6.9.1998

Glæsileg framganga - friðhelgi rofin - háskólahátíðir

Ánægjulegt var að taka þátt í fagnaðarlátunum með um tíu þúsund áhorfendum á Laugardalsvellinum laugardagskvöldið 5. september, þegar íslenska landsliðið gerði jafntefli við frönsku heimsmeistaranna í knattspyrnu. Hið ótrúlega hafði í raun gerst, Frakkarnir fóru ekki héðan sem sigurvegarar.Raunar skoruðu okkar menn fyrra markið, í þrjár mínútur höfðum við yfir, og það var ljóst, að Frakkarnir gerðu það, sem þeir gátu, en náðu einfaldlega ekki lengra. Er ómetanlegt fyrir sjálfstraustið að fá tækifæri til þess að glíma við heimsmeistara, hitt sakar svo ekki, að í ljós komi, að maður standi jafnfætis honum.

Kvöldið fyrir leikinn, föstudaginn 4. september, buðum við Rut forystumönnum franska knattspyrnusambandsins og stjórn Knattspyrnusambands Íslands til kvöldverðar í Ráðherrabústaðnum. Þar fór ekki fram hjá neinum, að Frakkarnir töldu sig hafa mikinn heiður að verja og þeir voru ekki á þeim buxunum, að neitt yrði gefið eftir af þeirra hálfu. Ég gat þess, að skömmu fyrir kvöldverðinn hefði ég farið inn á fréttavef Morgunblaðsins og kynnt mér afstöðu lesenda hans í könnun meðal þeirra á því, hvort liðið myndi sigra. Tölurnar hefðu þá verið á þann veg, að 54% töldu Frakka mundu sigra en 46%, að við myndum hafa það. Var greinilegt, að þetta þótti Frökkunum ekkert sérstaklega góðs viti, því að sigurvissan er ekki síður mikilvægt vopn í leik af þessu tagi en hæfni á vellinum sjálfum - hugurinn ber mann hálfa leið í fótbolta eins og endranær. Þegar til leiksins kom, var ljóst, að bæði leikmenn og áhorfendur voru þeirrar skoðunar, að við gætum staðið uppi í hárinu á Frökkum. Það gerðu okkar menn svo sannarlega og voru frönsku keppendurnir niðurlútir, þegar þeir fóru af vellinum, og forystumenn þeirra frekar daprir í bragði, þegar ég kvaddi þá í lok leiksins, þótt þeir bæru sig vel. Strax á sunnudagsmorgni voru franskir blaðamenn teknir til við að skamma heimsmeistarana fyrir slaka frammistöðu. Okkar menn fá hins vegar óskorað lof allra fyrir glæsilega framgöngu sína, ekki síst fyrir þann kjark, sem þeir sýndu andspænis heimsmeisturunum. Til hamingju!

Nokkrar umræður hafa orðið um ræðuna, sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands flutti Hóladómkirkju á dögunum, þar sem hann fór almennum orðum um erfðarannsóknir og gagnagrunn. Sýnist sitt hverjum um ræðuna og ætla ég ekki að leggja neinn dóm á hana.

Hitt vekur athygli og umhugsun, hve ýmsum vinstrisinnuðum blaðamönnum er annt um að halda lífi í umræðum um þessa ræðu, síðast nú um þessa helgi birtist hugleiðing um hana eftir Össur Skarphéðinsson, ritstjóra DV, í blaði hans. Birgir Guðmundsson, aðstoðarritstjóri Dags, leggur einnig út af ræðunni í grein í blaði sínu. Össur er greinilega sár yfir því, að Morgunblaðið fann að því í leiðara, hvernig forseti hagaði orðum sínum á Hólum. Það eitt, að blöð skuli skiptast á skoðunum um eitthvert málefni, vekur athygli nú tímum. Að þau skuli deila um stöðu forseta og hlutverk hans sætir þó jafnvel enn meiri tíðindum, því að umræður fjölmiðla um þetta embætti hafa til þessa einkum takmarkast við forsetakosningar. Er það spurning í sjálfu sér, hve mikla og gagnrýna fjölmiðlaumræðu embættið þolir. Styrkur þess felst ekki síst í þeim friði, sem menn vilja að ríki um það, og í hinni óhjákvæmilegu fjarlægð þess frá daglegu þrasi.

