Afmælisvika - prófkjör R-listans
Síðasta vika var sannkölluð afmælisvika, því að tveir góðir vinir mínir áttu stórafmæli.
Ingimundur Sigfússon, sendiherra í Þýskalandi, fyrrverandi forstjóri Heklu hf., varð sextugur 13. janúar. Komu þau Valgerður kona hans heim til Íslands af þessu tilefni og efndu til góðrar veislu fyrir nokkra vini sína. Ingimundur hefur nú verið sendiherra í tæp þrjú ár og hefur þeim Valgerði vegnað mjög vel við að koma fram fyrir Íslands hönd í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Betri gestgjafar eru vandfundnir og Ingimundur er óþreytandi við að finna leiðir til að efla tengsl milli Íslands og Þýskalands. Hann glímir nú við það stórverkefni að skapa sendiráði Íslands nýja starfsaðstöðu í Berlín en þýska ríkisstjórnin og sendiráð munu flytjast til þýsku höfuðborgarinnar á næstu misserum. Ingimund hef ég þekkt í um það bil þrjá áratugi og átt með honum margar ánægjustundir auk þess sem við höfum verið sammála um afstöðu til manna og málefna í stjórnmálum og hann lagði mér mikið og gott lið, þegar ég ákvað að bjóða mig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna við val á mönnum til setu á Alþingi haustið 1990 vegna þingkosninganna vorið 1991.
Einmitt í þessum þingkosningum var hitt afmælisbarn vikunnar, Davíð Oddsson, kjörinn á Alþingi í fyrsta sinn og ekki varð hann fyrr kominn á þangað en honum var sýndur hinn mesti trúnaður sem stjórnmálamanni hlotnast, að verða forsætisráðherra. Var mikið um dýrðir laugardaginn 17. janúar, þegar Davíð átti fimmtugsafmæli. Lagði fjöldi manna leið sína í Perluna síðdegis og síðan um kvöldið var þar afmælisveisla meðal annars með þátttöku þeirra, sem eiga greinar í hinu mikla afmælisriti til heiðurs Davíð. Afhenti Þórarinn Eldjárn rithöfundur Davíð fyrsta eintak bókarinnar með snjallri ræðu. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, stjórnaði afmælishaldinu í Perlunni og fór það honum vel úr hendi eins og annað. Er vandaverk að slá hinn rétta tón við slík hátíðarhöld.
Davíð hef ég þekkt frá því áður en hann hóf beina þátttöku í stjórnmálum og fór í prófkjör hjá sjálfstæðismönnum til borgarstjórnar vegna kosninganna 1974. Við kynntumst vegna þess að báðir höfðum við áhuga á bókum og framgangi sjálfstæðisstefnunnar. Höfum við átt samleið í mörgum pólitískum átökum. Eftir að ég lauk lögfræðiprófi vann ég í nokkur ár sem útgáfustjóri hjá Almenna bókafélaginu og þá þýddi Davíð bók um Eistland. Var Davíð meðal þeirra, sem studdu mig í frægu einvígi okkar Friðriks Sophussonar um formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS) á Egilsstöðum 1973, þar sem Friðrik bar sigur úr býtum. Var um langt árabil lagt út af þeim átökum, þegar menn voru að skilgreina fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins. Þær söguskýringar eiga ekki lengur erindi í umræður um stjórnmál fremur en margt annað, sem hefur borið hátt á hinum farsæla stjórnmálaferli Davíðs. Hin síðari ár hafa orðið nokkur þáttaskil í stjórnmálasögunni, þótt þráðurinn við fortíðina hafi aldrei slitnað, síst af öllu í Sjálfstæðisflokknum, þar sem menn sækja styrk sinn til þeirrar stefnu, sem mótuð var í öndverðu, 1929, og þróast hefur og eflst í tímans rás svo sem glæsileg saga flokksins sýnir.
Ég undraðist nokkuð á fyrstu árum kynna okkar Davíðs, hve mikinn tíma hann hafði til að sitja á Alþingi og fylgjast þar með umræðum. Þar öðlaðist hann hins vegar innsýn í stjórnmál, sem hefur nýst honum vel. Minni hans er mikið og hann rifjar auðveldlega upp umræður á þingi frá þessum tíma. Er ótrúlegt að heyra hann fara með langa texta utan að og nýtist honum þar þjálfunin frá því, að hann sinnti leiklist. Einn helsti styrkur hans í stjórnmálabaráttunni er mikil mannþekking og skarplegt mat á andstæðingum og samherjum. Þegar hann hefur einsett sér að ná ákveðnu marki, skipuleggur hann hvern leik vel og gætir þess að vera vel valdaður. Hann nálgast síðan menn og málefni á eigin hátt. Leggur mikið upp úr því að trúnaður sé haldinn. Á auðvelt með að brjóta ísinn með gamansögum og nálgast fólk með einlægum og vinsamlegum hætti, þótt hann geti einnig verið mjög harður í horn að taka. Ekki er dreginn rétt mynd af honum, þegar látið er í veðri vaka, að hann bíði færis til að slá sér upp á kostnað samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn. Hins vegar vill hann að sjálfsögðu ekki vera í fyrirsvari fyrir ríkisstjórn nema hann sé sannfærður um, að hann sé að verja góðan málstað, og hikar hann ekki við að búa þannig um hnúta, þótt það geti kostað að sveigja af markaðri leið.
