30.5.1998

Ólund- vanhæfi - Lindarmálið

Skömmu eftir hádegi mánudaginn 25. maí, þegar ég gekk af þingflokksfundi okkar sjálfstæðismanna í Alþingi í skrifstofu mína í ráðuneytinu og var í góða veðrinu á Lækjartorgi, heyrði ég nafn mitt kallað og síðan fylgdi einhver orðaflaumur, ókvæðisorð þar sem mér var óskað til hamingju með ósigur sjálfstæðismanna í kosningunum í Reykjavík og því lýst, að þetta væri upphafið að meiri pólitískum ógöngum mínum og flokksbræðra minna. Kom þessi ræða að ofan og heyrðist út á torgið, þegar ég leit upp sá ég, að ræðumaður var í glugga kosningaskrifstofu R-listans og af útlitinu og röddinni að dæma gat ég mér þess til, að þetta væri Mörður Árnason, sérstakur erindreki Ingibjargar Sólrúnar, sem fór á milli flokkanna á bakvið R-listann rétt áður en framboðsfresturinn rann út og tilkynnti þeim, að flokkanöfnin yrðu þurrkuð út af framboðslistanum.

Ég segi frá þessu atviki hér, því að það gerist almennt ekki, að hróp séu gerð að mér á götum úti og einnig vegna hins, að mér þótti þessi framganga mannsins á R-listaskrifstofunni nokkuð dæmigerð fyrir þá ólund, sem hefur einnkennt marga R-listamenn að kosningum loknum. Hefði mátt ætla, að þeir væru í sjöunda himni, litu tilveruna gleðiaugum og sýndu meðbræðrum sínum umburðarlyndi. Hið gagnstæða blasir við, þegar rýnt er í það, sem þetta fólk hefur að segja í fjölmiðlum. Heyrði ég meðal annars í Merði Árnasyni í einhverjum útvarpsþætti í morgun, þar sem hann hafði allt á hornum sér og beindi spjótum sínum álíka ómálefnalega að Sjálfstæðisflokknum og maðurinn, sem jós úr skálum reiði sinnar yfir Lækjartorg síðastliðinn mánudag.

Þessi R-lista ólund hefur einkum birst á prenti í Degi. Má þar nefna greinar í blaðinu þriðjudaginn 26. maí, fyrsta tölublaði eftir kosningar. Kolbrún Bergþórsdóttir lýsir tilfinningum sínum á kosninganóttina. Hún er stödd á kosningavöku sjálfstæðismanna í Reykjavík, þegar hún heyrir fyrstu tölur og að R-listinn muni sigra. Virðist hún hafa orðið fyrir áfalli, þegar hún sá, að sjálfstæðismönnum var ekki "verulega brugðið" vegna talnanna, þeir hefðu greinilega búið sig undir þær. Áður en hún fer af samkomunni segir hún við gesti þar, að sér þyki kosningabarátta sjálfstæðismanna hafa verið siðlaus, henni er svarað fullum hálsi og þá segist hún hafa hreytt út úr sér: "Mér finnst þið vera skítapakk." Við svo búið fer hún á hátíð R-listans. Eitt er að segja slíka hluti í hita leiksins við barborðið annað er að birta þau á prenti nokkrum sólarhringum síðar.

