9.8.1998

Stórmál - stjórnmálamenn skammaðir

Þjóðfélagið tekur örum breytingum og viðfangsefni stjórnmálamanna breytast ekki síður en annarra. Fjögur stórmál setja nú mikinn svip á opinberar umræður: kvótamálið, sala ríkisbanka, gagnagrunnur í heilbrigðiskerfinu og virkjanir á hálendinu. Tvö þessara mála eru gamalkunn og hafa lengi verið til umræðu, það er kvótamálið og virkjanirnar. Einkavæðing ríkisbankanna hefur einnig verið lengi á döfinni en það er fyrst núna, sem menn eru farnir í alvöru að ræða, hvaða kostir eru fyrir hendi, þegar að því kemur að selja þá. Gagnagrunnurinn snertir viðfangsefni, sem fáir Íslendingar höfðu leitt hugann að þar til fyrir fáum misserum, þegar Kári Stefánsson beitti sér fyrir því að stofna Íslenska erfðagreiningu.

Opinberar umræður um öll þessi mál bera með sér, að skoðanir á þeim eru næstum jafnmargar og einstaklingarnir, sem láta þær í ljós. Sú eðlilega krafa er hins vegar gerð til stjórnmálamanna, að þeir móti sanngjarnar leikreglur og taki af skarið, þar sem þess er þörf. Hið gleðilega við umræðrunar er, að felstir eru sammála um, að skynsamlegustu lausnirnar felist ekki í auknum ríkisafskiptum eða umsvifum heldur eigi að leyfa einstaklingum, samtökum þeirra og félögum að njóta sín eins og kostur er. Þetta á að vísu ekki við um málflutning þeirra, sem boða, að aukin skattheimta ríkisins leysi allan vanda í kvótamálinu.

Með sanngirni verður ekki sagt, að ríkisstjórn eða Alþingi hafi skorast undan að kynna stefnu sína og viðhorf í þessum málum. Á síðasta þingdegi nú í júní var ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum allra flokka til að fjalla enn einu sinni um kvótamálið, þar sitja talsmenn hinna ólíku sjónarmiða í málinu. Stjórnmálamanna bíður síðan á næsta vetri að taka afstöðu til þessara mála.

Í bankamálinu hafa viðhorfin verið að birtast og viðræður við erlenda og innlenda aðila fara nú fram um sölu á hlut ríkisins í bönkum. Í Morgunblaðinu 8. ágúst segir Davíð Oddsson forsætisráðherra, að í þessum mánuði eða fyrrihluta september þurfi þessi mál að skýrast og stjórnarflokkarnir þurfi að koma til þings með mótaða stefnu í málinu, lagabreytingar þurfi að ganga fram fyrir áramót, svo að markmið fjárlaga fyrir árið 1999 náist. Hér hefur verið settur skýr tímarammi fyrir næstu ákvarðanir stjórnvalda í þessu efni. Við framkvæmdina skiptir mestu, að menn hafi að leiðarljósi það, sem alls staðar hefur gefist best í slíkum tilvikum, það er að láta markaðinn ráða, þótt honum séu setta leikreglur eins og um dreifða eignaðaraðild.

Fróðlegt var að hlusta á umræður á Rás 1 , fréttaauka á laugardegi 8. ágúst, þar sem þeir ræddu saman um virkjanir og stóriðju á Austurlandi, Smári Geirsson, leiðtogi Alþýðubandalagsins í hinu sameinaða sveitarfélagi á fjörðunum, og Hrafnkell Jónsson, skjalavörður á Egilsstöðum og fyrrverandi verkalýðsforingi, sem nú hefur tekið til við að berjast fyrir umhverfisvernd og talaði gegn virkjunum og stóriðju, sem Smári taldi óhjákvæmlegar framkvæmdir til að snúa vörn í sókn á Austfjörðum. Ómar Ragnarsson hefur verið óþreytandi að segja okkur sjónvarpsáhorfendum frá þeim perlum, sem vatn mun hylja, ef virkjað verði fyrir austan. Ákvarðanir um þetta efni færast nær og standa menn frammi fyrir viðkvæmum kostum. Landsvirkjun hefur sínar heimildir frá fyrri tíð. Standa þær óbreyttar eða verður henni gert að leggja þær í umhverfismat? Yrði það mat andstætt virkjunum, kynni það að leiða nýja og betri kosti í ljós eða fengi Landsvirkjun staðfestingu á heimild sinni?

