21.12.1997

Háskólalög - fjárlög - ríkisstjórnin

Fimmtudaginn 18. desember samþykkti Alþingi tvenn ný lög, sem snerta háskólastigið. Í fyrsta lagi voru samþykkt almenn háskólalög, sem ná til allra íslenskra skóla á háskólastigi. Í öðru lagi voru lög um Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) samþykkt. Meðal breytinga á seinni lagabálknum í meðferð þingsins var, að horfið var frá því ráði að kalla hinn nýja skóla Kennara- og uppeldisháskóla og ákveðið að nota gamla nafnið, Kennaraháskóli Íslands, áfram, enda þótt hann nái nú til fjögurra skóla í stað eins áður, en með nýju lögunum verða Kennaraháskóli Íslands, Fósturskóli Íslands, Íþróttakennaraskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands að einum háskóla. Fyrir utan að sameina fjóra skóla með þessum hætti er verið að færa nám þriggja starfsgreina á háskólastig, sem er gamalt baráttumál þeirra, sem á þessum sviðum starfa.

Á Alþingi urðu mun meiri umræður um almennu löggjöfina um háskóla en frumvarpið um KHÍ. Deilurnar um háskólafrumvarpið hófust strax síðastliðið vor, þegar ég lagði það fram. Innan Háskóla Íslands sættu menn sig ekki við ákvæði í frumvarpinu, sem snerta stjórnkerfi skólanna og gera nýjar kröfur um stjórnarhætti og miða að því að breyta skipan háskólaráða. Tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra setjast í háskólaráðin og menntamálaráðherra skipar rektor samkvæmt tillögu háskólaráðs. Voru þessi ákvæði á sama veg í frumvarpinu, þegar ég lagði það fram aftur í haust. Í meðförum menntamálanefndar Alþingis var sú breyting gerð, að sett var inn í lagatextann ákvæði, sem segir, að rektor verði ekki vikið frá störfum nema meirihluti háskólaráðs sé þess sinnis. Einnig er orðalag ekki jafnafdráttarlaust og áður um, að deildarforsetar sitji ekki í háskólaráði. Hvað sem því líður er ljóst, að hin nýja skipan gjörbreytir valinu í háskólaráð og skilgreinir hlutverk þess betur sem stjórnar viðkomandi skóla. Þá er sjálfstæði skólanna aukið og ábyrgð rektors verður meiri á daglegri stjórn. Menntamálaráðuneytið kemur fram sem samningsaðili, aðhalds- og eftirlitsaðili.

Hér ætla ég ekki að rekja deilurnar um háskólafrumvarpið. Næsta stórverkefni á því sviði verður að setja Háskóla Íslands ný lög. Vinnur sameiginleg nefnd ráðuneytisins og skólans að því að semja frumvarp að þessum lögum.

Háskólalöggjöfin markar þau tímamót í íslenskri skólasögu, að í fyrsta sinn eru sett almenn lög um þetta efni. Einnig hefur Alþingi með nýju lögunum sett öllum fjórum skólastigunum nýjan starfsramma. Þá skapast nýjar forsendur í kennaranámi með nýju lögunum um KHÍ.

--------

Fjárlögin voru samþykkt rétt fyrir klukkan 19.00 laugardaginn 20. desember. Menntamálaráðherra sætti ekki miklum ákúrum í fjárlagaumræðunum, enda blasir við öllum, sem líta á fjárveitingar til framhaldsskóla og háskóla, sem ríkið kostar, að verið er að auka þær. Undir lok fjárlagaumræðnanna virtist stjórnarandstaðan auk þess vera að komast á þá skoðun, að nær væri að hækka skatta og spara meira en stofna til frekari útgjalda. Þá hefur menntamálaráðuneytið gengið lengra en flest önnur ráðuneyti á þeirri braut, að útfæra nýjungar við stjórn ríkisfjármála með samningum við stofnanir á sínum vegum. Loks er ástæða til að vekja athygli á þeirri staðreynd, að með breytingunum, sem gerðar voru á lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) á síðasta þingi, hefur ekki aðeins tekist að skapa sæmilegan frið um sjóðinn, heldur hefur einnig verið náð betri tökum á fjármálastjórn sjóðsins, meðal annars með skuldbreytingum. Er sjóðurinn ekki lengur blæðandi sár, sem er til vandræða við afgreiðslu fjárlaga.

Um leið og ég vek athygli á þessu er ástæða til að geta þess, að á vegum menntamálaráðuneytisins er nú verið að taka mikilvægar ákvarðanir um viðhald og uppbyggingu menningarstofnana og bygginga.

Nýlega var skýrt frá því, að ákveðið hefði verið að kaupa hús af Háskóla Íslands fyrir Þjóðminjasafnið og semja auk þess við Háskólann um að Þjóðminjasafn fái heimild til að byggja í suður af safnhúsinu. Ætti að vera unnt að hefja starfsemi safnsins við nýjar aðstæður árið 2000 ef rétt er að málum staðið.

