10.5.1998

Landsbankaumræður - siðfræði og stjórnmál

Enn hefur það gerst, að umræður um stórt mál, fara inn á allt aðrar brautir en nokkurn gat grunað. Vísa ég þar til þess, að í páskaleyfinu hættu þrír bankastjórar í Landsbankanum störfum. Hefði mátt ætla að í kjölfar þess myndu sigla miklar umræður um nýskipan í bankamálum og hvernig einn nýr bankastjóri tæki á málum og hvaða áhrif það hefði á öll störf og stefnu bankans.

Umræðurnar snúast ekki um hin miklu þáttaskil í Landsbankanum heldur hefur Sverrir Hermannsson, fráfarandi bankastjóri, gengið fram fyrir skjöldu og gefið tóninn í fjölmiðlum. Er ljóst, að enn eru ekki öll kurl komin til grafar.

Nú hafa umræður um Landsbankamálið meðal annars farið inn á þá braut, að ritstjórum Morgunblaðsins er stillt upp við vegg fyrir að birta greinar Sverris Hermannssonar vegna þess hve fast Sverrir kveður að orði. Er næsta undarlegt, þegar tveir blaðamenn velja þann kost í þessu máli, að hefja deilur um orðfæri í stað þess að líta á efni málsins. Morgunblaðið hefur ekki látið við það sitja að birta greinar Sverris heldur felur nú blaðamönnum sínum að rannsaka einstaka þætti í málflutningi hans, eins og frásögn blaðsins í dag af Kögun hf. og eignarhlut Gunnlaugs Sigmundssonar alþingismanns í fyrirtækinu sýnir.

Í Degi í gær sá Stefán Jón Hafstein ritstjóri ástæðu til að nefna mig til sögunnar, þegar hann fjallaði um hina ýmsu fleti á Landsbankamálinu og vék sérstaklega að gjaldþroti Þjóðviljans og þeim ábyrgðum, sem þar stóðu að baki, en Davíð Oddsson dró á sínum tíma athyglina að undarlegum viðskiptaháttum Landsbankans og Alþýðubandalagsins með vísan til þessara ábyrgða. Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, greip í það hálmstrá í vörn sinni fyrir viðskipti Þjóðviljans og Landsbankans, að Almenna bókafélagið hefði líka orðið gjaldþrota. Síðan sé ég, að vinstrisinnar grípa til sömu ráða og Margrét, þegar minnst er á örlög Þjóðviljans. Þetta gerir Stefán Jón í Degi og nefnir mig í sömu andrá en um tíma var ég stjórnarformaður Almenna bókafélagsins. Á þeim tíma var unnið að því að styrkja fjárhag fyrirtækisins og taka á fjárhagslegum vanda þess. Var þeirri endurskipulagningu lokið, þegar ég hætti sem formaður stjórnarinnar og hvarf úr henni. Því miður tókst ekki að byggja félagið upp að nýju á þessum grunni og fór það síðan til gjaldþrotaskipta, en þá hafði ég ekki setið í stjórn þess í nokkur misseri. Var ýtarlega fjallað um þetta í fjölmiðlum á sínum tíma. Er ljóst, að margir töpuðu fjármunum vegna gjaldþrotsins, en AB hafði ekki gert neina sambærilega samninga við Landsbankann og Alþýðubandalagið um Þjóðviljann, raunar var Landsbankinn ekki viðskiptabanki Almenna bókafélagsins í minni tíð. Stefán Jón kvartar undan því, að Sverrir Hermannsson vegi að sér með orðfæri sínu en hikar ekki sjálfur við að draga nöfn manna inn í Landsbankaumræðurnar án þess að hafa nokkrar efnislegar forsendur fyrir því, tilgangurinn virðist sá einn að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Háskólapólitík er oft miklu hatrammari en hin hefðbundna pólitík. Þess vegna er oft næsta undarlegt, þegar háskólamenn taka sér fyrir hendur að flytja siðaprédikanir yfir stjórnmálamönnum. Er það gjarnan gert með því að tala niður til stjórnmálamanna eða með því að gera þá tortryggilega á forsendum, sem eiga að vera hlutlægar eða fræðilegar, en eru í raun aðeins byggðar á huglægu mati eða pólitískri andstöðu.

Datt mér þetta í hug, þegar ég las Rabb Vilhjálms Árnasonar prófessors í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 9. maí, þar sem hann leitast við að gera hlut Davíðs Oddssonar forsætisráðherra gagnvart Íslenskri erfðagreiningu hf. tortryggilegan og þar með stuðning Davíðs við frumvarpið um gagnagrunna á heilbrigðissviði annarlegan og jafnvel ólýðræðislegan. Dregur Vilhjálmur ályktanir sínar af því, að Davíð sat á milli þeirra Kára Stefánssonar frá Íslenskri erfðagreiningu hf. og fulltrúa Hoffmann La Roche í Perlunni, þegar ritað var undir samning þessara fyrirtækja hinn 2. febrúar síðastliðinn. Þá ályktar prófessorinn einnig út frá þátttöku Davíðs, þegar Macdonalds opnaði matsölustað hér á landi, en á sínum tíma rabbaði umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins líka um það og hneyklaðist á þátttöku forsætisráðherra. Hvetur prófessorinn til þess, að fjölmiðlar rannsaki nánar málið, af því að hugmyndir hafi verið uppi um að afgreiða gagnagrunnafrumvarpið á Alþingi án þess að unnt yrði að ræða það til hlítar utan Alþingis. Segir prófessorinn umbúðalaust, að í frumvarpi til laga um gagnagrunna á heilbrigðissviði sé einstaklingsfrelsi og mannhelgi kastað fyrir róða. Spyr prófessorinn að lokum, hvað valdi þögn fjölmiðla um málið og telur það hættulegt lýðræðinu, ef Davíð Oddsson sé hafinn yfir gagnrýni. Til að færa pólitískan málflutning sinn gegn forsætisráðherra í fræðilegan búning nefnir prófessorinn "grófgerða nytjastefnu" til sögunnar og telur hana siðferðilega óverjandi fyrir þá sök að henni sé ekkert heilagt. Undir þetta hugtak fellur sú almenna viðleitni stjórnmálamanna að auka hagvöxt og bæta lífskjör.

Að sjálfsögðu þarf ekki frumvarpið um gagnagrunna á heilbrigðissviði til að kalla fram það viðhorf vinstrisinna, að ekki beri að leggja áherslu á hagvöxt og efnahagslega farsæld. Kvennalistinn notaði þau rök til dæmis gegn áformum um frekari stóriðju í landinu. Allir sjá, hvert sá flokkur stefnir, þegar mælt er fylgi meðal kjósenda. Innan Alþýðubandalagsins heyrast þær raddir líka alltaf öðru hverju, að hagvöxtur sé af hinu illa, þótt þar sé jafnframt krafist betri kjara fyrir launþega. Þegar rætt er um stöðu Íslenskrar erfðagreiningar og afstöðu stjórnvalda til þess fyrirtækis er fráleitt að gera hana tortryggilega á forsendum Vilhjálms Árnasonar eða í anda árása hans á forsætisráðherra og gagnrýni fyrir ólýðræðislega stjórnarhætti. Hvernig væri, að prófessorinn kynnti sér það, sem alþingismenn hafa sagt um málið og hvernig ríkisstjórnin og þingnefnd hafa staðið að meðferð þess og lýsti afstöðu sinni til þess? Forsendurnar þurfa að vera málefnalegri en þær, að forsætisráðherra sat milli tveggja manna í Perlunni 2. febrúar 1998!