1.11.1997

París/Patreksfjörður - P&S og netverjar

Glöggir lesendur hafa bent mér á, að stundum beri nokkuð á stafsetningarvillum í þessum pistlum auk þess sem orð falli niður, sem geti valdið misskilningi. Vil ég biðja lesendur að taka slíkum prentvillum af velvild, því að mér gefst jafnan ekki tími til annars en skrifa textann hráan inn á skjáinn og senda hann síðan frá mér. Ekki hef ég neinn prófarkalesara og reynsla allra er jú sú, að þeir sjá sjaldan allar villur í eigin texta, þótt þeir leggi sig alla fram við leitina.

Nú er hálfur mánuður liðinn frá því, að mér gafst tóm til að setjast niður við tölvuna og koma reglu á hlutina með því að líta yfir farinn veg. Hvað sem líður áhuga manna á að koma inn á þessa vefsíðu er mér ljóst, að hún hefur orðið mikið heimildargildi fyrir sjálfan mig og ætti að lokum að gefa nokkuð heilstæða mynd af þeim störfum, sem menntamálaráðherra þarf að sinna, þótt á henni birtist ekki uypplýsingar um alla þá, sem ráðherrann hittir eða hvaða samkvæmi hann sækir eða hvernig hann ver öllum stundum sínum.

Ástæðan fyrir því, að tvær vikur eru liðnar frá síðustu færslu er sú, að fyrir viku var ég á ferðalagi til Parísar og London. Í París sótti ég aðalráðstefnu UNESCO, sem er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna, sem sinnir menntun og menningu. Flutti ég ræðu á ráðstefnunni föstudaginn 24. október og hitti síðan Federico Mayor, forstjóra UNESCO, en honum afhenti ég að gjöf hið nýja heildarsafn Íslendingasagna á ensku. Var það stórvirki unnið meðal annars fyrir styrk frá UNESCO. Í ræðu minni vék ég sérstaklega að gildi upplýsingatækninnar og rifjaði Mayor upp komu sína til Íslands í apríl 1996 en í pistli frá þeim tíma lýsi ég því, þegar ég sýndi honum kosti Internetsins.

Frá París fórum við Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn, sem var með mér í ferðinni, með Eurostar-lestinni til London, er það lestin, sem fer undir Ermarsund. Mæli ég eindregið með því að menn nýti sér þann farkost, ferðin tekur þrjá klukkutíma og er mjög þægileg.

Mánudagsmorguninn 27. október áttum við fund með dr. Kim Howell, þingmanni og aðstoðarráðherra í menntamálaráðuneytinu, en hann fer með æðri menntun og upplýsingatækni. Allt frá 1980 hafa Íslendingar þurft að borga há skólagjöld í breskum háskólum. Töldum við, að eftir aðild Íslands og Bretlands að EES myndu Íslendingar sitja við sama borð og íbúar innan Evrópusambandsins (ESB). Bretar gerðu hins vegar fyrirvara við EES-samninginn og skólagjöld Íslendinga lækkuðu ekki. Höfum við unnið að því síðan að skýra mál okkar fyrir Bretum og óska eftir að þeir féllu frá þessum fyrirvara sínum. Nú hefur í fyrsta sinn verið rætt um ráðherra í bresku stjórninni um málið. Howell tók okkur vel en án þess að lofa breytingu á afstöðu bresku ríkisstjórnarinnar. Munum við sjá hvað setur og fylgja málinu frekar eftir, ef nauðsyn krefst. Þá ræddum við einnig tölvuæðingu skólakerfisins í Bretlandi og nettenginu þess. Í síðasta pistli mínum sagði ég nokkuð frá umræðum í Bretlandi um það mál með því að vísa í neikvæðan leiðara vikublaðsins The Spectator . Er ljóst að Howell er síður en svo á sama máli og leiðarahöfundur blaðsins og vill hann stofna til samstarfs við Íslendinga um þetta efni, en víða um lönd er mönnum ljóst, hve langt við höfum náð í þessu efni. Síðdegis þennan sama mánudag tók ég þátt í fundi með forystumönnum nokkurra íslenskra fyrirtækja í Bretlandi. Héldum við síðan heim þriðjudaginn 28. október.

