Lokahrinan - málþófið
Enginn, sem hefur lesið pistla mína um R-listann undanfarin ár, getur velkst í vafa um afstöðu mína til þess, hvernig hann hefur staðið að stjórn Reykjavíkur. Að mínu mati hefur ríkt stöðnunarstefna í Reykjavík. Reynsla mín sem menntamálaráðherra af samskiptum við meirihluta R-listans er sú, að hann hefur ekkert frumkvæði, sérstaklega hefur þetta komið mér á óvart í menningarmálum. Mér sýnast fulltrúar R-listans alltaf leita leiða til að drepa málum á dreif, skilgreina viðfangsefni þannig, að ekki sé unnt að komast að niðurstöðu nema skoða eitthvað annað ótengt í sömu andrá. Á þetta til dæmis vel við um Listaháskóla Íslands. Inn í það mál hefur R-listinn viljað draga tónlistarkennslu í borginni og ég sé nú, að frömuðir í tónmenntamálum á borð við Stefán Edelstein eru uggandi um sinn hag, vegna þess hvernig R-listinn talar um tónlistarskólana. Sé ég ekki betur en í þeim efnum sé Reykjavíkurborg að komast í hinar mestu ógöngur.
Síðustu daga hefur komið betur í ljós en áður, að í raun leggur R-listinn ekki nein málefni á borð fyrir kjósendur. Kosningabaráttuna átti að reka í kringum persónu Ingibjargar Sólrúnar og þess skyldi gætt, að enginn frambjóðandi skyggði á hana. Þetta herbragð hefur misheppnast, því að nú hafa tveir frambjóðendur R-listans orðið frægir að endemum, þeir Helgi Hjörvar, efsti maður listans, og Hrannar B. Arnarsson, þriðji maður á listanum. Ávirðingar þeirra Helga Hjörvars og Hrannars snúast ekki um stjórnmál heldur fjármál og feril þeirra á því sviði. Nú síðustu dagana ber þetta mál hátt í fjölmiðlum annars vegar og síðan er fjallað um niðurstöður skoðanakannana hins vegar. Er það til marks um það, hve fjölmiðlun er orðin innhverf, að fyrir kosningar skuli hún í fréttatímum og á fréttasíðum helst snúast um skoðanakannanir, sem fjölmiðlarnir kaupa. Málefni og sjálfstæð úttekt fjölmiðla á þeim er í bakgrunni.
Fráleitt að saka sjálfstæðismenn um eitthvert samsæri við að upplýsa þætti úr fjármálasögu Arnarssonar og Hjörvars. Raunar á ekki að saka neinn um neitt í því sambandi, því að það við hér eins og annars staðar í lýðræðislöndum, að kjósendur eiga fullan rétt á að vita, hvert er fjármálasiðferði frambjóðenda til ábyrgðarstarfa, þar sem meðferð á fjármunum skattgreiðenda skiptir miklu. Er í raun furðulegt, að þessi mál skyldu ekki fyrr komast í hámæli. Einkum þegar til þess er litið, að þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessir ágætu menn láta verulega að sér kveða í stjórnmálum. Hrannar hreykti sér af því á sínum tíma,ef ég man rétt, að hafa úr eigin vasa kostað skoðanakönnun, sem síðan var talin kveikjan að því að það tókst að berja saman R-listann fyrir kosningarnar 1994. Hrannar var einnig í fremstu röð stuðningsmanna Jóhönnu Sigurðardóttur við stofnun Þjóðvaka, sem átti á sínum tíma að vera einskonar hreinsilögur á spillingu, ekki síst fjármálaspillingu, í íslenskum stjórnmálum. Í prófkjörinu fyrir kosningarnar núna má segja, að Hrannar hafi hrifsað Alþýðuflokkinn úr höndum þeirra, sem farið hafa með mál hans í Reykjavík frá upphafi.
Hvatinn að opinberum umræðum núna um þessa R-listaframbjóðendur eru frásagnir tveggja einstaklinga, Gísla Kr. Björnssonar og Hlyns Jóns Michelsens, hér á netinu. Minnir atburðarásin nokkuð á það, sem gerðist í Bandaríkjunum snemma á þessu ári, þegar einyrki í netfjölmiðlun skýrði frá því, að vikublaðið Newsweek hefði neitað að birta frásögn af sambandi þeirra Bills Clintons Bandaríkjaforseta og Monicu Lewinsky, sem var við starfsþjálfun í Hvíta húsinu. Setti netverjinn allt á annan endann og sökuðu ýmsir hann að sjálfsögðu um pólitíska óvild í garð forsetans eða um að vera handbendi óvina forsetans. Það hefur hins vegar ekki komið í veg fyrir, að bandarísk fjölmiðlun hefur að verulegu leyti snúist um þetta mál síðan og Bandaríkjaforseti treystir sér varla til að gefa blaðamönnum færi á að spyrja sig almennra spurninga.
