13.9.1998

Enn um Clinton - skoðankönnun og Svavar - kennaramenntun

Nýr kafli er að hefjast í máli Clintons Bandaríkjaforseta vegna ástarsambands hans við Monicu Lewinsky. Eftir að skýrsla Kenneths Starrs, hins sjálfstæða ráðgjafa Bandaríkjaþings um það, hvort Bandaríkjaforseti hafi gerst brotlegur við lög, birtist opinberlega föstudaginn 11. september stendur ekki aðeins Bandaríkjaþing frammi fyrir flóknu álitamáli heldur öll bandaríska þjóðin og raunar heimurinn allur, því að málið hefur verið lagt fyrir á þann hátt, að allir, sem hafa aðgang að netinu geta lesið gögn málsins og myndað sér skoðun. Fjölmiðlar um heim allan hafa að sjálfsögðu flutt ítarlegar fréttir um málið. Er þetta enn eitt stórmálið, sem verður til þess að menn átta sig betur á ótvíræðu gildi netsins sem upplýsingaveitu. Vakti athygli mína, þegar ég horfði á beina útsendingu frá þingskapanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hve mikla áherslu nefndarmenn lögðu á að kynna slóðir á netinu, sem almenningur gæti nýtt sér til að afla sér sjálfstætt upplýsinga. Var meðal annars tekið fram, að yfirlýsingarnar, sem þingmennirnir voru að lesa í þessari beinu útsendingu, væru allar þegar komnar á netið. (Innan sviga er rétt að geta þess, að þróunin er auðvitað hin sama hér. Menntamálaráðuneytið hefur til dæmis undanfarið gert átak í að efla vefsíðu sína og færa hana í nýtt form og er unnt að skoða hana með því að nota slóðina www.stjr.is/mrn. Af minni hálfu hefur verið stigið skref til aukinnar þjónustu við lesendur þessarar síðu með því að bjóða þeim að skrá sig á póstlista. Hafa margir nú þegar notfært sér það. )

Starr hefur verið gagnrýndur fyrir, hve nákvæmlega hann rekur samskipti þeirra Lewinsky og Clintons. Engum komi við jafnpersónulegir hlutir og þar eru skráðir. Starr skáldar ekki lýsingar sínar heldur eru í skýrslu hans birtar frásagnir vitna og það er Monica Lewinsky sjálf, sem er nákvæmust í lýsingum sínum. Orð hennar eru birt til að staðfesta þá niðurstöðu Starrs, að Clinton hafi logið fyrir rétti. Þau sjónarmið hafa komið fram, að vegna bersögli í skýrslu Starrs séu líkur á, að almenningur snúist á sveif með forsetanum, telji of nærri honum vegið. Í þessu máli eins og öðrum á það auðvitað við, að menn vilja gjarnan drepa sendiboða illra tíðinda. Dauði þeirra breytir þó ekki fréttinni sjálfri. Eitt er víst, að skýrslan verður til þess að í fjölmiðlum og samtölum er tekið til við að fjalla um hluti, sem til þessa hafa ekki þótt við hæfi í fréttatímum, skýringaþáttum, á fréttasíðum og í forystugreinum eða síðdegisboðum og kvöldverðum.

Sjálfur sagði Clinton á morgunverðar-bænarstundu í Hvíta húsinu þennan örlagaríka föstudag, að andi sinn væri sundurmarinn, þótt hjartað væri sterkt. Hann myndi gefa fyrirmæli til lögmanna sinna um að svara einarðlega öllum ásökunum og sjálfur ætlaði hann að berjast áfram fyrir góðum málstað, þetta áréttaði hann í vikulegum útvarpspistli sínum laugardaginn 12. september, þegar hann fjallaði um nauðsyn þess að forða unglingum frá fíkniefnum en minntist ekki einu orði á mál málanna, sjálfan sig og framtíðina.

Nýjasta tölublað vikuritsins The Economist kom út á undan skýrslu Starrs. Á forsíðu þess er eftirmynd af gömlu auglýsingaskilti úr Villta vestrinu með mynd af Clinton og fyrirsögn þess efnis, að ekki sé lýst eftir honum, því að enginn vilji hafa hann nærri heimili sínu sökum lyga, lauslætis og vegna þess að hann reyki ekki ofan í sig. Með síðustu orðunum er vísað til fleygra orða Clintons um að hann hafi reykt hass en ekki ofan í sig, þess vegna hafi hann ekki brotið nein fíkniefnalög. Svipað sagði hann um samband sitt við Lewinsky, það hefði ekki verið kynferðislegt, að minnsta kosti ekki af sinni hálfu. The Economist lýkur leiðara sínum um Clinton á þeim orðum, að blaðið vilji ekki, að hann sitji áfram sem forseti, og bætt er við, að erfitt sé að sjá, hvers vegna Bandaríkjamenn ættu að vilja það.

