23.11.1997

Sagnfræðifundur - vinstri sameining

Að kvöldi föstudagsins 21. nóvember tók ég þátt í fundi, sem sagnfræðinemar í Háskóla Íslands boðuðu til í því skyni að ræða um samskipti Íslands við kommúnistaríkin í Austur-Evrópu. Höfðu þar framsögu sagnfræðingarnir Guðni Jóhannesson, Valur Ingimundarson og Þorleifur Friðriksson, Árni Bergmann fyrrverandi Þjóðviljaritstjóri, auk mín en Gísli Gunnarsson lektor stýrði fundi og pallborðsumræðum að framsöguræðum loknum, var þetta langur og fjölmennur fundur sem stóð frá 20.00 til 23.30 og var haldinn í safnaðarheimili Fríkirkjunnar, sem er við Laufásveg.

Meðal fundarmann var einn af starfsmönnum rússneska sendiráðsins. Var sérkennilegt, hvernig hann spurði í pallborðsumræðunum. Minnti það mjög á, hvernig sovéskir diplómatar töluðu fyrir 1989, þegar kalda stríðinu lauk. Hann endurtók gömlu dylgjurnar um, að hér á landi kynnu þrátt fyrir allt að vera kjarnorkuvopn, Íslendingar vissu ekki neitt um það, enda engu að treysta í þeim efnum í samskiptum við Bandaríkin. Ég hafði í framsögu minni, sem fjallaði um stjórnmálatengsl Íslands og Sovétríkjanna, einmitt bent á, að þessi áróður hefði einkennt mjög afstöðu Sovétmanna og talsmanna þeirra á tímum kalda stríðsins, þegar varnarsamstarfið við Bandaríkin bar á góma, þeir héldu alltaf áfram að dylgja um, að hér væru kjarnorkuvopn, þegar öllu væri á botninn hvolft, hvað sem íslensk og bandarísk stjórnvöld segðu.. Eftir að hinum formlegu umræðum lauk hjá sagnfræðinemunum, kom þessi rússneski sendiráðsmaður til mín og sagði ekki rétt, sem ég hefði sagt í ræðu minni, að hér á landi hefðu verið KGB- og GRU-njósnarar meðal starfsmanna sovéska sendiráðsins. Ég sagðist ekki þurfa hann til að upplýsa mig um þetta, því að ég vissi betur. Ítrekaði ég það, sem ég hafði sagt í umræðunum, að hann ætti að kynna sér íslenskar heimildir um þessi mál öll og átta sig á því, hvað hér hefði verið upplýst.

Þessar umræður staðfestu fyrir mér, að ekki sé nægilega mikið rætt um utanríkismál á sagnfræði- eða stjórnmálafræðilegum forsendum hér á landi. Sleggjudómar einkenna umræður um utanríkismál, jafnt þegar um þau er rætt á fræðilegum forsendum eða pólitískum. Til dæmis hafa ýmsir kennarar í stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands fellt harða dóma um andvaraleysi stjórnmálamanna, af því að þeir hafa ekki sett það á dagskrá að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu (ESB). Hafa þeir þar sungið undir með Jóni Baldvini Hannibalssyni sendiherra á meðan hann sinnti stjórnmálum og hafði að höfuðmarkmiði að gera hlut Sjálfstæðisflokksins sem minnstan. Hvað segja þessir menn nú, þegar þeir hlusta á Gerhard Schröder, forsætisráðherra Neðra-Saxlands og líklegt kanslaraefni þýskra sósíaldemókrata? Hann sagði á fundi hér föstudaginn 21. nóvember, að víst mundi ESB stækka í austur en hvort það tæki fimm eða tíu ár vissi enginn og Íslendingar hefðu valið skynsamlegasta kostinn fyrir sig, að standa utan við ESB. Hvaða stjórnmálamanni með skynsamlega sýn á stöðu Íslands gagnvart ESB dytti í raun, að gera það að úrslitaatriði á þessu kjörtímabili, að Ísland yrði aðili að ESB. Líklegt er raunar, að næsta kjörtímabil líði hér á landi, án þess að ESB stækki eða taki við nýjum aðildarríkjum, enda hefur fjarað undan pólitískum umræðum um þetta mál, eftir að Jón Baldvin hvarf úr stjórnmálaumræðunum, sem sannar að hitinn í því var bundinn við hann og einkastríð hans við Sjálfstæðisflokkinn.

Á fundi sagnfræðinemanna var rætt um nauðsyn þess, að þeir, sem fylgdu kommúnistaríkjunum að málum hér á landi, gerðu upp við fortíðina. Er ég enn sömu skoðunar og áður um það efni og tel, að Alþýðubandalagið líði fyrir, að hafa ekki tekið á þessum fortíðarvanda sínum strax í stað þess að láta hann krauma óleystan. Líklegt er, að þetta innanmein flokksins eigi sinn þátt í því, að hann er nú að liðast í sundur í nafni sameiningar og verða undirdeild í Alþýðuflokknum. Kannski er orðið "uppgjör" of harkalegt í þessu sambandi og heppilegra væri að finna eitthvert annað orð. Um það er að ræða, að fyrir opnum tjöldum ræði þessir menn um, hvað réð í raun afstöðu þeirra til ýmissa mála, þar sem við öllum blasti, að hún mótaðist af hollustu við sovéska stefnu eins og hún birtist á hverjum tíma. Vísan til formlegra samþykkta um slit á flokkstengslum dugar ekki í þessu sambandi. Hinn pólitíski samhljómur breyttist ekki vegna þessara formsatriða eða vegna þess að einstakar athafnir Sovétstjórnarinnar voru gagnrýndar, skárra væri það! Þá er hitt ekki enn skýrt til fullnustu, hvernig hinum fjárhagslegu flokks- og áróðurstengslum var háttað austur á bóginn.

