10.1.1998

Reykholt - Efstaleiti - rýr R-listi

Ástþór Magnússon hefur farið heldur ófriðlega vegna Reykholts í Borgarfirði undanfarna daga. Telur hann það sérstaka árás á sig, að hann hafi ekki fengið skólahúsnæðið á staðnum til ráðstöfunar fyrir sig og gerir lítið úr viðsemjendum menntamálaráðuneytisins og fyrirhugaðri starfsemi þeirra.

Skólahaldi lauk í Reykholti vorið 1997, enda var þá fullreynt, að ekki var nægilegur áhugi meðal námsmanna á því að sækja skóla þangað. Ég hafði þá oftar en einu sinni látið í ljós áhuga á því, að í Reykholti skapaðist aðstaða til að halda nafni Snorra Sturlusonar og rannsóknum í miðaldafræðum á loft. Snorrastofa starfar í Reykholti og undir merkjum hennar hefur verið byggð ný kirkja og aðstaða fyrir fræðimenn og til sýninga og ráðstefna. Leggur ríkissjóður nokkurt fé af mörkum til þessarar starfsemi. Fyrir utan aðstöðu Snorrastofu eru skólabyggingar, heimavistarhúsnæði og kennarabústaðir í Reykholti, sem menntamálaráðuneytið hefur til ráðstöfunar.

Þegar skólastarf hætti, þurfti að ráðstafa húsnæði skólans til annarra nota. Var auglýst eftir hugmyndum og bárust mörg tilboð. Hefur verið unnið úr þeim öllum og síðan gengið til samninga við fjölskyldu, sem vill taka að sér að reka gisti- og veitingaþjónustu í skólahúsnæðinu, þó ekki elsta skólahúsinu, sem verður ráðstafað með öðrum hætti.

Forsenda fyrir fjölbreytilegu starfi í Reykholti er, að þar sé fyrir hendi gisti- og veitingaþjónusta. Þeir, sem hana annast, búa í haginn fyrir hvers kyns aðra starfsemi. Er það undir frumkvæði rekstraraðilanna komið, hvað þeim tekst að laða til staðarins. Efast ég ekki um, að sérstaklega megi höfða til þeirra, sem þekkja sögu staðarins og menningarsögulegt gildi hans.

Í áróðri sínum dregur Ástþór Magnússon aðeins upp neikvæða áróðursmynd af ráðstöfun skólahúsnæðisins í Reykholti og síðan þá ályktun, að yfirráðin yfir steinsteypunni móti staðinn en ekki sú starfsemi, sem fer fram innan hinna steyptu veggja. Auðvitað skiptir það mestu að lokum.

Atgangur Ástþórs vegna Reykholts minnir nokkuð á framgöngu kvikmyndaleikstjóra vegna flutnings sjónvarps ríkisins í Efstaleiti, en í nýja útvarpshúsinu hefur mikið rými staðið ónotað um langt árabil. Heimilaði ég hinn 14. nóvember síðastliðinn, eftir að hafa fengið samþykki ríkisstjórnarinnar, að sjónvarpið flytti í Efstaleiti. Alþingi lagði blessun sína yfir flutninginn með því að heimila Ríkisútvarpinu (RÚV) að taka lán til að standa undir kostnaði við flutninginn og framkvæmdir vegna hans.

Um langt árabil hefur Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndaleikstjóri og fyrrverandi starfsmaður sjónvarpsins, barist eindregið gegn þessum flutningi. Raunar voru fleiri starfsmenn sjónvarpsins á móti honum, til dæmis Pétur Guðfinnsson, framkvæmdastjóri þess, sem gegndi hins vegar störfum útvarpsstjóra síðastliðið ár og hvatti mig þá eindregið til að heimila þennan flutning, enda taldi hann það skynsamlegri kost heldur en að ráðast í endurbætur á húsnæðinu við Laugaveg, þar sem sjónvarpið er enn til húsa, fyrir mörg hundruð milljónir króna. Taldi Pétur ekki lengur undan slíkum stórframkvæmdum við Laugaveginn vikist, ætti sjónvarpið að vera þar áfram.