Eftir að þeir Gísli og Hlynur fóru af stað með vefsíðu sína tóku aðrir fjölmiðlar nokkuð við sér. Dagur fór þó fljótt í þær stellingar, að þetta væri nú líklega ekki mjög fréttnæmt. Í leiðara hefur Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV, farið mildum orðum um þá Arnarsson og Hjörvar. Ég hef ekki haft tök á að fylgjast nægilega mikið með sjónvarpi eða útvarpi til að leggja mat á meðferð þessara miðla á málinu. Morgunblaðið hreyfði sig ekki, fyrr en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði birt opinbera yfirlýsingu um málið 10. maí að höfðu samráði við lögfræðing sinn. Í Morgunblaðinu 12. maí segir Ingibjörg Sólrún af og frá, að hún hafi hugleitt að óska eftir því við Helga Hjörvar og Hrannar B. Arnarsson, að þeir vikju af R-listanum í framhaldi af þeim ávirðingum, sem á þá hefðu verið bornar. Menn gætu kært þá, ef þeir teldu þá seka um refsivert athæfi. Sér hefði verið gerð grein fyrir því, að þeir skulduðu ekki vörsluskatta "núna", eins og það er orðað. Ingibjörg Sólrún lét undir höfðu leggjast að segja það í Morgunblaðinu 12. maí, sem kemur fram í grein hennar í sama blaði 16. maí, að laugardaginn 9. maí gerði hún samkomulag við Hrannar um, að sætti hann opinberri ákæru myndi hann víkja sæti og ekki taka þátt í störfum borgarstjórnar fyrr en málið hefði fengið farsælan endi. Þessi sveiflukenndu viðbrögð borgarstjórans minna nokkuð á fátið, sem greip um sig í Hvíta húsinu eftir að bandaríski netverjinn tók að upplýsa mál, sem fjölmiðlar höfðu ekki viljað ræða. Í Morgunblaðsgreininni 16. maí fer borgarstjóri úr einu í annað og er erfitt að henda reiður á einum þræði í grein hennar, en hún virðist helst skrifuð til að gera því skóna, að Árni Sigfússon hafi ýtt undir "óvandaða einstaklinga" til að segja fjármálasögu Arnarssonar og Hjörvars á vefsíðu sinnu. Er boðskapur borgarstjórans sá, að einhver annar sé þrjóturinn í þessari fjármálasögu en frambjóðendur R-listans. Röksemdafærslan er léttvæg en aðferðin alkunn: að drepa umræðum á dreif og neita að horfast í augu við undirrótina. Að sjálfsögðu er R-listinn ekki í þessu gjörningaveðri nema vegna þess, að það á upptök á listanum sjálfum.
Þetta mál er þannig vaxið, að ekki er unnt fyrir fjölmiðla, sem vilja standa undir nafni að láta það, sem vind um eyru þjóta. Kosningar eru vissulega ekki aðeins prófsteinn fyrir þá, sem bjóða sig fram, heldur ekki síður fyrir hina, sem taka að sér að fjalla um þær og skýra stöðu mála fyrir öllum almenningi. Munurinn er þó sá, að kjósendur vega og meta frambjóðendur en vinsældir fjölmiðla mælast í áhorfi, hlustun og eintakafjölda.
-------
Hafi stjórnarandstæðingar ætlað að slá sér upp á því með málþófi á Alþingi er ég sannfærður um, að sjaldan hafi þeir í seinni tíð gert meiri pólitísk mistök.
Í fyrsta lagi hefur þessi misnotkun á málfrelsinu sýnt okkur hinum, sem sitjum á þingi, hve fráleitar leikreglurnar eru, þegar nokkrum einstaklingum er beinlínis gefið færi á því að taka okkur í gíslngu í nafni lýðræðisins.
Í öðru lagi hefur þessi aðferð stjórnarandstæðinga ekki gert þeim málum nokkurt gagn, sem þeir hafa tekið upp á arma sína með þessum sérkennilega hætti. Þrætubókarlist af þessu tagi kallar fram stífni á báða bóga og spillir jafnvel fyrir því, að menn nái saman um það, sem þeir eru tilbúnir til að semja um við eðlilegar aðstæður. Með málþófinu er því einnig verið að vinna pólitísk spellvirki á góðum málum.
Í þriðja lagi kallar þessi málgleði á óbeit alls almennings á starfsaðferðum þingmanna. Venjulegt fólk skilur ekki, að það þjóni nokkrum tilgangi að koma í ræðustól með fangið fullt af einhverju efni, sem öllum þingmönnum er tiltækt í prentuðu formi, og standa síðan tímunum saman og lesa þessi skjöl. Málþófið dregur almennt úr virðingu almennings á störfum þingmanna.
Í fjórða lagi hlýtur að vekja undrun manna utan þings, að stjórnarandstaðan rís öndverð gegn orðum forsætisráðherra á þann veg, að endurskoða verði leikreglur á Alþingi til að hindra, að minnihlutinn geti beitt meirihlutann þessu ofríki. Hvarvetna þar sem menn starfa saman á lýðræðislegum vettvangi átta þeir sig á því, að meirihlutinn á að eiga síðasta orðið.