28.12.1997

Hamlet - Einar Benediktsson - sleggjudómar

Ég óska öllum lesendum þessa pistils gleðilegra jóla!

Jóladagarnir hafa liðið rólega hver eftir annan og hefur verið gott að njóta hvíldar og fá tækifæri til að leiða hugann að ýmsu, sem vill verða útundan í hinu daglega amstri.

Að kvöldi annars í jólum fórum við í Þjóðleikhúsið og sáum Hamlet,sem Hilmir Snær Guðnason leikur undir stjórn Baltasar Kormáks. Sýningin var glæsileg og ögrandi. Tekst að koma efni verksins vel til skila innan þess ramma, sem leikstjórinn velur. Sérfræðingar í Hamlet hafa vafalaust ýmislegt um það að segja, hvaða tökum texti Shakespears er tekinn í þessari uppfærslu, sakna einhvers og telja of frjálslega farið með sumt. Sýningin er hins vegar fyrir aðra en hina sérfróðu og höfðaði hún sterkt til mín. Hilmir Snær fer áreynslulaust með þetta stórhlutverk og hinn frábæri texti í snilldarþýðingu Helga Hálfdanarsonar leikur á tungu hans. Ný kynslóð leikara og leikstjóra fær hér tækifæri til að glíma við klassískt stórverk og stenst prófið með ágætum.

Ævisaga Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson hefur stytt mér stundir yfir jóladagana. Hún er rituð af miklu öryggi og sýnir, að höfundurinn hefur aflað sér víðtækrar þekkingar á sögusviðinu á síðustu áratugum 19. aldar og við upphaf hinnar 20. Er meðal annars sagt frá því, þegar stigin eru fyrstu leiklistarsporin í Reykjavík auk þess sem lýst er áralangri glímu Einars við þýðinguna á Pétri Gaut. Hvort tveggja minnir okkur, að það er síður en svo sjálfgefið, að hér standi leiklistarlíf með þeim blóma sem raun er um þessar mundir. Hér eru hvorki langar hefðir í leiklist né í þýðingu leikverka á íslensku, ef miðað er við aðrar menningarþjóðir. Á hinn bóginn hefur okkur á einni öld tekist að ná ótrúlega langt á þessu sviði og getum nú notið hins besta á íslensku í höndum frábærra flytjenda og leikstjóra.

Við lestur ævisögu Einars Benediktssonar hefur hugur minn oft hvarflað til forfeðra minna, sem áttu samleið með Einari og fjölskyldu hans eins og fram kemur í bók Guðjóns. Stjórnmálabarátta og hugmyndafræði Benedikts föður Einars, Þorbjargar föðursystur Einars og Einars sjálfs hefur greinilega höfðað mjög til Benedikts Sveinssonar, afa míns, sem kynntist alnafna sínum föður Einars ungur í heimahúsum á Húsavík, og var síðan meðal áköfustu stuðningsmanna Einars sem stúdent í Reykjavík við upphaf aldarinnar. Stjórnmálabarátta Einars einkenndist á þeim árum annars vegar af eldheitri þjóðernisást og ósveigjanlegum kröfum í sjálfstæðisbaráttunni við Dani og hins vegar af sókn eftir erlendu fé inn í landið til að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi og meiri auðlegð þjóðarinnar. Var þetta aðeins ein af mörgum þverstæðum í lífi og starfi Einars. Hún hefur hins vegar í ólíkum myndum sett svip sinn á stjórnmálabaráttu aldarinnar, jafnt eftir að þjóðin hlaut sjálfstæði og meðan hún barðist fyrir því. Verst vegnaði þjóðinni eftir að áhrifa framsóknarmennsku og sósíalisma fór að gæta fyrir alvöru á þriðja og fjórða tug aldarinnar með höftum og opinberri ofstjórn. Fjötrar af því tagi voru í hróplegri andstöðu við aldamótasýn Einars Benediktssonar. Síðan eftir að þjóðin hlaut sjálfstæði og þurfti að móta eigin utanríkisstefnu var annars vegar fylgt fram skýrri stefnu við gæslu íslenskra hagsmuna ekki síst við útfærslu landhelginnar, markaðssókn fyrir fisk og við öflun erlends lánsfjár samtímis því sem öryggið var tryggt með aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin. Á sjöunda áratugnum tókst að útrýma síðustu leifum haftanna og láta draum Einars Benediktssonar um virkjun fossa fyrir erlenda stóriðju rætast. Þá voru fyrstu skrefin einnig stigin til þátttöku í efnahagssamvinnu Evrópuríkjanna með aðild að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu. Ekkert af þessu gerðist átakalaust og voru sósíalistar og að minnsta kosti hluti framsóknarmanna ávallt á móti þátttöku í hinu alþjóðlega samstarfi. Birtist andstaðan í mismunandi myndum eftir því um hvað var deilt hverju sinni, en andstæðingar alþjóðasamstarfsins töldu sig ávallt meiri þjóðernissinna en hina, sem vildu nánari tengsl við erlendar þjóðir. Þverstæðan á hins vegar við enn í dag, það þarf alls ekki að vera til marks um litla þjóðernisást að vilja sem mest og nánust samskipti við erlendar þjóðir. Spurningin er miklu frekar um það, hvernig haldið er á hinum erlendu samskiptum. Enn er þetta átakaás í íslenskum stjórnmálum. Er ég sannfærður um, að álitamál á þessu sviði ráði meiru en flest annað um afstöðu Íslendinga í stjórnmálum.