Þegar Davíð heldur upp á 50 ára afmæli sitt, nýtur hann mikilla vinsælda og trausts. Hann var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í snörpum slag við sitjandi formann, Þorstein Pálsson, á landsfundi 1991 nokkrum vikum fyrir þingkosningarnar í apríl og hinn 30. apríl 1991 myndaði hann fyrstu ríkisstjórn sína í samstarfi við Alþýðuflokkinn og síðan hefur hann setið samfellt á stóli forsætisráðherra, en eftir kosningarnar í apríl 1995 myndaði Davíð aðra ríkisstjórn sína með Framsóknarflokknum. Staðreynd er, að á þessum árum hefur Sjálfstæðisflokknum tekist að endurheimta styrk sinn og virðingu sem öflugasta stjórnmálaaflið í landinu og andstæðingar hans sjá þann kost helstan að leggja niður merki sín og taka upp ný í nafni sameiningar.
Í tilefni af fimmtugsafmælinu hefur staða Davíðs verið töluvert til umræðu og hann hefur sjálfur komið fram í opinskáum viðtölum. Stefán Jón Hafstein, ritstjóri Dags, gerir úttekt á Davíð og leitast þar við að rökstyðja þá skoðun sína, að Davíð sé stjórnmálamaður án stefnu. Þetta er einkennileg röksemdafærsla, þegar litið er til þess að Davíð aðhyllist þá stjórnmálastefnu, sem hefur sigrað í samkeppni hugmyndanna, borgaralega og frjálslynda íhaldsstefnu, hollustu við markaðsbúskap og andstöðu við að stjórnmálamenn taki að sér forsjá einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Í þessum anda mótar Sjálfstæðisflokkurinn síðan stefnu sína í öllum málaflokkum. Má skilja grein Stefáns Jóns þannig að forsætisráðherra eigi að hafa einkastefnu í einstökum málaflokkum. Stjórnmálakerfið hér á landi kallar ekki á slík vinnubrögð.
Töluverðs titrings verður nú vart meðal vinstrisinna í Reykjavík vegna ákvarðana okkar sjálfstæðismanna um framboðslista vegna borgarstjórnarkosninganna í vor og væntanlegs prófskjörs R-listans í lok þessa mánaðar. Lætin í andstæðingum Sjálfstæðisflokksins vegna þeirrar ákvörðunar kjörnefndar flokksins að bjóða Guðrúnu Pétursdóttur níunda sætið á listanum sýna best, að þeir óttast þetta framboð.
Hið sérkennilega við prófkjör R-listans er, að kjósendur hafa ekki tækifæri til að segja álit sitt á Ingibjörgu Sólrúnu, henni hefur þegar verið veitt 8. sætið á listanum og er meira að segja rætt um hana eins og utan flokka og verður þá hlutur Kvennlistans heldur rýr. Má helst ætla, að Ingibjörg Sólrún sé komin í flokk með Ögmundi Jónassyni hinum óháða, sem situr þingflokksfundi Alþýðubandalagsins og bauð sig fram á lista þess. Gagnrýni R-listamanna á þá ákvörðun, að Guðrún Pétursdóttir fari í framboð hjá sjálfstæðismönnum án þess að fara í prófkjör, fellur um sjálfa sig, þegar litið er til þess, að meira að segja Ingibjörg Sólrún fer ekki í prófkjör.
Prófkjörsframbjóðendur R-listans eru misjafnlega duglegir við að minna á sig í fjölmiðlum, líklega er þó Helgi Hjörvar bestur. Hann komst í Dagsljós í baðfötum, þegar rætt var um holræsi og mengunarlausan sjó. Hann komst einnig í fréttir, þegar rætt um gagnaflutning með rafmagnsvírum á fjarfundi forystumanna Rafmagnsveitu Reykjavíkur með kanadísku fyrirtæki.
Skolphreinsun og dælustöðvar hafa sett nokkurn svip á umræður um borgarmál undanfarið, enda var Skolpa í Ánanaustum opnuð síðastliðinn mánudag við hátíðlega athöfn. Fékk sá atburður meðal annars 60 mínútur í Víðsjá Rásar 1, menningarþætti Ævars Kjartanssonar föstudaginn 16. janúar og heyrði ég Ingibjörgu Sólrúnu borgarstjóra segja þar, að rangt væri, að hún ætlaði að synda til Kópavogs klukkan 14.00 17. júní 2000 og einng dró hún í land, þegar hugað var að því á hvaða tíma sólarhringsins hún ætlaði að busla í hreinni Nauthólsvíkinni, var helst að skilja, að það yrði að næturlagi. Í öllum þessum umræðum láta R-listamenn að sjálfsögðu undir höfuð leggjast að geta þess, að Skolpa er eðlilegt og óhjákvæmilegt framhald þeirrar stefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn mótaði um hreinsun sjávar og stranda umhverfis Reykjavík. Sjálfstæðismenn unnu að þessu verkefnum um langt árabil án þess að leggja sérstakan holræsaskatt á borgarbúa. Nú gefur Ingibjörg Sólrún til kynna, að þetta verk hefði ekki verið unnt að vinna án sérstakrar skattheimtu og lofar að leggja skattinn niður einhvern tíma á næsta kjörtímabili.