Markvisst er unnið að því að búa Safnahúsið við Hverfisgötu undir nýtt hlutverk sem Þjóðmenningarhús. Um þessar mundir er viðgerðum utan húss lokið og hefur húsið ekki verið jafnglæsilegt að sjá frá því að það var reist við upphaf aldarinnar. Kopar hefur verið settur á þak hússins, en gert var ráð fyrir honum í upphafi, þótt þau áform rætist ekki fyrr en núna.

Listasafn Einars Jónssonar hefur verið endurgert að utan auk þess miklar endurbætur hafa verið unnan innan húss.

Unnið er að stórframkvæmdum við Þjóðaskjalasafnið, meðal annars til að það geti tekið við þeim gögnum, sem þangað munu koma úr Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Lagt verður á ráðin um næstu stórskref við viðgerð á Þjóðleikhúsinu.

------------

Skoðanakannanir sýna sterka stöðu ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherrann nýtur einnig mikilla vinsælda. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist 21. desember segir meðal annars:

"Það er sennilega afar fátítt, að forsætisráðherra þjóðar sendi frá sér smásagnasafn, eins og Davíð Oddsson gerir nú. Rithöfundar og skáld hafa þó áður setið á ráðherrastól á Íslandi og má þar ekki sízt nefna Hannes Hafstein í byrjun aldarinnar. Og það er kannski enn sjaldgæfara að ritverk manna í slíkum stöðum fái jafngóðar undirtektir og smásögur Davíðs Oddssonar nú.

Raunar er staða forsætisráðherra á þjóðarsviðinu mjög sérstök um þessar mundir. Smásögur hans eru í efsta sæti bóksölulista, sem Félagsvísindastofnun tekur saman fyrir Morgunblaðið, Félag íslenzkra bókaútgefenda og Félag bóka- og ritfangaverzlana, yfir íslenzk og þýdd skáldverk. Og í öðru sæti á aðallista, sem nær yfir allar bækur, sem út koma að þessu sinni.

En jafnframt sýnir ný Gallupkönnun, að um 75% þjóðarinnar lýsa ánægju með störf ráðherrans. Það sem er þó kannski enn athyglisverðara er, að könnunin sýnir ótrúlega mikinn stuðning við Davíð Oddsson meðal kjósenda allra flokka. Auk þess sem hann nýtur um 92% fylgis meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks eru um 82% fylgismanna Framsóknarflokks ánægðir með störf hans, rúmlega 60% stuðningsmanna Alþýðuflokks og jafnvel meira en helmingur þeirra, sem kjósa Alþýðubandalag, eða 53,1%, eru sama sinnis. Forsætisráðherra nýtur því óvenjulegrar hylli almennings um þessar mundir, hvort sem litið er til starfa hans á vettvangi stjórnmálanna eða frumraunar hans á bókmenntasviðinu."

Að sjálfsögðu hefur þessi staða, sem Morgunblaðið tíundar, áhrif á allt stjórnmálastarf og er það raunar fréttnæmt í sjálfu sér, að Morgunblaðið skuli lýsa stöðu forsætisráðherra með þessum hætti. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafa ekki fundið nein ráð til að draga úr styrk hennar. Fyrir utan eigið ágæti nýtur Davíð Oddsson þess, að vinstrisinnar bjóða kjósendum ekki neinn kost. Þeir hafa engin tök á því að efla trú á nýjan foringja. Á Alþingi er stjórnarandstaðan ákaflega máttlaus. Í miðju sameiningartalinu eru vinstrisinnar í meiri upplausn en oftast áður. Hið eina, sem þeir geta bundið vonir við, er, að ríkisstjórnin misstigi sig með einhverjum hætti. Er og ástæðulaust að gleyma því, að veraldargengið er ekki víða jafnfallvalt og í stjórnmálum.

Þegar forseti Alþingis flutti .þingmönnum jólakveðju, kvaddi hann Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formann Alþýðuflokksins, sérstaklega, enda hverfur Jón Baldvin nú frá stjórnmálastörfum og verður sendiherra í Washington. Hverfur þá af Alþingi sá þingmaður úr andstæðingaliði Sjálfstæðisflokksins, sem harðasta hríð hefur gert að sjálfstæðismönnum hin síðari ár. Hefur hann leitast við að ala á tortryggni í garð flokksins bæði í innanlands- og utanríkismálum, um leið og hann hefur viljað, að Alþýðuflokkurinn tileinkaði sér ýmis stefnumál Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur Jón Baldvin notið skjóls hjá Morgunblaðinu og víðar í fjölmiðlum í kröppum dansi á litríkum stjórnmálaferli. Er vissulega ástæða til að taka undir með þeim, sem segja, að nokkur þáttaskil verði í stjórnmálum með brotthvarfi Jóns Baldvins. Fylgja honum óskir um velgengni í nýju trúnaðarstarfi.