Fundaferð um nýja skólastefnu - kosningabarátta í Reykjavík
Þáttaskil urðu í hinni gífurlega miklu námskrárvinnu í vikunni, Þegar ráðuneytið sendi frá sér höfuðatriði nyju skólastefnunnar, sem lögð verður til grundvallar á lokaáfanganum, þegar útfærsla sjálfra námskránna hefst. Bæklingurinn Enn betri skóli - Þeirra réttur, okkara skylda er sendur á hvert einasta heimili í landinu og laugardaginn 7. mars hóf ég fundaferð um landið til að ræða stefnuna við alla, sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkum umræðum. Ég legg áherslu á, að við erum hér að ræða tillögur en ekki endanlegar ákvarðanir. Þær verða ekki teknar fyrr en viðbrögð almennings liggja fyrir og þau hafa verið metin. Að meirihluta voru það kennarar og aðrir ábyrgðarmenn á skólastarfi, sem sóttu fundinn á Egilsstöðum. Komu fram margar gagnlega fyrirspurnir og ábendingar.
Almennt er ég mjög ánægður með þau viðbrögð, sem hafa orðið síðan ég kynnti stefnuna formlega á blaðamannafundi í nýjasta framhaldsskólahúsinu, það er í Fjölbrautaskóla Garðabæjar, klukkan 15. 15 miðvikudaginn 4. mars. Því nefni ég tímasetninguna svona nákvæmlega, því að mér er sagt, að Morgunblaðið hafi birt frásögn af málinu í netblaði sínu klukkan 16.15 á meðan ég var enn að ræða við fréttamenn ljósvakamiðlana í Garðabæ en þaðan var ég kominn í menntamálaráðuneytið rúmlega 16.30 og fór þá á fund um málið með starfsfólki ráðuneytisins, um klukkan 17.30 settist ég við tölvuna í skrifstofu minni og hafði þá fengið fyrsta tölvubréfið um hina nyju skólastefnu frá námsmanni í Stokkhólmi, sem hafði lesið um blaðamannafund minn á netblaði Morgunblaðsins. Þetta sýnir glöggt, hve hraðinn er orðinn mikill í fjölmiðlun og boðmiðlun milli manna og landa.
Áður en til blaðamannafundarins kom hafði ég kynnt bæklinginn Enn betri skóli fyrir forystumönnum kennarasamtakanna, forráðamönnum Heimilis og skóla, skólastjórnendum og formanni Sambands ísl. sveitarfélaga auk þess sem blaðamenn höfðu með óformlegum hætti fengið tækifæri til að kynna sér einstaka þætti málsins.
Greinilegt er, að sumir telja, að í birtingu stefnunnar felist framkvæmd hennar. Svo er ekki. Hér eru dregin fram aðalatriði til umræðu. Hinar nýju námskrár verða væntanlega fullbúnar næsta haust og síðan þarf að minnsta kosti 3 ár til að hrinda þeim í framkvæmd. Mér finnst að höfundar sumra tölvubréfa telji, að þegar hafi verið gengið frá einstökum þáttum. Til dæmis hef ég fengið tvö bréf frá sérfræðingum í lesblindu, sem vilja að vísu ekki nota það hugtak, um þann ágalla, sem nefndur er dyslexia á erlendum málum. Spyrja þeir, hvaða próf það eru sem við ætlum að leggja fyrir 6 ára börn til að kanna við upphaf skólagöngu, hvort þau eru haldin þessum ágalla. Í stefnunni segir, að allir eigi rétt á því að láta börn sín ganga undir próf af þessu tagi en ekki að öll börn skuli prófuð. Sérfræðinefnd hefur þegar fjallað um þetta mál og verður tekið mið af tillögum hennar. Nú hef ég skipað sérstakan hóp til að vinna að málinu. Þróunin á þessu sviði er mjög ör og er ætlunin að nyta hin bestu úrræði, þegar gengið verður til þess að bjóða þessi próf, sem verður hluti af framkvæmd námskránna. Of snemmt er að lofa því núna, að þessi þjónusta standi öllum opin við upphaf skólaárs næsta haust.
