7.6.1998

Þinglok - stjórnmálasviptingar - M&M

Þinginu lauk að þessu sinni ekki fyrr en föstudaginn 5. júní, rúmum mánuði síðar en ætlað var upphaflega, það er hinn 8. maí. Hinir bjartsýnustu voru að vísu með hugmyndir um, að unnt yrði að ljúka þinginu 22. apríl, þannig að rúmur tími gæfist á stjórnmálavettvangi til umræðna um sveitarstjórnamál, án þess að þingmenn væru að draga athyglina sérstaklega að sér. Þetta gekk sem sagt ekki eftir og raunar efast ég um, að það hafi skipt nokkru máli fyrir kjósendur í sveitarstjórnakosningunum, hvort Alþingi var að störfum eða ekki. Allt þetta tal um, hvenær Alþingi lýkur störfum fyrir jól eða sumarleyfi er undarlegt. Stjórnarandstaðan vill gjarnan að settur sé ákveðinn dagur fyrir þinglok til að hún geti síðan beitt þeirri aðferð að taka einstök mál í gíslingu og koma þannig í veg fyrir afgreiðslu þeirra. Hefur það meðal annars tíðkast fyrr á árum, að ríkisstjórnin dregur upp lista yfir mál, sem hún telur brýn og síðan hefst þjark um það í bakherbergjum þingsins, hvaða mál af þessum lista skuli ná fram að ganga, er það síðan kallað samkomulag um þinglok, þegar stjórnarandstöðunni hefur tekist að útiloka nokkur mál á listanum. Ríkisstjórnir undir forystu Davíðs Oddssonar hafa ekki starfað með þessum hætti, heldur hefur þingi að sjálfsögðu verið haldið áfram, þar til þeim málum er lokið, sem meirihlutinn vill ljúka. Að þessu sinni greið stjórnarandstaðan til málþófs til að koma í veg fyrir afgreiðslu nokkurra mála og þess vegna dróst þinghaldið á langinn. Skipan þingstarfanna hefur verið að breytast til batnaðar á þessu kjörtímabili, til dæmis með því að gert er hlé á fundum þingsins sjálfs til að auðvelda nefndum að sinna mikilvægum störfum sínum. Mikil sérþekking er fyrir hendi í mörgum þingnefndum og er oft ómetanlegt að þar fái menn tækifæri til að brjóta flókin mál til mergjar og kalla fram ólík sjónarmið.

Það er algeng spurning eftir að fjölmiðlar hafa sagt frá þinglokum, hvort maður sé ekki feginn að fá frí. Raunar er það svo að fyrir ráðherra er það einkum skipulagsatriði við nýtingu á tíma að sinna störfum á þingi, að sjálfsögðu fyrir utan hinn mikla undirbúning sem það kostar oft að búa sig undir málflutning þar eða tillögugerð. Tvisvar í viku eru fastir tímar fyrir þingflokksfundi, það er upp úr hádegi á mánudögum til klukkan 15.00 og eftir klukkan 16 á miðvikudögum til klukkan 18.00. Síðan eru svokallaðar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á tveggja vikna fresti, klukkan 15.00 á mánudögum. Klukkan 13.30 á miðvikudögum svara ráðherrar undirbúnum fyrirspurnum. Síðan þurfa ráðherrar að vera til taks þegar mál á þeirra verksviði eru rædd í þinginu og er venjulega gerð vikuáætlun um þingstörf, þannig að menn eiga að geta séð, hvaða málaflokkar verða teknir fyrir á einstökum fundardögum, en almennt eru fundir á mánudögum til fimmtudags. Síðan þurfa menn að vera við atkvæðagreiðslur, sem almennt eru í upphafi funda klukkan 13.30. Þetta skipulag raskast að sjálfsögðu allt, þegar dregur að þinglokum og þá sitja menn oft tímunum saman í atkvæðagreiðslum. Raunar boðaði forseti Alþingis það nú við þinglokin, að hann ætlaði að beita sér fyrir breytingum á þingsköpum, sem stytti atkvæðagreiðslur; er það í góðu samræmi við það, sem gerist erlendis og þingmenn hafa til dæmis kynnst á þingum á borð við Evrópuráðsþingið. Vilji meirihluta þingmanna stendur einnig til þess, að þingsköpum verði breytt að öðru leyti til að koma í veg fyrir, að einstakir þingmenn geti misnotað málfrelsið með þeim hætti, sem gerðist síðustu daga þessa þings. Lýrðæði felst ekki í því, að einn maður geti talað sem lengst, heldur í hinu, að allir fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Í þessari síðustu þingviku tók ég þriðjudaginn 2. júní þátt í umræðum utan dagskrár um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Stjórnarandstaðan tók undir þau sjónarmið námsmanna, að miða ætti grunntölur námslána við laun. Ég benti hins vegar á að hér væri um framfærslulán að ræða, sem ættu að taka mið af þróun framfærsluvístitölunnar auk þess sem við ákvörðun úthlutunarreglna að þessu sinni hefði verið komið til móts við ýmsa hópa námsmanna, sem töldu á sig hallað með gildandi reglum. Ritaði ég síðan grein um málið, sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 5. júní. Frásögn Péturss Matthíassonar, fréttamanns sjónvarps ríkisins, af umræðunum um LÍN á Alþingi gaf ekki rétta mynd af því, sem var kjarninn í máli mínu, heldur birti hann þann kafla úr ræðunni, sem stjórnarandstaðan henti helst á lofti. Bendi ég þeim, sem áhuga hafa á því að kynna sér málið hér á netinu að fara inn á vefsíðu menntamálaráðuneytisins frodi.stjr.is./mrn en þar er greint frá þingumræðum með þátttöku minni. Þennan sama þriðjudag var rætt um frunvarp til laga um lögverndun kennararéttinda. Stjórnarandstaðan snerist gegn þeirri grein frumvarpsins, þar sem lagt er til að þeir, sem hafa mikla fagþekkingu eða mikla reynslu sem iðnmeistarar geti fengið réttindi sem framhaldsskólakennarar, þótt þeir taki ekki meira en 15 einingar í kennslu- og uppeldisfræðum í stað 30 eininga eins og nú er. Var frumvarpið síðan samþykkt og gert að lögum fimmtudaginn 4. júní, sömu sögu er að segja um frumvarp til íþróttalaga, það varð að lögum 4. júní. Þá var samþykkt að fella skemmtanaskatt úr gildi. Eina málið, sem ég flutti og ekki náði fram, var frumvarp til nýrra leiklistarlaga.

