19.10.1997

Netið - Sjómannaskólahúsið - hnefaleikar

Við Íslendingar göngum þannig til verks, að mikilvægt sé að nýta tölvutæknina sem best í skólakerfinu. Viljum við bæði tölvuvæða skóla sem best og tengja þá inn á netið. Verð ég mjög var við það í störfum mínum, að mikill áhugi er á þessu sviði, ekki síst hjá foreldrum. Er ljóst, að menn meta skóla mjög eftir því, hvernig þeir eru búnir að þessu leyti. Á Alþingi var nokkur umræða um fjarkennslu og tölvumál í tilefni af tillögu Svanfríðar Jónasdóttur o.fl. þingmanna stjórnarandstöðunnar um að skipa nefnd til að huga að fjarnámi. Ég tel óþarft að skipa slíka nefnd með hliðsjón af því markvissa starfi, sem þegar er unnið á þessu sviði og í ljósi þeirrar stefnu, sem menntamálaráðuneytið hefur mótað í riti sínu Í krafti upplýsinga. Kom fram hjá þingmönnum, að þeir töldu málið almennt í góðum farvegi nema helst Guðnýju Guðbjörnsdóttur, prófessor og þingmanni Kvennalistans. Hún er eins og Ágúst Einarsson, prófessor og þingmaður Þjóðvaka sáluga, að þau geta aldrei tekið til máls um menntamál á Alþingi án þess að setja upp bölsýnisgleraugun og finna að öllu, viðurkenna ekkert sem til framfara horfir og kvarta undan því, að ekki séu til nógu miklir peningar.

Í vikuritinu The Spectator , sem gefið er út í London, birtist hinn 11. október forystugrein undir fyrirsögninni Net loss. Þar segir, að Tony Blair hafi nú fengið Bill Gates frá Microsoft til að staðfesta vilja New Labour til tækniframfara. Hafi Gates lofað Blair að aðstoða hann við að tengja alla skóla í Bretlandi við Internetið. Þessu markmiði höfum við Íslendingar þegar náð, sé á annað borð vilji hjá skólastjórnendum að tengjas netinu.

Í blaðinu er því velt fyrir sér, hvort almennt sé gott og nauðsynlegt fyrir skóla að tengjast netinu. Minnt er á, að netið sé orðið að nútímalegri goðsögn, sagt sé, að það leysi notendur sína úr landfræðilegum viðjum, stuðli að frjálsri hugsun, ógni kúgunarstjórnum um heim allan, skapi nýjar viðskiptaleiðir og síðast en ekki síst sé netið hornsteinn nútímalegs menntakerfis.

Leiðarahöfundurinn telur þetta allt orðum aukið, því að í frjálsu landi ýti netið ekki undir jákvæð gildi heldur skapi siðferðilegar hættur. Dónamyndir, sem bannaðar séu að breskum lögum, flæði hindrunarlaust um veraldarvefinn. Margir notendur netsins í Bretlandi og flestir þeirra, sem hagnast á því, séu að leita eftir eða bjóða kynlífsþjónustu. Fáir eða nokkrir græði á því að vera á netinu, Bretar vilji fara í verslanir en ekki sitja við tölvur við innkaup sín.

Erfitt sé að átta sig á því, að aðgangur að netinu bæti menntun barna. Það megi nota það til að ná í upplýsingar, en yfirleitt sé svo erfitt að nýta sér það með þeim hætti, að leitin verði markmið í sjálfu sér. Oftast sé ferðalag um netið aðeins skemmtilegur tímaþjófur. Þá sýni rannsóknir í Bandaríkjunum, að of mikil notkun tölva dragi úr sköpunarmætti barna.

Áhugamenn um netið haldi því fram, að með því að nota netið tileinki börn sér óhjákvæmilega verkkunnáttu, sem jafnist í nútímanum á við að kunna að lesa eða skrifa. Í raun séu þau aðeins að læra aðferð, sem verði einskis nýt og úrelt löngu áður en nemendurnir fara út á vinnumarkaðinn. Verra sé, að engin trygging sé fyrir því að vinnuveitendur þurfi á þessari kunnáttu að halda. Það sé engin vissa fyrir því, að netið nýtist í almennum mæli til viðskipta, þrátt fyrir bænheitar vonir margra um það efni.

