15.2.1998

Halldór Laxness - þingmál - gleði Röskvu

Fréttin um andlát Halldórs Kiljans Laxness barst að morgni mánudagsins 9. febrúar, en hann andaðist kvöldið áður að Reykjalundi. Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 13.15 þennan sama mánudag til að ræða stöðuna í sjómannaverkfallinu. Þar var jafnframt staðfest, að útför Halldórs færi fram á vegum ríkisstjórnarinnar og sagðist forsætisráðherra þegar hafa rætt það við frú Auði Laxness, ekkju skáldsins. Síðdegis þennan mánudag var Halldórs minnst á Alþingi með hnitmiðuðu og fallegu ávarpi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra en um kvöldið flutti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ávarp í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna.

Þegar um opinberar útfarir er að ræða, tekur forsætisráðuneytið að sér umsjón þeirra og framkvæmd í samvinnu við aðstandendur. Að þessu sinni var öðru vísi háttað en jafnan áður, því að í samræmi við katólska trú sína var það ósk Halldórs að sálumessa yrði sungin yfir honum í Kristskirkju. Gekk það að sjálfsögðu eftir. Fór athöfnin fram klukkan 13.30 laugardaginn 14. febrúar og var sjónvarpað og útvarpað frá henni. Veðrið var heldur leiðinlegt, kaldur vindur blés á Landakotstúni og gekk á með dálitlum éljum. Skömmu áður en athöfnin hófst, þegar allir kirkjugestir höfðu sest í sæti sín, dró ský frá sólu og í örskamma stund varð altarið og kirkjuskipið allt að einum sólskinsbletti. Hafði þetta sterk áhrif á mig líkt og þegar svanir fóru í oddaflugi yfir mannfjöldan á Þingvöllum 17. júní 1994, rétt áður en hátíðarfundur Alþingis hófst til minningar um 50 ára afmæli lýðveldisins. Fyrr á öldum hefðu slíkir atburðir líklega verið taldir til jarteikna. Að lokinni hinni hátíðlegu en látlausu sálumessu bauð ríkisstjórnin til erfidrykkju í Súlnasal Hótel Sögu.

Fjölmiðlar gerðu minningu Halldórs Laxness að sjálfsögðu góð skil, þó sérstaklega Morgunblaðið og sjónvarp ríkisins. Halldór Guðmundsson, útgáfustjóri hjá Máli og menningu, vann að því á síðasta ári að gera þætti um Halldór Laxness fyrir sjónvarp. Hann nýtti sér það efni, sem ríkissjónvarpið á í fórum sínum og fékk síðan ýmsa einstaklinga til að segja álit sitt á verkum Halldórs auk þess sem Auður Laxness og fjögur börn Halldórs koma fram í þáttunum þremur, sem eru um klukkstund hver, og voru sýndir þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Voru þættirnir einmitt að mestu fullbúnir skömmu fyrir andlát skáldsins og var einstakt að fá tækifæri til að sjá þá í þessari viku. Minntu þættirnir á það hlutverk sjónvarpsins að láta taka ýtarleg viðtöl við merka samtíðarmenn, þó ekki væri nema til varðveislu fyrir síðari tíma. Hitt er jafnframt ljóst, að góðir viðtalsþættir, þar sem spyrjandi og viðmælandi eru vel undirbúnir er ekki verra sjónvarpsefni en hvað annað. Þróunin hefur því miður verið í þá átt hér, að menn setja öllu slíku efni svo þröng tímamörk, að samtölin verða á stundum hvorki fugl né fiskur. Umfjöllun Morgunblaðsins var ótrúlega glæsileg og yfirgripsmikil og endurspeglaði mikla virðingu Matthíasar Johannessens ritstjóra fyrir Laxness.