Fimmtudaginn 30. október flaug ég síðan til Bíldudals og hitti þar tvo flokks- og þingbræður mína Einar Kristinn og Einar Odd. Fórum við um Vesturbyggð þennan dag og til Tálknafjarðar, heimsóttum grunnskóla og markverð mannvirki, sem heimamenn vilja gjarnan vernda, auk þess sem við fórum að Hnjóti og skoðuðum þar hið merka safn Egils Ólafssonar. Um kvöldið efndum við síðan til stjórnmálafundar á Patreksfirði. Hann sóttu um 60 manns og sagði fundarstjóri, að a. m. k 30 ræður hefðu verið fluttar á þeim tæpu þremur tímum, sem fundurinn stóð. Morguninn eftir ókum við út á Barðaströnd og yfir Trostanfjarðarveg til Bíldudals. Var það viðleitni þeirra félaga til að kynna mér vestfirska vegi og get ég vel tekið undir með þeim og öðrum, að eitt hið besta sem unnt er að gera fyrir byggðina í landinu er að bæta samgöngur.

Í ræðu minni á Patreksfirði minnti ég, að með upplýsingatækninni hefðum við bætt við nýrri vídd í samgöngukerfi okkar, sem ylli því, að nú sætu menn hvarvetna við sama borð, þegar að því kæmi að afla sér upplýsinga eða njóta þess, sem boðið er með samruna síma, sjónvarps og tölvu. Væri gleðilegt til þess að vita, að í þessu efni stæðum við í fremstu röð. Íslenska símakerfið er meðal hinna fullkomnustu í veröldinni, hér eru fleiri heimili tengd með tölvu inn á netið en víðast annars staðar, milli 30% og 40% heimila eru þannig tengd, en í Bretlandi eru til dæmis um eða innan við 30% heimila með tölvu og hlutfall þeirra, sem eru tengdir á netið, er miklu lægra.

Ég tel, að þessi gleðilega þróun hér á landi hafi ekki síst orðið vegna þess, að símgjöldum hefur verið stillt í hóf og hér hafa einstaklingar verið ótrauðir við að koma hinni nýju tækni á framfæri. Hefur oft vakið undrun mína, hve mikil spenna hefur oft komið upp milli þeirra, sem vinna að útbreiðslu hinnar nýju upplýsingatækni og Pósts og síma (P&S). Margt finnst mér benda til þess, að P&S óttist allar breytingar og skipi sér fyrst í varnarstöðu gagnvart þeim, áður en litið er til þeirra kosta, sem í nýjungum felast. Hafði ég verulegar áhyggjur af því, að síðasti kafli í átakasögu P&S og þeirra, sem vinna á hinum nýja vettvangi upplýsingatækninnar og treysta á þjónustu P&S, kynni að leiða til stöðnunar í þróun hinnar nýju tækni hér. Minnist ég þess ekki síðan ég fór inn á netið, að hafa fengið jafnmikið af bréfum frá reiðum viðksiptavinum P&S og síðustu daga. Fagnaði ég því, þegar menn settust að nýju yfir málið undir forystu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og endurmátu stöðuna. Ef til vill væri betra í fleiri tilvikum fyrir P&S að ganga til viðræðna við þá, sem lifa ekki og hrærast í málefnum fyrirtækisins frá degi til dags og fá viðhorf þeirra, áður en teknar eru ákvarðanir, sem varða allan almenning. Vegna þess hve netþjónustan er miklu meira nýtt hér á landi en annars staðar, getur P&S ekki byggt gjaldskrárákvarðanir sínar á sömu lögmálum og gilda annars staðar. Hér veldur hin nýja viðbót, sem felst í netnotkun, miklu meiri veltuaukningu en annars staðar og þess vegna mundi maður ætla að P&S gerði sér far um að þóknast þessum nýju viðskiptamannahópi sérstaklega, ekki síst þegar samkeppni er á næsta leiti. Þessi hópur er nýjungagjarn og framsýnn, hann leitar allra leiða til að tryggja stöðu sína sem best og sjái hann tækifæri til að gera það með viðskiptum við aðra en P&S mun hann gera það nema P&S leggi sig fram um að halda í þessa viðskiptavini sína. Átökin síðustu viku benda ekki til þess, að P&S njóti mikillar viðskiptavildar hjá þessum öfluga hópi símnotetnda, rofni tengslin við þá, kann það hins vegar að hafa aðrar afleiðingar en tekjumissi fyrir P&S, þá missir hann einnig kröfuhörðustu kaupendurna, sem helst knýja á um að tæknileg gæði. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að P&S verðleggi aðgang að ljósleiðaranum fyrir ljósvakamiðla með þeim hætti, að hann ýti þar frá sér góðum viðskiptavinum. Raunar hef ég aldrei skilið hið háa notendagjald af ljósleiðaranum, þegar haft er í huga að mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins (NATO) stóð undir meginþunga fjárfestingar í honum umhverfis landið í tengslum við smíði nýrra ratsjárstöðva.

Síðasta rimma er ef til vill síðasta átakalota milli P&S og netverja, því að frá með áramótum geta menn leitað annarra leiða en þeirra að skipta við P&S sætti þeir sig ekki við verðskrá hans eða þjónustu.