Nokkur harka hefur að nýju hlaupið í gagnagrunnsumræðurnar, enda miklir hagsmunir í húfi. Er það af hinu góða, að fleiri öflug fyrirtæki en eitt sýna málinu áhuga. Frá mínum bæjardyrum séð er ekki alveg ljóst, hvað við er átt með einkarétti á gagnagrunninum. Er þar vísað til þess, að Íslensk erfðagreining stundi bæði sínar rannsóknir og hafi einkaleyfi á gagnagrunninum? Eða er það svo, að stofnað verði sjálfstætt fyrirtæki á eigin forsendum, sem aðeins reki gagnagrunninn og hafi til þess einkarétt í nokkur ár? Þessu fyrirtæki verði síðan gert skylt samkvæmt nánari reglum að selja eða leigja aðgang að grunninum og mörg fyrirtæki geti þannig notað hann sem andlag rannsókna sinna? Telur Íslensk erfðagreining það forsendu fyrir eigin rekstri og rannsóknum, að eiga hlutdeild í þessu sérstaka gagnagrunnsfyriræki?

Í öllum þessum stórmálum er eðlilegt, að menn spyrji um viðhorf stjórnmálamanna og þeir láti þau í ljós í samræmi við þekkingu sína og stjórnmálaskoðanir. En það eru ekki aðeins mál af þessu tagi, sem notuð eru sem rök, þegar rætt er um stjórnmálamenn, hlutverk þeirra og hlutskipti.

Ætla ég að nefna þrjú nýleg dæmi um það, hvernig vegið er að stjórnmálamönnum í opinberum umræðum, án þess að þeir eigi sér endilega ills von, ef ég má orða það svo. Nýlega nefndi ég níðbréfið um Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem birtist með áberandi hætti í bréfadálki Morgunblaðsins. Fór það ekki fram hjá neinum, sem blaðinu fletti.

