15.8.1998

Einkavæðing - nýjar kröfur í skólarekstri

Þegar rætt er um bankamálin þessa daga, er oft rifjað upp, að við breytingu ríkisbankanna í hlutafélög, hafi verið lagt á ráðin um, að þeir störfuðu þannig í fjögur ár að minnsta kosti, áður en þeir yrðu seldir. Er enginn, sem mótmælir því, að slíkar yfirlýsingar hafi verið gefnar. Hitt er svo fest í lög, að bankarnir verða ekki seldir án samþykkis Alþingis. Það er því Alþingi eitt, sem getur ákveðið, hvort fast verður haldið í fjögurra ára bannregluna um sölu eða ekki. Hefur það að sjálfsögðu oft gerst, að menn telja skynsamlegt að hverfa frá áformum um tímabundið bann við einhverju, ef hagkvæmara er talið að ganga fyrr til verks.

Andstæðingar sölu bankanna vísa sumir til fyrirheitanna um fjögurra ára bannið, aðrir eru á móti sölunni hvort sem hún verður í haust eða eftir fjögur ár. Talsmenn frestunar eða sölubanns þurfa að leggja sig meira fram um að sannfæra almenning um réttmæti skoðana sinna, en hinir, sem mæla með því, að strax verði hafist handa við að undirbúa söluna. Ljóst er, að margir öflugir aðilar hafa áhuga á að festa fé sitt í bönkunum og stefna að hagræðingu innan bankakerfisins. Hugmyndin um, að einn erlendur banki fái úrslitaáhrif í Landsbanka Íslands, hefur almennt mælst illa fyrir og spillt fyrir áformum um sölu ríkisbankanna; orðið vatn á myllu þeirra, sem ekki vilja selja.

Atburðarásin í bankamálunum sýnir, að viðhorfin breytast fljótt, þegar um ríkisrekstur er að ræða. Hún staðfestir einnig, að á pólitískum vettvangi verða stjórnvöld að fá nýtt umboð Alþingis til að stíga næstu skref. Rökræður halda því áfram í ljósi hinna ólíku tilboða, sem hafa verið kynnt. Umræðurnar endurspegla ný viðhorf til hlutverks ríkisins, sem snerta ekki síður rekstur sjúkrahúsa og skóla en banka, svo að ekki sé minnst á útvarp og sjónvarp í ríkiseign.

Nýr háskóli, Viðskiptaháskólinn í Reykjavík, verður settur í fyrsta sinn 4. september næstkomandi. Þetta er einkarekinn háskóli, sem starfar á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið. Þar taka menn á málum með öðrum hætti en í hinum hefðbundnu ríkisháskólum og verður fróðlegt að fylgjast með því, hvaða áhrif hinn nýi skóli hefur á háskólastigið allt. Nemendur hafa greinilega mikinn áhuga á að stunda nám við skólann, þótt skólagjöld séu tæplega 100 þúsund krónur á ári, 720 sóttu um skólavist en tæplega 200 voru valdir úr hópnum.

Menntamálaráðuneytið hefur unnið að því að gera samninga við framhaldsskólana, svonefnda skólasamninga, til að skilgreina með nýjum hætti greiðslur úr ríkissjóði til þeirra og á hvaða forsendum fé rennur til skólanna. Þessir samningar og hið mikla starf, sem unnið hefur verið vegna þeirra, auðveldar bæði skólastjórnendum og ráðuneytinu að átta sig á einstökum kostnaðarþáttum. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að því að semja reiknireglur um fjárhagsleg samskipti menntamálaráðuneytis og háskóla. Er þetta starf komið á lokastig. Er mikilvægt að hafa í huga, að eigi reiknilíkan að ná tilgangi sínum, verður að virða reglur þess en ekki teygja þær og toga til að mæta óskum einstakra skóla. Líkanið mælir ekki aðeins fyrir um fjárstreymi úr ríkissjóði heldur einnig um þau grunnskilyrði, sem skólar verða að fullnægja til að unnt sé að réttlæta greiðslurnar.

Í þessum tilvikum er ekki verið að ræða um einkavæðingu, enda held ég, að enn séu viðhorfin þau, að ekki beri að flytja alla framhaldsskóla og háskóla í hendur einkaaðila. Á hinn bóginn er unnið að því að laga rekstur þessara stofnana að nýjum kröfum um ráðstöfun á opinberu fé og árangur í skólastarfi. Minnir þetta á þá staðreynd, að ekki eru aðeins gerðar þær kröfur til rektora og skólameistara nú á dögum, að þeir veiti skólum sínum metnaðarfulla forystu að því er nám varðar, þeir eru einnig hver um sig stjórnendur opinberra fyrirtækja, sem velta miklum fjármunum, hafa marga starfsmenn og sinna því hlutverki að búa þúsundir ungmenna undir lífið á þann hátt, að dugi þeim í nýjum heimi, þekkingarþjóðfélaginu þar sem upplýsingatæknin er besta leiðin til árangurs.