Guðmundur Andri Thorsson hefur fastan dálk í Degi og síðar í vikunni heyrði ég einnig í honum fyrir tilviljun á Bylgjunni, þar sem hann virðist einnig vera meðal fastra pistlahöfunda. Dreg ég þá ályktun af málflutningi Guðmundar Andra, að hann sé talsmaður þeirra manna, sem láta eins og þeir hafi ráð R-listans í hendi sér, það er Marðar Árnasonar, Einars Kárasonar, Halldórs Guðmundssonar, Örnólfs Thorssonar og Stefáns Jóns Hafsteins. Bókaútgáfan Mál og menning er samnefnari fyrir þessa félaga og er mér sagt, að gjarnan sé talað um þá, sem "The Smarties" og þá vísað til þess, að M&M getur einnig staðið fyrir sælgæti, sem var til skamms tíma bannað hér á landi nema í Fríhöfninni, þótt menn mættu að vísu alls staðar kaupa Smarties. Kolbrún Bergþórsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Dags og Dagsljóss og blaðamaður á Degi, er augljóslega í stjórnmálabandalagi með þeim félögum og hið sama er að segja um Össur Skarphéðinsson, ritstjóra DV og alþingismann. Í fyrrgreindri frásögn Kolbrúnar af kosninganóttinni kom fram, að hún vill sjá Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherra. Rennir það stoðum undir þá kenningu, að Ingibjörg Sólrún endist ekki út kjörtímabilið í borgarstjórastólnum einum heldur bjóði hún sig fram til þings vorið 1999, mun Ingibjörg Sólrún rökstyðja það með vísan til þess, að borgarstjórar Sjálfstæðisflokksins hafi oft setið á Alþingi og hún geti gert það ekki síður en þeir. Yrði það ekki í fyrsta sinn sem hún hlypi í skjól Davíðs Oddssonar.

Eðlilegt er að hafa þetta allt í huga, þegar litið er til þess, að undanfarna daga hafa málsvarar Ingibjargar Sólrúnar, þeir Guðmundur Andri og Mörður Árnason einkum beint spjótum sínum að Davíð Oddssyni, sem þeir líta á sem höfuðandstæðinginn í næstu baráttu sinni undir merkjum Ingibjargar Sólrúnar. Vegna yfirlýsinga hins nýendurkjörna borgarstjóra um setu sína í Ráðhúsinu út kjörtímabilið hafa árásirnar á Davíð verið gerðar undir þeim formerkjum, að hann hafi gengið fram af allri þjóðinni með því að gagnrýna féttaflutning ríkissjónvarpsins, þegar hann ræddi um kosningaúrslitin í Reykjavík og sigur R-listans.

Á sínum tíma stóðu M&M-félagar að því að stofna sérstakan Málverndarsjóð til stuðnings málfrelsinu. Að mati núverandi M&M-félaga nær þetta frelsi ekki til forsætisráðherra Íslands, þegar hann segir skoðun sína á féttaflutningi í fjölmiðlum, síst af öllu, þegar fjölmiðillinn er í eigu ríkisins. Um allan heim tjá stjórnmálamenn sig um starfshætti fjölmiðla, hvort sem þeir eru í eigu ríkisins eða annarra, skárra væri það. Í umræðum um fréttir, fréttamat og framleiðslu á fréttum á ekki ríkja nein þögn og ekki er unnt að krefjast þess af stjórnmálamönnum, að þeir þegi um það, sem þeim finnst fara miður í fjölmiðlum. Væru þessar síður mínar með öðrum hætti, ef ég léti ekki eftir mér að segja skoðun mína á fjölmiðlum!

Helgi H. Jónsson fréttastjóri hefur í málsvörn sinni vísað til þess, að skyldleiki sé með mér og Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra. Hef ég í embættisverkum mínum tekið mið af því, til dæmis sagði ég mig frá því að veita embætti útvarpsstjóra, þegar Markús Örn sótti um það. Er það raunar svo, að í öllum embættisverkum ber mér sjálfum að hafa auga á þessum þætti. Raunar eiga allir opinberir starfsmenn ávallt að hafa reglur um eigið vanhæfi í huga, hvort sem þeir starfa á Ríkisútvarpinu eða annars staðar. Á þetta ekki síst við um störf, þar sem traust, trúverðugleiki og heilbrigð dómgreind skiptir sköpum. Athygli hefur vakið, að Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi taldi eftir á, að það hefði ekki verið við hæfi að Lárus Ögmundsson, mágur Jóhönnu Sigurðardóttur, tæki þátt í fundum um málefni Landsbankans þegar rætt var um mál í tilefni af fyrirspurn Jóhönnu á Alþingi. Hefur komið fram, að yfirmenn Helga H. á útvarpinu höfðu áhyggjur af stöðu fréttastofunnar vegna stöðu Helga H. gagnvart R-listanum og var málið rætt við Helga H. en hann hafði viðvaranir að engu og gerir nú lítið úr þeim í fjölmiðlum. Í málum sem þessum er ekki unnt að alhæfa neitt heldur er nauðsynlegt að skoða hvert tilvik fyrir sig.

