Alþýðuflokkurinn hverfur - rangfærslur í Stúdentanblaði
Merkilegasta niðurstaðan í prófkjöri R-listans í Reykjavík er, að Alþýðuflokkurinn er orðinn að engu í höfuðborginni. Hann hefur einfaldlega verið hrifsaður úr höndum þeirra, sem hafa haldið starfi flokksins úti síðan 1916. Menn, sem aldrei hafa starfað innan flokksins, nýttu sér prófkjörsreglur R-listans til að ná sætum Alþýðuflokksins á framboðslistanum í Reykjavík. Hér á ég við þá Hrannar B. Arnarson og Helga Pétursson. Hinn fyrrnefndi segist vera óháður, hann er ekki einu sinni í Alþýðflokknum. Hinn síðarnefndi komst upp á kant við forystu Framsóknarflokksins, eftir að Steingrímur Hermannsson lét þar af störfum og er því einskonar pólitískur flóttamaður, sem gekk í Alþýðuflokkinn til að geta haldið áfram að skipta sér af stjórnmálum í Reykjavík.
Kvennalistinn hefur ekki lifað R-listann af og hið sama er nú að gerast með Alþýðuflokkinn í Reykjavík. Hann er að gufa upp. Eðlilegt er, að umræður um þetta setji ekki svip sinn á ummæli frambjóðenda R-listans um prófkjörúrslitin, þeir draga athyglina að jákvæðari hlutum. Hins vegar hlýtur við þessa niðurstöðu að koma los á marga gamalgróna krata í Reykjavík og þeir að velta fyrir sér, hvers vegna þeir eigi að leggja R-listanum lið, lista framsóknarmanna og Alþýðubandalags, það er lista, sem Alþýðubandalagsmenn fagna sérstaklega sem sterkum lista fyrir sig. Þeir harma að vísu, að Árni Þór Sigurðsson skuli hafa fallið úr öruggu sæti. Kemur það í sjálfu sér ekki á óvart, eftir að hafa fylgst með málflutningi hans.
Vil ég minna á þá skoðun mína, sem ég hef áður hreyft hér á síðunni, að framsóknarmenn hljóti að velta fyrir sér, hvaða erindi þeir eiga í þennan hóp nema sem varahjól undir vagn sameiningarsinna, en forysta flokksins er á móti sameiningu vinstri manna. Flokksstarf framsóknarmanna í Reykjavík er í mikilli hættu vegna þessa.
------
Ég hef hér áður rætt um hinar furðulegu leiðara í Stúdentablaðinu eftir Björgvin G. Sigurðsson, ritstjóra þess. Hann skrifar í síðasta blað leiðara undir fyrirsögninni: Yfir moldum menntakerfis og hefst hann á þessum orðum:
"Nú þegar frumvarp til laga um Háskóla liggur fyrir í sinni endanlegu mynd er ljóst að öll stóru loforðin sem féllu fyrir síðustu alþingiskosningar um byltingu í menntamálum hafa verið svikin. Aldrei hafði öðrum eins úrbótum verið lofað í einum málaflokki og um menntamál og aldrei hafa svikin verið meiri. Allar forsendur eru uppi í þjóðfélaginu til að efna loforðin en ekkert gerist. Háskóli Íslands er á þvílíkri heljarþröm fjársveltis að jafnvel dyggustu stuðningsmönnum stjórnarherranna ofbýður."
Ritstjórinn kallar stjórnarherrana níðhögga háskólans og "niðurrifsmenn á ögurstundum"(!) Hann segir, að í góðærinu sé ungu fólki nánast gert ókleift að mennta sig og leiðaranum lýkur með þessum skáldlegu bjartsýnisorðum: "Við háskólafólki og öllum hugsandi mönnum blasir varnarbarátta fyrir framtíð þjóðarinnar því að útför íslenska menntakerfisins er í leiðinni útför þjóðarinnar allrar. Jósku heiðarnar verða ekki lengur vond minning úr forneskju heldur blákaldur veruleiki komandi kynslóða."
Líklegt er, að höfundur þessa leiðara trúi því, sem hann er að skrifa. Þeir, sem vita betur, hljóta að staldra við og spyrja sig, hvers vegna í ósköpunum forystusveit Stúdentaráðs Háskóla Íslands telur sér sæma, að þetta rugl sé birt í hennar nafni.
Stúdentablaðið kom út eftir áramótin en frumvarpið að lögum um háskóla var sanþykkt á Alþingi 18. desember 1997 og lögin gengu í gildi 1. janúar 1998. Er með ólíkindum, að því sé haldið fram í blaði stúdenta, að þessi lög veiki forsendur háskólastarfs. Hið gagnstæða er rétt. Nýju háskólalögin styrkja allar forsendur fyrir starfi háskóla, auka sjálfstæði þeirra og sjálfstjórn, treysta réttarstöðu nemenda og leggja grunn að nýjum samskiptaháttum skólanna í fjárhagslegu tilliti við ríkisvaldið. Forystumenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands hlupu illilega á sig í gagnrýni sinni á frumvarpið og er hinn vanhugsaði leiðari Stúdentablaðsins angi af þeim meiði.
Í nýju lögunum er ekki fjallað um fjáveitingar til Háskóla Íslands. Alþingi tekur ákvarðanir um þær með afgreiðslu fjárlaga. Hafa staðreyndir þess máls farið fram hjá ritstjóra Stúdentablaðsins. Hinn 21. janúar birtist stutt klausa í Degi, þar sem rætt er við Ingjald Hannibalsson, formann fjármálanefndar háskólaráðs. Hann segir:
"Háskólinn fékk 110 milljónir króna í raunaukningu á nýafgreiddum fjárlögum frá Alþingi. Þar af voru 50 milljónir vegna kennslu- og vísindadeilda, 35 milljónir vegna framhaldsnáms, 15 milljónir vegna bóka- og tímaritakaupa og 10 milljónir vegna reksturs fasteigna. Þessar auknu fjárveitingar bæta auðvitað stöðu skólans. Deildir eru hins vegar misvel settar. Sumar hafa farið yfir fjárveitingar undanfarin ár og aðrar ekki, en það má frekar gera ráð fyrir að ástandið verði betra innan skólans 1998 en var á árinu 1997."
Þessi ummæli Ingjalds ganga þvert á dómsdagsspána í leiðara Stúdentablaðsins. Sanna þau enn frekar, að ritstjóri blaðsins hefur enga hugmynd um það, hvernig staðið er að málefnum Háskóla Íslands eða annarra háskóla í landinu.
Þetta sama tölublað Stúdentablaðsins var notað til að gefa þá mynd, að Reykjavík væri sérstök háskólaborg undir stjórn R-listans og var fambjóðendum í prófkjöri hans gefið tækifæri til að segja skoðun sína á því. Ég vek athygli á því í Morgunblaðsgrein 31. janúar að með hliðsjón af afstöðu R-listans til Listaháskóla í Reykjavík séu ekki sterk rök fyrir því að tala um hana sem háskólaborg.
Dagbók
Mánudagur 26. janúar
Klukkan 17.00 var ég í sal sjálfstæðismanna í Grafarvogi með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarfulltrúi og sátum við þar til klukkan 19.00 og ræddum við gesti um þau málefni, sem þeir vildu ræða. Menntamál bar í sjálfu sér ekki hátt en þeim mun meira var rætt um samgöngumál. Er augljóst, að íbúar í Grafarvogi telja borgaryfirvöld ekki hafa staðið vel að því undanfarin ár að tryggja hagsmuni íbúanna þar.