30.7.1998

Sumarhugleiðing

Eftir verslunarmannahelgina fjölgar fólki aftur á vinnustöðum eftir að sá tími líður, þegar flestir fara í sumarfrí. Þá koma menn til dæmis aftur til starfa í framhaldsskólunum og tekið verður til við lokaundirbúning fyrir upphaf kennslu undir lok ágúst. Þróunin hefur orðið sú, að kennsla hefst fyrr á haustönn og lýkur þeim mun fyrr vorönninni, en lögbundið er að framhaldsskólinn starfi ekki lengur en í níu mánuði.

Í ráðuneytum taka menn til við að ræða um lokatölur í tillögum vegna fjárlaga á næsta ári, einnig er tekið til hendi í því skyni að ganga frá textum í frumvörpum, sem ráðherrar hyggjast leggja fyrir næsta þing, sem verður kosningaþing, því að gengið verður til alþingiskosninganna í síðasta lagi í maí á næsta ári. Þingflokkar stjórnarflokkanna hittust á fundum í vikunni og báru saman bækur sínar meðal annars um sölu ríkisbankanna og breytingar á kjördæmaskipaninni. Hvoru tveggja eru mikil framfaramál og stefnir nú óðfluga til þeirrar áttar að einkaaðilar geti orðið umsvifameiri í bankarekstri og spurningar vakna um hlut erlendra aðila. Þegar um þá er rætt taka menn gjarnan þannig til orða, að það sé í sjálfu sér ágætt að loka ekki leiðum fyrir útlendinga að fjárfesta hér en hitt sé ljóst, að þeir hafi ekki mikinn áhuga á þessum litla markaði.

Ég er ekki viss um að þetta sé rétt, hvers vegna skyldi ekki hið sama eiga við í þessu efni eins og á svo mörgum öðrum sviðum, að rekstur hér í fámenninu sé jafnspennandi og annars staðar, þótt hann gefi kannski ekki jafnmikið í aðra hönd og stærri markaðir. Staðreynd er, að hér er unnt að takast á við viðfangsefni og leysa þau og nýta sér síðan þá reynslu við úrlausn verkefna annars staðar. Til þess að vera framúrskarandi á hvaða sviði sem er skiptir sköpum að ráða yfir þekkingu og reynslu. Við sjáum það í æ fleiri greinum, að hér er unnt að leysa úr viðfangsefnum og nýta sömu aðferðir og í glímunni annars staðar við samskonar en umfangsmeiri verkefni. Spurning er hvort við gerum nóg af því að nýta okkur styrkleika smæðarinnar. Í þekkingarþjóðfélaginu er ekki spurt um fjölda eða fjarlægðir heldur góðar hugmyndir sem duga til að leysa verkefni og stuðla að frekari þróun og þroska.

Þegar til þessara þátta er litið er óhákvæmlegt að árétta mikilvægi menntunar, rannsókna og vísinda. Íslenska þjóðfélagið staðnar án öflugrar starfsemi á þessum sviðum og við þurfum einnig að leggja rækt við hvers kyns menningarstarf til að borgurunum líði vel. Þessi sannindi eru áréttuð í nýlegri skýrslu um þróun byggðamála og get ég ekki annað en fagnað því, að menn beina nú athygli að mannfólkinu, menntun þess og menningu, þegar rætt er um byggðamál frekar en að laxi, minnki og refum, en misheppnaðar fjárfestingar á þeim sviðum og hvers kyns sjóðasukk hafa eyðilagt álit margra á því, sem fellt er undir byggðamál.