Össur telur það til marks um aukinn styrk lýðræðis á Íslandi, að forseti Íslands tjái sig um mál og jafnvel þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Það geri forsetaembættið stærra í sniðum og auki trúverðugleika þess, sem gegnir því. Hann segir, að forsetaembættið sé ekki óbreytileg stærð, heldur þróist það í takt við tímann og eigi að vera annað og meira en medalíufabrikka á tyllidögum. Ekki veit ég, hvort skilja eigi þessi orð Össurar þannig, að í tíð Sveins Björnssonar, Ásgeirs Ágeirssonar, Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur hafi forsetaembættið verið slík tyllidagafabrikka. Ég efast hins vegar um, að hann sé að gera þeim, sem gegnir forsetaembættinu nokkurn greiða með þessum útlistunum sínum. Þær eru þó þeim mun athyglisverðari fyrir þá sök, að Össur er í hópi þeirra, sem hvað sárast finna fyrir því, að vinstrisinnar á Íslandi eiga engan pólitískan leiðtoga. Hafi eitthvert pólitískt stórmál farið í handaskolum á þessu sumri er það vinstra sameiningarbröltið, það mætti jafnvel segja, að þróunin væri komin aftur fyrir fyrsta reit, það væri enn ekki búið að raða mönnunum á borðið, hvað þá að taka ákvarðanir um upphafsleikinn. Er það kannski sársaukafull þrá Össurar eftir pólitískri leiðsögn, sem stýrir penna hans í laugardagspistlinum?

Eðli forsetaembættisins er á þann veg, að það er hafið yfir pólitískar deilur og forseti Íslands er friðhelgur, hann tekur ekki pólitíska afstöðu, því síður flokkspólitíska. Össur Skarphéðinsson er að segja lesendum sínum, að svona sé þetta ekki lengur og eigi ekki að vera. Fylgi hugur máli, ætti hann sem alþingismaður að flytja um það tillögu, að stjórnarskrá lýðveldisins verði breytt á þann veg, að forsetaembættið verði pólitískt og kosið til þess á þeim forsendum. Útlegging ritstjórans á einni ræðu forseta Íslands, og þótt þær væru tíu, dugar ekki til að gjörbreyta forsetaembættinu úr sameiningartákni allrar þjóðarinnar og gera það að fulltrúa einhvers eins skoðanahóps, hvort sem hann nýtur stuðnings minni eða meiri hluta þjóðarinnar. Þetta verða jafnvel forystulausir vinstrisinnar að hafa hugfast. Er þá fokið í flest skjól, ef þeir sjá þann kost vænstan fyrir sig að draga sjálft forsetaembættið inn í hið pólitíska tómarúm á vinstri kantinum. Í því felst ekki annað en aðför að friðhelgi embættisins.


Dagbók

Þriðjudagur 1. september
Síðdegis svaraði ég spurningum þeirra Hrafn og Jakobs á þjóðbraut Bylgjunnar um málefni RÚV. Vildu þeir vita, hvort ég hefði samþykkt 11% hækkun á afnotagjöldum RÚV, sem er ekki. Þá minntust þeir einnig á skipulag RÚV og sagðist ég sjá það fyrir mér, að sett yrðu almenn útvarpslög, þar sem tekið yrði á öllum þáttum útvarpsmála, síðan yrði sett sérstök löggjöf um RÚV og stofnuninni breytt í hlutafélag í eigu ríkisins, það væri eina skynsamlega leiðin til að RÚV gæti haldið áfram að dafna við núverandi aðstæður, hvort þetta gerðist meðan ég sæti í stól menntamálaráðherra væri óvíst, þar sem kosningar yrðu næsta vor. Þá vildu þeir vita afstöðu mína vegna umræðna um innri málefni fréttastofu sjónvarpsins. Sagðist ég ekki sjá neitt athugavert við, að menn gagnrýndu fréttir þeirrar stöðvar eins og annarra og stjórnmálamenn hefðu að sjálfsögðu fyllsta rétt til að gera það, sjálfur væri ég oft í þeim stellingum á heimasíðu minni. Þá væri ekkert heldur athugavert við, að maður í opinberu starfi hjá RÚV nýtti sér þann rétt, sem opinberir starfsmenn hafa til að skjóta málum til yfirboðara sinna, teldu þeir á sér brotið. Ekki sagðist ég vilja gefa Helga H. Jónssyni neina einkunn í beinni útsendingu, gömlum skólabróður og sessunaut í menntaskóla. (Innan sviga er ég mest undrandi á því, hve mjög Dagur lætur þessi málefni fréttastofu sjónvarpsins til sín taka, er engu líkara en blaðið líti á sig sem einhverja samvisku RÚV og allar hræringar þar snerti blaðið með sérstökum hætti.)