Viðhorf Íslendinga til alþjóðasamstarfs á öllum sviðum hafa breyst mikið síðan um síðustu aldamót. Samskiptin eru orðin svo margþætt, að ekki verður til baka snúið. Nú er skólakerfið tekið til við að alþjóðavæðast af meiri þunga en áður og samstarf á sviði mennta og vísinda er miklu meira en nokkru sinni fyrr. Þá starfa einnig margir íslenskir vísinda- og fræðimenn erlendis. Er ljóst, að fámennið hér á landi og skortur á innlendu fjármagni til að festa í dýrum alhliða rannsóknum, setur okkur skorður í samkeppni við hinar fjölmennari þjóðir að þessu leyti. Við getum aldrei vænst þess, að hér skapist sömu forsendur til vísindaiðkunar og rannsókna og í háskólum með tugir þúsunda nemenda, prófessora, sérfræðinga og rannsóknarmanna. Á hinn bóginn hafa undanfarin ár verið stigin markverð skref til að styrkja forsendur fyrir rannsóknamámi við Háskóla Íslands og við afgreiðslu fjárlaga næsta árs samþykkti Alþingi í senn að stórauka fjárveitingar til rannsóknanáms við Háskóla Íslands og til ritakaupa fyrir Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Þá hafa fjárráð sjóða Rannsóknarráðs Íslands batnað jafnt og þétt og tekist hefur að afla mikils fjár úr erlendum vísindasjóðum, einkum evrópskum. Rannsóknarráð Íslands hefur einnig undanfarið undirbúið sókn í Bandaríkjunum og í fjárlögum næsta árs er fé til ráðstöfunar til að vinna frekar að slíku samstarfi.

Tilefni þessara orða, sem gætu verið miklu fleiri, til að árétta áhuga stjórnvalda á rannsóknum og vísindum, eru ummæli Stefáns Karlssonar, prófessors í sameindaerfðaafræði við háskólann í Lundi,.sem dvalist hefur erlendis við nám og störf síðan árið 1979 og náð langt á sínu sviði eins og fram kemur í samtali Sigrúnar Davíðsdóttur, blaðamanns í Kaupmannahöfn, við hann í Morgunblaðinu 28. desember 1997. Í blaðinu segir: "Þegar talið berst að rannsóknarmálum á Íslandi er Stefán ómyrkur í máli og segir það vekja áhyggjur hve íslenskir stjórnmálamenn sýni lítið framtak í að byggja upp framtíðaratvinnuvegi." Þessi dómur er meðal annars rökstuddur með þessum orðum: "Íslenskir stjórnmálamenn eru margir hverjir lögfræðingar eða koma úr hópum, sem virðast hafa lítinn skilning á gildi vísinda og vísindaþróun. Úr því væri þó einfalt að bæta, því margir Íslendingar hafa skilning á þessum málum og gætu mótað nýja vísindastefnu fyrir landið." Ég veit ekki, hvort vísindalegar rannsóknir í sameindaerfðafræði eða einhverri annarri vísindagrein hafi leitt til þeirrar niðurstöðu, að lögfræðingar hafi ekki skilning á vísindum. Hitt er ljóst, að á þessum áratug hefur verið mótuð ný vísindastefna af hálfu stjórnvalda, en það var gert á síðasta kjörtímabili að fengnum tillögum frá þeim Ólafi Davíðssyni hagfræðingi og Þórólfi Þórlindssyni, prófessor í félagsvísindum. Þá hefur Rannasóknarráð Íslands, sem skipað er vísindamönnum, einnig mótað stefnu sína og kynnt hana á opinberum vettvangi.

Rangt er að halda því fram, að hér skorti vísindastefnu eða viðleitni til að efla atvinnuvegi, sem kenndir eru við framtíðina. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er til dæmis að taka til starfa og á hann að fjármagna verkefni á þessu sviði, svo að nefnd sé mikilvæg nýjung.

Skömmu eftir að fjárlögin höfðu verið samþykkt á Alþingi hinn 20. desember, fékk ég tölvubréf frá vísindamanni við Háskóla Íslands um nauðsyn þess að efla ritakaupasjóð Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Ég svaraði bréfinu á þann veg, að þetta hefði verið gert með fjárlögum ársins 1998, en Alþingi samþykkti að hækka fjárveitingu til ritakaupasjóðs um 50% eða um 15 m. kr.. Fékk ég þá það svar til baka, að bréfritari bæðist velvirðingar á kvörtun sinni, hann ætti líklega að gefa sér stundum meiri tíma til að líta upp úr skruddunum og fylgjast betur með fjölmiðlum. Raunar veit ég ekki, hvort sagt var frá þessari hækkun til ritakaupa í fjölmiðlum. Hitt er víst, að öll þurfum við stundum að gefa okkur tíma til að líta upp úr skruddum okkar, áður en við fellum dóma eða kvörtum undan því, að ekki sé nóg að gert á þröngu áhugasviði okkar, þótt merkilegt sé.