7.12.1997

Forsjárhyggja - Kaupmannahafnarferð

Vinstrisinnar koma sjaldan á óvart með kröfum sínum á hendur ríkisvaldinu. Nú eru á sveimi niðurstöður í könnun, sem eiga að sýna, að stærstur hluti háskólanemenda hér vilji hverfa til starfa erlendis að námi loknu.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands er borin fyrir þessari niðurstöðu og á það að gefa henni sérstakan gæðastimpil. Forystusveit Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur dregið þá ályktun, að ríkisvaldinu beri að bregðast við þessari afstöðu háskólanema með einhverjum aðgerðum. Þegar kemur að því að skilgreina í hverju þær eiga að felast, vefst mönnum eðlilega tunga um tönn, enda er ekki unnt að bregðast við kröfum af þessu tagi nema með skipulags- og áætlunarbúskap, sem gengur þvert á skynsamleg viðhorf við hagstjórn og markmið með henni.

Byggðastefna hér heima fyrir hefur sætt gagnrýni á þeim forsendum, að í skjóli hennar hafi stjórnmálamenn og kerfiskarlar undir stjórn þeirra ráðstafað opinberum fjármunum á rangan hátt og án þess að nægur árangur næðist. Ef ég man rétt, var þetta kjarni í boðskap hátíðarræðumanns á fullveldishátíð háskólastúdenta 1. desember síðastliðinn. Hann taldi, að nær hefði verið að nota byggðastefnupeningana í þágu menntunar, rannsókna og vísinda. Gengur sá boðskapur þvert á óskir um, að ríkissjóður taki að sér að telja þeim menntamönnum hughvarf, sem álíta hag sínum betur borgið erlendis en hér á landi.

Forsjárhyggjumenn hér á landi og annars staðar eru jafniðnir og áður við að leita að nýjum verkefnum fyrir ríkisvaldið og stjórnmálamenn. Þeir hafa ekki áttað sig á þeim skaða, sem stefna þeirra hefur valdið í austurhluta Evrópu og Sovétríkjunum fyrrverandi. Þeir hafa ekki heldur viljað ganga til þess að gera upp reikningana og draga ályktun af niðurstöðu slíks uppgjörs. Hér á landi hafa engir forystumenn komið fram á vinstri kanti stjórnmálanna, sem jafnast á við Tony Blair í Bretlandi eða Gerhard Schröder í Þýskalandi. Raunar hafa stjórnmálamenn með slíkar skoðanir ekki komið fram á sjónvarsviðið á Norðurlöndunum og verið falinn trúnaður meðal forsjárhyggjuflokkanna.

Hér er það helsta einkenni vinstrisinna, að annars vegar halda þeir dauðahaldi í gömlu, úreltu sjónarmiðin, og hins vegar eru þeir í valdabrölti í nafni sameiningar án þess að sett sé fram heildstæð stefna.

------

Síðdegis miðvikudaginn 3. desember flaug ég til Kaupmannahafnar vegna funda menningarmálaráðherra og menntamálaráðherra Norðurlandanna föstudaginn 5. desember. Eru þessir tveir fundir samdægurs og að jafnaði efnt til þeirra þrisvar á ári.

Fimmtudaginn 4. desember notaði ég til að heimsækja Árnastofnun og þá, sem vinna að hinni miklu orðabók um íslenska fornmálið á vegum Árnanefndar í Kaupmannahöfn. Eru Árnastofnun og orðabókin saman til húsa í háskólabyggingu á Amager, sem nú er ætlunin að víki fyrir nýrri byggingu.

Peter Springborg tók á móti mér fyrir hönd Árnastofnunar og sýndi mér ýmis dýrmæt handrit hennar, ljósmynda- og viðgerðaraðstöðu. Þá skoðaði ég einnig starfsaðstöðu starfsmanna og vísindamanna, sem koma til Kaupmannahafnar í því skyni að stunda rannsóknir í stofnuninni. Er vel að öllum búið og voru nokkrir Íslendingar þarna við störf.

Síðan ræddi ég við hópinn, sem vinnur að orðabókinni og hafði Þorbjörg Helgadóttir orð fyrir honum. Fyrsta bindi orðabókarinnar kom út 1995 en 1989 var registur þessa mikla verk gefið út. Á dönsku heitir bókin: Ordbog over det norrøne prosasprog Í bókinni verða orð úr norskum og íslenskum handritum frá elstu handritunum þ.e. frá 1150 til 1540, þegar elsta, varðveitta prentaða bókin kom út á íslensku, þýðing Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu. Að því er norska texta varðar eru lokin miðuð við árið 1370, því að á þeim tíma hafði norska tekið svo miklum breytingum, að ekki er lengur unnt að líta á íslensku og norsku sem sama tungumálið. Skipulag Orðabókar Háskólans er við þetta miðað og þar eiga að vera íslensk orð frá 1540. Í Noregi vinnur Norsk Leksikografisk Institutt, Avdeling for gammelnorsk og mellomnorsk, við Háskólann í Ósló að því að safna öllum norskum orðum til 1550.

Ég held, að við Íslendingar gerum okkur ekki nægilega góða grein fyrir því, hve merkilegt verk er verið að vinna við þessa orðabókarsmíði í Kaupmannahöfn og hve mikla þýðingu hún hefur við allar rannsóknir á tungumáli okkar og þróun þess. Sannfærðist ég enn betur um mikilvægi þessa vandaða starfs í heimsókn minni.

Lauk ánægjulegri heimsókn með sameiginlegum hádegisverði og þar hitti ég einnig Jonnu Louis-Jensen prófessor í íslensku.

Síðdegis fór ég í Jónshús og naut þar leiðsagnar sr. Lárusar Guðmundssonar um sýningu um Jón Sigurðsson og húsið sjálft, sem er rekið af Alþingi. Einnig hitti ég ýmsa forystumenn í félögum Íslendinga í Kaupmannahöfn og ræddum við hagsmuna- og áhugamál þeirra.