28.2.1998

TIMSS - Sjómannaskólahúsið - Þingvellir - kommauppgjör

Við Rut fórum til London í nokkra daga í kringum síðustu helgi þannig að ég skrifaði ekki vikulegan pistil vegna þess. Við snerum aftur mánudaginn 23. febrúar og þá hófst lokaundirbúningur hjá mér undir útgáfu á bæklingnum Enn betri skóli, sem menntamálaráðuneytið sendir inn á hvert heimili í næstu viku. Þar er gerð grein fyrir helstu atriðum, sem setja svip sinn á nýjar aðalnámskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla, sem nú eru í smíðum og að komast á lokastig. Er það ætlun mín að reyna að virkja sem flesta í umræðum um innra starf skóla og markmið þess með þessari kynningarherferð, sem er einstæð hér á landi. Verða birtar auglýsingar í sjónvarpi til að vekja meiri athygli á framtakinu og einnig ætla ég að fara á fundi víða um land og ræða málið með embætismönnum ráðuneytisins.

Þriðjudaginn 24. febrúar voru birtar niðurstöður í TIMSS-könnun á framhaldsskólastigi, það er niðurstöður í alþjóðlegri könnun á kunnáttu framhaldsskólanemenda í náttúrufræði og stærðfræði. Komu íslenskir nemendur mjög vel út þessari könnun og sagði Reuters-fréttastofan, að þeir hefðu orðið þriðju í röðinni. Er það mun betri útkoma en í könnun á kunnáttu grunnskólanema, þar sem við vorum hinir fjórðu að neðan. Þegar þær niðurstöður voru birtar ráku menn upp ramakvein. Nú eru margir, sem ekki vilja gleðjast yfir þessari nýju niðurstöðu og ganga lærðir og leikir fram fyrir skjöldu til að lýsa yfir því, að könnunin sé bara plat og þá helst að því er varðar stöðu okkar Íslendinga. Kemur þetta heim og saman við það, sem ég hef oft haft á orði hér á þessum síðum, að sumir vilja alls ekki ræða um íslenska menntakerfið nema með því forgildi, að það sé á vonarvöl og síst til þess fallið að koma nokkrum til nokkurs þroska. Við skulum minnast þess, að TIMSS-könnunin er unnin af alþjóðlegum aðilum, sem hafa heiður að verja og vegið er að þeim, þegar sagt er að niðurstaðan sé ekki marktæk. Þeir setja mál sitt fram með þeim hætti, að árangur íslenskra nemenda er með því besta sem gerist. Það eru ekki íslenskir aðilar, sem setja málið fram með þessum hætti.

Stöð 2 ræddi málið við sama dag og skýrslan birtist og síðan Morgunblaðið og DV. Ég varð ekki var við mikla umfjöllun um málið í ríkissjónvarpinu en fréttastofa hljóðvarps ríkisins gerði nokkuð úr málinu sérstaklega þeirri hlið þess, að brottfall úr framhaldsskólum hér væri óvenjulega mikið. Rannsóknir, sem unnar hafa verið fyrir nefnd menntamálaráðuneytisins um símenntun, sýna hins vegar, að heldur dregur úr brottfalli. Þá sýna fjárveitingar til framhaldsskólanna, sem byggjast á tölu nemenda í þeim, ekki þetta háa brottfall, sem nú er gert að helsta umtalsefninu. Með þessum orðum er ég ekki að segja, að ástæðulaust sé að ræða þennan þátt málsins, heldur hitt, að á honum eru margar hliðar. Ekki varð ég var við það, að fréttastofur RÚV væru að reyna að ná sambandi við mig vegna þessa máls. Hins vegar heyrði ég í einhverjum útvarpsþætti að vitnað var til þeirra orða minna í Morgunblaðsviðtali, að könnunin sýndi, að grunnnámið þyrfti að bæta. Rökstuddi ég það með því til dæmis, að ákveðið hefði verið að hefja kennslu sex ára barna í grunnskóla án þess að ákveða, hvað þar skyldi kennt með nýrri námskrá.

Ég sé ekki betur en þær áherslur, sem við kynnum í bæklingnum Enn betri skóli séu í samræmi við margar ábendingar skólamanna um það, sem betur má fara að þeirra mati eftir athugun á TIMSS-könnuninni. Verður spennandi að sjá, hvernig umræður þróast á komandi vikum og hvort tillögum okkar verði tekið með sama neikvæða viðhorfinu og einkenndi umföllun ýmissa fjölmiðlamanna um TIMSS:

Í pistlum dagsettum og 08.11.97 hér á síðunum má sjá það, sem ég hafði á þeim tíma að segja um Sjómannaskólahúsið og afnot Kennaraháskóla Íslands af því. Vegna tillagna minna í því efni hljóp mikill hiti í marga og stofnuð voru sérstök hollvinasamtök. Nú sér fyrir endann á þessari rimmu vegna þess, að Þórir Ólafsson rektor Kennaraháskólans hefur ásamt skólastjórum Stýrimannaskólans og Vélskólans kynnt mér tillögur, sem koma til móts við sjónarmið mín, án þess að skólarnir flytji. Ættu áhugamenn um sjómannamenntun í Sjómannaskólahúsinu þá að anda léttar. Ég hef samþykkt að þessi nýja tillaga verði skoðuð til hlítar, kostur hennar er meðal annars sá, að nú liggja fyrir hugmyndir um breytingar á innréttingum í Sjómannaskólahúsinu, sem valda því, að markvisst er unnt að ráðast í endurbætur á því eftir því, sem fé fæst til verksins.

Þingvallanefnd, þar sem við Guðni Ágústsson og Össur Skarphéðinsson sitjum, hefur markvisst unnið að því undanfarna mánuði að semja tillögur um stækkun þjóðgarðsins og efndum við fimmtudaginn 26. febrúar til fundar með sveitarstjórnamönnum um málið á Borg í Grímsnesi. Gekk fundurinn vel og vona ég, að þess verði ekki langt að bíða, að Davíð Oddsson forsætisráðherra leggi fram frumvarp á Alþingi á grundvelli þessara tillagna.

Ég vil vekja sérstaka athygli þeirra, sem hafa áhuga á vandræðagangi gamalla sósíalista, á tveimur greinum í Degi í vikunni. Vísa ég þar annars vegar til dálks Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar þriðjudaginn 24. febrúar, þar sem hann færir rök fyrir því, að bandaríski herinn á Keflavíkurflugvelli sé öndunarvél Alþýðubandalagsins og hún hafi tekið kipp, þegar deilurnar um Saddam Hussein stóðu sem hæst og Alþýðubandalagiðs skipaði sér við hlið hans. Hin greinin er svar Svavars Gestssonar, formanns þingflokks Alþýðubandalagsins, og birtist það í Degi 26. febrúar. Mætti ætla að Svavar hafi næstum misst andann við að lesa grein Guðmundar Andra og átta sig á þeirri yfirlýsingu hans, að hann hefði sagt skilið við Alþýðubandalagið fyrir nokkrum árum. Hef ég ekki lesið jafnslæma grein eftir Svavar lengi, sem er til marks um, hve honum hefur brugðið. Hljóta Svavar og skoðanabræður hans að naga sig í handabökin yfir því að hafa ekki gert upp við fortíðina á sínum tíma, hún eltir þá eins og grein Guðmundar Andra sýnir og ræður mestu um, að Alþýðubandalagið verður að halda áfram að lifa, hvað sem öllu sameiningartali líður.