25.1.1998

Clinton - netið

Atburðarásin í Washingon síðustu daga hefur verið með miklum ólíkindum. Enn sér ekki fyrir endann á raunum Bills Clintons forseta vegna kvennamála hans. Um helgina hefur hann kallað vini og stuðningsmenn til Hvíta hússins í því skyni að ræða stöðu sína og leggja á ráðin um næstu skref. Sagt er að Hillary forsetafrú hafi tekið stjórn mála í eigin hendur og hún hafi forystu um að leitast við að beita vörn í sókn fyrir eiginmann sinn.

Hér verður ekki lagður dómur á efni þessa máls. Það á eftir að skýrast betur næstu daga.

Að kvöldi laugardagsins 17. janúar ákváðu ritstjórar bandaríska vikuritsins Newsweek að birta ekki frásögn eftir blaðamann sinn Michael Isikoff um Lewinsky og Clinton. Ákvörðun ritstjóranna spurðist út og Matt Drudge, fréttamaður í lausamennsku í Washington, sagði frá deilunum innan Newsweek og skýrði frá efnisatriðum málsins í fréttabréfi, Drudge Report, á heimasíðu sinni18. janúar 1998. Geta menn lesið það á netinu. Newsweek hefur brugðist við þessari hlið málsins á heimasíðu sinni og lýst í smáatriðum framvindu málsins. Í sunnudagsblaði Washington Post 25. janúar, sem einnig er á netinu, er unnt að lesa mjög greinargóða lýsingu á framvindu málsins og atburðunum í Washington.

Lögfræðingar Paulu Jones, sem er í málaferlum við Clinton og sakar hann um kynferðislega áreitni, leituðu með logandi ljósi í Washington að konum, sem kynnu að hafa lent í svipuðum sporum og Paula. Sú leit bar þann árangur, að þeir komust á snoðir um Lewinsky og þar gegndi Linda R. Tripp, sem hóf störf í Hvíta húsinu hjá George Bush í apríl 1990 en hélt áfram eftir að Clinton náði kjöri í nóvember 1992. Hætti Tripp í Hvíta húsinu í ágúst 1994 og hóf störf í varnarmálaráðuneytinu, Pentagon, en þangað réðst Lewinsky til starfa í apríl 1996, eftir að hún hafði verið í starfsþjálfun í Hvíta húsinu síðan í júní 1995 en þegar hún kom þangað var hún 21 árs. Lewinsky hætti í Pentagon 26. desember 1997.