Sviptingarnar í kringum Sverri Hermannsson tóku nýja stefnu mánudaginn 1. júní, annan í hvítasunnu, þegar hann lýsti yfir því, að hann ætlaði að stofna nýjan stjórnmálaflokk og síðan fóru fjölmiðlamenn á stjá til að leita að þeim, sem helst vildu starfa með Sverri. Kom þá í ljós, að til sögunnar voru nefnd nöfn ýmissa þeirra, sem virðast alltaf til þess búnir að leggja einhverjum pólitískum upphlaupum lið. Til dæmis er sérstakt rannsóknarefni, hve oft Ellert B. Schram er kallaður fram á völlinn, þegar ætlunin er að stofna nýjan flokk eða bjóða fram með óhefðbundum hætti. Þeir sem þekkja til stjórnmálasviptinga síðustu áratuga í Sjálfstæðisflokknum voru líka margir undrandi á því, að nú ætluðu þeir Sverrir og Matthías Bjarnason að mynda eitthvert bandalag. Er ástæða til að fara betur ofan í þau mál öll saman á síðari stigum til að átta sig á því, hvað það er sem í raun sameinar þessa menn. Hvaða stefnu hafa þeir? Það er ekki nóg að vera á móti eða telja sig hafa einhverra harma að hefna.

Í síðasta pistli mínum sagði ég frá því, að ég teldi víst, að það hefði verið Mörður Árnason, sérlegur fulltrúi Ingibjargar Sólrúnar, sem hrópaði að mér ókvæðisorð úr kosningaskrifstofu R-listans við Lækjartorg, þegar ég gekk yfir torgið mánudaginn eftir sveitarstjórnakosningarnar. Nú hefur Mörður staðfest það í viðtali við Dag, að þetta var hann. Mér skilst raunar að hann hafi komið fram í fleiri fjölmiðlum af þessum tilefni. Dagur sneri sér einnig til Halldórs Guðmundssonar forstöðumanns Máls og menningar, en þar starfar Mörður. Taldi Halldór í viðtali við Dag, að ég hefði ráðist ómaklega að M&M í fyrrgreindum pistli mínum og slíkt hefðu starfsbræður mínir á Norðurlöndunum aldrei gert! Nú veit ég ekki, hvernig háttað er afskiptum starfsmanna bókaútgáfa af stjórnmálum annars staðar á Norðurlöndunum og ég veit ekki heldur, hvort nokkur starfsbræðra minna heldur úti sambærilegri síðu og þessari. Nöfnin, sem ég tilgreindi í fyrrgreindum pistli, voru upp úr Degi þriðjudaginn eftir sveitarstjórnakosningarnar. Að túlka frásögn mína sem einhverja árás á M&M er auðvitað út í hött. Hitt er einnig fráleitt að gera þá kröfu til mín, að ég segi ekki álit mitt á mönnum og málefnum vegna þess að margir telja öfluga bókaútgáfu samnefnara þeirra, hvort sem þeir starfa þar eða ekki. Vinstrisinnar hafa gert margar tilraunir til að draga í efa rétt minn til að láta skoðanir mínar í ljós með þessum hætti. Hér bætist sem sé eitt dæmið í það safn. Sérkennilegt er, að það kemur frá mönnum, sem vinna með hið ritaða orð og frelsið til að segja skoðun sína.