Í leiðara The New York Times laugardaginn 12. september segir, að kjarninn í málflutningi Starrs sé, að lygi eiðsvarins manns nægi til að hann sæti ákæru, jafnvel þótt hinn rangi vitnisburður sé gefinn í einkamáli, sem síðar er látið niður falla, eða frammi fyrir kviðdómi í því skyni að reyna að fela óþægilega yfirsjón. Skoðun Starrs sé sú, að í réttarríki sé rangur vitnisburður eða leynimakk með vitni, valdníðsla eða hindrun í störfum réttvísinnar af hálfu þess manns, sem fari með æðsta lögmæta valdið, óleyfilegt athæfi hvert svo sem tilefnið er, stórt eða smátt. Blaðið segist lengi hafa verið sömu skoðunar um virðinguna fyrir lögunum, í þessu máli verði þó að skoða öll málsatvik rækilega vegna þess hve málið sé umfangsmikið, flókið og skrýtið. Blaðið telur forsetann í höndum vondra lögfræðinga, fyrir tilstilli þeirra hafi Clinton tekist að koma sér í hina hörmulegustu persónulegu stöðu allra forseta Bandaríkjanna. Blaðið vill ekki spá, hvernig málið endar, þegar öll kurl í því eru komin til grafar.

Morgunblaðið er eini íslenski fjölmiðillinn, sem veitir greinargóðar upplýsingar um vandræði Clintons. Blaðið hefur enn þann metnað að segja ýtarlegar erlendar fréttir. Viðhorf þess gagnvart lesendum sínum er ekki þannig að það gangi að því sem vísu, að þeir hafi aðgang að upplýsingum um erlend málefni á CNN, Sky News eða netinu. Blaðið hefur þýtt stóran hluta af skýrslu Starrs á íslensku, svo að hér getum við einnig metið, hvort rétt sé að ákæra Clinton fyrir embættisafglöp eða refsivert athæfi. Birtast þannig í fyrsta sinn frásagnir á síðum blaðsins, sem aldrei hefðu komist þangað ella. Í forystugrein tekur Morgunblaðið ekki afstöðu til þess, hvort forsetinn eigi að segja af sér eða hvort fulltrúadeild Bandaríkjaþings beri að ákæra hann fyrir brot í starfi. Meginniðurstaða Morgunblaðsins er sú, að barátta Clintons fyrir pólitískri stöðu sinni veiki hann til að vinna að umbótamálum, sem hann hafi boðað. Þannig megi ef til vill segja, að pólitískir andstæðingar hans hafi náð því markmiði að hindra framkvæmd stefnumála hans. Sumir gætu vafalaust skilið þetta viðhorf blaðsins á þann veg, að það taki undir með stuðningsmönnum Clintons, sem segja, að Starr sé ekki annað en útsendari pólitískra andstæðinga forsetans.

Framtíð Clintons í Hvíta húsinu hangir á bláþræði. Hann hefur ekki enn lagt upp laupana og segist ætla að snúa vörn í sókn. Kannski tekst honum það en viðhorf bandarísks almennings og afstaða Bandaríkjaþings ráða nú örlögum hans. Hinn sjálfstæði ráðgjafi hefur lagt spilin á borðið. Nú er það þingmanna að taka afstöðu til tillagna hans. Hér er Kenneth Starr gjarnan kallaður sjálfstæður saksóknari í fjölmiðlum, hann er það ekki, því að hann gegnir sjálfstæðu ráðgjafarhlutverki fyrir Bandaríkjaþing. Nú breytist þingið í saksóknara og tekur ákvörðun um, hvort ákæra eigi forsetann. Þótt almenningur yppti öxlum og utan Bandaríkjanna láti menn gjarnan þau orð falla, að þeim finnist nóg um allt þetta umstang út af dálitlu framhjáhaldi, dugar það ekki til að bjarga Clinton. Hitt dugar ekki heldur að láta eins og um pólitískt leikbragð sé að ræða. Bandaríkjaþing er síður en svo öfundsvert að hafa fengið þessa sendingu frá Starr. Stjórnmálamenn sækjast ekki eftir að vera settir í þessa aðstöðu. Það hriktir í æðstu valdastofnunum öflugasta ríkis heims, eina risaveldisins. Skerist ekki í odda með afgerandi niðurstöðu, hvílir skuggi óvissu og sektar yfir þessum valdastofnunum öllum, ekki aðeins forsetaembættinu.

