8.11.1997

Sameiningarmálið - Hamborg/Gautaborg

Þegar þetta er fest á skjáinn er kveikt á útvarpinu og menn eru að ræða helstu atburði liðinnar viku. Hefur stjórnandinn valið þá með það að leiðarljósi að ræða sameiningarmál vinstri manna í tilefni af landsfundi Alþýðubandalagsins, þar sem sameiningarnálin valda mestri sundrungu. Þessi þáttur hefur verið á dagskrá rásar 1 klukkan 11 á laugardagsmorgnum um langt árabil og á minn gamli kunningi Páll Heiðar Jónsson heiðurinn af því að koma honum af stað, ef ég veit rétt. Er þátturinn í föstum skorðum en missir marks ef ekki eru valdir talsmenn mismunandi sjónarmiða. Ég hlusta ekki nægilega reglulega á þáttinn til að leggja dóm á það, hvernig stjórnandum tekst að fara hinn gullna meðalveg við mannaval, hins vegar get ég verið sammála þeim, sem sagði einhvers staðar, að fliss stjórnandans væri of truflandi.

Umræður í þessum þætti snúast oftar en ekki um það, að auka beri opinber útgjöld til að leysa allan vanda. Þá gleymist gjarnan, að það eru ekki stjórnmálamenn, sem greiða kostnaðinn heldur er honum velt yfir á skattgreiðendur.

Þegar rætt er um sameiningarmálin er sjaldan minnst á hlutverk stjórnarandstöðunnar. Hún á að halda stjórnvöldum við efnið og hefur að mörgu leyti betri aðstöðu en stjórnarflokkarnir til að móta skýra stefnu og kalla fram umræður á hugmyndafræðilegum forsendum. Þetta hefur ekki gerst og nú er ljóst, að Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn hafa beinlínis gefist upp við að skilgreina sig á eigin pólitískum forsendum. Er ég í þeim efnum sammála greiningu Ögmundar Jónassonar. Undir forystu Margrétar Frímannsdóttur og Sighvats Björgvinssonar hefur sú stefna verið mótuð að sækja ekki fram undir eigin flaggi heldur þyrla upp sameiningarmoldviðri í von um, að út úr því komi eitthvað nýtt, enn óskilgreint stjórnmálaafl. Kvennalistinn hefur runnið sitt skeið. Þjóðvaki er liðinn undir lok.

Í stuttu máli er engin marktæk stjórnarandstaða starfandi í landinu. Umræður á Alþingi snúast ekki um málefnaágreinig, sem byggist á ólíkum hugmyndafræðilegum forsendum. Stjórnarandstaðan fer alfarið eftir því, hvernig vindurinn blæs hverju sinni, er þetta kallaður populismi á erlendu máli eða lýðskrum. Stjórnmálamenn, sem þannig starfa, minna á dægurflugur.

Til að rökstyðja þetta bendi ég á tvær umræður utan dagskrár á Alþingi í þessari viku, það er um gjaldskrárhækkun Pósts og síma og um málefni Ríkisútvarpsins. Sá ég, að Morgunblaðið tók undir sjónarmið, sem ég hreyfði hér eftir stefnuræðu forsætisráðherra í haust, eftir að leiðarahöfundur blaðsins hafði fylgst með umræðunum P&S. Réttilega var bent á það, að þingmenn fluttu texta, sem tók ekkert mið af því, sem fram kom í ræðu ráðherrans og umræðurnar fóru út um víðan völl. Hið sama gerðist þegar rætt var um málefni Ríkisútvarpsins. Tilgangurinn var sá af hálfu Alþýðubandalagsins að saka Sjálfstæðisflokkinn um einelti og ofsóknir í garð Ríkisútvarpsins. Þá var framsóknarmönnum í mun að koma því sjónarmiði á framfæri, að þeir vildu sem minnst stjórnmálaafskipti af Ríkisútvarpinu, sem kom skemmtilega á óvart eftir bægslaganginn fyrir nokkrum vikum. Þetta varð til þess, að menn ræddu ekki um hið nýja og gjörbreytta starfsumhverfi Ríkisútvarpsins, sem kallar á önnur og ný viðhorf til þess, hvernig ber að taka á málefnum þess og útvarpsstarfsemi almenn.

