30.8.1998

Fjarnám - kennaraskortur - bankamál

Nokkrar umræður hafa orðið um fjarnám og gildi þess undanfarna daga vegna þess að kennarar við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) ákváðu að hefja ekki fjarnámskennslu á haustönn, þar sem skólanefnd VMA boðaði hagræðingu vegna kennslunnar og sögðust kennarar ekki sætta sig við einhliða ákvarðanir af því tagi og tilkynntu, að þeir myndu að óbreyttu ekki sinna fjarkennslunni. Þetta nám hefur verið rekið undanfarin misseri sem tilraunaverkefni innan og á ábyrgð skólans samkvæmt sérstakri heimild menntamálaráðuneytisins. Hefur VMA fengið fjárveitingar með hliðsjón af því, að um þróunar- og brautryðjendaverk sé að ræða. Af hálfu ráðuneytisins og allra, sem að málinu hafa komið, hefur alla tíð legið ljóst fyrir, að frambúðarstarf í VMA á þessu sviði hlyti að byggjast á öðrum forsendum, meðal annars fjárhagslegum, en á tilraunaskeiðinu. Deilur síðustu daga sýna enn, hve viðkvæmt og vandasamt er að breyta starfsháttum í skólakerfinu og koma á nýjungum.

Vegna ákvörðunar kennaranna um að hefja ekki störf hef ég fengið mörg tölvubréf frá fjarnemum skólans og er ljóst, að þessi aðferð við kennslu og nám höfðar til margra og opnar mörgum menntunarleið. Hef ég fullvissað bréfritara um, að ekki sé ætlunin að leggja niður fjarnám, hins vegar verði að vera um það samkomulag við menntamálaráðuneytið, hvernig að því er staðið, ef skattgreiðendur eiga að borga brúsann.

Af hálfu ráðuneytisins var litið þannig á, að haustönnina ætluðu menn að nota til að ljúka tilrauninni í VMA og móta samstarfsreglur um framtíðina og kynna þær fyrir ráðuneytinu. Deilur innan VMA hafa hins vegar hindrað upphaf kennslunnar. Ýmsir gagnrýna ráðuneytið fyrir að hafa veitt VMA þennan forgang að því er fjarnám varðar. Aðrir skólar telja sig ekki síður færa um að veita þessa þjónustu. Raunar er málum þannig háttað, að fjarnám er ekki bundið við einn stað, hvorki þegar litið er til kennara né nemenda. Vistunin í VMA veitir þeim skóla forræði á mikilvægum þáttum og tæknilega er hann einnig vel í stakk búinn til að sinna verkefninu. Þar hefur einnig verið sýnt lofsvert frumkvæði á þessu sviði og hefur ráðuneytið frekar ýtt undir frumkvöðlana en latt þá. Tilraunin hefur leitt í ljós, að mikill áhugi er meðal nemenda til að nýta sér þessa menntaleið, með henni næst til fleiri en ella. Skólinn flytur sig til nemandans í stað þess að krefjast þess, að nemandinn komi til sín. Tæknin tekur stórstígum og örum framförum þannig að sífellt verður auðveldara að nýta hana í þessu skyni og æ fleiri skólar eru með fjarnám á stefnuskrá sinni. Skapist tómarúm vegna þess að VMA hættir að sinna þessu verkefni, verða margir tilbúnir til að hlaupa í skarðið.

---------

Árvisst er, að miklar umræður verða um kennaraskort við upphaf skólaársins. Kveða menn misjafnlega fast að orði. Í byrjun mánaðarins ritaði ég Morgunblaðsgrein um fyrirsjáanlegan skort á kennurum og skýrði frá því, að ég teldi nú forsendur fyrir því að fela sérstakri nefnd að meta þróunina fram til ársins 2010. Kemst nefndin á laggirnar á næstunni, þegar allir hagsmunaaðilar hafa tilnefnt fulltrúa sína og ég fundið mína.

Breytingar í grunnskólanum hafa verið miklar undanfarin ár og þær kalla meðal annars á fleiri kennara en áður. Löggjafinn hefur séð þennan vanda fyrir með því að veita menntamálaráðherra heimild til að aðrir sinni kennslu í skólum, þótt ekki fái þeir fastráðningu, en þeir, sem uppfylla skilyrði laga um kennaramenntun, það er hafa lært uppeldis- og kennslufræði. Þessir starfsmenn skólanna nefnast leiðbeinendur. Margir þeirra eru vel menntaðir og meðal annars með fjarnámi ætti að vera auðveldara en áður að gera þeim kleift að auka menntun sína til fullra réttinda, hafi þeir áhuga á fastráðningu.

Ekki er unnt að fullyrða, hvenær hið hæfilega jafnvægi næst á þessu sviði á vinnumarkaði okkar. Þar eru margir þættir, sem koma til álita. Menn eru til dæmis ekki á einu máli um hvernig að kennaramenntun skuli staðið, hvert eigi að vera inntak hennar og hve langt námið skuli vera.

---------------

Ríkisstjórnin tók ákvörðun um að falla frá áformum um að selja ríkisbankana fyrir utan Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf.. Þessi niðurstaða var í samræmi við þróun og umræður síðustu vikur. Er ljóst, að lengri pólitískan aðdraganda þarf að því að hrinda þessari miklu einkavæðingu í framkvæmd. Einarðir og óþreyjufullir talsmenn einkavæðingar eru að sjálfsögðu ekki ánægðir með þessa niðurstöðu.

Þegar menn ræða þetta mál má ekki gleymast, að nýta skal heimildir núgildandi laga til að gefa út nýtt hlutafé sem nemi allt að 15% af heildarfjárhæð hlutafjár í Landsbanka Íslands og Búnaðarbankanum. Almenningi verður boðið að skrá sig fyrir hlutabréfum allt að tiltekinni upphæð á fyrirfram ákveðnu verði, og þannig tryggð víðtæk eignaraðild að bönkunum. Undirbúningur að útgáfu nýs hlutafjár í Landsbankanum er á lokastigi og gert ráð fyrir að hún fari fram í septembermánuði. Stefnt er að því að útgáfa nýs hlutafjár í Búnaðarbanka fari fram eigi síðar en í febrúar 1999, en nánari tímasetning fari eftir aðstæðum á hlutabréfamarkaði. Undirbúningur er í höndum Búnaðarbankans í nánu samráði við viðskiptaráðuneytið. Einnig hefur ríkisstjórnin ákveðið, að tryggt verði að eigi síðar en 1. júní árið 2000 verði meira en 25% af heildarhlutafé bankanna í dreifðri eignaraðild í samræmi við reglur Verðbréfaþings.

Í þessum ákvörðunum felst, að strax núna í september er gert ráð fyrir því, að nýir eigendur komi að Landsbankanum og hið sama gerist ekki síðar en í febrúar í Búnaðarbankanum. Þess vegna er alrangt að halda því fram, að horfið sé frá einkavæðingu bankanna. Þeir verða hins vegar ekki seldir með hraði og aðrir hluthafar þeirra en ríkið koma að ákvörðunum um framtíð bankanna, strax í september í Landsbankanum og í síðasta lagi í febrúar í Búnaðarbankanum. Fjárfestingabanki atvinnulífsins hf. verður allur boðinn til sölu.

Sviptingunum í bankamálunum er nú lokið í bili. Fengist hefur mikilvæg reynsla af umræðunum undanfarnar vikur, menn gera sér betri grein en áður fyrir öllum kostum í stöðunni. Ekki verður snúið til baka heldur haldið áfram á sömu braut.