Í öllu fréttafárinu af Clinton og komu Keikó til Vestmannaeyja var því þó slegið upp á forsíðu Dags og gerð góð skil á ljósvakanum, að Svavar Gestsson, formaður þingflokks Alþýðubandalagsins og fyrrverandi formaður flokksins, ætlaði að vera áfram í Alþýðubandalaginu. Það eitt að þetta þyki þó nokkur frétt sætir tíðindum og sýnir best ástandið í Alþýðubandalaginu. Í raun hefði verið fréttnæmt, ef Svavar hefði ákveðið að yfirgefa flokkinn, en að hann skuli ekki ætla að gera það, teljast varla nein stórtíðindi.

Svavar hefur setið á girðingunni, ef svo má að orði komast, síðan Steingrímur J. Sigfússon sagði skilið við Alþýðubandalagið fyrr í sumar. Hefur Svavar tekið sér óvenjulega langan tíma til að taka af skarið. Hann hlýtur að hafa átt í miklum samningaviðræðum við samfylkingarmenn og einnig hugað að stöðu Guðrúnar Ágústsdóttur, eiginkonu sinnar, í Reykjavíkurborg, þar sem hún situr með samfylkingarfólki í R-listanum. Herma sögur, að Svavar hafi búið þannig um hnúta, að hann fái fyrsta sæti á vegum Alþýðubandalagsins í Reykjavík á silfurfati og skáki þannig alþýðubandalagsþingmannninum Bryndísi Hlöðversdóttur. Spurning er hins vegar, hvort Svavar verður ekki að sætta sig við að að vera í öðru sæti á eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, því að ekki telur hún tíma sinn kominn til að hætta.

Í skoðanakönnun Gallups, sem RÚV birti miðvikudaginn 9. september, kom fram, að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn jókst þegar spurt var um stuðning við þrjá flokka: Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna (þ. e. vinstra bandalag Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista). Í þessu tilviki sögðust 52,5% kjósenda eða hreinn meirhluti ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 32,2% Samfylkinguna en 15,3% Framsóknarflokkinn. Væri ekki um þessa þrjá kosti að velja, að sögðust 47,1% kjósenda ætla að styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Morgunblaðið leggur þannig út af þessari könnun, að stór hluti Alþýðflokksmanna geti ekki hugsað sér að styðja lista, þar sem Svavar Gestsson sé meðal frambjóðenda. Svavar sat að vísu enn á girðingunni, þegar fyrrenefnd könnun var gerð og tilkynnti ekki, að hann ætlaði að hoppa niður til kratanna, fyrr en í þann mund, sem niðurstaðan birtist. Samkvæmt kenningu Morgunblaðsins ætti hagur Sjálfstæðisflokksins enn að vænkast, eftir að ákvörðun Svavars liggur fyrir. Morgunblaðið bendir á, að hið óvænta í þessari könnun nú sé, að Sjálfstæðisflokkurinn fengi hreinan meirihluta á þingi samkvæmt henni. Þetta hljóti að koma samfylkingarforkólfunum verulega á óvart. Samfylkingin hafi átt að leiða til hins gagnstæða.

Hinn frjálsi og óháði ritstjóri DV, Össur Skarphéðinsson, þingmaður Alþýðuflokksins, ritar einnig leiðara í frjálst og óháð blað sitt um niðurstöður skoðanakönnunarinnar, föstudaginn 11. september. Hann spáir átakavetri í stjórnmálunum, bindur vonir ( þó með fyrirvara) við, að Sverrir Hermannsson geti gert Sjálfstæðisflokknum lífið leitt, misheppnuð samfylking vinstrisinna geti á hinn bóginn tryggt Sjálfstæðisflokknum meirihluta á þingi. Hann segist þó ekki óttasleginn fyrir hönd samfylkingarinnar og bindur sérstakar vonir við lánleysi Framsóknarflokksins. Framsóknarforystan muni snúa sér til vinstri til að öðlast nýtt líf í forystu fyrir vinstristjórn. Bendir hann á, að samfylkingarmenn geti hugsanlega rofið samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks með því að veikja framsókn enn frekar, áhættan í slíkri strategíu gegn framsókn sé sú, að framsóknarmenn muni síður snúa sér til vinstri að kosningum loknum, eftir að vinstrsinnar hafi lamið rækilega á þeim. Leiðaranum lýkur Össur síðan með þeirri bjartsýni, að hann sé ekki lengur þeirrar skoðunar, að samfylkingarmenn þurfi endilega að vera utan ríkisstjórnar næsta kjörtímabil.