-------
Vala Flosadóttir stangarstökkvari og Szyzrba. hinn pólski þjálfari hennar, komu hingað til lands að kvöldi þriðjudagsins 3. mars í boði menntamálaráðuneytisins og fórum við Rut út á flugvöll til að taka á móti þeim. Með vélinni voru fleiri góðir íþróttamenn, sem höfðu verið á Evrópumótinu í Valencia á Spáni, þeirra á meðal var Jón Arnar Magnússon, sem hafði sett Norðurlandameð í tugþraut. Strax á flugvellinum kom í ljós, hve ungir Íslendingar eru miklir aðdáendur Völu, því að við landganginn biðun hennar börn með blöðin sín og báðu hana um að rita nafn sitt, sem hún gerði með mikilli ánægju. Lét hún ekki nægja að rita nafn sitt heldur teiknaði einnig litla mynd af stangarstökkvara.
Að kvöldi 4. mars buðum við Völu sem heiðursgesti í kvöldverð í Ráherrabústaðnum ásamt föður hennar og voru þar einnig forráðamenn úr íþróttahreyfingunni auk ymissa sem hafa starfað að íþróttamálum fyrir mig í ráðuneytinu. þá voru þar einnig forystumenn úr Vesturbyggð, heimabyggð Völu á Bíldudal, og afhentu þeir henni fagran grip. Ég sá í Degi, að þar var gefið til kynna, að ég hefði haldið kvöldverðarboðið í tilefni af átaki íþróttahreyfingarinnar gegn fikniefnum og þess vegna hafi ekki verið við hæfi, að menn dreyptu á freyðivíni, þeir, sem það vildu, fyrir máltíðina. Hér var um kvöldverð til heiðurs Völu að ræða og var hann með hátíðlegu sniði. Við þetta tækifæri tilkynnti ég Völu, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að syna henni virðingu með því að styrkja hana með 500 þúsund krónum. Tilviljun réð því, að sama dag kynnti íþróttahreyfingin hið ágæta forvarnarstarf sitt. Að Dagur skuli blanda þessu tvennu saman ber aðeins lélegri blaðamennsku vitni, þar sem menn nenna ekki að hafa fyrir því að afla sér upplysinga um mál til að hafa það, sem sannara reynist.
Að kvöldi fimmtudagsins 5. mars fór ég með Sigríði Sól dóttur minni og Heiðari sambylismanni hennar í Laugardalshöllina, þar sem keppt var í stangarstökki kvenna og hástökki karla. Urðum við þar vitni að spennandi og skemmtilegri keppni. Vala bar sigur úr bítum og eftir að keppni lauk hópuðist tugir ef ekki hundruð krakka að henni til að fá áritun hennar. Er Vala augljóslega fyrirmynd margra og spái ég því að vegur stangarstökks eigi eftir að vaxa.
Vala dvelst hér til þriðjudagsins 10. mars og er mikill aufúsugestur margra. Hún er eins og flestir sem ná mjög langt ekki að slá um sig með neinum bægslagangi heldur gengur að sínu af lítillæti, festu og alvöru með það í huga að ná góðum árangri. Orðin sem hún mælti við upphaf forvarnarátaks íþróttahreyfingarinnar og þegar hún þakkaði fyrir sig í Ráðherrabústaðnum voru ekki mörg, en þau komu frá hjartanu og sögðu allt, sem segja þurfti. Mættum við sem sífellt erum að tala um allar jarðir hafa þá gullnu reglu hugfasta að segja ekki meira en við þurfum en láta þá jafnframt koma í ljós, að hugur fylgi máli.
Fyrir utan kynnin við Völu þótti mér ekki síður ánægjulegt að ræða við hinn hressa og skemmtilega þjálfara hennar. Hann er ákaflega vingjarnlegur og ljómar af góðmennsku. Hlytur að vera ómetanlegt fyrir Völu að hafa slíkan mann við hliðina á sér í erfiðri keppni víðsvegar um heiminn.