------

Nú hefur sameiningarstefna vinstri manna klofið Kvennalistann. Bendir margt til þess, að hið sama gerist innan Alþýðubandalagsins. Mér finnst athyglisvert, að fjölmiðlar virðast ekki hafa neinn áhuga á að vita, hvar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri stendur í deilunum innan Kvennalistans. Hún er þó helsti oddviti flokksins.

Minnist ég í þessu sambandi, að á sínum tíma vakti ég máls á því í Staksteinum Morgunblaðsins, eftir að Ingibjörg Sólrún fór í framboð fyrir Kvennalistann, að þar með sannaðist, að Kvennalistinn væri vinstri flokkur. Tók ég þar mið af framgöngu hennar í háskólapólitíkinni, þar sem ekki fór á milli mála, að hún var langt til vinstri. Þegar þessu var haldið fram í Staksteinum mótmælti Ingibjörg Sólrún því af hörku og taldi ómaklega að sér og Kvennalistanum vegið, þar færu ekki neinir vinstrisinnar heldur hugsjónamenn á nýjum forsendum. Nú kemur hins vegar í ljós, að stór hluti Kvennalistans telur sjálfsagt að ganga í vinstra samstarf, enda samræmist það best stefnu flokksins frá upphafi vega. Er Ingibjörg Sólrún þeirrar skoðunar? Hvort er hún á sömu skoðun og áður eða fylgir þeim nú, sem vilja sýna hinn rétta vinstri lit. Líklega er henni þó kærast að láta líta svo út, að R-listinn sé ópólitískur!

Þegar rætt er um R-listann og vinstri sameiningu er erfitt að sjá, hvernig Framsóknarflokkurinn getur annars vegar fylgt fram þeirri stefnu, sem Halldór Ásgrímsson boðaði á miðstjórnarfundi á föstudaginn, að ætla að styrkja sig með því að standa utan við vinstri sameininguna, og hins vegar staðið að R-listanum í Reykjavík. Raunar var gefið til kynna eftir miðstjórnarfundinn, að R-listinn væri ekki annað en tímabundin bóla. Hún mundi springa fyrr en síðar, en þó vonandi ekki fyrr en eftir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Er ég sannfærður um, að þessi óljósa staða Framsóknarflokksins á mikinn þátt í því, að flokkurinn nær sér ekki á strik samkvæmt skoðanakönnunum. Aðild hans að R-listanum annars vegar og andstaða við vinstri sameiningu hins vegar, ruglar kjósendur Framsóknarflokksins í ríminu. Það þarf í senn styrk og leikni til að leika þannig tveimur skjöldum. Samstarfsmönnum Framsóknarflokksins í R-listanum er ekkert kærara en valda framsóknarmönnum sem mestum skaða með þessu samstarfi um völd Ingibjargar Sólrúnar. Framsóknarmönnum er þetta ljóst og þess vegna hefur Alfreð Þorsteinsson þessi tök á Ingibjörgu Sólrúnu, hann hótar henni með hugsanlegu samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn.

R-listinn er furðulegt fyrirbæri, sem hefur enga aðra stefnu en að halda sjálfstæðismönnum frá meirihlutastjórn í Reykjavík. Þessi stefna er nú rekin á þeim forsendum að koma sem oftast höggi á ríkisstjórnina. Nægir í því efni að nefna árásir Ingibjargar Sólrúnar á heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins í sjúkrahúsamálum og upphlaup Árna Þórs Sigurðssonar úr Alþýðubandalagi vegna leikskólabarna, þar sem hann vill skella skuld á menntamálaráðuneytið, þótt hann hafi sjálfur setið í starfshópi, sem skilaði áliti í mars 1996, þar sem mælt er fyrir um lausn þess máls, sem hann segir nú, að sé áfellisdómur yfir menntamálaráðuneytinu. Það vakti athygli mína, hve fréttastofu hljóðvarps ríkisins þótti mikið til þessarar framgöngu Árna Þórs koma. Sagt var frá henni með óvenjulegum hætti í morgunútvarpsfréttum föstudaginn 21. nóvember og fengu menn meðal annars að heyra ur ræðu Árna Þórs um málið á borgarstjórnarfundi. Var ljóst, að hann hafði hnippt í einhverja fréttamenn til að láta þá vita, að hann væri með markvert árásarefni á menntamálaráðuneytið, báru Morgunblaðið og Dagur merki hins sama. Líklega hefur Árni Þór ekki aðeins talið þessa framgöngu sína fallna til að gera hlut menntamálaráðuneytisins sem verstan heldur einnig til að styrkja eigin stöðu í væntalegum prófskjörsslag við Guðrúnu Ágústsdóttur í Alþýðubandalaginu um sæti á R-listanum. Hafi hann ekki betri vopn til að berjast með en þessi, lýst mér ekki á sigurlíkur hans.

Athyglisvert er, að sameiningartal vinstri manna verður frekar til þess að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins en draga úr því, ef marka má kannanir. Hefur fylgi flokksins aldrei mælst meira á þessu kjörtímabili en einmitt síðustu vikur, þegar sameiningartalið hefur verið mest.