Óánægjan með kvótakerfið er það málefni, sem helst sameinar vinstrisinna, þótt þeir tali svo óljósum orðum um stefnu sína í málinu, að ógjörningur er að átta sig á markmiði þeirra. Stjórnarandstaðan er þannig komin inn á grátt svæði í öllu tilliti. Sá grunur vaknar, að veiðiskatturinn á sjávarútveginn sé sameiningarsinnum svo mikið hjartans mál, af því að þeir telji sig eiga stuðning Morgunblaðsins vísan í málinu. Populistum þykir óþægilegt að taka upp mál, sem stangast á við skoðanir öflugra fjölmiðla. Össur Skarphéðinsson hefur nú verið ráðinn ritstjóri DV og er tekinn til við að boða veiðileyfagjaldið í leiðurum á sama tíma og hann tekur afstöðu með Magréti Frímannsdóttur í átökunum innan Alþýðubandalagsins. Er DV þannig orðið málgagn sameiningarsinna í innanflokks átökum stjórnarandstöðunnar og er því ekki lengur frjálst og óháð, blaðið býr sig einnig undir að styðja R-listann í næstu borgarstjórnarkosningum.

Gróska hefur farið um landið til að boða stefnu undir kjörorðinu Opin bók, sem lýsir mikilli stefnufestu. Hið helsta sem er fréttnæmt af þessum fundum er fámennið, sem sækir þá. DV gat þó sagt frá því á baksíðu, að einhver Gróskumaður hefði týnt farsíma fyrir norðan enVíkverji Morgunblaðsins hefur komist að því, að það sé frekar skipulagsleysi en áhugaleysi um stefnu Grósku (í veiðileyfagjaldsmálum?), sem veldur því, að engir eða örfáir komi á kynningarfundina.

Fimmtudaginn 6. nóvember flaug ég til Hamborgar og var þar um kvöldið þátttakandi í fjölmennum fagnaði, sem stofnað var til vegna þess að kynning á íslenskum barna- og unglingabókmenntum og liststarfi í tengslum við þær var að hefjast í Katholische Akademie. Við komum þar fram nokkrir Íslendingar og fluttum öll mál okkar á þýsku, en það kom í minn hlut að fara almennum orðum um framtakið. Á þessu ári hefur verið gert mikið átak við að kynna íslenskar bókmenntir í Þýskalandi, fjöldi höfunda hafa farið um landið og lesið úr verkum sínum, einnig hafa sérfræðingar í einstökum bókmenntagreinum látið að sér kveða. Í Hamborg munu höfundarnir meðal annars heimsækja skóla og hlýtur það að vera sérstök reynsla að fá tækifæri til að fara þannig með verk sín inn á nýjan vettvang og heyra viðbrögð úr öðrum menningarheimi.

Menntamálaráðuneytið hefur styrkt þetta framtak eftir megni en það hefur að hluta verið unnið í norrænni samvinnu. Þá hafa sendiherrahjónin í Þýskalandi Valgerður Valsdóttir og Ingimundur Sigfússon verið óþreytandi við að sinna öllum þessum viðburðum eftir því sem tóm hefur gefist. Jónína Michaelsdóttir, formaður Bókmenntakynningarsjóðs, hefur lagt drjúgan skerf af mörkum en Sigrún Valbergsdóttir tók að sér fyrir menntamálaráðuneytið að skipuleggja sérstaklega hina miklu kynningu í Hamborg. Ég er þeirrar skoðunar, að kynningarstarf af þessu tagi, sem byggist á ákveðnum verkefnum eigi að vinna án þess að setja á laggirnar sérstakar stofnanir, mestu skipti að fá hæft fólk til að taka verkið að sér og aðstoða það síðan eftir megni. Undirbúingur hátíðarinnar í Hamborg hófst til dæmis fyrir rúmu ári þegar menntamálaráðuneytið bauð forráðamönnum Katholische Akademie til landsins.

