21.6.1998

Skólastefnan - tungutækni

Af hálfu menntamálaráðuneytisins var ekki látið við það eitt sitja að senda bæklinginn Enn betri skóli inn á hvert heimili og efna til funda um landið allt til að kynna nýju skólastefnuna og meginatriði, sem liggja til grundvallar við nýjar aðalnámskrár fyrir grunnskólann og framhaldsskólann. Samin var ýtarlegri lýsing á stefnunni og hún send fjölmörgum aðilum til umsagnar. Rann fresturinn til að skila umsögnum nú um miðjan mánuðinn.

Samhliða því, sem farið verður yfir þessar umsagnir og hugað að athugasemdum, eru þeir að fara af stað við vinnu sína, sem munu skrifa út sjálfar námskrárnar. Var leitað til kennarasamtakanna og óskað eftir tilnefningum frá þeim. Tugir manna setjast nú niður við þessa mikilvægu vinnu en ætlunin er, að nýju námskrárnar liggi fyrir næsta haust.

Innan menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið að undirbúningi undir útgáfu á nýju námsefni og meiri endurmenntun kennara. Jafnframt hefur verið lagt á ráðin um stórátak til að nýta nýju upplýsingatæknina meira í öllu skólastarfi. Vænti ég þess, að næsta haust verði unnt að kynna stórhuga áform á öllum þessum sviðum, um leið og niðurstöður í vinnu námskrárhópanna verða kynntar.

Ég hef margoft áréttað, að þessi mikla námskrárvinna lýtur að grunnskólanum og bóknámi í framhaldsskóla. Námskrárgerð fyrir starfsnám á framhaldsskólastigi er í höndum starfsgreinaráða, en þau eru 14 og hafa öll tekið til starfa. Er nauðsynlegt að huga að innra skipulagi í ráðuneytinu til að sinna starfsnámi með nýjum hætti. Verður ekki áréttað með nægilegum þunga, hve mikil breyting er á döfinni í starfsnáminu.

Viðbrögðin við nýju skólastefnunni eru á mörgum sviðum. Tryggvi Gíslason skólameistari Menntaskólans á Akureyri greindi frá því í skólaslitaræðu sinni 17. júní, að hann vildi að skóli sinni byði þriggja ára nám til stúdentspróf. Þetta er eitt af markmiðum skólastefnunnar, þegar fram líða stundir. Hef ég sagt, að í tilraunaskyni kunni að vera rétt að veita einhverjum skólanna heimild til að skipuleggja nám með þessum hætti. Á þetta einkum við um bekkjakerfisskólana en bæði innan MA og Kvennaskólans í Reykjavík hefur komið fram áhugi á þessu markmiði skólastefnunnar.

--------

Sunnudaginn 14. júní birtist viðtal við Heiðar Jón Hannesson tungutækni í Morgunblaðinu. Þar telur hann, að ekki sé nóg að gert af hálfu íslenskra stjórnvalda til að tryggja stöðu íslenskrar tungu gagnvart tölvutækninni. Fyrir nokkru var rætt um tungumálaverkfræði í sömu andrá og fjallað var um þau viðfangsefni, sem Heiðar Jón nefnir. Nú nota menn orðið tungutækni. Verkefnið er meðal annars að skilgreina stöðu íslenskunnar og tryggja að unnt verði að nota hana eins og aðrar tungur, þegar lyklaborðið hverfur frá tölvunum okkar og við gefum þeim munnleg fyrirmæli. Rangt er að draga upp þá mynd, að ekkert sé að þessum málum hugað hér á landi af hálfu stjórnvalda. Heiðar Jón hefur til dæmis sjálfur verið kallaður á fund verkefnisstjórnar ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið og innan hennar eru menn mjög með hugann við þetta verkefni.