Málflutningur borgarstjóra - þrjú frumvörp
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri í Reykjavík, svaraði hinn 4. febrúar í Morgunblaðinu grein minni í sama blaði frá 31. janúar um afstöðu R-listans til Listaháskóla, svaraði ég síðan borgarstjóra að nýju í blaðinu 6. febrúar. Í stuttu máli snýst deilan um afstöðu R-listans og borgarstjóra til listnáms í Reykjavík. Reykjavíkurborg hefur stutt við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík. Að hluta til veita þessir skólar háskólamenntun í listum, þótt það hafi ekki verið formlega viðurkennt. Áður en R-listinn komst til valda, tók fulltrúi borgarstjórnar Reykjavíkur þátt í stefnumótun vegna Listaháskóla og á því starfi byggjast hugmyndir um aðild Reykjavíkur að skólanum. Eftir að R-listinn fékk meirihluta hafa borgarstjóri og starfsmenn hennar leitast við að skjóta sér undan þessu samkomulagi. Vakti ég athygli á þeirri staðreynd í fyrri Morgunblaðsgreininni í tilefni af því, að í prófkjöri R-listans slógu ýmsir frambjóðendur um sig á þeirri forsendu, að Reykjavík hefði orðið að háskólaborg undir stjórn R-listans. Tel ég það hreint öfugmæli.
Í svari borgarstjóra vakti stíllinn sérstaka athygli mína. Ingibjörg Sólrún setur sig á háan sess og talar niður til mín eins og annarra viðmælenda sinna. Nægir í því efni að benda á aðra svargrein hennar í Morgunblaðinu 5. febrúar við grein Ingu Jónu Þórðardóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, vegna þess að borgarstjóri klúðraði áformum um að borgin keypti Englaborg, húsið þar sem Jón Engilberts listmálari bjó. Er næsta óvenjulegt orðið, að stjórnmálamenns setji sig í þessar stellingar, þegar þeir taka þátt í opinberum umræðum. Er óhætt að fullyrða, að Ingibjörg Sólrún skeri sig úr að þessu leyti og mundu vafalaust einhverjir telja það til marks um, að völd hennar sem borgarstjóri hafi stigið henni til höfuðs. Líklega er sú skýring ekki rétt, því að þessi stíll er í sjálfu sér ekki nýmæli, þegar litið er til stjórnmálaþátttöku Ingibjargar Sólrúnar og sver stíllinn sig í ætt við þá áráttu vinstrisinnaðra menntamanna, að telja sig yfir aðra hafna og setur málflutningur af þessu tagi einnig sterkan svip á afstöðu "kjaftastéttanna", sem Kristján Kristjánsson prófessor nefnir svo í fróðlegum og skemmtilegum Lesbókargreinum sínum um postmodernista. Segir Kristján, að virðulegir vísindamenn og heimspekingar kunni að draga dár að póstunum, sem þeir kalli svo og líki þeim "jafnvel við flórkýr er sletti halanum án hugdeifingar í allar áttir."
-----
Síðastliðinn fimmtudag voru lög fram þrjú frumvörp frá mér á Alþingi.
Tvö þeirra eru endurflutt. Það er í fyrsta lagi frumvarp til íþróttalaga. Eftir að það var lagt fram til kynningar á Alþingi síðastliðið vor var samþykkt tillaga til þingsályktunar um eflingu íþrótta. Í samræmi við hana skipaði ég nefnd til að vinna að því máli og skilaði hún áliti í desember sl. Meðal þess sem nefndin kannaði sérstaklega var frumvarpið til íþróttalaga og fyrir endurflutning þess hefur verið tekið mið af umsögn nefndarinnar. Lagt er til að fjölgað verði í íþróttanefnd ríkisins, bætt við fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga annars vegar og íþróttaskor Kennaraháskóla Íslands hins vegar. Einnig er tekið af skarið um að Íþrótta- og Olympíusamband Íslands sé æðsti aðili hinnar frjálsu íþróttahreyfingar í landinu og gagnvart útlöndum.
Hitt endurflutta frumvarpið er um lögverndun starfsréttinda kennara og skólastjórnenda. Þar er meðal annars mælt fyrir um minni kröfur til náms i uppeldis- og kennslufræðum fyrir þá, sem eru vel menntaðir í faggreinum, eða hafa öðlast meistararéttindi og mikla starfsreynslu í iðngreinum og kenna í framhaldsskólum. Mætti þetta andstöðu kennarasamtakanna, hins vegar gafst ekki tími til að ljúka afgreiðslu málsins á þingi sl. vor.
Loks lagði ég fram frumvarp til laga um listskreytingar í opinberum byggingum og Listskreytingasjóð en þar er tekið á álitaefnum, sem snerta ekki síst hagsmuni myndlistarmanna. Er farið inn á nýja braut, að því er nýjar byggingar ríkisins varðar og mælt fyrir um framlög á fjárlögum í Listskreytingasjóð til að skreyta þær byggingar, sem þegar hafa risið.
Þá er rétt að geta þess, að ríkisstjórnin samþykkti við afgreiðslu á frumvarpi fjármálaráðherra um áfengisgjald að lög um skemmtanaskatt skyldu felld úr gildi. Hefur þessi skattheimta verið inni á borði menntamálaráðherra, enda andvirði skattsins átt að renna til menningarmála. Að mínu mati er hins vegar löngu tímabært að fella þennan skatt niður, hefur hann runnið sitt skeið í mörgu tilliti og samræmis ekki lengur hugmyndum um jafnræði.