5.7.1998

Samfylking - sagnfræðingar

Í gær , laugardaginn 4. júlí, þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, ákvað meirihluti manna á auka- landsfundi Alþýðubandalagsins að leggja flokkinn niður í núverandi mynd og ganga til samfylkingar, eins og það er kallað, með Alþýðuflokknum og Kvennalistanum, eða leifum þessara flokka, er tilgangurinn að skapa hið mikla mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í íslenskum stjórnmálum, sem dugi til þess að koma honum endanlega frá völdum. Samþykkt landsfundarins hafði það í för með sér, að Hjörleifur Guttormsson, alþingismaður og fyrrverandi ráðherra, sagði sig úr flokknum og gekk af fundi. Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, fyrrverandi varaformaður flokksins og fyrrverandi ráðherra, sagðist ætla norður í land og ræða málið við stuðningsmenn sína þar, en tillaga Steingríms gegn samfylkingunni var felld, sagðist hann að vísu geta vel við unað, því að hann hefði sagt við sjálfan sig, að fengi tillaga sín meira en 20%, sem hún gerði, væri það sigur fyrir sig gegn tillögu formanns og varaformanns flokksins. Svavar Gestsson, þingflokksformaður, fyrrverandi formaður flokksins og fyrrverandi ráðherra, sagðist óánægður en hann hefði þó ekki viljað flytja tillögu um að fresta ákvörðun um samfylkinguna. Er hann mjög áhyggjufullur yfir framvindu mála. Margrét Frímannsdóttir, formaður flokksins, gladdist yfir niðurstöðunni en hún lítur þannig á, að um langt árabil hafi það verið markmið Alþýðubandalagsins að hætta að vera til í núverandi mynd til að sameinast öðrum. Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, var kampakátur heima í garði sínum og sagði, að nú væri stóra stundin runnin upp fyrir Alþýðuflokkinn, hann hefði flokkinn einhuga að baki sér við næstu skref, sem eru varla önnur en þau að gefa út dánarvottorðið fyrir flokkinn, minnti gleði Sighvats á einlæga ánægju hans yfir því, þegar Alþýðublaðið hætti að koma út á sínum tíma, en þá mátti skilja hann á þann veg, að það væri stærsta stundinn í sögu blaðsins.

Fyrir okkur sem stöndum utan við launhelgar vinstri mann er erfitt að skilja, að það sé höfuðmarkmið flokksformanna að leggja niður flokka sína án þess að vita í raun, hvað kemur í staðinn. Þannig er þessum málum háttað hjá íslenskum vinstrisinnum. Þeir hafa enga heildstæða stefnu og þeir vita ekki heldur hver verður leiðtogi þeirra eða hvernig á að velja hann, þá er allt óljóst um það, hvernig staðið skuli að vali manna á framboðslista. Boðendur samfylkingarinnar tala hástemmt um ágæti sitt og annarra en minna um hin raunverulegu viðfangsefni, sem menn þurfa að sinna til að ná árangri í stjórnmálum. Er ég sannfærður um að mikil reynsla í þeim efnum glatast, ef þeir Hjörleifur, Steingrímur J. og Svavar Gestsson verða utan dyra ásamt Ögmundi Jónassyni og félögum hans í félagsskapnum Stefnu, en heitið á vafalaust að minna á, að samfylkingin sé stefnulaus. Ætlar Ögmundur að vinna að því að stofna vinstri flokk, hann vilji ekki berjast undir svipuðum merkjum og Tony Blair. Eins og málum er háttað á þessari stundu virðist hinn áhyggjufulli Svavar bera kápuna á báðum öxlum og vék ég að því í þættinum Fréttaauki á laugardegi á rás 1 laugardaginn 4. júlí, að Svavar kynni að vera hækka eigið verð gagnvart samfylkingunni til að tryggja sér valdastöðu innan hennar að lokum, hið sama kann að vaka fyrir Steingrími J.

Undanfarna daga og vikur hafa samfylkingarsinnar skrifað sjálfssefjunargreinar, einkum í Morgunblaðið, þar sem þeir stappa í sig stálinu við að leggja niður gömlu flokkana. Hefur það vakið sérstaka athygli mína, hve tveir forystumenn Alþýðusambands Íslands, Grétar Þorsteinsson og Ari Skúlason, hafa gengið hart fram í þessu máli. Dettur manni í hug, að þeir séu enn haldnir hinni gömlu grillu, að unnt sé að tengja Alþýðusambandið formlega við samfylkingu manna á vinstri kantinum eins og var í árdaga sósíalismans hér á landi, þegar Alþýðusambandið var í raun útibú Alþýðuflokksins, og eins og er í Bretlandi, þar sem verkalýðshreyfingin er að verulegu leyti fjárhagslegur bakhjarl Verkamannaflokksins. Þessir ágætu forystumenn Alþýðusambandsins ættu að minnast þess, að kannanir sýna Sjálfstæðisflokkinn sem öflugasta flokkinn meðal íslenskra launþega, og ætli þeir að gera Alþýðsambandið að hluta af samfylkingunni er það ávísun á flokkspólitískan klofning innan ASÍ.