18.9.1998

Hörmulegt klúður - forystulaus samfylking

Sjaldan hafa stjórnmálamenn staðið jafnilla að því að koma málstað sínum á framfæri eins og vinstra samfylkingarfólkið miðvikudaginn 16. september, þegar það kynnti málefnaskrá sína eða drög að henni. Hörmulegra pólitískt klúður hefur ekki áður birst á skjánum. Viðbrögðin við gagnrýni á klúðrið hafa ekki verið betri hjá samfylkingunni.

Raunar var illskiljanlegt, hvers vegna farið var af stað með þetta skjal opinberlega, þegar meðferðinni var ekki lokið, því að sagt er, að þetta séu aðeins tillögur til stýrihóps en ekki neitt endanlegt. Þegar Margrét Frímannsdóttir var spurð um kostnað við tillögurnar, hafði hún greinilega ekki hugmynd um það Síðan hefur komið fram, að hann gæti orðið allt að 60 milljarðir króna.

Dapurlegt var að sjá Sighvat Björgvinsson, formann Alþýðuflokksins, endurtaka þá vitleysu í plagginu makalausa, að varnarsamningurinn kæmi til uppsagnar í byrjun næstu aldar. Hann vissi greinilega ekki betur, hafði sem sagt ekki hugmynd um hið rétta í málinu, ella hefði hann leiðrétt vitleysuna strax. Varnarsamningurinn gildir, þar til honum er sagt upp af okkur eða Bandaríkjamönnum. [Einkennilegt er einnig, að fréttamenn skyldu ekki strax kveikja á þessari vitleysu í málefnaskránni.]

Af mörgu skrýtnu, sem sagt hefur verið í tilefni af málefnaskránni, eru þau ummæli Sighvats Björgvinssonar einna skrýtnust, að þar sem stefnu Alþýðuflokksins um aðild Íslands að ESB hafi verið hafnað í síðustu kosningum sé ekki ástæða til að endurtaka hana að nýju núna. Hvað með aðildina að NATO? Hve oft hefur því verið hafnað í kosningum, að Ísland segði sig úr NATO? Í málefnaskránni segir, að ekki séu ráðgerðar breytingar á aðild Íslands að NATO á kjörtímabilinu, en samt hljóti framtíðarmarkmiðið að vera að Ísland geti staðið utan hernaðarbandalaga. Tekið er fram, að ekki sé áformað að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu. hins vegar á að ræða stöðu Íslands í Evrópu. Hvernig ber að skilja hið mismunandi orðalag um NATO annars vegar og ESB hins vegar? Á þann veg, að Alþýðubandalagið hafi haldið fast við þá skoðun sína, að Ísland eigi að fara úr NATO og Alþýðuflokkurinn samþykkt það. Hins vegar hafi kratar gefist upp við að afla fylgis við stefnu sína um aðild að ESB. Auðvitað eru það engin rök hjá stjórnmálamanni, sem hefur sannfæringu fyrir málstað sínum, að gefast upp, þótt hann nái ekki árangri í einum kosningum. Herstöðvaandstæðingar hafa hamast við að koma Íslandi úr NATO og reka herinn burt í kosningum eftir kosningar og nú glittir í þessa vitleysu stefnu í plaggi, sem formaður Alþýðuflokksins undirritar.

Staðreynd er, að Sighvatur Björgvinsson er að glutra Alþýðuflokknum niður. Hann er að verða að engu í höndunum á formanni sínum. Athyglisvert er, að Guðmundur Árni Stefánsson og Össur Skarphéðinsson voru samningamenn fyrir Alþýðuflokkinn en Össur lét ekki sjá sig á blaðamannafundinum, þegar samfylkingin var eins og breiðfylking til að kynna hina merku stefnu og Össur sást ekki heldur, þegar Þröstur Emilsson, fréttamaður sjónvarpsins, lýsti því í beinni útsendingu á þriðjudagskvöld, að nú væri hið sögulega plagg að verða til á erfiðum samningafundi.

Guðný Guðbjörnsdóttir er kynnt sem formaður þingflokks Kvennalistans, þegar hún skrifar undir málefnaskrána og rætt er við hana á samningafundum og í fjölmiðlum sem formann þingflokks. Enginn lætur þess getið, að það er enginn annar í þingflokknum en Guðný ein, sem stendur að þessum málatilbúnaði, því að Kristín Halldórsdóttir er að draga sig í hlé og Kristín Ástgeirsdóttir hefur sagt sig úr Kvennalistanum og gengið til samstarfs innan þingflokks óháðra. Hún tók fram, að það væri ekki hugsjónasamstarf heldur um praktísk mál eins hún orðaði það, eða með öðrum hagsmunabandalag, en hinir óháðu eru að gæta hagsmuna sinna innan þings. Þeir héldu blaðamannafund sama dag og málefnaskráin var kynnt. Margt bendir til að óðagotið innan samfylkingarinnar hafi stafað af ótta við hina óháðu og nýjan þingflokk þeirra.

Guðný Guðbjörnsdóttir hafði það greinilega sem helsta baráttumál sitt, að komið yrði á fót nýju ráðuneyti, jafnréttisráðuneyti. Má því segja, að hugsjónabaráttu Kvennalistans, sem nú nýtur einskis stuðnings meðal kjósenda, ljúki með því að eignast línu um nýtt ráðuneyti þessari málefnaskrá, þá á að setja ný jafnréttislög og koma á fót jafnréttisstofnun til að fylgja lögunum eftir, ekkert frumvarp má leggja fram án jafnréttismats, hvað sem í því hugtaki felst.

Þróun umræðunnar um málefnaskrána var á þann veg, að Margrét Frímannsdóttir baðst í raun vægðar í kvöldfréttum Stöðvar 2 fösturdaginn 18. september. Hún sagði kynninguna hafa mistekist, þetta væri ekki nein kosningastefnuskrá heldur framtíðarsýn til margra ára og nú væri eftir að grisja skrána og sjá, hvað bitastætt væri í henni.

Full ástæða er til að spyrja eftir þennan darraðardans, hver það sé, sem leiðir þessa þrjá flokka. Uppákoman í vikunni bendir helst til þess, að enginn haldi um stjórntaumana, heldur hrekist samfylkingin úr einu vígi í annað, stefnu- og forystulaus. Þeir voru miklu stefnufastari í framgöngu sinni óháðu þingmennirnir, sem mynduðu þingflokk án þess að vera að bögglast með einhverja stefnu, heldur voru bara að tryggja eigin stöðu.

Fréttir bárust um það síðdegis föstudaginn 18. september, að niðurstaða Gallup-könnunarinnar í síðustu viku, sem sýndi meirihluta Sjálfstæðisflokksins, ef Samfylkingin yrði i framboði, væri röng. Fylgið hefði ekki mælst rúmlega 52% heldur tæplega 47%. Er með ólíkindum, að fyrirtæki á borð við Gallup sendi frá sér vitlausa niðurstöðu í könnun af þessu tagi. Hvernig geta fjölmiðlar unað slíkri þjónustu? Gallup hlýtur að gera opinberlega grein fyrir því, hvað fór úrskeiðis og hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir, að þetta endurtaki sig.