Samningsstjórnun - R-lista raunir - dauði Díönu
Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins komum saman til fundar síðdegis fimmtudaginn 28. ágúst og ræddum fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár í tæpar sex klukkustundir. Eins og nærri má geta var víða komið við í svo viðamiklum umræðum. Sérkenni þingflokksfunda er, að það eru einu formlegu fundirnir innan vébanda Alþingis, þar sem aðeins flokksbræður sitja á rökstólum og gildi fundanna ræðst af því, hvort trúnaður ríkir um það, sem þar gerist og það sé ekki borið á torg. Þennan trúnað rjúfa menn ekki nema fyrir þeim vaki að gera samherjum grikk eða koma illu af stað. Má raunar oft mæla eindregni og baráttuþrek flokka og traust þingmanna á forystumönnum sínum af því, hve vel þingmenn standa saman um að virða leikreglur þingflokks síns.
Lýðræði felst ekki í því, að einstakir þingmenn hlaupist undan merkjum í viðkvæmum málum, heldur hinu, að tóm gefist til að bera saman bækur í því skyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þessi andi einkennir mjög starf þingflokks okkara sjálfstæðismanna og sveif hann yfir vötnum umræðnanna um fjárlagafrumvarpið, þótt ekki væru allir á einu máli um allt, sem í frumvarpinu stendur.
Frá því hefur verið skýrt, að við undirbúning frumvarpsins að þessu sinni, hafi af menntamálaráðuneytið farið inn á þá braut að skilgreina fjárveitingar til hvers framhaldsskóla á hugmyndafræði, sem kennd er við samningsstjórnun, þjónustusamninga eða árangursstjórnun, svo að vitnað sé til nokkurra þeirra hugtaka, sem notuð eru til að lýsa nýjungum í rekstrar- og fjármálastjórn ríkisfyrirtækja.
Fjármálaráðuneytið hefur lýst samningsstjórnun á þennan veg:
"Annars vegar fær stofnunin aukið sjálfræði til ákvarðana um tilhögun rekstursins og með hvaða hætti hún nær tilskildum árangri. Hins vegar er gerður formlegur þjónustusamningur á milli stofnunar og ráðuneytis sem felur í sér hvaða árangri stofnunin skuldbindur sig til að ná og hvaða endurgjald ráðuneytið áformar að veita."
Þá fær viðkomandi stofnun aukið sjálfræði við nýtingu fjármuna og í launa- og starfsmannamálum. Hefur verið unnið að tilraunum á þessu sviði innan Kvennaskólans í Reykjavík undanfarið og Aðalsteinn Eiríksson skólameistari þar hefur einmitt unnið að því með starfsmönnum ráðuneytisins í sumar að móta reiknireglur, sem eru forsendur fyrir því, að unnt sé að gera slíka samninga. Í þessum reglum er lögð áhersla á, að fjármunir renni til skóla vegna virkra nemenda í þeim. Rætt hefur verið við fulltrúa hvers skóla fyrir sig og nú er unnið að því að leggja lokahönd á verkið, en að því er innra starf skólanna varðar er tekið mið af markmiðum ráðuneytisins um verkaskiptingu á milli skólanna, hugmyndum um kjarnaskóla og fleiri slíkum atriðum, sem skýrast betur við gerð nýrrar námskrár fyrir framhaldsskólastigið, en hún er í smíðum. Þá hefur sérstakt tillit verið tekið til verknáms, aðstæðna í fámennum skólum og hvaða hlutverki skóli gegnir við að mennta þá, sem þurfa meiri umhyggju en almennt gerist.
Skólamenn hafa lengi óskað eftir því, að stuðst verði við slíkt gegnsætt fjárveitingakerfi til skólanna. Ábyrgð skólameistara eykst bæði við starfsmannahald og fjármálastjórn. Kjarasamningar við framhaldsskólakennara, sem gerðir voru í í sumarbyrjun til þriggja ára, veita skólameisturum meira svigrúm en áður til að kalla kennara til fleiri starfa en kennslu, enda skulu skólar nú í ríkara mæli en áður sinna sjálfsmati og markmiðsgerð, sem er óhjákvæmilegur þáttur nýrra stjórnarhátta.
Ég sé, að í grein eftir Gunnar E. Finnbogason, dósent við Kennaraháskóla Íslands, sem birtist í tímariti skólans Uppeldi og menntamálum 1996, þar sem hann fjallar um skólastarf og markaðslögmálin, er dregin sú ályktun, að ekki verði lengur komist hjá því að meta árangur af skólastarfi og það hafi enga þýðingu að segja að slíkt sé ekki hægt. Skólinn starfi við þær aðstæður, að samkeppni um fjárveitingar hafi harnað og aukist og hann hljóti að taka þátt í þessari keppni um sífellt minni fjárveitingar. Innan skóla verði menn að sameinast um það, sem þeir geti kallað gæðamenntun, því að annars sé erfitt að leggja mat á árangur í skólastarfi. Vil ég í þessu sambandi minna á, að samkvæmt nýjum framhaldsskólalögum ber að taka upp samræmd próf innan þeirra, nú innan þriggja ára.
Gunnar sér þá vankanta helsta á því að innleiða markaðslögmálin meira í skólastarf, að spenna kunni að skapast milli kennara og skólastjórnenda; að skólarnir verði að bjóða spennandi viðfangsefni, sem kunni að leiða til minni gæða; að sóst verði eftir getumiklum nemendum, hinir eigi erfitt uppdráttar; kennarar, sem nemendum líkar ekki, missi vinnuna og aukin samkeppni milli kennara kunni að spilla innbyrðis samvinnu milli þeirra.
