23.8.1998

Skyndiárás Bandaríkjamanna

Bill Clinton stóð í ströngu í síðustu viku, hann sat í hálfan mánudag fyrir svörum vegna sambands síns við Monicu Lewinsky, flutti síðan ávarp til þjóðarinnar, ætlaði að ýta málinu aftur fyrir sig, en tókst ekki, fór í sumarleyfi daginn eftir en varð að rjúfa það sólarhring síðar og snúa aftur til Washington til að flytja ávarp til þjóðar sinnar að nýju og skýra ástæðurnar fyrir stýriflaugaárás Bandaríkjamanna á skotmörk í Súdan og Afganistan til að hefna sín á hryðjuverkamönnum. Þá tóku menn til við að tengja þetta tvennt saman, ekki síst vegna þess að nýlega var gerð kvikmynd, þar sem Bandaríkjaforseti grípur til hernaðaraðgerða í því skyni að dreifa athyglinni frá illu umtali og vandræðum vegna kvennamála sinna. Veruleikinn er oft dramatískari en skáldsaga eða kvikmynd og í raun hefur hann líklega verið það fyrir Clinton síðustu daga en fráleitt er að ætla, að forsetinn hafi gefið um það fyrirmæli að ráðast á bækistöðvar hryðjuverkamanna eða verksmiðju til framleiðslu á efnavopnum til að draga athyglina að valdi sínu og mætti frekar en veikleikanum gagnvart kvenþjóðinni.

Árás Bandaríkjahers á þessi tvö skotmörk staðfestir enn, að við núverandi aðstæður í heimsmálum fara Bandaríkjamenn sínu fram, þegar þeir telja hagsmuni sína í húfi. Aðferðin sem beitt var sýnir einnig, að enginn er í raun óhultur fyrir árás þeirra, því að til að geta varist stýriflaugum, sem fljúga lágt og mannlausar yfir sjó og land, hafa verið forritaðar með upplýsingum um landslag og geta komist laumulega að skotmarki sínu þurfa andstæðingar Bandaríkjamanna að búa yfir öflugum varnarviðbúnaði. Leyndin vegna árásanna í Súdan og Afganistan vakti sérstaka athygli, kann áhugi blaðamanna á Lewinsky-málinu að hafa auðveldað stjórnvöldum í Washingon að vinna að undirbúningi árásarinnar í kyrrþey, engan grunaði líklega að á sama tíma og allir þeir atburðir voru í mestu hámæli með einstæðum yfirheyrslum yfir forsetanum sjálfum, væri lagt á ráðin um þessa hernaðaraðgerð, sem krafðist þess um leið, að gripið yrði til hertra varúðarráðstafana hvarvetna þar sem líf og limir Bandaríkjamanna voru taldir í sérstakri hættu vegna árásarinnar. Að þessu leyti má segja, að athyglin að Lewinsky hafi skipt máli frekar en að til árásarinnar hafi verið gripið til að draga athyglina frá Lewinksy. Forsetinn gerði til dæmis hlé á sumarleyfi sínu og sneri aftur til Washington, svo að yfirmenn heraflans og sérfræðingar í öryggismálum þyrftu ekki að fara til fundar við hann utan höfuðborgarinnar, þar sem það hefði vakið grunsemdir um að eitthvað dularfullt væri á seyði.

Fyrir áhugamenn um öryggismál og ákvarðanir og stjórn á hættustundu er forvitnilegt að velta því sérstaklega fyrir sér, hvernig atburðarásin var í Washington þessa örlagaríku daga, hverjir komu að málinu, hvaða gögn voru lögð til grundvallar og þar fram eftir götunum. Við verðum líklega að bíða í einhvern tíma til að fá það allt staðfest. Hitt er síðan sérstakt viðfangsefni að skilgreina hvað fólst í þeim yfirlýsingum, sem Clinton og Madeleine Albright, utanríkisráðherra hans, gáfu í tilefni af árásanni. Þau fóru ekki í launkofa með þann ásetning að uppræta andstæðinga Bandaríkjanna, hvar sem þeir fyndust og beita til þess því afli, sem þyrfti hverju sinni. Þegar litið er til gífurlegs hernaðarmáttar Bandaríkjanna og þeirra tækja, sem leyniþjónusta þeirra ræður yfir, til að afla upplýsinga um alla jarðarkringluna og í geimnum, eru þetta ekki innantóm orð eða marklausar hótanir.

Viðbrögðin við skyndiárás Bandaríkjamanna voru eins og við var að búast. Gömlu bandamennirnir lýstu samstöðu og stuðningi en Jeltsín tók afstöðu með gagnrýnendunum og höfðaði sérstaklega til samstöðu með múslímum, Clinton lagði sérstaka lykkju á leið sína til að minna á, að árásin beindist ekki gegn múslímum heldur hryðjuverkamönnum, vangaveltur um hættuna á átökum milli ólíkra menningarheilda, sem Samuel P. Huntington, prófessor í Harvard, vakti rækilega athygli á í grein í tímaritinu Foreign Affairs sumarið 1993 og hefur síðan skilgreint nánar í bók sinni The Clash of Civilizations and the Remaking of World Order, sem kom út 1996, sækja á hugann og meðal múslíma er alið á, að árásin sé til marks um óvild kristinna manna.

Bandaríkjastjórn hlaut að grípa til ráðstafana til að draga vígtennur úr þeim, sem beita óhugnanlegum og svívirðilegum aðferðum hryðjuverkamanna til að drepa saklausa borgara við dagleg störf þeirra. Blóðug hryðjuverkin á Norður-Írlandi í næsta nágrenni við okkur hér á Norður-Atlantshafi eru því miður næstum dagleg áminning um sjúkt hatur og hugarfar þeirra, sem telja málstað sínum til framdráttar að drepa þá, sem eiga sér síst ills von. Sérhvert ríki verður að gera lágmarksráðstafanir til að bregaðst við óhæfuverkum af þessu tagi, undan því verður ekki vikist. Hverju sinni verða ríki einnig að meta hættuna með tilliti til eigin hagsmuna og skilgreina, hvaða staðir eru viðkvæmastir fyrir slíkum árásum og hvernig á að tryggja öryggi þeirra. Takist hryðjuverkamönnum að koma fram vilja sínum, þrátt fyrir varnir og varúðarráðstafanir er rökrétt að ráðast á þá, bækistöðvar þeirra, vopnabúr eða vopnasmiðjur.