Hinn 11. ágúst 1997 segir Tripp frá því í Newsweek, að 1993 hafi Kathleen E. Willey, sjálfboðaliði í Hvíta húsinu, sagt sér, að Clinton hefði áreitt sig kynferðislega. Hefur Willey staðfest þetta í yfirheyrslum vegna Jones-málaferlanna. Ekki er fullljóst, hvernær lögfræðingar Paulu Jones náðu tengslum við Lewinsky en um miðjan desember höfðu hún og Tripp verið boðaðar til yfirheyrslu í Jones-málinu. Hinn 7. janúar 1998 leggur Lewinsky fram þann vitnisburð í Jones-málinu, að hún hafi ekki verið í kynferðislegu sambandi við forsetann. Tripp er kölluð til að bera vitni í Jones-réttarhöldunum og fer mánudaginn 12. janúar 1998 til fundar við lögfræðinga sína til að búa sig undir vitnaleiðslurnar. Hún hafði föstudaginn áður sent lögfræðingunum segulbönd sem hafa að geyma símtöl hennar við Lewinsky, tók Tripp símtölin upp með leynd, áður en ljóst var, að þær stöllur yrðu kallaðar fyrir í Jones-málinu, en þar gefur Lewinsky til kynna, að forsetinn og vinur hans Vernon Jordan lögfræðingur hafi ráðlagt henni að neita því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við forsetann. Lögfræðingar Tripp vilja, að böndin fari til Clintons, sem þá yrði knúinn til að semja um málið. Tripp reiðist þessari tillögu og hringir í rannsóknarmenn Starrs. Þá tekur málið nýja stefnu. Tripp og Lewinsky hittast um hádegisbil daginn eftir, 13. janúar, á veitingastað nálægt Pentagon en fyrir fund þeirra höfðu FBI-menn sett hlerunarbúnað á Tripp Tveir FBI-menn hlera samtal þeirra og taka af þeim myndir úr leynd. Hinn 14. janúar hittast konurnar aftur og aka saman heim frá Pentagon í bílnum lætur Lewinsky Tripp hafa skjal, þrjár vélritaðar síður, talpunkta eða minnisblað, sem hún vill að Tripp noti til að styðjast við i vitnaleiðslunni vegna Jones-málsins. Vitnisburður Tripp yrði þá forsetanum í hag enda myndi Tripp breyta frásögn sinni um Kathleen Willey. Ekki er ljóst, hver samdi þessi blöð en efni þeirra þykir þess eðlis, að ólíklegt sé að Lewinsky hafi samið textann. Þarna hafi með öðrum orðum einhverjir lagt á ráðin um að hindra framgang réttvísinnar með röngum framburði. Tripp og Lewinsky hittast aftur 16. janúar að undirlagi FBI og þá koma FBI-lögreglumenn á vettvang samkvæmt fyrirmælum frá Starr, sem hafði fyrr um daginn fengið heimild dómsmálaráðuneytisins til að láta rannsókn sína vegna Whitewater ná til Jordans lögfræðings og meintra tilrauna hans til að hindra framgang réttvísinnar. Tripp hefur ekki borið vitni í Jones-málinu og Lewinsky hefur ekki enn verið kölluð til yfirheyrslu hjá Starr en FBI hefur gert húsleit hjá henni og tekið ýmis enkagögn hennar og tölvu í sína vörslu.

Ég set þessi atriði hér saman til að glöggva sjálfan mig á þessari atburðarás, sem kann að leiða til afsagnar Bill Clintons Bandaríkjaforseta. Forsetinn er í mjög erfiðri stöðu og ekki síður ráðgjafar hans. Vegna allra þeirra rannsókna, sem eru á döfinni og þeirra viðtæku heimilda, sem rannsóknarmennirnir hafa, verða pólitískir ráðgjafar Clintons að halda aftur af sér, þegar þeir leggja sjálfir spurningar fyrir forsetann um þau atriði, sem eru sérstaklega til rannsóknar, því að unnt er að kalla þá sjálfa fyrir dómstól vegna vitneskju sinnar og verða þeir sjálfir að bera allan kostnað af slíkum málaferlum. Clinton og lögfræðingar hans ráða ráðum sínum fyrst og síðan er rætt við pólitísku ráðgjafana, sem verða að meta stöðuna á grundvelli þeirra takmörkuðu upplýsinga, sem þeim kunna að verða gefnar.

Þessa atburðarás, sem hér er lýst, hef ég dregið saman úr gögnum af netinu. Mörgu er enn ósvarað. Hitt er ljóst, að enn einu sinni sýnir, netið hvílík upplýsingalind það er. Þar er unnt að finna allt, sem máli skiptir og út hefur verið gefið talað, á myndum eða á prenti um þetta mál eins og svo mörg önnur. Til dæmis fann ég þar um síðustu helgi alla skýrsluna um færeyska bankamálið, 2500 bls. var unnt að nálgast hana af heimasíðu danska dagblaðsins Jyllandsposten. Þá benti Þorvaldur Búason eðlisfræðingur mér á síðurnar allar um Sokal-málið svokallaða, það er deilur um, sem snerta post-modernisma, vísindi og heimspeki. Hefur Kristján Kristjánsson vikið að þessu máli í greinum sínum í Lesbók Morgunblaðsins um post-modernismann en Þorvaldur ritar um Sokal-málið í afmælisritið til heiðurs Davíð Oddssyni. Vandinn er að gæta þess, að netið verði ekki of mikill tímaþjófur, hitt er á hinn bóginn ljóst, að vilji maður fræðast eða afla sér upplýsinga um eitthvert ákveðið málefni er netið ótæmandi brunnur.