Laugardaginn 14. febrúar gaf Morgunblaðið út sérstakt blað helgað minningu Halldórs Kiljans Laxness og þar birtust meðal annars eftirfarandi minningarorð eftir mig:

"Á hinum fáu dögum, sem liðnir eru frá andláti Halldórs Kiljans Laxness hafa Íslendingar verið rækilega minntir á það, hve víða hann bar hróður lands og þjóðar. Hans er minnst í öllum menningarlöndum austan hafs og vestan sem eins af fremstu rithöfundum aldarinnar. Upprifjun á hinum litríka æviferli skáldsins í Gljúfrasteini hefur einnig beint athyglinni að því, hve óþreytandi hann var að kynna lesendum sínum strauma og stefnur líðandi stundar. Halldór Laxness var ekki skáld, sem dró sig í hlé í átökum samtímans. Hann lifði og hrærðist í þeim og verk hans endurspegla hlutdeild hans. Jafnframt var hann fjarlægur á sinn sérstaka hátt og áhrifamáttur hans var oft frekar óbeinn en beinn.

Í sögunni skýra menn þróun á einstökum öldum með vísan til lífs og starfa einstaklinga. Halldór Laxness verður eitt af skærustu leiðarljósunum við mat á Íslandssögu tuttugustu aldarinnar. Enn verður deilt um stjórnmálaafskipti hans og viðhorf til þeirrar stjórnmálastefnu, sem reis og hrundi á meðan hann lifði. Sá þáttur úr úr lífi hans hverfur ekki frekar en bókmenntirnar, sem halda nafni hans á loft.

Engum Íslendingi hefur hlotnast sami alþjóðlegi heiður og Halldóri Laxness. Þegar hann hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum staðfesti hann gagnvart allri heimsbyggðinni, að höfundur á tungu fámennrar þjóðar getur staðið jafnfætis við þá, sem rita á eitthvert heimsmálanna. Hann var þá og verður um ókomin ár verðugur fulltrúi hinnar aldalöngu íslensku bókmenntahefðar. Verður það aldrei metið til fulls, hvaða gildi viðurkenning hans hafði og mun hafa fyrir íslensku þjóðina, þegar hún skilgreinir sig sjálf í samanburði við aðrar fjölmennari þjóðir. Í upplýsinga- og þekkingarsamfélaginu, þar sem menntun og menning skiptir meira máli fyrir farsæla þróun þjóða en nokkru sinni fyrr, verður fordæmi Halldórs Laxness enn mikilvægara en áður. Áhrifa hans mun því ekki síður gæta á 21. öldinni en þeirri, sem nú rennur sitt skeið.

Við kveðjum í dag sannan heimsborgara, sem hvarf þó aldrei frá uppruna sínum. Halldór Laxness sýndi betur en nokkur annar, hvernig virkja má alþjóðlega strauma með höndum íslensks listamanns og búa til verk, sem eru rammíslensk en hafa þó sterka alþjóðlega skírskotun. Slík afrek verða ekki unnin án óbilandi kjarks, elju og listrænnar snilldar.

Ég færi frú Auði Laxness, afkomendum skáldsins og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Halldórs Laxness."

Í þætti Stöðvar 2 Ísland í dag að kvöldi þriðjudagsins 17. febrúar hittumst við Árni Bergmann, fyrrverandi ritstjóri, og ræddum um Halldór Laxness og stjórnmál.

-------

Vikan hófst á því, að ríkisstjórnin ákvað að leggja fram frumvarp um frestun sjómannaverkfallsins með lögum. Síðdegis mánudaginn 9. febrúar kom málið fram á þingi og þurfti afbrigði frá þingsköpum til að það kæmist á dagskrá. Er skemmst frá því að segja, að stjórnarandstaðan samþykkti ekki afbrigðin og frestaðist meðferð þingsins á frumvarpinu þá um tvær nætur. Með þessu gekk stjórnarandstaðan þvert á allar hefðbundnar leikreglur á Alþingi, en hið einkennilega var, að strax eftir að það lá fyrir, að meðferð málsins frestaðist var eins og stjórnarandstæðingar sæju að sér, að minnsta kosti talaði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Alþýðubandalagsins og formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, á þann veg.

Þriðjudaginn 10. febrúar kom ríkisstjórnin saman í Ráðherrabústaðnum klukkan 17.00 til að afhenda Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, brjóstmynd af henni, sem Vigdís afhjúpaði við þessa athöfn. Strax að henni lokinni hittumst við ráðherrarnir á fundi í Ráðherrabústaðnum og þar var kynnt bréf frá sjómannasamtökunum, þar sem vísað er til frumvarps ríkisstjórnarinnar og lýst yfir vilja til að fresta sjómannaverkfallinu. Var þessu bréfi fagnað og ákveðið að frumvarpið um frestun verkfallsins yrði dregið til baka, kæmu aðilar vinnudeilunnar sér saman um frestunina. Gekk það síðan eftir miðvikudaginn 11. febrúar og lét flotinn úr höfn klukkan 23 þá um kvöldið.