Ekki gefst mér oft tækifæri til að hlusta á útvarpsstöðvarnar síðdegis. Í sólskininu þriðjudaginn 4. ágúst brá ég mér í gönguferð og var með útvarp í eyranu og hlustaði þar á þjóðbraut Bylgjunnar, ekki síst vegna þess að kynnt var, að frændi minn Baldur Hrafn Vilmundarson myndi segja frá starfi sínu með hljómsveit í Belgíu, sem helgar sig baráttunni gegn ómannúðlegri meðferð á dýrum. Gerði hann það með miklum sóma en komst hins vegar ekki að fyrr en rúmum klukkutíma eftir að ég fór að hlusta og bíða eftir að heyra í honum. Í millitíðinni kom pistlahöfundur og var hann kynntur sem næsti foringi hinna sameinuðu jafnaðarmanna, veit ég ekki hvort Guðmundur Andri Thorsson vill láta kynna sig á þennan veg og er þess vegna að tala í útvarpið en að þessu sinni snerist mál hans um hina nöturlegu veitingastaði, sem hann hefur kynnst á ferðum sínum um landið. Herti ég gönguna, þegar hann fór af þessu tilefni að hallmæla Þingvallanefnd, þar sem við sitjum alþingismennirnir Guðni Ágústsson, Össur Skarphéðinsson og ég og sakaði okkur um, að ekki væri unnt að fá veitingar við hæfi á Þingvöllum, taldi hann þetta helst stafa af því að stjórnmálamenn sætu í Þingvallanefnd og á þessum sviðum eins og öðrum sæjust augljós merki um aumingjaskap þeirra, mátti skilja hann svo, að það væru ömurlegir og smekklausir vildarvinir okkar, sem stæðu fyrir veitingasölunni á staðnum, en hún var ekki að smekk Guðmundar Andra enda vildi hann flytja hluta af Árbæjarsafni til Þingvalla, svo að hann gæti sest niður í gömlu húsi og fengið sér súkkulaði með þeyttum rjóma. Allt er þetta gott og blessað og sjálfsagt er að velta því fyrir sér, hvort enn þurfi að auka þjónustu við ferðamenn á Þingvöllum, vex straumur þeirra þangað ár frá ári. Staðreynd er hins vegar, að Þingvallanefnd hefur ekkert með veitingarekstur í Valhöll að gera, húsakostur þar er í einkaeign og starfsemin öll í höndum einkaaðila, sem ráða því að sjálfsögðu sjálfir hvort þeir selja súkkulaði með rjóma í húsum sínum eða ekki. Þjónustumiðstöðin er hins vegar undir forsjá Þingvallanefndar og hafa starfsmenn hennar aðsetur í vesturenda miðstöðvarinnar og veita þar upplýsingar til ferðamanna og selja bækur um Ísland og kort. Í austurenda hússins er hins vegar hefðbundin veitingasala eins og tíðkast við íslenska þjóðvegi og er hún rekin af fólki frá Kárastöðum í Þingvallasveit. Á undanförnum árum hefur verið gert stórátak til að bæta alla aðstöðu við þessa miðstöð eins og þeir sjá, sem muna aðstæður þar fyrir nokkrum árum. Húsið sjálft hefur verið klætt utan með viði og stækkað með glerskála, gengið hefur verið frá bílastæðum og sett hafa verið upp skilti til fróðleiks fyrir gesti. Síðan fer það að sjálfsögðu eftir smekk hvers og eins, hvernig honum finnst veitingasalan í þessari miðstöð og hvort hann fær þar eitthvað við sitt hæfi. Allt hnígur þetta að þeirri niðurstöðu minni, að mér þótti Guðmundur Andri vega að okkur Þingvallanefndarmönnum með ómaklegum hætti í þessum pistli sínum, því að ekki ákveðum við matseðlana, hvorki í Valhöll né þjónustumiðstöðinni. Við höfum hins vegar beitt okkur fyrir því á undanförnum árum að auðvelda öllum almenningi að njóta náttúrunnar á Þingvöllum, með merkingum, stígum, brúm og útgáfu korta. Undir forsjá Sigurðar Oddssonar þjóðgarðsvarðar og starfsmanna Þingvallanefndar og fyrir tilstilli Þingvallaprests og staðarhaldara, sr. Heimis Steinssonar, eru skipulagðar margskonar kynnis- og gönguferðir um þjóðgarðinn. Fullyrði ég, að langflestir komi til Þingvalla til að kynnast náttúrunni og sögunni og er þessu fólki veitt mun betri þjónusta en áður.

Í þessum sama þjóðbrautarþætti Bylgjunnar fóru fram umræður um nýlega úthlutun úr Menningarsjóði útvarpsstöðva og voru þar ritstjóri málgagns kvikmyndagerðarmanna, Lands og sona, sem hafði ráðist með stóryrðum að stjórn sjóðsins fyrir niðurstöðu hennar í leiðara blaðsins, þá var þarna einnig forstöðumaður Kvikmyndasafnsins, sem ritaði harða gagnrýni í þetta sama blað, og framkvæmdastjóri Menningarsjóðs útvarpsstöðva, sem skýrði rökin að baki úhlutuninni. Í útvarpsþættinum var ekki um sömu persónulegu gagnrýni á stjórnarmennina að ræða og í blaðinu, dró hlustandinn helst þá ályktun, að deilan snerist um, hvort veita ætti marga og smáa styrki eða fáa og stóra auk þess sem faglega þekkingu skorti við úthlutunina. Í blaðinu er hins vegar kvartað undan því, að það skuli ekki vera félög styrkþeganna sjálfra sem úthluta þessum peningum, en það eru útvarpsráð RÚV og félagsskapur einkarekinna útvarpsstöðva, sem skipa hvor sinn fulltrúa í stjórnina en menntamálaráðherra skipar einn og gegnir hann formennsku. Láta greinarhöfundar í Landi og sonum að því liggja, að líklega sé þetta hneyksli allt að undirlagi menntamálaráðherra, og er barið á stjórnarmönnum í sjóðnum á þeirri forsendu, að þeir hafi ákveðnar stjórnmálaskoðanir, hinar sömu og ráðherrann. Ekki veit ég hvaða stjórnmálaskoðanir gagnrýnendur á þessa úthlutun hafa. Hins vegar finnst mér sá málstaður ekki góður, sem er studdur jafnveikum rökum og þeim að skamma stjórnmálamenn og heimta síðan sjálfir að fá að ráða því, hver úthlutar opinberu fé. Er nokkur trygging fyrir því, að slík úthlutun sæti ekki gagnrýni einhverra, sem vildu má meira í sinn hlut? Stjórnmálamennina er þó hægt að kalla til ábyrgðar í almennum kosningum á fjögurra ára fresti. Um úthlutanir úr Menningarsjóði útvarpsstöðva hafa verið lagðar fram ýtarlegar skýrslur á Alþingi og öllum er frjálst að kynna sér, hverja sjóðinn hefur styrkt. Ég hef lýst þeirri skoðun, að skynsamlegt sé að leggja sjóðinn niður, enda er hann barn síns tíma og kom til sögunnar í miklum flýti á Alþingi 1985, þegar samið var um málamiðlanir við afnám einkaréttar ríkisins á útvarpsrekstri.