Í stað þess að falla í hugsunarleysi fyrir Internetinu og tilbiðja það sem tákn nútímans ætti ríkisstjórnin að huga því, hvernig hún geti haft stjórn á því. Ritskoðun sé óframkvæmanleg, en lögrelgan og eftirlitsmenn með fjárviðskiptum ættu að hvetja Breta til að forðast að nota netið til að miðla eða ná í ólögmætt efni. Þeir verði einnig að forða saklausum notendum frá því að lenda í klóm svikahrappa.

Tony Blair ætti að vara fólk við netinu og hætta við að tengja alla skóla við netið. Í stað þess ætti að nota takmarkaða fjármuni til að auka kennslu í lestri, skrift og reikningi.

Ég birti þessa kafla úr forystugrein The Spectator ekki vegna þess að ég sé sammála skoðunum ritstjórans heldur til þess að vekja athygli á viðhorfi hans. Hvergi hef ég heyrt slíkum skoðunum haldið á loft í umræðum um íslensk skólamál. Kröfur til yfirvalda eru þvert á móti á þann veg, að betur eigi að gera með aukinni tölvuvæðingu.

--------

Fimmtudaginn 16. október klukkan 14 efndi ég til fundar í matsal Marels hf. að Höfðabakka 9 með forráðamönnum Stýrimannaskólans og Vélskólans til að kynna þeim hugmyndir um að flytja starfsemi skólanna af Rauðarárholti inn í Höfðabakka haustið 1999. Hugmyndir um nýtt framtíðaraðsetur þessara skóla hafa oft verið reifaðar. Umræðurnar nú eiga rætur að rekja til skýrslu nefndar, sem ég fól á síðasta vetri að fara yfir byggingaáform skóla á háskólastigi annarra en Háskóla Íslands. Meðal þess sem nefndin kannaði var húsnæðisþörf Kennara- og uppeldisháskóla Íslands, sem á að sameina þrjá skóla í Reykjavík: Fósturskólann, Þroskaþjálfaskólann og Kennaraháskólann, auk þess verður Íþróttakennaraskólinn hluti af hinum nýja skóla, en hann verður áfram með aðsetur á Laugarvatni. Telur nefndin, að með því að flytja Stýrimannaskólann og Vélskólann megi spara nokkur hundruð milljónir króna. Ég kynnti þessar hugmyndir fyrir forráðamönnum sjómanna og útgerðarmanna í sumarbyrjun og báðu þeir um, að ráðuneytið útfærði tillögur sínar nánar, áður en afstaða yrði endanlega tekin til málsins. Fól ég Framkvæmdasýslu ríkisins og arkitektum á hennar vegum að vinna þessar hugmyndir á eigin vegum og án afskipta annarra á þessu undirbúningsstigi, enda yrðu tillögurnar síðan kynntar þeim, sem að ákvörðunum um framhaldið koma. Gekk þetta eftir og voru tillögur um útfærslu kynntar á fyrrgreindum fundi.

Ég vissi um andstöðu margra við þessar hugmyndir og geri mér vel fyrir því, að sjómenn bera sterkar tilfinningar til Sjómannaskólahússins. Hinu leyni ég ekki, að málefnafátækt þeirra, sem snúast gegn tillögunum, kemur mér á óvart. Að vísu er því haldið fram, að kostnaður við flutninginn sé mun meiri en hugmyndirnar sýna. Þetta þarf að skoða nánar.

Raunar er það almennt svo að menn geta alltaf gert svo miklar kröfur, að ekki er unnt að verða við þeim, og nota síðan neitun þess, sem á að borga, til að fegra og rökstyðja málstað sinn. Leikbrögð af þessu tagi eru alkunn. Vilji menn flytja í nýtt húsnæði gera þeir eins lítið úr kostnaðinum og þeim er fært, séu þeir á móti flutningi eru dregnir fram allir hugsanlegir vankantar og þá ekki síst gert mikið úr nýjum útgjöldum.

Tveir flokksbræður mínir á Alþingi og einu alþingismenn úr Stýrimannaskólanum, Guðmundur Hallvarðsson og Kristján Pálsson, fengu upplýsingar um fundinn og báðu um að fá að sitja hann. Samþykkti ég það að sjálfsögðu. Í Morgunblaðinu í dag leggst Guðmundur eindregið gegn flutningnum meðal annars með þeim orðum, að engin rök séu fyrir því að "flytja Sjómannaskólann úr glæsilegu húsnæði sínu í aðþrengt, leiðinlegt landkrabbahverfi". Furðulegt er, að þingmaður Reykvíkinga skuli láta þessi orð falla um atvinnu- og skólasvæðið við Höfðabakka, ef einhvers staðar er víðátta er það einmitt á þeim stað, þar sem þessir skólar fengju góða framtíðaraðstöðu. Hugtakið "landkrabbahverfi" hef ég ekki heyrt áður í umræðum um skipulagsmál, vissi ég ekki fyrr, að Rauðarárholtið væri aðsetur annarra en landkrabba. Tveir ráðherrar eru að vísu næstu nágrannar Sjómannaskólans. Síðan reynir Guðmundur að fá mig til að fallast á þessa skrýtnu afstöðu sína með því að beina orðum föður míns frá 1944, þegar hornsteinn var lagður að Sjómannaskólahúsinu, gegn mér. Vopnaburður af því tagi getur fljótt snúist á andhverfu sína.

