24.5.1998

Sigur sjálfstæðismanna - kosningabaráttan - hlutur netsins

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú farið með forystu í ríkisstjórn síðan 30. apríl 1991 eða í rúm sjö ár. Davíð Oddsson hefur verð forsætisráðherra í þessi ár. Íslensk stjórnmálasaga kennir, að eftir svo langa setu í ríkisstjórn eigi flokkar frekar undir högg að sækja gagnvart kjósendum envon á auknu fylgi. Sveitarstjórnakosningarnar laugardaginn 23. maí voru sigurkosningar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann jók almennt fylgi sitt. Hanner ótvíræður sigurvegari kosninganna, þótt hið mikla markmið að velta meirihluta R-listans í Reykjavík hafi ekki náðst. Ég óska flokkssystkinummínum um allt land til hamingju með árangurinn.

Hlutverk sveitarfélaga tók stakkaskiptum á síðasta kjörtímabili. Þeim var falið stærsta einstaka verkefni sitt til þessa með því að flytja grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga. Ef illa hefði verið staðið að því að dreifa þessu valdi frá ríkinu til sveitarfélaganna, hefði það áreiðanlega verið ofarlega á dagskrá í kosningabaráttunni núna og spjótunum hefði verið beint að okkur sjálfstæðismönnum, sem stýrðum þessum verkefnaflutningi. Er ekki vafi á því, að það hefði bitnað á fylgi Sjálfstæðisflokksins í kosningunum. Ég varð ekki var við neina gagnrýni af þessu tagi, þvert á móti bar skólamálin hátt í kosningum í öllum sveitarfélögum og var rætt um þau á jákvæðum forsendum sem stórverkefni sveitarfélaga með framtíðarmarkmið í huga. Nokkrum vikum fyrir kjördag, áður en kosningabaráttan hófst, kynnti ég hina nýju skólastefnu, sem er forsenda nýrra námskráa fyrir grunnskólann og framhaldsskólann. Á fundum um allt land varð ég var við mikinn áhuga og metnað í skólamálum og er ljóst, að sjálfstæðismenn hafa um allt land lagt mikla áherslu á þau. Með þetta í huga fagna ég sem menntamálaráðherra sérstaklega velgengni sjálfstæðismanna.

Satt að segja þótti mér þau Sighvatur Björgvinsson og Margrét Frímannsdóttir, formenn A-flokkanna, grátbrosleg í sjónvarpsurmræðum á kosninganóttina svo að ég tali ekki um Guðnýju Guðbjörnsdóttur, fulltrúa Kvennalistans. Í umboði hvaða fólks talaði þetta fólk um niðurstöður kosninganna? Hvar bauð Kvennalistinn fram? Hvers vegna var Jóhanna Sigurðardóttir leiðtogi hins uppgufaða Þjóðvaka ekki þarna? Eða forystumenn annarra stjórnmálaflokka, sem hafa lagt upp laupana? Ætli þeir, sem kusu lista félaghyggjuflokkanna svonefndu hafi verið með þau Sighvat, Margréti og Guðnýju í huga? Sighvatur gerði tilraun til að skilgreina kosningarnar á þann veg að hann stæði jafnfætis Davíð Oddssyni, sem er formaður flokks með eigin lista um landið allt, en Davíð hefur óskorað umboð frá sjálfstæðismönnum til að skilgreina kosningarúrslitin á forsendum Sjálfstæðisflokksins. Sighvatur, Margrét og Guðný hafa ekkert umboð frá kjósendum hinna nýju lista. Sighvatur vildi auðvitað ekki ræða um afhroð eina listans, sem bauð fram undir bókstaf Alþýðuflokksins, það er úrslitin í Hafnarfirði. Ég heyrði ekki betur í umræðuþættinum í ríkissjónvarpinu en Helgi H. Jónsson fréttastjóri, sem stjórnaði umræðunum, gerði sér enga grein fyrir því, að Sjálfstæðisflokkurinn var að vinna góðan sigur á landsvísu.