Umræðurnar um fréttaþjónustu sjónvarps ríkisins hafa nú leitt til þess, að fulltrúi Framsóknarflokksins í útvarpsráði, Gissur Pétursson, hefur lýst sérstöðu sinni og krafist dæma af forsætisráðherra og jafnframt sagt, að ekki sé ástæða til að skoða málið á hlutlægan hátt. Þetta er sérkennileg afstaða. Síst af öllu ættu starfsmenn á fréttastofum að vera andvígir því, að hlutlæg úttekt sé gerð og málið rannsakað til hlítar eins og útvarpsstjóri hefur boðað. Gissur er bróðir Helga Péturssonar, sem var á sínum tíma í Framsóknarflokknum en sagði sig úr honum og bauð sig nú fram á R-listanum eftir að hafa farið í prófkjör í Alþýðuflokknum.

Eftir sveitarstjórnakosningarnar hafa R-listamenn þannig verið með allan hugann við Davíð Oddsson og fréttastofu sjónvarpsins. Lindarmálið svonefnda hefur hins vegar sett enn meiri svip á fjölmiðla og sjaldan hefur verið haldinn blaðamannafundur eins og sá, sem Kjartan Gunnarsson efndi til fyrir hönd bankaráðs Landsbanka Íslands síðdegis 28. maí. Þeir, sem fylgdust með fundinum í beinni útsendingu í sjónvarpi og útvarpi, heyrðu og sáu, að Kjartan hafði fullt vald á málinu og gat svarað öllum spurningum.

Hið eina, sem menn hafa verið að velta fyrir sér eftir fundinn, er bréfið, sem Davíð Oddsson sendi Sverri Hermannssyni 21. febrúar 1996. Á blaðamannafundinum spurði Pétur Matthíasson, fréttamaður sjónvarps ríkisins: "Kannastu við að hafa fengið afrit af bréfi 21. febrúar 1996 þar sem kemur fram hverjir vissu hvað um þetta mál?" Kjartan svarar: "Afrit af bréfi, hver á að hafa sent þetta bréf?" Pétur segir: "Það get ég ekki upplýst." Kjartan leitar í bréfabók og segir ".....21 febrúar 1996. Ég hef ekki fengið neitt bréf, svo ég viti til, sem er dagsett 21. febrúar 1996. Ég hef hinsvegar sent ríkisendurskoðanda bréf 20. febrúar 1996."

Daginn eftir birtist enn ein greinin í Morgunblaðinu eftir Sverri Hermannsson, fyrrverandi bankastjóra, þar sem hann upplýsir, að 21. febrúar 1996 hafi Davíð Oddsson forsætisráðherra sent sér bréf og afrit af því til Kjartans Gunnarssonar. Þar er fjallað um vaxtastefnu Landsbankans og birt aukasetning um tapið vegna Lindar. Þegar Davíð upplýsir, að þetta hafi verið einkabréf, birtir Morgunblaðið sérstaka myndskreytta orðsendingu frá Sverri á fréttasíðu í sunnudagsblaði sínu, þar sem fram kemur, að Davíð notaði bréfsefni sitt sem forsætisráðherra og stílar bréfið til Sverris sem Landsbankastjóra og sendir afrit til Kjartans. Er sérkennilegt, ef þetta á að sanna, að ekki hafi verið um einkabréf að ræða. Hvað sem því líður er ljóst, að bréfið var ekki skráð í bréfabókina, sem Kjartan var með á blaðamannafundinum, enda snerist bréfið ekki um Lindarmálið. Enginn spyr hins vegar um það á síðum Morgunblaðsins eða annars staðar, hvernig stóð á því að Pétur Matthíasson hafði vitneskju um þetta bréf daginn áður en Sverrir birti grein sína í Morgunblaðinu. Hvaða tilgangi þjónar þessi sérkennilega leikflétta í þessu alvarlega máli?