Þótt Alþingi sitji ekki, hafa stjórnmálaumræður verið líflegar, einkum vegna upplausnarinnar í samfylkingarraunum vinstri manna. Enn er ekki séð fyrir endann á þeim vandræðagangi. Enn er þetta leiðtogalaus fylking. Enn situr maður eins og Svavar Gestsson á griðingunni og veit ekki hvar hann á að koma niður. Er það líklega vegna þess að hann hefur ekki nógu góð tök á flokknum gagnvart Helga Hjörvari og félögum hans. Enn talar Össur Skarphéðinsson eins og þetta nýja afl sé einhvers megnugt. Í umræðunum éta menn síðan frasana hver eftir öðrum og skiptast á skoðunum í hástemmdum dúr um tímamót, ef þeir eru samfylkingarsinnar. Síðdegi nokkurt fyrir fáeinum vikum brá ég mér í stutta gönguferð eins og oft endranær út í Öskjuhlíð. Ég var með vasaútvarp og hlustaði á einhvern sérkennilegasta útvarpsþátt, sem ég hafði lengi heyrt. Erfitt er að átta sig á því stundum, hvaða stöð maður er að hlusta á, en að þessu sinni taldi ég mig vera að hlusta á rás 2. Þar voru þeir að tala saman Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri Magrétar Frímannsdóttur í Alþýðubandalaginu, og Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands, en hann kalla samfylkingarsinnar jafnan til, þegar þeir þurfa að fá það sem þeir telja fræðilega blessun yfir pólitískt brölt sitt. Samtal þeirra félaga var eftir því og bar hvergi skugga á neitt í skjallbandalagi þeirra og óvild í garð Steingríms J. og félaga. Síðar fór ég að velta því fyrir mér, hvort þetta væri það nýjasta í fjölmiðlun, að afhenda stjórnmálaflokkum eða flokksbrotum tíma á öldum ljósvakans til að viðra skoðanir sínar.

Ég hef ekki séð eða heyrt neitt frekar um þetta, utan þess að ég hitti mann á gönguferð minni, sem einnig var með útvarp í eyrunum og var jafngáttaður og ég á samtalinu og að þetta skyldi fara fram með þessum hætti. Kannski er þetta sem sagt það, sem koma skal, að flokkar eða flokksbrot fái bara sinn tíma á öldum ljósvakans og menn viti þá, að þeir eru að hlusta á kynningu á ákveðnum sjónarmiðum. Kann að vera auðveldara að verjast slíkri innrætinigu en hinni, sem klædd er í búning óhlutdrægni en einkennist engu að síður að lævíslegum áróðri.

Raunar held ég, að fjölmiðlar hér hafi kannski þrengra sjónarhorn en áður, þótt þeim hafi fjölgað og samkeppni aukist. Þegar boðaðar eru nýjungar í rekstri ríkisins, eins og einkaframkvæmd eða hlutafélagavæðing, dugar til dæmis að hringja í Ögmund Jónasson til að fá fram andstöðu við öll slík áform. Hann gefur upp skoðanir sínar án þess að hafa haft tækifæri til að kynna sér málin, eins og fjármálaráðherra sannaði, en fréttamönnunum virðist sama um það. Málum er nefnilega þannig háttað, að með sama hætti og hlustendur og áhorfendur þurfa ekki annað en ýta á takka til að kveikja eða slökkva á viðtækinu, þurfa fréttamenn ekki annað en ýta á takka til að fá stöðluð viðbrögð við einhverju, sem stjórnvöld eru að gera. Við getum einnig sagt það fyrir í mörgum tilvikum, hvernig einstaka fjölmiðlamenn stilla málum upp, Í Morgunblaðinu britist til dæmis frétt um það í vikunni, að stór hluti nemenda í framhaldsskólum og háskólum ynnu með námi. Hringt var í mig frá rás 2 og fór ekki á milli mála, að viðmælandinn taldi þetta til marks um nokkurn þjóðfélagslegan vanda og sýndi þetta, að illa væri staðið að því að opinberri hálfu að sjá námsmönnum farborða. Ég lýsti allt annarri skoðun og taldi það með ágætum, ef menn fengju tækifæri til að vinna með námi sínu, það hefði ég gert og það hefði tíðkast á mínu heimili. Þessi tækifæri væru að aukast með minnkandi atvinnuleysi. Var ljóst, að þetta féll ekki að hinni kórréttu skoðun, sem menn eiga að hafa á þessum málum.

Hér er að þróast, að blaðamenn og fréttamenn koma meira fram undir nafni en áður og séu talsmenn ákveðinna sjónarmiða og skoðana og nálgist viðfangsefni sitt út frá þeim. Þetta ber að virða en það þýðir hins vegar ekki fyrir sömu menn að láta eins og þeirra skoðun sé hin eina rétta eða láta eins og þeir séu flekklausir í óhlutdrægni sinni. Festist þetta enn frekar í sessi verða stjórnendur fjölmiðla að sjá til þess að allar meginskoðanir eigi talsmenn í starfsliði þeirra og lesendum og hlustendum sé leiðbeint um það á hvaða sjónarhóli viðkomandi blaðamaður eða fréttamaður stendur.