30.11.1997

Flokkakerfið - kvótakerfið

Vegna þess sem stóð í síðasta pistli mínum um R-listann og Framsóknarflokkinn tók blaðið Dagur dálítinn kipp og birti kafla af síðu minni á forsíðu sinni í því skyni að kveikja tortryggni milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna innan ríkisstjórnarinnar. Vildi blaðið koma þeirri skoðun á framfæri, og bar fyrir sig einhverja nafnlausa viðmælendur, að það væri samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn en ekki tvöfeldni Framsóknarflokksins vegna aðildar að R-listanum, sem ylli því, að framsóknarmenn næðu sér ekki á strik í skoðaðankönnunum. Kannanir sýna vaxandi vinsældir ríkisstjórnarinnar, þannig að stjórnmálaflokkar, sem eiga aðild að henni, ættu ekki að gjalda hennar í huga kjósenda. Á hinn bóginn sýna kannanir einnig, að fylgi R-listans dalar. Þá hefur Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, sagt opinberlega og ítrekað, að R-listasamstarfið skaði flokksstarf framsóknarmanna.

Dagur er eindreginn málsvari R-listans, enda er ritstjóri hans, Stefán J. Hafstein, helsti stjórnmálaráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra. Stefán Jón tekur því R-listann fram yfir Framsóknarflokkinn og vill, að framsóknarmenn fylki sér um R-listann, þess vegna bregst blað undir ritstjórn hans við með þeim hætti, sem gert var, þegar bent er á, að flokkslega skaði það framsóknarmenn að vera í R-lista samstarfinu.

Framsóknarmenn berjast í raun fyrir því gagnvart R-listanum að halda nafni flokks síns óflekkuðu og þeir vinna einnig gegn þeirri þróun, sem einkennir vinstri flokkana, að þeir eru að leysast upp undir óljósum merkjum jafnaðarmennskunnar. R-lista pólitík er hrein valdapólitík en ekki hugsjónapólitík, að þessu leyti er ég innilega sammála Ögmundi Jónassyni, hinum óháða þingmanni Alþýðubandalagsins, sem berst gegn vinstri samrunanum á þeirri forsendu, að hann snúist ekki um stjórnmál heldur hitt að uppræta hugsjónir í stjórnmálastarfi.

Stjórnmálaflokkar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Þeir mynda skipulagsramma um stjórnmálastarf og gera almenningi kleift að láta að sér kveða með því að kalla forystumenn til ábyrgðar. Flokkarnir eru einnig vettvangur til að móta stefnu og þróa málefnalegar umræður á hugsjónalegum forsendum. Hér skal fullyrt, að Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn hér á landi, sem uppfyllir þær kröfur, sem eðlilegt er að gera til stjórnmálaflokka, sem ná til landsins í heild. Þar er ábyrgðin skýr og unnt að ganga að hlut flokksins í lands- og sveitarstjórn vísum. Vinstri flokkarnir bjóða ekki slíkan kost og R-listinn í Reykjavík veldur því, að í höfuðborginni er ekki unnt að kalla Framsóknarflokkinn til ábyrgðar, hann hefur kastað henni yfir á R-listann, þar sem ekki er um neitt flokkslegt skipulagt að ræða. Skoðanakannanir sýna, að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mikils trausts og það virðist vaxa um þessar mundir á sama tíma og aðrir flokkar í landinu hafa gefist upp við að halda málstað sínum fram með skýrum hætti á öllum sviðum og skilgreina hlutverk sitt á ljósan hátt.

Í komandi sveitarstjórnakosningum mun þessi brenglun á flokkakerfinu skýrast enn frekar, því að erfitt verður fyrir kjósendur að dæma menn af verkum þeirra, en styrkur lýðræðislegra stjórnarhátta felst meðal annars í því að það sé unnt. Vinstrisinnar ætla að koma fram sem pólitískir hvítvoðungar, undir nýju nafni og númeri, og láta eins og þeir hafi aldrei gert neitt, sem má gagnrýna. Vekur undrun að stjórnmálafæðingar og fjölmiðlar skuli ekki hafa beint athygli að þessari þróun. Skýringarinnar á því er kannski að finna í því, að hinar talandi stéttir aðhyllast þessa pólitísku upplausn og telja hana þjóna hagsmunum sínum.

