2.5.1998

Kosningaskjálfti - ríkisstjórnarafmæli - Þýskaland

Þótt aðeins séu þrjár vikur til sveitarstjórnakosninga, er varla farið að draga til neinna tíðinda í kosningabaráttunni. Er vonum fyrr, að kosningaskjálfta fari að gæta, svo að línur skýrist og kjósendur geti betur áttað sig á því, hvað skilur á milli flokka og frambjóðenda. Á síðustu stundu áður en framboðsfrestur rann út í Reykjavík kom fjórði listinn þar til sögunnar, undir forystu Maríasar Sveinssonar, vagnstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Í samtali við Dag 30. apríl segir Marías: "Við erum öll R-listafólk en við viljum breyta áherslunum." Blaðið segir jafnframt í forsíðufrétt sinni um listann: "Að honum standa m. a. fulltrúar úr röðum aldraðra, íbúasamtaka, launafólks, leigjenda, námsfólks, atvinnurekenda og samtaka um jafnaðarstefnu. Þetta fólk á það sammerkt að vera óánægt með áherslur R-lista og vænir hann m. a. um láglaunastefnu, yfirgang og ofríki í garð borgarbúa á kjörtímabilinu."

Augljóst er, að R-listinn lendir í nýrri stöðu vegna þessa framboðs samtaka um jafnaðarstefnu. R-listamenn verða nú að verjast á báðar hendur. Er líklegt, að offorsið í garð nýja listans verði mikið og talað verði niður til þess fólks, sem býður sig fram í nafni hans. Vinstrisinnar hika aldrei við að gera lítið úr þeim, sem snúast gegn þeim. R-listinn er líka þekktur fyrir annað en hógværð, telur hann það til dæmis sérstaka hamingju fyrir Reykjavík, að hún lúti R-listastjórn.

Er þó ekki minnsti vafi um, að það yrði Reykjavík til hnignunar og mikilla vandræða, ef meirihluti vinstrimanna héldi áfram að stjórna borginni. Staðreynd er, að á síðustu fjórum árum höfum við Reykvíkingar búið áfram að þeim krafti og stórhug, sem einkenndi stjórnartíð sjálfstæðismanna. Eftir fjögurra ára R-lista stjórn hefur stöðugt dregið úr þessum krafti og ekkert nýtt komið til sögunnar, í besta falli hefur tekist að halda í horfinu. Hvar eru nýmælin? Vaxtarbroddurinn á höfuðborgarsvæðinu er ekki heldur lengur í Reykjavík, hann hefur flust í Kópavog. Fréttir berast meira að segja um, að beðið sé næturlangt við borgarskrifstofur til að krækja sér í lóð undir íbúðarhús í Reykjavík. R-listinn ætlar síðan að eyðileggja Geldingarnesið, sem er kjörið fyrir næstu fallegu stórbyggð Reykvíkinga.

Nái R-listinn að halda meirihluta sínum verður breytist stöðnun síðustu fjögurra ára í afturför. Hið sama á eftir að gerast í borgarmálum og landsmálum, að vinstri menn sitja á meðan þeim endast einhverjir fjármunir fyrir eyðslustefnu sína í krafti aukinnar skattheimtu og síðan verður kallað á Sjálfstæðisflokkinn til að gera hreint og koma málum á réttan kjöl aftur. Undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar hefur embættiskerfi borgarinnar til dæmis stækkað og allar boðleiðir eru orðnar mun lengri en áður. Hin beinu tengsl stjórnmálamanna við borgarbúa hafa minnkað. Skrifræðið heldur áfram að vaxa haldi R-listinn völdum.

Til að breiða yfir aðgerðarleysi sitt hefur R-listinn valið þá leið að heyja kosningabaráttuna með skóflustungu- og gróðursetningarferðum borgarstjórans. Þær eru að sjálfsögðu tíundaðar í fjölmiðlum með tilheyrandi myndum. Held ég, að það hafi tekist, sem ég nefndi fyrr á þessu ári í einhverjum pistla minna, að hafa að minnsta kosti einn viðburð í viku, þar sem borgarstjóri væri með skóflu eða vígsluskjal í hendi í fjölmiðlunum. Meira að segja þótti sérstökum tíðindum, að nýtt tölvubókhaldskerfi skyldi tekið í notkun í Ráðhúsinu!