Ég hafði ekki nema kvöldstundina í Hamborg, því að snemma næsta morgun hélt ég af flugvallarhótelinu, þar sem ég gisti með Flugleiðavélinni til Kaupmannahafnar og þaðan til Gautaborgar. Var ég kominn þangað á 18. hæð Hotel Gothia rétt fyrir 12 á hádegi og tók þar þátt í hádegisverði í boði forstjóra hinnar miklu sýningarhallar, sem eru tengd við hótelið, fyrir okkur menntamálaráðherra Norðurlandanna og forystumenn í norrænum skólameistarasamtökum. Tilefnið var, að í sýningarhöllinni var efnt til fyrstu norrænnu sýningar sem tengist skólastjórn og skólastarfi. Var okkur ráðherrunum boðið til að taka þátt í pallborðsumræðum í lok þeirra málþinga, sem tengdust sýningunni. Hófust umræðurnar á því, að við fluttum stutt inngangsorð og ræddum síðan saman.

Þarna voru 12 forystumenn úr hópi framhaldsskólamanna undir forystu Margrétar Friðriksdóttur, skólameistara í MK og formanns Skólameistarafélagsins. Því miður hafði ég ekki tóm til að hitta Íslendingana sérstaklega þar sem ég hvarf út á flugvöll strax að umræðunum loknum. Vildi ég reyna að komast sem fyrst til Kaupmannahafnar aftur til að ná kvöldvélinni heim. Þótti mér tíminn milli komutíma hins bókaða flugs míns til Kaupmannahafnar og brottfarartíma Flugleiðavélarinnar óþægilega stuttur. Næsta vél á undan var yfirbókuð og gat ég því ekki breytt farmiða mínum, vélin mín frá Gautaborg lenti á Kastrup um 15 mínútum fyrir brottför Flugleiðavélarinnar. Það dugði þó fyrir mig.

Á þessum tveimur dögum hafi mér þannig tekist að fara nokkuð langa vegalengd til þátttöku í tveimur ólíkum atburðum á sviði menningar og mennta. Ekkert mátti fara úrskeiðis í flugi til að þetta tækist. Ef ég ber saman þjónustuna og flugvélar Flugleiða annars vegar og SAS hins vegar fá Flugleiðir vinningin. Vélarnar eru vistlegri og þjónustan og maturinn mun betri.

Ps.

Ég sá í Morgunblaðinu, að Guðmundi Hallvarðssyni, flokksbróður og þingmanni, var misboðið vegna þess sem ég setti hér á vefsíðu mína í tilefni af umræðum, sem urðu um Sjómannaskólahúsið. Telur Guðmundur, að ég hefði átt að upplýsa hann um það, sem ég setti inn á síðuna, þegar ég lagði út af ummælum hans þess efnis, að fyrir lægi tillaga um að flytja sjómannanámið í "landkrabbahverfi"! Af tilefni sagði ég hér á síðunni:

Í Morgunblaðinu í dag leggst Guðmundur eindregið gegn flutningnum meðal annars með þeim orðum, að engin rök séu fyrir því að "flytja Sjómannaskólann úr glæsilegu húsnæði sínu í aðþrengt, leiðinlegt landkrabbahverfi". Furðulegt er, að þingmaður Reykvíkinga skuli láta þessi orð falla um atvinnu- og skólasvæðið við Höfðabakka, ef einhvers staðar er víðátta er það einmitt á þeim stað, þar sem þessir skólar fengju góða framtíðaraðstöðu. Hugtakið "landkrabbahverfi" hef ég ekki heyrt áður í umræðum um skipulagsmál, vissi ég ekki fyrr, að Rauðarárholtið væri aðsetur annarra en landkrabba. Tveir ráðherrar eru að vísu næstu nágrannar Sjómannaskólans. Síðan reynir Guðmundur að fá mig til að fallast á þessa skrýtnu afstöðu sína með því að beina orðum föður míns frá 1944, þegar hornsteinn var lagður að Sjómannaskólahúsinu, gegn mér. Vopnaburður af því tagi getur fljótt snúist á andhverfu sína.