Þriðja dæmið sem ég ætla að nefna sæki ég í grein í Morgunblaðið eftir Þröst Helgason blaðamann, sem sagði í pistli sínum í blaðinu 28. júlí sl.:

„En það eru fleiri sem hafa gert sig seka um sofandahátt og vítavert skeytingarleysi. Þjóðin hefur öll látið samtryggingu og valdamisnotkun í opinbera geiranum viðgangast í ár og áraraðir án þess að láta í sér heyra. Það er algjörlega óþolandi og niðurbrjótandi fyrir ungt fólk að þurfa að horfa upp á það að uppgjafa stjórnmálamenn og hinir ýmsu fuglar sem tengjast stjórnmálaflokkunum skuli hvað eftir annað dúkka upp í bitastæðustu stöðunum í opinberum stofnunum og fyrirtækjum. Að mati flokksmannanna sjálfra er þetta orðinn svo sjálfsagður hlutur að þeir auglýsa ekki einu sinni stöðurnar sem er þó ekki aðeins skynsamlegt ef finna á hæfasta manninn heldur einnig siðferðileg skylda. En hér er ekkert verið að hugsa um að finna hæfasta manninn og enn síður er verið að hugsa um hvað er siðferðilega rétt. Hér er ekki verið að hugsa um framtíðarmöguleika lands og þjóðar. Nei! Hér er einungis verið að hugsa um hagsmunagæslu og heppilega valdaskiptingu á milli og innan flokkanna. Þetta er svo mikil svívirða að það tekur engu tali. Þetta er raunar svo fáránlegt að manni er helst hlátur í huga þegar maður sér flokksjálkana stíga inn í úthlutaða básana sína, flestir auðvitað hálflúpulegir því þeir vita að þeir eiga þetta fæstir skilið. Já, þið eruð hlægilegir vegna þess að það vita allir hvernig er í pottinn búið.”

Þegar ég las þetta, varð ég undrandi vegna heiftarinnar. Hvernig getur höfundurinn staðið við þessi stóryrði? Einstaklingur, sem hvað eftir annað hefur verið kjörinn til æðstu trúnaðarstarfa, hefur starfað undir þeirri smásjá, sem hvílir á stjórnmálamönnum, sinnt ráðherrastörfum og tekist á við flókin og vandasöm úrlausnarefni, haft persónuleg samskipti við hundruð eða þúsundir manna, gætt hagsmuna þjóðar sinnar á erlendum vettvangi, tekið þátt í fjölmiðlafárinu og komið heill og óskaddaður frá þessari glímu; hvernig er unnt að fullyrða, að hann geti ekki tekist á við verkefni, sem hann er ekki valinn til að sinna í almennum kosningum og þótt ekki sé auglýst eftir honum, þegar það er ekki skylt? Þessi heift er alveg sama eðlis og sú, sem birtist í níðbréfinu um Davíð Oddsson. Það kom frá lesanda en tilvitnuðu orðin eru rituð af blaðamanni og dálkahöfundi