Minnast má ramakveinanna í vinstri flokkunum á sinni tíð, þegar þeir töldu sjálfstæðismenn beita þessari skóflu- og vígsluaðferð freklega í kosningabaráttu sinni, fullyrði ég þó, að sjálfstæðismenn höfðu ekki tærnar, þar sem R-listinn og núverandi borgarstjóri hefur hælana. Þá hefur fjölmiðlun breyst á örfáum árum á þann veg, að einfaldir atburðir af þessu tagi eiga miklu greiðari leið inn í fréttatíma eða á síður blaðanna en málefnaleg úttekt á störfum stjórnmálamanna og skýringar á meginstraumum stjórnmálanna.

Í þessari viku, hinn 30. apríl 1998, voru til dæmis sjö ár liðin síðan Davíð Oddsson myndaði fyrsta ráðuneyti sitt. Hvergi varð ég var við, að fjölmiðlar teldu þetta fréttnæmt í sjálfu sér. Hefur þó enginn setið lengur samfellt sem forsætisráðherra á lýðveldistímanum en Davíð, faðir minn Bjarni Benediktsson hafði áður setið samfellt lengst á forsætisráðherrastóli frá 14. nóvember 1963 til 10. júlí 1970. (Hinn 30. apríl sl. minntist fjölskylda mín þess, að faðir minn hefði orðið níræður og sé ég, að ritstjórar Vef-Þjóðviljans http://www.treknet.is/andriki/thjodvil.htm hafa einnig munað eftir deginum.)

Hefði verið fróðlegt að sjá einhvern bera saman þróun Sjálfstæðisflokksins og vinstri flokkanna á þeim sjö árum, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú samfellt farið með forystu við stjórn landsmála. Augljóst er, að flokkurin hefur haldið sínu sem stjórnmálaafl á sama tíma og vinstri flokkarnir hafa klofnað eða sameinast til skiptis og í raun hætt að treysta sér til að bjóða fram undir flokksmerkjum í Reykjavík og æ fleiri sveitarfélögum. (Nú virðist R-listinn tekinn að klofna, þannig að hann er haldinn sömu uppdráttarsýkinni og aðrar stjórnmálahreyfingar vinstrisinna. Er líklega eitthvert gen í vinstri hreyfingunni, sem veldur því, að hún er alltaf að skiptast og renna saman, Jóhanna Sigurðardóttir og félagar hennar eru ágætir fulltrúar þessarar uppdráttarsýki. Þeirra tími kemur, ef þeir geta bent á misfellur í opinberum rekstri, en stjórnmálastefna jafnaðarmanna byggist á því, að slíkur rekstur sé sem mestur!)

Forystumenn þriggja vinstri flokka hafa horfið af vettvangi stjórnmálanna á þeim sjö árum, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt landstjórnina: Steingrímur Hermannsson Framsóknarflokki í Seðlabankann, Ólafur Ragnar Grímsson Alþýðubandalagi á Bessastaði og Jón Baldvin Hannibalsson Alþýðuflokki til Washington. Verður ekki annað sagt en þeir hafi kvatt stjórnmálin og komið sér bærilega fyrir persónulega, þótt pólitísk arfleifð þeirra sé ekki til fyrirmyndar. Þeir hafa ekki skilað arftökum sínum betra búi en þeir sjálfir fengu í hendur á sínum tíma.

Augljóst er, að enginn núverandi forystumanna í andstæðingaliði Sjálfstæðisflokksins er sjálfkjörinn til þess að leiða sameinaðan flokk þessara stjórnmálaafla nema ef vera skyldi Ingibjörg Sólrún. Þess vegna er eðlilegt með vísan til yfirlýsts pólitísks vilja vinstrisinna um að sameinast gegn Sjálfstæðisflokknum að spyrja: Ætlar Ingibjörg Sólrún að hverfa til starfa í landsmálum fyrir næstu þingkosningar vorið 1999? Ríkissjónvarpið birti fyrir jól viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu í fréttatíma til að slá á þessar umræður. Þær halda hins vegar áfram, því að vinnstrisinnar ýta undir þær með yfirlýsingum sínum um, að Ingibjörg Sólrún sé svar þeirra við Davíð Oddssyni. Hann er hins vegar ekki í framboði til borgarstjórnar í Reykjavík!