Miðvikudaginn 11. febrúar svaraði ég tveimur spurningum á Alþingi, annars vegar frá Kristínu Ástgeirsdóttur um tónlistarhús og hins vegar frá Kristni R. Gunnarssyni um olympíska hnefaleika. Fyrra málið er í markvissri vinnslu hjá VSÓ-ráðgjöf og stýrihópi með fulltrúum ríkis, Reykjavíkurborgar og Hótel Sögu. Jafnframt hefur verið leitað til erlendra sérfræðinga. Er ljóst, að hér þarf að rísa hús, sem veitir Sinfóníuhljómsveit Íslands viðunandi starfsaðstöðu. Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið aflað gagna vegna olympískra hnefaleika og ég bað sérstaka nefnd um eflíngu íþróttastarfs um að veita mér umsögn um málið. Taldi hún að Íþrótta- og Olympíusamband Íslands, Íþróttanefnd ríkisins og læknasamtökin ættu að fjalla um málið og láta í ljós álit sitt á því. Jafnframt minnti ég alþingismenn á þá staðreynd, að bannið við hnefaleikum frá 1956 átti upptök sín hjá tveimur þingmönnum og lögin voru samþykkt að frumkvæði þeirra en ekki ríkisstjórnarinnar. Hér er ekki um flokkspólitískt mál að ræða og hafi þingmenn áhuga á að afnema lögin frá 1956 er á þeirra valdi að flytja um það frumvarp og afgreiða það.

Föstudaginn 13. febrúar voru þrjú lagafrumvörp frá mér tekin til fyrstu umræðu á Alþingi og lauk henni. Þar var í fyrsta lagi frumvarpið um lögverndun starfsréttinda kennara og skólastjóra í grunnskólum og framhaldsskólum. Urðu nokkrar umræður um það ákvæði frumvarpsins, að stytt verði þau námskeið í kennslufræðum, sem framhaldsskólakennarar með sérstaka fagmenntun eða langa starfsreynslu í iðngreinum, úr 30 einingum í 15. Svavar Gestsson, þingflokksformaður Alþýðubandalagsins, hafði flest á hornum sér eins og venjulega, þegar skólamál eru á dagskrá Alþingis. Nú eru bráðum sjö ár síðan Svavar lét af störfum menntamálaráðherra og hefur hann greinilega ekki enn unnið bug á söknuðinum við að missa ráðherrastólinn. Virðist hann raunar mest undrandi yfir því, að skólastarf þróist og dafni þrátt fyrir áhrifaleysi hans sjálfs og sárastur verður hann, þegar ég segi, að samstarf mitt við kennara og forystumenn þeirra sé að mínu mati með miklum ágætum, þótt ekki séum við endilega sammála um allt. Telur hann yfirlýsingar mínar til marks um svo mikla forherðingu, að ekkert þýði að ræða þessi mál við mig á Alþingi. Margt bendir til þess, að Svavar sé í einskonar sjálfheldu á Alþingi og innan Alþýðubandalagsins. (Einkennilegustu stjórnmálafréttirnar eru jafnan þær, þegar formaður Alþýðubandalagsins, Margrét Frímannsdóttir, telur það sérstakan stórsigur fyrir sig, að tillögur hennar nái fram að ganga í miðstjórn flokksins eða annars staðar á flokksvettvangi. Endurpeglar þessi léttir flokksformannsins átök hennar við Svavar og fleiri innan Alþýðubandalagsins.)

Föstudaginn 13. febrúar lauk einnig fyrstu umræðu um frumvarp til laga um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingarsjóð og frumvarp til íþróttalaga. Var íþróttalagafrumvarpinu sérstaklega vel tekið af þingmönnum.

---------

Kosningar til Stúdentaráðs Háksóla Íslands (SHÍ) verða 19. febrúar. Fékk ég í hendur kosningablað Röskvu og sé, að þar ríkir mikill fögnuður yfir mörgu af því, sem ég hef beitt mér fyrir sem menntamálaráðherra. Er greinilegt, að Röskva telur það sér helst til framdráttar í kosningabaráttunni að hampa því, sem hefur verið að gerast í málefnum námsmanna og háskóla á Alþingi undanfarna mánuði.