Í Morgunblaðsgreininni vitnar Guðmundur Hallvarðsson í einkasamtal okkar án þess að hafa rétt eftir. Er nauðsynlegt að leiðrétta það. Hann hefur eftir mér og segir mig hafa gert nokkuð úr því, að nemandi í Stýrimannaskólanum hafi sagt í samtali við mig, að frá Sjómannaskólahúsinu sæist illa til skipa, sem ættu leið um sundin. Þessi orð hefur Guðmundur eftir einhverjum öðrum en mér. Ég sagði Guðmundi eftir samtal mitt við nemendur í Stýrimannaskólanum, að þeir teldu sjómannamenntun ekki eins mikils metna af Reykvíkingum eins og íbúum annars staðar á landinu, þar sem nábýlið við sjómennsku væri meira. Þess vegna væru þeir, sem stunduðu nám í sjómennsku meira metnir í skólum utan Reykjavíkur. Af þessu taldi ég, að síðan mætti draga þá ályktun, að vegur sjómannamenntunar yrði meiri annars staðar en í Reykjavík.

Guðmundur ver stórum kafla Morgunblaðsgreinar sinnar í að verja tilvitnanir sínar í Svein Björnsson ríkisstjóra og Bjarna Benediktsson, sem var borgarstjóri 1944. Notaði ég orðið "vopnaburður" þegar ég ræddi þennan þátt í málflutningi Guðmundar, er það orð hlutlaust í þessu samhengi og lýsir því einu, hvernig menn halda á máli sínu. Í Morgunblaðsgreininni notar Guðmundur hins vegar orðið "vopnaskak" og telur sig hafa það eftir mér og ég hafi vænt hann um slíka framgöngu. Á "vopnaskaki", sem lýsir óvinarbragði, og "vopnaburði" er mikill munur í mínum huga, enda notaði ég aldrei fyrrnefnda orðið. Þessi kafli í Morgunblaðsgrein Guðmundar missir því marks.

Í Morgunblaðsgreininni víkur Guðmundur sérstaklega að því, að arkitektarnir, sem tóku að sér að vinna hugmyndir fyrir menntamálaráðuneytið, bentu á, að koma mætti fyrir skrokki af skipi í garði hússins við Höfðabakka 9. Er þetta aukaatriði í hugmyndum þeirra og einnig hitt, sem Guðmundur nefnir, hvernig merki verði sett framan við anddyri skólanna á hinum nýja stað, ef þangað yrði flutt.

Í tveimur Morgunblaðsgreinum hinn 6. og 8. nóvember lýsi ég afstöðu minni til þessa máls og raunar gerði ég það einnig í fyrirspurnatíma á Alþingi miðvikudaginn 5. nóvember, þegar skólastjórar Stýrimannaskólans og Vélskólans komu á palla Alþingis til að hlýða á umræður og afhenda mér mótmælaskjal. Í umræðunum greindi ég frá því, að skólanefndir Stýrimannaskólans og Vélskólans hefðu sameiginlega samþykkt að ganga til samstarfs við menntamálaráðuneytið um að kanna þrjá kosti til hlítar: 1. Hvort reisa ætti nýtt hús yfir starfsemi skólanna. 2. Hvort unnt væri að búa þeim framtíðaraðstöðu þar sem þeir eru nú. 3. Hvort unnt væri að finna þeim viðunandi leiguhúsnæði.