Framsóknarflokkurinn er í sérkennilegri stöðu gagnvart þessum stórpólitísku hræringum. Hann er eiginlega beggja vegna við borðið, því að annars vegar á hann samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn og hins vegar við aðra flokka gegn Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.

Nú er það að sjálfsögðu ekki neitt nýtt, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn glími í sveitarstjórnum, þótt flokkarnir starfi saman í ríkisstjórn. Hitt er nýtt, að framsóknarmenn eru í samstarfi í Reykjavík, sem hefur það að markmiði að þurrka út stjórnmálaflokkana, sem starfa undir merkjum R-listans. Kvennalistinn er horfinn, Alþýðubandalagið er að hverfa og Alþýðuflokknum hefur verið stolið, því að fulltrúar hans á framboðslista R-listans eru alls ekki úr Alþýðuflokknum! Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, gerir sér vel grein fyrir hættunni fyrir flokk sinn, eins og fram kom í yfirlýsingum hans á liðnum vetri. Hvað ætla framsóknarmenn að gera, þegar lagt verður að Ingibjörgu Sólrúnu að sækja fram á landsvísu undir merkjum félagshyggju og jafnaðarstefnu? Ætla þeir að berjast gegn henni þar en styðja hana sem borgarstjóra í Reykjavík? Hvaða áhrif halda menn, að slík tvöfeldni hefði á Framsóknarflokkinn og sérstaklega fylgi þingmanna hans í Reykjavík?

Fyrri hluta vikunnar var ég í Þýskalandi og fylgdist meðal annars í sjónvarpi með talningu í þingkosningunum í Sachsen-Anhalt , þar sem hvorgur stóru flokkanna í landinu, CDU kristilegir demókratar og SPD sósíalistar, fengu það fylgi, sem þeir væntu. CDU tapaði miklu fylgi en SPD hlaut ekki þá fylgisaukningu, sem vænst var. Flokkur manna yst til hægri, sem bauð þarna fram í fyrsta sinn, DVU, fækk tæplega 13% atkvæða. Blaðaútgefandi í München stendur á bakvið þennan flokk og er málum þannig háttað, að frambjóðendur flokksins geta tæplega komið fram í fjölmiðlum og greint frá stefnu hans. Kosningabarátta flokksins byggist á því, að gífurlegum fjármunum er varið til auglýsinga og slagorðin eru krassandi gegn útlendingum, glæpum, atvinnuleysi og í þágu Þýskalands.

Ekki er enn ljóst, hvaða stjórn verður mynduð í Sachsen-Anhalt, en þreifingar hafa verið milli CDU og SPD. Sósíalistar voru í meirihlutasamstarfi á síðasta kjörtímabili í þessu sambandslandi með græningum, sem nú féllu út af þingi. Á SPD ekki annars kost en að taka upp samstarf við PDS, gamla kommúnistaflokkinn í A-Þýskalandi, vilji flokkurinn mynda meirihlutastjórn án CDU. SPD-menn eru ekki hrifnir af PDS og síst af öllu vegna komandi kosninga til sambandsþingsins í september nk. þar sem sósíalistar ætla að fella Helmut Kohl. Yrði það sósíalistum ekki til framdráttar á landsvísu, ef bent yrði á, að þeir ætluðu að mynda meirihlutastjórn með fyrrverandi kommúnistum.

Ástæðan fyrir því, að ég vek máls á þessum hræringum í Þýskalandi hér er sú, að blöð og fjölmiðlar þar vörðu miklu rými til að segja hinar pólitísku fréttir og skilgreina baksvið þeirra og hlutskipti einstakra stjórnmálamanna. Í íslenskum fjölmiðlum er varla neitt slíkt efni að heyra, sjá eða lesa lengur. Raunar er það Sverrir Hermannsson bankastjóri, sem veldur helst öldugangi núna í fjölmiðlunum. Sér ekki enn fyrir endann á framgöngu hans. Heggur hann af miklum þunga á bæði borð. Er spurning, hvort honum tekst með skrifum sínum og þeirri miklu athygli, sem þau fá, að beina umræðunum um Landsbankann inn á nýjar brautir. Sverrir telur af miklu að taka og ekki beri að hlífa neinum við uppgjör á þessum vettvangi. Hefur hann nú sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum til að geta betur barist fyrir hugsjónum sínum í kvótamálum og gegn Finni Ingólfssyni viðskiptaráðherra.