26.7.1998

Rógur um Sjálfstæðisflokkinn

Furðulegt er að lesa skrif um Sjálfstæðisflokkinn og forystumenn hans. Þegar verið er að bera saman það, sem einkennir flokkinn um þessar mundir við það, sem var fyrir þrjátíu til sjötíu árum. Er látið að því liggja, að nú sé öldin önnur og flokkurinn, hafi farið inn á rangar brautir vegna misviturra ráðgjafa, áhrifa frá Margaret Thatcher, Ronald Reagan og vegna kvótakerfisins. Allt hafi verið með miklu betri svip áður, þá hafi hin mannlegu sjónarmið verið höfð í fyrirrúmi og frjálshyggjan eða útsendarar hennar ekki eitrað andrúmsloftið.

Þessi rógur um Sjálfstæðisflokkinn byggist ekki á neinum skynsamlegum rökum og virðist ekki hafa mikil áhrif á viðhorf kjósenda í garð flokksins, ef marka má fylgi hans samkvæmt síðustu skoðanakönnunum.

Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur verið í stöðugri þróun síðan hann var stofnaður fyrir tæpum sjötíu árum og hún hefur tekið mið af úrlausnarefnum hverju sinni, án þess að horfið hafi verið frá því meginsjónarmiði að setja einstaklinginn í öndvegi, að hafa meiri trú á einstaklingnum og umhyggju hans fyrir eignum sínum en forsjá ríkisins og frumkvæði þess. Innan flokksins hafa alltaf verið skiptar skoðanir um það, hve langt eigi að ganga í því efni að taka á úrlausnarefnum með félagsleg sjónarmið að leiðarljósi. Í byrjun sjöunda áratugarins voru til dæmis ungir menn innan flokksins, sem hrifust af Barry Goldwater, öldungardeildarþingmanni í Bandaríkjunum, sem þótti þá róttækur hægri maður. Efndu þessir Heimdellingar meðal annars til fundar með Bjarna Benediktssyni til að kynnast skoðunum hans á sjónarmiðum Goldwaters og sannfæra hann um ágæti þessara skoðana. Vafalaust eru ýmsir í þessum hópi, flestir eru líklega á sjötugsaldri núna, þeirrar skoðunar, að Sjálfstæðisflokkurinn sé enn ekki nægilega langt til hægri, aðrir telja hann ef til aðhyllast of mikla frjálshyggju.

Í lok áttunda áratugarins, nánar tiltekið í þingkosningunum í desember 1979 barðist Sjálfstæðisflokkurinn undir slagorðinu: Leiftursókn gegn verðbólgu! Var þessu slagorði til dæmis slegið upp flennistóru yfir þvera forsíðu Morgunblaðsins eftir að kosningastefnuskráin hafði verið mótuð. Var stefnan í samræmi við þau sjónarmið, sem þá voru uppi í Evrópu og Bandaríkjunum í sama mund og Thatcher og Reagan voru að komast til valda. Þrátt fyrir góðan byr í skoðanakönnunum, stóð Sjálfstæðisflokkurinn ekki sterkur að kosningunum loknum og í kjölfar þeirra myndaði dr. Gunnar Thoroddsen ríkisstjórn sína í óþökk meirihluta þingflokks sjálfstæðismanna. Frá þeim tíma hefur orðið gjörbreyting á þingflokki sjálfstæðismanna og hinar gagnkvæmu ásakanir, sem þá gengu á milli þingmanna eru sorglegur hluti af flokkssögunni. Þar til allt í einu núna, að fyrrverandi þingmenn koma fram á völlinn og vilja snúa klukkunni til baka og taka upp þráðinn frá níunda áratugnum, þegar rifist var um það, hvort þessi væri meiri frjálshyggjumaður en hinn og til að gera dapurlegan málstað sinn trúverðugri segjast þeir sverja sig í ætt við Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson og vera einhvers konar merkisberar skoðana þeirra, enda hafi núverandi forystumenn flokksins brugðist þeim málstað.