Í sömu andrá og þetta er skrifað heyri ég í bakgrunni viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson, sem er að kveðja stjórnmálin, og telur öfl fjármagns og forréttinda vera að styrkja sig í sessi á kostnað verkalýðshreyfingarinnar. Til þess að sporna við þessu vill hann leggja niður Alþýðuflokkinn, en hann var kosinn formaður hans til að rífa flokkinn úr öskustónni, við brotthvarf Jóns Baldvins af þingi, er þar enginn þingmaður starfandi undir merkjum Alþýðuflokksins, þeir kjósa frekar merki jafnaðarmennskunnar, sósíalismans.

Þegar hlustað er á þetta tal vinstrisinna er augljóst, að þeir eru að flýja frá pólitískum hugsjónum kreppuáranna, án þess að hafa komið sér saman um eitthvað nýtt í staðinn. Deilur um kvótakerfið hafa skapað forsendur fyrir umræðum um nýtt málefni og hið sama er að segja um þátttöku Íslands í Evrópusamstarfinu. Er athyglisvert að fylgjast með því, hve mikla áherslu Jón Baldvin og stuðningsmenn hans í fjölmiðlum hafa lagt á að ræða þessi málefni, án þess að í raun sé ljóst, hver er kjarni málsins. Umræðurnar hafa verið umræðnanna vegna til að draga athygli frá almennri málefnafátækt og litlum raunhæfum árangri í hinu daglega stjórnmálastarfi, pólitískir ástríðumenn eru svipaðir öðrum ástríðumönnum, ef hvorki er unnt að berjast né ná árangri á raunhæfum forsendum er farið í loftkastalana, þar er að finna sameiningu flokka, patentlausnir í nafni veiðileyfagjalds og einangrun Íslands utan Evrópusambandsins.

Síðustu daga hafa umræður um kvótakerfið og veiðileyfagjald loks leitt til þeirrar niðurstöðu, að deilan snýst um það, hve háan nýjan skatt eigi að leggja á útgerðarmenn. Tölurnar hafa numið frá 20 milljörðum króna niður í einn milljarð núna. Að vísu kemur fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, að veiðileyfagjald hafi ekki verið markmið blaðsins í umræðum um kvótakerfið heldur réttlæti. Er bent á, að Norðmenn hafi gætt réttlætis við nýtingu olíuauðlinda á hafi úti og þær bornar saman við fiskinn í sjónum. Í þessum samanburði gleymist að taka tillit til atvinnuréttinda þeirra, sem höfðu um árabil stundað fiskveiðar við strendur Íslands og skapað þjóðarbúinu verðmæti með sjósókn sinni. Með því að úthluta þeim kvóta voru atvinnuréttindi þeirra viðurkennd, en þessi réttindi eru varin í stjórnarskránni eins og eignarrétturinn. Enginn gat með sömu rökum og útgerðarmenn hér krafist hlutdeildar í olíunni í hafsbotni undan ströndum Noregs.

Á flokksráðsfundi okkar sjálfstæðismanna laugardaginn 29. nóvember kom fram eindregin andstaða ungra sjálfstæðismanna við auðlindaskatt. Hafa þeir gefið út lítinn pésa til að skýra sjónarmið sín og svara þar áleitnum spurningum. Þar er fullyrðingunni um, að útgerðarmönnum hafi verið gefnar aflaheimildir, svarað með þessum hætti: "Þetta er rangt. Útgerðir sem höfðu lagt fjármagn, reynslu og tíma í að hagnýta auðlindina öfluðu sér atvinnuréttinda sem staðfest voru með aflamarkskerfinu. Talsmenn auðlindaskatts senda athafnamönnum þau skilaboð að frumkvæði borgi sig ekki." Þegar Morgunblaðið ber saman kvótakerfið hér og olíunýtingarstefnu Norðmanna kýs það að sleppa þessum mikilvægum þætti.