Skömmu eftir þetta símaviðtal fór ég í höfuðstöðvar Viðskiptablaðsins í Brautaholti og tók þar þátt í beinni útsendingu þaðan um Bylgjuna, það er var viðmælandi í Viðskiptahorni, sem blaðið stendur fyrir fimm daga vikunnar. Ræddum við einkum um áhuga bandaríska kvikmyndafyrirtækisins Miramax á því að fá hér starfsaðstöðu. Einnig drápum við á stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar. Bar ég saman hin mismunandi viðhorf, sem eru milli Bandaríkjamanna og Evrópumanna, þegar rætt er um kvikmyndagerð. Hinir fyrrnefndu leggja mesta áherslu á að ná til áhorfenda, þeir nýta sér markaðinn til hins ýtrasta og reka stóriðnað með miklum hagnaði. Hinir síðarnefndu líta á sig í varnarstöðu gagnvart Bandríkjamönnum, vilja opinberar reglur og styrki til að tryggja starfsaðstöðu sína. Óli Björn, ritstjóri Viðskiptablaðsins, benti á, að í Bandaríkjunum væri stór heimamarkaður en ekki hér. Ég benti, að ekki hefðum við stóran heimamarkað fyrir fisk en værum þó eina þjóðin í okkar heimshluta, sem ekki hefði opinbert styrkjakerfi fyrir útgerð og fiskvinnslu, græddum á tá og fingri og værum öðrum fyrirmynd á þessu sviði. Keppinautarnir berðust í bökkum þrátt fyrir allt styrkjafarganið. Hér kann að vera ólíku saman að jafna, en hitt er þó staðreynd, að sjálfskaparviðleitnin tapast fljótt hjá þeim, sem bíða eftir því að tékkinn berist til þeirra úr ríkissjóði eða opinberir aðilar setji þeim markmið og starfsramma.

Föstudagur 4. september

Klukkan 15.00 var hátíðleg athöfn í Borgarleikhúsinu, þegar Viðskiptaháskólinn í Reykjavík var settur í fyrsta sinn. Var ég í hópi þeirra, sem fluttu ávörp við þetta tækifæri. Er undravert að sjá á hve skömmum tíma þessari hugmynd um nýjan háskóla hefur verið hrundið í framkvæmd, eftir að hún komst af umræðustiginu. Aðbúnaður hans í nýju skólahúsi er eins og best verður á kosið. Voru mikil og góð hvatningarorð flutt við skólasetninguna. Miklar kröfur eru gerðar til nemenda og kennara. Er ég ekki í nokkrum vafa um, að þessi nýi skóli hefur góð áhrif á allt háskólastigið. Æ fleiri hafa orð á því við mig, að þeir vilji fá tækifæri til að reyna sig í skólarekstri á sömu forsendum og Viðskiptaháskólinn og Samvinnuháskólinn eru reknir, það er sem einkaskólar í samningsbundnum tengslum við menntamálaráðuneytið um fjármál og gæðaeftirlit.

Laugardagur 5. september

Klukkan 15.00 hófst háskólahátíð í Háskóla Íslands, nýjung, sem Páll Skúlason rektor vill innleiða, það er að í upphafi hvers skólaárs komi starfsmenn skólans saman og hlýði á stefnumarkandi ræður um málefni hans og annað, sem á erindi á slíka hátíð. Þótti mér þetta vel takast, þrátt fyrir að góða veðrið hafi örugglega spillt fyrir aðsókninni. Kom það meðal annars í minn hlut að flytja ræðu á þessari hátíð. Var fróðlegt að bera saman yfirbragðið á hátíð Háskóla Íslands annars vegar og Viðskiptaháskólans hins vegar. Hvor hátíðin var með sínu sniði og allt að sjálfsögðu miklu formfastara í Háskóla Íslands, þar sem prófessorar eru í skikkjum og rektor með sérstakt virðingartákn um hálsinn, gengið er inn og út í skrúðgöngu. Ræður eru skrifaðar og formfastar. Er þannig lögð rækt við hefðir, sem ekki mega hverfa. Í Viðskiptaháskólanum bar það við, að Guðfinna Bjarnadóttir rektor flutti setningarræðu sína blaðalaust og studdist aðeins við minnissetningar á glærum, sem sýndar voru á tjaldi. Þar talaði fulltrúi nemenda einnig á þann veg, að til þess að ná árangri yrði hver og einn að leggja sig fram og þeim mun meira, eftir því sem áfram miðaði í náminu og kröfur ykjust, nýnemar skyldu átta sig á því, að það gæti verið vont fyrst en það ætti eftir að versna! Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands var frekar á þeim nótum, að hið opinbera gerði ekki nóg fyrir námsmenn, námslánin væru ekki nógu og há og ekki væri þess að vænta, að þeir nytu sín sem skyldi, ef ekki yrði betur við þá gert af opinberri hálfu, meira að segja væri ljóst, að fjárveitingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna væri þannig háttað, að gert væri ráð fyrir að námsmenn ynnu með námi.