Össur túlkar sem sé niðurstöðu í skoðanakönnun, sem sýnir hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins, ef samfylking vinstrisinna kemur til sögunnar, á þann veg, að líkur aukist á því, að samfylkingarmenn komist í stjórn, af því að þeim muni takast að berja framsóknarmenn til undirgefni við sig og bjóða þeim síðan forystu í vinstristjórn. Samkvæmt þessu verða átökin á næsta vetri milli framsóknarmanna og samfylkingarmanna. Hér eru lagðar pólitískar átakalínur. Nú hljóta þessir baráttumenn að taka skotgrafirnar og svo fylgjumst við hin með hildarleiknum.

Mér hefur oft fundist hugsanaferli og niðurstöður margra vinstrisinna nokkuð langsóttar og flóknar. Össur staðfestir réttmæti þeirra fordóma í þessum leiðara sínum. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mikils trausts um þessar mundir og andstæðingar hans munu leggja sig fram um að rýra hann því með öllum tiltækum ráðum fram að kosningunum næsta vor. Mestu skiptir að sjálfsögðu að auðvelda þeim ekki þann leik. Stjórnmálafylgi er jafnsvipult og sjávarafli.

Morgunblaðið birtir um þessa helgi Reykjavíkurbréf um menntamál og sérstaklega kennaramenntun. Er það í sjálfu sér gleðilegt, því að þessi dálkur í blaðinu hefur haft að leiðarljósi að upplýsa menn um staðreyndir og draga síðan af þeim ályktanir. Höfund síðasta Reykjavíkurbréfs skortir hins vegar þekkingu eða almennar forsendur til að fjalla til hlítar um það, sem sagt hefur verið um þróun og markmið kennaramenntunar á undanförnum mánuðum. Hann þegir til dæmis um þá staðreynd, að hlutlausir aðilar gerðu úttekt á kennaramenntun í landinu og voru niðurstöður þeirra birtar á liðnum vetri. Þar er sagt, að megináherslu beri ekki að leggja á lengingu kennaranámsins heldur endurmenntun kennara. Þróunin sé sú, að hafa grunnnám kennara tiltölulega stutt og markvisst en leggja þeim mun meiri þunga á endurmenntunina. Með fullri virðingu fyrir áliti einstakra kennara eða prófessora ætti ekki að vera síður mikils virði að skýra lesendum frá úttekt sérfróðra óhlutdrægra manna og niðurstöðu þeirra, ef á annað borð er ætlunin að greina frá öllum upplýsingum, sem eru fyrir hendi.

Þá má einnig álykta, að höfundur Reykjavíkurbréfsins viti ekkert um það átak, sem hefur verið í undirbúningi frá því í febrúar á þessu ári og miðar að því að efla sérstaklega rannsóknir á sviði upplýsingatækni og umhverfismála. Var þetta átak meðal annars rækilega kynnt á ársfundi Rannsóknarráðs Íslands 22. apríl síðastliðinn.

Á þessari upplýsingaöld, þegar ekki þarf annað en fara inn á netið til að afla sér upplýsinga um þessi mál, meðal annars hér á þessum síðum, er furðulegt að lesa losaraleg skrif á borð við þau, sem birtust í Reykjavíkurbréfinu. Niðurstöður og ábendingar höfundar eru að sjálfsögðu í samræmi við forsendurnar og því næsta lítils virði fyrir þá, sem til málanna þekkja. Eru þær í ætt við það, þegar menn berja sér á brjóst og kvarta hástöfum undan stefnuleysi stjórnvalda, sem felst einkum í því, þegar betur er að gáð, að þeir sjálfir eða gælumálaflokkur þeirra fá ekki að mati kvartenda nægilega mikið af skattpeningum almennings í sinn hlut.