------
Í síðasta pistli gat ég um deilur þeirra Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar og Svavars Gestssonar í Degi. Guðmundur Andri upplysti í fyrri viku, að hann teldi Alþýðubandalagið vera pólitískri öndunarvél og enn kæmi súrefni þess helst frá Keflavíkurstöðinni og sjúklingurinn hresstist mest, þegar hann hann teldi sig geta beint spjótum sínum gegn Bandaríkjastjórn. Guðmundur Andri svaraði hinni lélegu svargrein Svavars sl. þriðjudag og þar kom fram, að þrátt fyrir ítrekaðar óskir hefðu forráðamenn Alþýðubandalagsins látið undir höfuð leggjast að taka Guðmund Andra af flokksskrá sinni. Skýringin á hinu mikla áfalli Svavars vegna fyrri greinar Guðmundar Andra felst kannski í því, að Svavar yljar sér við gamlar flokksskár, þegar metur stöðu Alþýðubandalagsins. Hann lifir enn í fortíð flokksins, enda hefur Svavar alltaf brugðist við hinn versti, þegar hann er spurður um uppgjör við hina kommúnísku fortíð Alþýðubandalagsins.
Í grein sinni 3. mars segir Guðmundur Andri: "...stærð og áhrif Alþýðubandalagsins í íslenskum stjórnmálum [er] afleiðing þessa [bandaríska] hers; í þann flokk söfnuðust allir þeir sem vildu herinn burt, ekki síst vegna hins taumlausa undirlægjuháttar sem forystumenn krata sýndu. ... Í kjarna flokksins voru gamalsósíalistar, kommar mótaðir af rétttrúnaði þyskra kommúnista frá millistríðsárunum.." Guðmundur Andri segir hermálinu lokið og þeir herstöðvaandstæðingar hafi tapað. Lesandanum er þar með ljóst, að Alþýðubandalagið hefur tapað tilverugrundvelli sínum. Guðmundur Andri segir flokkinn margklofinn og allt sé málamiðlun, sem frá honum komi, nema auðvitað þegar komi að málefnum, þar sem auðvelt sé að vera róttækur.
Steingrímur J. Sigfússon, varaformaður Alþýðubandalagsins, ritar grein í Dag 3. mars, þar sem hann segist undrandi á því, hve "geðvonskulegur svo ekki sé beinlínis sagt óþverralegur" samsetningur Guðmundar Andra hafi verið 24. febrúar. Vandar Steingrímur J. Guðmundi Andra ekki kveðjurnar og skrifar til hans með sama yfirlætisfulla hætti og hann notar gjarnan í ræðum sínum á þingi, þegar menn "dirfast" að ræða inntak stefnu Alþýðubandalagsins, fortíð þess og framtíð.
Ari Skúlason, starfsmaður ASÍ, ritar grein í Dag 4. mars og kynnir sig þar sem framkvæmdastjórnarmann í Alþýðubandalaginu. Fylgir greininni 3ja dálka mynd af Svavari Gestssyni með þessum texta eftir Ara: "Mér finnst svar Svavars við grein Guðmundar Andra vera dæmigert fyrir viðbörgð úr innsta kjarna flokksins. það eru sumir sem hafa meiri þekkingu og umráð en aðrir yfir stefnu flokksins." Ari segist hafa gengið úr Alþýðubandalaginu en síðan í það aftur. Hann segir um kosningastefnu flokksins vorið 1995, sem mótuð var af Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi flokksformanni: "Ég hef alltaf talið að útflutningsleiðin [kosningastefnan 1995] hafi verið hrein della og léleg tilraun til þess að flyja veruleikann. Margir forystumanna flokksins hafa reyndar viðurkennt þetta í spjalli í minni hópum." Ari segir, að skoðanagæsluhópurinn innan Alþýðubandalagsins, sem er enn á móti NATO, hernum, EES og Bandaríkjunum, hafi komið í veg fyrir, að flokkurinn viðurkenndi augljósa kosti aðildarinnar að EES.
Ég ætla hvorki að rekja þessar deilur frekar né minnast á minni spámenn, sem hafa verið að narta í Guðmund Andra. Kannski fer nú af stað hið löngu tímabæra uppgjör á störfum og stefnu Alþýðubandalagsins, sem er óhjákvæmilegt, til þess að flokkurinn sé marktækur alvöruþátttakandi í stjórnmálastarfi líðandi stundar. þegar ég hvatti til slíks uppgjörs fyrir síðustu alþingiskosningar meðal annars í umræðum á Alþingi var því svarað með hefðbundnum hroka og flissi í þingsölum. Hvorki Svavar Gestsson né Steingrímur J. Sigfússon geta lengur barið hausnum við steininn og látið eins og Alþýðubandalagið sé marktækt á meðan stefna þess er tímaskekkja, af því að súrefni öndunarvélarinnar er sótt í andrúmsloft kalda stríðsins.