Skólastjóri Vélskólans taldi, að það væri sérstök óvirðing í því fólgin að flytja skólann í verksmiðjuhús, eins og hann orðaði það í Morgunblaðsviðtali. Í þessu húsi hefur Marel unnið að hátæknivinnu sinni og hafa fá fyrirtæki fleiri hámenntaða háskólamenn í þjónustu sinni. Hefur starfsemi Marels dafnað svo vel, að fyrirtækið hefur sprengt húsnæðið utan af sér. Þá hefur Tækniskólinn starfað um nokkurt árabil í næsta nágrenni við Marel og hafa engar kvartanir borist um að aðstaðan þar þjóni ekki skólastarfi vel.

Bent var á, að enginn turn væri á hinu nýja húsi og þess vegna ekki unnt að koma þar fyrir ratsjárbúnaði. Nútímafjárskiptatækni hefur getið það af sér, að jafnvel hér við tölvuna mína get ég skotist inn á ratsjárskífu, sem finna má á netinu eða inn á alls kyns aðrar fjarlægar mælistöðvar.

Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, sagðist í Morgunblaðinu ekki sjá þörf fyrir það, að sjómannamenntun væri veitt í húsi, sem notað væri sem siglingamerki, þegar komið væri til Reykjavíkurhafnar.

Af þessu má sjá, að umræðurnar hafa verið fjölbreytilegar. Í mínum huga skiptir mestu að sjá þessum tveimur skólum fyrir góðri framtíðaraðstöðu, minnismerkjastefna í skólamálum skilar sjaldan miklum árangri og ekki er einleikið, að dregist hefur um ár og áratugi að ráðast í endurbætur á Sjómannaskólahúsinu. Þá tók áratug eða um það bil að komast að niðurstöðu um inntak sjómannamenntunarinnar og lauk því starfi ekki fyrr en ég tók af skarið og er nú unnið að því að hrinda breytingum í framkvæmd. Síðastliðið vor átti í hitafundi um það mál. Þá deila vélstjórar og LÍÚ hart um inntak vélstjóramenntunar og hef ég nú fengið mann til að reyna að sætta þau sjónarmið.

-------

Fyrir nokkrum dögum kom talsmaður ólympískra hnefaleika á minn fund og kynnti málstað sinn. Telur hann, að með öllu sé óviðunandi, að þessi íþróttagrein skuli bönnuð hér á landi. Er sagt, að hún sé þriðja vinsælasta íþróttagreininni á ólympíuleikum. Samkvæmt ályktun Alþingis starfar nú nefnd að því að ræða samfélagslega stöðu íþrótta. Beindi ég því með óformlegum hætti til formanns nefndarinnar, að hún velti stöðu hnefaleikaíþróttarinnar fyrir sér. Skýrði ég þessum viðmælanda mínum frá því að ég mundi leita álits þessarar nefndar. Nokkrum dögum eftir samtal okkar var hann kominn með efni þess í blöðin og var þar skýrt misvísindi frá ætlan minni í málinu, svo að ekki sé meira sagt. Í framhaldinu hafa umræður um hnefaleika og bannið við þeim hér verið talsvert til umræðu í fjölmiðlum auk þess sem stuðningsmenn bannsins, læknar og fleiri, hafa látið í sér heyra, Morgunblaðið tekur í dag þá afstöðu í leiðara, að ekki beri að aflétta banninu. Meirihluti áhorfenda Stöðvar 2, sem hringdu og sögðu álit sitt á málinu í vikunni, sagðist vilja afnema bannið, hringdu á níunda þúsund manns og voru rúmlega 60% þeirrar skoðunar, að afnema bæri bannið.

Ég hef ekki gert upp hug minn í þessu máli. Ég er ekki neinn áhugamaður um hnefaleika en hef almennt þá afstöðu, að treysta eigi einstaklingnum fyrir eigin velferð án of mikilla opinberra afskipta.