Er með ólíkindum að fylgjast með þessari rógsherferð. Væri í sjálfu sér fróðlegt að fara ofan í saumana á því, hvernig sumir þessara manna rákust í flokknum í tíð Ólafs og Bjarna. Hitt skiptir þó meira máli, að átta sig á því, að Sjálfstæðisflokkurinn heldur vel sínum fyrra styrk, hvað sem þessir rógberar segja, og eflist við hverja raun og ekki nýtur hann minni virðingar en í tíð Ólafs og Bjarna, þegar litið er til stöðu hans meðal stjórnmálaflokkanna. Andstæðingalið flokksins er sundrað og tætingslegt, þótt það hafi sameininguna sem sitt höfuðmarkmið. Allan lokaáratug aldarinnar hefur flokkurinn haft ótvíræða forystu í landsmálum og undir leiðsögn Davíðs Oddssonar, formanns hans og forsætisráðherra, hefur tekist að leiða þjóðina til meiri hagsældar en áður og skapa borgurum landsins betri lífskjör en nokkru sinni fyrr. Var það ekki einmitt helsta markmið Ólafs og Bjarna? Þeir beittu aðferðum síns tíma eins og forystumenn flokksins fara eftir þeim leiðum, sem duga þjóðinni best við núverandi aðstæður. Styrkur sjálfstæðismanna er hinn sami nú og þá að laða fram hið besta með því að hafa hagsmuni einstaklingsins og frelsi hans að leiðarljósi. Það var þessi stefna, sem sigraði í kalda stríðinu. Er furðulegt, að nú skuli menn ganga úr Sjálfstæðisflokknum, af því að þeir telja flokkinn ekki trúan stefnu sinni. Sumir þeirra stóðu á sínum tíma í miklum stórræðum innan flokksins við að verja kommissara- og sjóðasukkið, sem kom til sögunnar fyrir tilstilli virnstri stjórnarinnar 1971. Vonandi kenna þeir þá baráttu ekki við málstað Ólafs og Bjarna?

Deilurnar um kvótakerfið eru í raun ekki lengur um kerfið sjálft á stjórnmálavettvangi heldur um hitt, hvernig eigi að bregðast við, þegar í ljós kemur, að kerfið er farið að skila miklum árangri og góðum hagnaði til þeirra, sem starfa innan ramma þess. Með öðrum orðum vex mörgum í augum, hve margir hagnast mikið af kvótakerfinu og vilja móta reglur til að ná í meira af þessum hagnaði til ríkisins. Í hvert sinn sem Alþingi situr að störfum er fjallað um breytingar á kerfinu og mörg skref hafa verið stigin til þess að bregðast við gagnrýni á það. Síðasta ráðið á lokadegi þinghaldsins nú í júní var að skipa nefnd manna frá öllum stjórnmálaflokkum til að ræða málið enn frekar og gera tillögur um breytingar í ljósi núverandi stöðu. Sjálfstæðisflokkurinn á fjóra menn í þessari nefnd og þar á meðal formann hennar, Jóhannes Nordal. Var þannig staðið að vali manna í nefndina, að sem flest sjónarmið fengju að njóta sín þar, er Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, meðal nefndarmanna af hálfu Sjálfstæðisflokksins, en blaðið hefur verið í fararbrodddi gagnrýnenda á afleiðingar kvótakerfisins. Er ljóst, að þingflokkur sjálfstæðismanna væntir mikils af störfum þessarar nefndar.

Málstaður þeirra, sem vega að Sjálfstæðisflokknum utan hans á þeirri forsendu, að þeir séu einskonar samviska flokksins, er ekki góður. Þetta eru marklaus hróp úr fortíðinni frá óvildarmönnum þeirra, sem nú bera hitann og þungann af því að framkvæma sjálfstæðisstefnuna í samræmi við kröfur samtímans. Meira en óvild þarf til þess að sanna, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi snúist gegn eigin stefnu