Hér ætla ég ekki að fara yfir rökin með og á móti flutningi sjónvarpsins. Segja má, að hefði útvarpshúsið við Efstaleiti ekki verið byggt svona stórt, hefðu aðrir kostir en sá, að flytja alla starfsemi RÚV undir eitt þak komið til greina. Veiki hlekkurinn í opnu bréfi kvikmyndaleikstjóra undir forystu Hrafns Gunnlaugssonar til mín felst í þeirri ályktun leikstjóranna að telja framleiðslustefnu sjónvarpsins ráðast af húsakosti þess. Framleiðslustefna sjónvarpsins var áreiðanlega mótuð í öndverðu á öðrum forsendum en þeim, sem lutu að húsakosti við Laugaveg. Ákveðið var við þær aðstæður, sem ríktu, þegar sjónvarpið tók til starfa árið 1966, að það yrði sjálfu sér nógt um alla hluti. Margt hefur breyst síðan. Lít ég þannig á, að ákvörðun um nýtt húsnæði fyrir sjónvarpið kalli á endurskilgreiningu á verkefnum þess, því að ekki verður húsnæðinu ráðstafað skynsamlega án þarfagreiningar, sem tekur mið af núverandi aðstæðum utan sjónvarpsins, það er þeirrar staðreyndar, að sjónvarpið þarf ekki lengur að treysta alfarið á sjálft sig heldur getur átt viðskipti við þjónustufyrirtæki, sem ráða yfir tækjum og aðstöðu til að vinna efni í samræmi við strangar gæðakröfur. Að fyrra bragði hefði ég ætlað, að kvikmyndaleikstjórar sæju þennan kost í stöðunni og nýttu sér hann með jákvæðum hætti í stað þess að fara í skotgrafirnar og hefja orrustu, sem er með öllu óþörf, ef menn setjast niður og leita sanngjarnra leiða fyrir þá, sem hlut eiga að máli, og kynna sér til hlítar röksemdir á báða bóga.

Umræðurnar um Reykholt og Efstaleiti sýna, hve mönnum hitnar oft í hamsi, þegar rætt er um steinsteypu.

Þegar dregur að borgarstjórnarkosningum hér í Reykjavík, fjölgar mannvirkjafréttunum, þar sem borgarstjórinn er í fyrirrúmi. Raunar var mér sagt, að áróðursvél R-listans hefði skipulagt vikulega athöfn af þessu tagi með Ingibjörgu Sólrúnu fram að kosningunum 23. maí. Verður forvitnilegt að fylgjast með því, hvort þetta sé rétt, því að skóflustunguímyndin stangast heldur betur á við boðskap R-listans fyrir kosningar 1994, þegar hann vildi helst ekki tala um annað en ávirðingar sjálfstæðismanna vegna mannvirkjagerðar, einkum vegna Perlunnar og Ráðhússins. Jafnframt verður spennandi að sjá, hvernig fjölmiðlar taka á þessum skipulega mannvirkjaáróðri. Sá ég í Degi, að meira að segja þar, finnst mönnum nóg um holræsaumfjöllun Dagsljóss, þar sem brugðið er upp vinalegri hlið á Ingibjörgu Sólrúnu (höfundi holræsaskattsins) og þátttakanda í prófkjöri R-listans, Helga Hjörvar, að baða sig í Nauthólsvík.

Ég er undrandi á því, þegar stuðningsmenn R-listans láta eins og í starfi menntamálaráðherra hafi ég gert Reykjavíkurborg einhvern óleik. Raunar er þetta ekki annað en tilraun R-listans til að finna blóraböggul vegna eigin vandræðagangs á mörgum sviðum, sem snerta mennta- og menningarmál. R-listinn hefur til dæmis dregið lappirnar gagnvart Listaháskóla í Reykjavík og ekki sýnt neitt frumkvæði varðandi skólann. Þvert á móti hafa kerfisleg sjónarmið ráðið ferðinni og virðist mér R-listinn ekki hafa neinn skilning á gildi þess, að menntastofnanir á borð við Listaháskóla nái að blómstra í borginni.

Ákveðið hefur verið að verja á milli 80 og 90 milljónum króna til þess að ráðast í endurreisn Menntaskólans í Reykjavík í hjarta höfuðborgarinnar. Forráðamenn Reykjavíkurborgar undir forystu R-listans hafa ekki viljað leggja neitt af mörkum vegna þessara framkvæmda. Þeir vilja ekki heldur leggja neitt af mörkum vegna smíði nýs íþróttahúss við Menntaskólann við Hamrahlíð, en á fjárlögum 1998 er veitt fé ú ríkissjóði til að hefja þá mannvirkjagerð. Hvarvetna annars staðar eru sveitarfélög boðin og búin til að taka þátt í framkvæmdum vegna framhaldsskóla.

Mesta undrun mína vekur þó áhuga- og metnaðarleysi R-listans í menningarmálum. Látið er við það sitja að halda í horfinu, ef ekki er beint eða óbeint snúist gegn því að leggja framtaki listamanna lið. Meðan Alþýðublaðið kom út fann það R-listanum aðeins til tekna í menningarmálum, að hann hefði afhent Rithöfundasambandi Íslands Gunnarshús við Dyngjuveg til ráðstöfunar. Húsið var hins vegar keypt af Reykjavíkurborg, áður en R-listinn komst til valda. Mörður Árnason taldi það eitt R-listanum að þakka, að efnt hefur verið til menningarnætur í Reykjavík 18. ágúst . Ef þetta tvennt, ráðstöfun á Gunnarshúsi og menningarnóttin, er hið eina, sem R-listinn gumar af í menningarmálum, er það rýr uppskera á fjórum árum.