Minni manna í stjórnmálum er misjafnlega mikið. Rifji menn hins vegar upp stóru orðin, sem forystumenn Röskvu höfðu um Lánasjóð íslenskra námsmanna fyrir um það bil tveimur árum eða fyrir kosningar til SHÍ á síðasta ári og niðurstöðuna í LÍN-málinu á Alþingi sl. vor, munu margir vafalaust undrast það núna, að Röskva er í sjöunda himni yfir stöðunni í málefnum LÍN. Um þetta leyti á síðasta ári fjallaði ég mjög um málefni LÍN hér á þessum síðum mínum og geta menn þar kynnst ágreiningi mínum við forystumenn Röskvu á þeim tíma. Í ljósi þeirra deilna, niðurstöðunnar á Alþingi og afstöðu Röskvu núna, tel ég, að það séum við stjórnmálamennirnir, sem tókum á málinu og leystum það, sem eigum að fagna. Talið var, að LÍN-deilan gæti eyðilagt stjórnarsamstarfið og trúnaðarbresturinn milli námsmanna og ríkisstjórnarinnar spillti fyrir á mörgum sviðum. Þessu mikla ágreiningsefni hefur nú verið ýtt til hliðar og allir eru sáttir um niðurstöðuna. Telur Röskva sig raunar hafa unnið sigur í málinu og segir lækkun endurgreiðslubyrðinnar hafa verið eitt stærsta baráttumál sitt. Þetta mál setti ég hins vegar á oddinn og taldi það miklu mikilvægara fyrir námsmenn en höfuðkröfu Röskvu um svonefndar samtímagreiðslur.

Menntamálaráðuneytið lagði til í fjárlögum, að fjárveitingar til Landsbókasafns Íslands- Háskólabókasafns yrðu auknar til að safnið gæti verið opið lengur, einnig lagði ráðuneytið til, að nýr fjárlagaliður yrði til við Háskóla Íslands til stuðnings rannsókna- eða framhaldssnámi. Telur Röskva hvoru tveggja sér til tekna, einnig hitt, að fjárveitingar til Háskóla Íslands aukist um 110 milljónir króna að raungildi á þessu ári.

Ágreiningur Röskvu við mig snýst um það, að ég skuli hafa bent á nauðsyn þess, að hér á landi sé rætt um skólagjöld á háskólastigi eins og gert er í öðrum löndum. Blair og Verkamannaflokkurinn í Bretlandi hafa ákveðið að leggja á skólagjöld til að tryggja, að háskólar geri veitt auknum fjölda nemenda góða menntun. Við keppum hér á landi í vaxandi mæli við háskóla, sem eru fjármagnaðir með þessum hætti. Þeir,. sem vilja góða háskóla, geta ekki skorast undan því að ræða þetta mál til hlítar. Á hinn bóginn veit ég ekki til þess, að nokkurs staðar í heiminum hafi samtök námsmanna gengið fram fyrir skjöldu og mælt með skólagjöldum. Sú staðreynd bannar hins vegar ekki umræður um málið á vettvangi stjórnmála og háskóla. Röskva kýs síðan að rangtúlka nýsett lög um háskóla á þann veg, að þau heimili skólagjöld. Svo er ekki, því að lögin eru hlutlaus að þessu leyti. Þá er Röskva einnig andvíg því, að menntamálaráðherra skipi tvo menn í háskólaráð og vill fela Hollvinasamtökum Háskóla Íslands það verkefni. Í mínum huga brýtur sú hugmynd í bága við þær kröfur, sem á að gera til stjórnmálamanna, að þeir velji menn í nefndir, stjórnir og ráð og verði kallaðir til ábyrgðar á Alþingi eða kosningum. Hollvinasamtök Háskóla Íslands verða aldrei kölluð til ábyrgðar með sama hætti og engin trygging er fyrir því, að þau verði í sjálfu sér ópólitískari en menntamálaráðherra, sem er að sjálfsögðu hollvinur Háskóla Íslands eins og annarra skóla.