Í grein í Morgunblaðinu á kjördag vakti ég athygli á því, að það væri á skjön við lýðræðislega stjórnarhætti, að framboð styddist ekki við stjórnmálaflokka með samþykkt stjórnskipulag, sem er lýðræðislegur öryggisventill fyrir kjósendur, þegar upp kemur hættuástand eins og hjá R-listanum vegna setu Hrannars B. Arnarsonar á listanum. Enn nálgast fjölmiðlamenn úrslitin í Reykjavík með þeim hætti, að kosningabaráttan þar hafi verið óvenjulega hörð. Baráttan var háð undir þeim formerkjum, sem eðilegt var, með hliðsjón af frambjóðendunum. Sem betur fer er það ekki algengt, að menn hafi sama fjármálaferil að baki í atvinnulífinu og Hrannar B. Arnarson. Það er þessi ferill, sem kallaði fram uræðurnar.

Sérkennilegt var að heyra Hrannar leggja út af kosningaúrslitunum í Ríkisútvarpinu síðdegis sunnudaginn 24. maí, þar sem hann sat með móður sinni til að rekja persónulegar raunir sínar í kosningabaráttunni. Hrannar fann það út, að úrslitin á landsvísu væri sérstakur stuðningur við samruna jafnaðarmanna og nefndi úrslitin í Húsavík til marks um það. Minnti það á þegar vinstrisinnar töldu það söguleg þáttaskil í stjórnmálasögunni á árinu 1990, að sambræðslulisti þeirra náði meirihluta í Hveragerði. Hrannar taldi það einnig sérstaklega ánægjulegt og til marks um sérstaka dómgreind kjósenda, að mörg þúsund þeirra vildu hafna honum í kosningunum með því að strika yfir nafn hans á R-listanum í Reykjavík!

Stjórnmálaflokkar og frambjóðendur meta úrslit kosninganna á næstu dögum og vikum. Í mörgum sveitarfélögum þurfa menn að setjast niður og semja um meirihluta. Er ljóst, að ítök sjálfstæðismanna eru mikil og góð í sveitarfélögum um landið allt. Í Reykjavík stöndum við frammi fyrir því verkefni að velja nýjan forystumann í borgarmálum, því að Árni Sigfússon hefur ákveðið að hverfa úr forystusveitinni. Vegna þess hvernig fór í kosningunum og hvernig R-listinn er skipaður er brýnna en áður, að sjálfstæðismenn veiti hinum nýja meirihluta markvisst aðhald. Með hliðsjón af útstrikunum er ljóst, að meirihluti kjósenda í Reykjavík sættir sig ekki við þá menn, sem nú skipa meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þessa stöðu þurfa R-listamenn að íhuga, þegar sigurvímann rennur af þeim.

Ekki er síður nauðsynlegt fyrir fjölmiðla að setjast niður og meta stöðu sína í ljósi kosningabaráttunnar. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er í dag sagt frá því, að blaðið hafi í hyggju að nota netið meira en áður meðal annars fyrir aðsendar greinar. Þá vill blaðið, að stjórnmálaflokkar taki upp nýja samskiptahætti við fjölmiðla. Blaðið hefur í fyrri Reykjavíkurbréfum fjallað um samskipti sín við stjórnmálaflokka og gefið til kynna, að það muni endurskoða stefnu sína í þeim málum. Nöldurgrein Bryndísar Hlöðversdóttur, þingmanns Alþýðubandalagsins, í garð Morgunblaðsins fyrir afstöðu þess í kosningabaráttunni varð tilefni heils leiðara um málið 21. maí. Var þó ekkert annað bitastætt í grein Bryndísar en það, sem vinstrisinnar eru alltaf að nöldra yfir og ætti engum að koma á óvart, að ritstjórar Morgunblaðið hafi ekki afsalað sér rétti til að segja skoðanir sínar í ritstjórnargreinum.

Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV, segir í leiðara blaðs síns 19. maí: "Flestir fjölmiðlar landsins höfðu um miðjan vetur nasasjón af þeim fjármálum borgarstjórnarframbjóðanda, sem hafa verið fyrirferðamikil í umræðunni síðustu tvær vikur. Á öllum fréttastofunum var ákveðið að láta kyrrt liggja, þar sem pólitík gat verið í spilinu." Þetta viðhorf Jónasar er merkilegt og upplýsandi, því að málið var ekki fréttnæmt nema vegna þess að pólitík kemur þar við sögu, um var að ræða fjármálaferil eins af frambjóðendunum og úrlausnarefnið var að meta, hvort treysta ætti þessum einstaklingi til að fara með fjármálastjórn sem borgarfulltrúi í Reykjavík.


Fjármál Hrannars B. Arnarsonar voru ekki til umræðu nema vegna þess að hann var að sækjast eftir trúnaðarstöðu. Nú eftir kosningar segist hann skulda kjósendum meiri skýringar á máli sínu og gefur til kynna, að hann ætli ekki að taka við trúnaðarstörfum, fyrr en það hefur verið gert. Jónas Kristjánsson kallar sameiginlega ákvörðun fjölmiðla um að segja ekki frá fjármálaferli frambjóðandans hliðvörslu, það er skömmtun þeirra á upplýsingum til lesenda sinna, hlustenda eða áhorfenda. Hann segir þessa vörslu hafa byggt á fákeppni, þar sem aðeins séu fimm fullburða fréttastofur í landinu, þær geti þagað yfir rokufréttum, sem Jónas nefnir svo. Hann segir netið gera þessa hliðvörslu úrelta. Hver einasti borgari geti sett upp eigin fréttastofu á sinni heimasíðu, nefnir hann þessa síðu mína til marks um það og bendir á, að þar gefi ég til dæmis fjölmiðlum einkunn fyrir frammistöðu. Jónas minnir á, að tveir einstaklingar hafi sprengt hliðvörsluna vegna Hrannars í loft upp og þá hafi hinir hefðbundnu fjölmiðlar tekið að fjalla um málið. Segir Jónas, að með þessum atburði ljúki hinni formlegu hliðvörslu hefðbundinna fjölmiðla, þróunin hafi gert hana úrelta, þessi gömlu fjölmiðlar geti ekki lengur þagað þunnu hljóð meðan rokufréttir leika lausum hala á netinu.

Ritstjórar Morgunblaðsins og DV hafa áttað sig á því í þessari kosningabaráttu, að netið er nýr miðill, sem þeir þurfa að hafa í huga við ákvarðanir um birtingu á efni. Morgunblaðið og DV hafa einnig tekið netið í þjónustu sína og sömu sögu er að segja um Stöð 2 og Ríkisútvarpið. Ritstjórar Morgunblaðsins og DV hafa lýst yfir að ritstjórnarstefna og ákvarðanir um birtingu efnis séu að breytast vegna reynslunnar af nýjum miðlum og þess sem gerðist í kosningabaráttunni. En hvað með fréttastjóra ljósvakamiðlanna? Hvar hafa þeir komið fram og lýst stefnu sinni? Ljóst er, að fréttir Stöðvar 2 eru mun líflegri en sjónvarps ríkisins og þar sitja menn ekki við hliðvörsluna, sem Jónas nefndi svo, með sama hætti og á ríkismiðlunum. Þurfa þessi miðlar ekki að líta í eigin barm og kanna stöðu sína í ljósi nýrra krafna? Hvernig var til dæmis hliðvörslunni í þágu R-listans eða borgarstjóra háttað? Hver stóð fyrir henni? Hvaða áhrif hafa sífellt strangari kröfur um starfshætti opinberra starfsmanna á stöðu þeirra, sem starfa á fréttastofum ríkisins?

Hér verður þessum spurningum ekki svarað. Hitt skal áréttað, sem oft hefur verið sagt á þessum síðum, að sérhver nýr samtímaatburður verður til þess, að menn átta sig betur á því en áður, hve mikil bylting í miðlun upplýsinga felst í því að nota netið. Sjálfur hef ég reynt, að pólitískir andstæðingar vilja gera þessa beinu leið til lesenda tortryggilega. Leiðin er hins vegar þess eðlis, að ekki verið að halda neinu að neinum, sem hann vill ekki sjálfur skoða.