeysku kvæðanna. Vorum við snortin af því, hve vel var á móti okkur tekið, á þessari ógleymanlegu stund. Síðan buðu Signar á Brúnni og Gunnvör kona hans okkur í hádegisverð í fallegu húsi sínu í Fuglafirði, þokunni hafði létt og við nutum náttúrufegurðar í veðurblíðunni. Síðan var haldið til Vágar og vélin fór á loft um klukkan 17.00.
--------
Laugardaginn 26. september var mikil hátíð á Ísafirði, þegar haldið var upp á margfalt tónlistarafmæli en þess sérstaklega minnst, að 28. september eru 100 ár liðin frá því að Ragnar H. Ragnar, skólastjóri og tónlistarfrömuður, fæddist. Fórum við með Sinfóníuhljómsveit Íslands til Ísafjarðar um hádegisbilið en hún lék á hátíðartónleikum í íþróttahúsinu klukkan 15.30, Sigrún Hjálmtýsdóttir söng við mikla hrifningu og einnig söng Sunnukórinn. Húsið var troðfullt af áheyrendum. Við upphaf tónleikanna flutti ég ávarp og minntist Ragnars og ómetanlegs framlags hans og Jónasar Tómassonar til tónlistar- og menningarmála á Ísafirði.
Fyrir tónleikana fór ég með Sigríði Ragnarsdóttur, skólastjóra Tónlistarskólans, um húsakynni hans, þar sem Húsmæðraskólinn Ósk var áður til húsa. Hafa tvær hæðir hússins verið innréttaðar með þarfir tónlistarskólans í huga. Eftir tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar var hátíðleg athöfn við skólahúsið, þar sem Sigríður tók fyrstu skóflustungu að tónleikasal fyrir skólann. Kvenfélagið skýrði frá því, að það hefði safnað 15 milljónum króna til byggingarinnar og var þessi stórhöfðinglega gjöf afhent við athöfnina. Duga þessir fjármunir til að reisa tónleikasalinn, því að ritað var undir samning við verktaka, sem bauð 14,6 milljónir króna í verkið.
Í ávarpi sem ég flutti við skóflustunguna gat ég þess, að vegna þessarar athafnar hefði ég kynnt mér málefni Húsmæðraskólans Ósk sérstaklega og þá hefði mér verið bent á sjóð til minningar um Gyðu Maríasdóttur, forstöðukonu Húsmæðraskólans Ósk, sem andaðist 7. júlí 1936. Stofnfé sjóðsins var framlag frá námsmeyjum Húsmæðraskólans frá árinu 1932 og annarra velunnara skólans á 50 ára afmæli hans 1962. Tekjur sjóðsins eru vextir af höfuðstól hans, gjafir og áheit svo og tekjur samkvæmt erfðaskrá Jóns G. Maríassonar, bankastjóra Landsbanka og Seðlabanka, sem var bróðir Gyðu. Segir sagan, að Jón hafi jafnan sent þvott sinn með strandferðaskipi til systra sinna á Ísafirði, en hann var einhleypur, hann arfleiddi Seðlabanka Íslands að íbúð sinni við Ægissíðu. Í skipulagsskrá sjóðsins segir, að styrk úr minningarsjóðnum eða viðurkenningu skuli veita á fæðingardegi Gyðu Maríasdóttur 17. júní. Síðan stendur orðrétt: „Þó skal úthlutun fara fram úr sjóðnum 24. september 1998, en þá eru 100 ár liðin frá fæðingu Jóns G. Maríassonar, fyrrum bankastjóra, en frá honum er kominn meginhluti sjóðsins eins og hann er í dag.” Þótti mér sérkennilegt að lesa þetta, því að einmitt þennan sama dag var ég að biðja um skipulagsskrána til að átta mig á því, hvað gera ætti við þennan mikla sjóð, þar sem nokkur ár eru liðin síðan Húsmæðraskólinn Ósk lagðist niður.
Þótt vélin frá Færeyjum væri tveimur tímum of sein náði ég þó að skjótast í Safn Sigurjóns Ólafssonar og taka þar þátt í athöfn í tilefni af því, að gengið hefur verið frá skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands. Sé ég í blöðunum í dag, að auglýst er eftir rektor skólans. Þar með er ýtt úr vör á grundvelli hugmynda, sem ég tók þátt í að móta á árunum 1992 til 1993 og miða að því að Listaháskóli Íslands verði einkaskóli, sem starfi á grundvelli samnings við ríkið um fjárveitingar. Með stofnun skólans rætist gamall draumur margra og ný vídd kemur inn í menntakerfi okkar. Varð ég þess vegna undrandi á því, þegar ég las Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í dag, þar sem fjallað var um háskólastigið, að ekki skyldi minnst á þennan merka atburð, að enn sé nýr háskóli sé að hefja störf. Með réttu er Viðskiptaháskólanum í Reykjavík fagnað í Reykjavíkurbréfinu og kveður nú við annan tón í blaðinu en fyrir nokkrum misserum, þegar þar birtist neikvæður leiðari um þann skóla og því var velt fyrir sér, hvort ekki væri nær að efla Háskóla Íslands en huga að stofnun nýs viðskiptaháskóla. Réttilega er farið góðum orðum um Háskólann á Akureyri og mikilvægt hlutverk hans. Á hinn bóginn er þessi ekki getið í Reykjavíkurbréfinu, að öllu háskólastarfi í landinu hefur verið búin ný umgjörð með nýjum lögum um háskóla. Er nú verið að laga alla háskóla að almennu lögunum en Kennaraháskóli Íslands er fyrsti skólinn, sem starfar samkvæmt þeim. Kennraháskólinn hefur um nokkurt skeið stundað mikla fjarkennslu og hitti ég meðal annars einn nemanda hans, sem er búsettur í Færeyjum. Í Reykjavíkurbréfinu segir, að ekki hafi tekist að finna hlutverk við hæfi í Reykholti í Borgarfirði, án þess að það sé rökstutt nánar. Fyrir þann sem lifir og hrærist í þessum málum er engu líkara en höfundur Reykjavíkurbréfsins hafi takmarkaða sýn á það, sem er að gerast á háskólastiginu, almennt og að því er varðar einstaka skóla, og átti sig til dæmis ekki til fulls á áhuga hvarvetna á landinu á því að bjóða símenntun og endurmenntun, þar sem framhaldsskólar og háskólar taka höndum saman og fjarkennsla er nýtt, þar má nefna Fræðslunet Austurlands eða Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og áform um svipaðar miðstöðvar á Vesturlandi og Suðurlandi. Snorrastofa starfar í Reykholti og sérstök nefnd vinnur nú að því að þróa hugmyndir um miðaldafræðastarf þar auk þess sem ráðist verður í viðgerð á gamla skólahúsinu með það fyrir augum, að það nýtist Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni, einkaaðilum gengur vel að reka hótel allt árið í Reykholti, sem er forsenda fyrir fjölbreyttu starfi á staðnum. Það er því ekkert tómarúm í Reykholti, þótt framhaldsskólinn hafi hætt þar vegna skorts á nemendum. Á hinn bóginn er auðvitað matsatriði, hvað er við hæfi í Reykholti eða annars staðar.