Þá segir Gunnar, að samkvæmt markaðshyggjunni sé hver einstaklingur best fallinn til að velja það, sem honum gagnast best og hentar hverju sinni. Þess vegna eigi einstaklingurinn sjálfur að velja, sú spurning vakni, hvort allir foreldrar séu jafnt vel í stakk búnir að velja námsleiðir og skóla við hæfi barna sinna, tryggja þurfi með löggjöf, að nemendur sitji við sama borð hvað valmöguleika áhærir.
Ég leyfi mér að birta þessa endursögn á niðurstöðu Gunnars E. Finnbogasonar í fyrrnefndri grein vegna þess að þarna eru dregin saman sjónarmið, sem huga þarf að, þegar farið er inn á nýjar brautir í fjárhagslegum starfsháttum framhaldsskóla. Hins vegar finnst mér, að sjónarmið Gunnars séu ekki þess eðlis, að óttast beri nýbreytnina, þvert á móti beri að halda áfram á þessari braut.
R-lista raunir
Sagt er frá því í kvöldfréttum 30. ágúst, að Kvennalistinn hafi klofnað um það, hvort hann eigi samleið með vinstri flokkunum eða ekki. Kristín Ástgeirsdóttir alþingismaður lýsir Kvennalistanum sem andófsafli en síðan ályktar hann, að öllum innan vébanda listans sé heimilt að starfa með hverjum, sem þeir kjósa. Heyrist mér á þessu, að Kvennalistinn hafi splundrast og þingmennirnir þrír séu í raun hættir að starfa sem heild en kunni að vera sammála um einstök mál, þó er ekki líklegt að þingflokkurinn verði lagður niður með formlegum hætti, því að slíkt hefur áhrif á opinberar fjárveitingar samkvæmt reglum um styrk við þingflokka.
Ég hef oftar en einu sinni á þessum síðum mínum látið þess getið, að fjölmiðlar skýri lítið frá framboðsraunum R-listans í Reykjavík. Í þessari viku hefur orðið nokkur breyting á þessu. Í DV var þriðjudaginn 26. ágúst skýrt frá því, að framboðsmál R-listans væru í uppnámi og kratar settu skilyrði, sem ekki væri sátt um. Kratar vilja opið prófkjör eða að allir flokkar fái jafnmarga fulltrúa. Kvennalistinn hafnar prófkjöri, framsóknarmenn hafa sagt, að aðeins framsóknarmenn velji fólk til trúnaðarstarfa fyrir Framsóknarflokkinn og hefur Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem setur Ingibjörgu Sólrúnu jafnan úrslitakosti, kveðið fast og afdráttarlaust að orði um þessa framsóknarafstöðu. Er ástæða til að hafa hugfast, að á sama tíma og hið pólitíska bakland Ingibjargar Sólrúnar gufar upp með sundrungu Kvennalistans verður Alfreð sífellt meiri þungavigtarmaður í pólitísku tilliti fyrir utan hin fjárhagslegu undirtök, sem hann hefur skapað sér í krafti formennsku í stjórn veitustofnana. DV skýrir frá því, að fjórir fulltrúar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Kvennalista ræði framboðið í umboði 25 manna nefndar en fimmti maður í þessari nefnd sé Stefán Jón Hafstein, ritstjóri Dags-Tímans, en hann er trúnaðarmaður Ingibjargar Sólrúnar. Athygli vekur, að í þessum lykilhópi er enginn fulltrúi Grósku, sem gerir kröfu um að vera sameiningarafl ungliða og holdgervingur sameiningar þessara flokka. Í DV kemur fram, að Alþýðuflokkurinn vilji fá sæti á R-listanum frá Kvennalista og ýta eigi Steinunni Óskarsdóttur til hliðar, en hún hefur einkum látið að sér kveða með misheppnuðum og ranglega tímasettum pólitískum ræðum á Austurvelli 17. júní, þegar menn hafa haldið, að hún ætlaði að kynna dagskrá þjóðhátíðarhaldanna sem formaður hátíðarnefndar. Steinunn á rætur í Röskvu og til að sætta krata hefur Skúli Helgason, gamall Röskvumaður og dagskrármaður á Bylgjunni, verður nefndur til framboðs. Kratar líta ekki á Skúla sem sinn mann, spurning er hvort hann róar Grósku-hópinn.
Með það í huga, að Stefán Jón Hafstein er sérstakur trúnaðarmaður Ingibjargar Sólrúnar við framboðsundirbúning R-listans, var forvitnilegt, að sjá forsíðufrétt um málið í Degi-Tímanum föstudaginn 29. ágúst. Þar tjáir Ingibjörg Sólrún sig um málið með þessum orðum: "Það er alveg ljóst að við þurfum að stíga einhver þau skref fyrir þessar kosningar sem auka sjálfstæði Reykjavíkurlistans og gefa stuðningsfólki kost á því að koma meira að málinu." Því miður eru þessi ummæli Ingibjargar Sólrúnar svo óljós, að þau hafa enga merkingu án frekari úrskýringa, sem ekki hafa fengist. "Aðferðafræðin" við framboðið er enn í athugun að sögn Ingibjargar Sólrúnar. Þá segir blaðið, sem ritstýrt er af trúnaðarmanni Ingibjargar Sólrúnar : "Skiptar skoðanir virðast vera innan R-listans ef marka má það sem fram hefur komið í fjölmiðlum." Hvers vegna skyldi blaðamaðurinn ekki hafa spurt ritstjóra sinn um málið?
Dauði Díönu
Það var ónotalegt að vakna að morgni sunnudagsins 31. ágúst og heyra í fréttum klukkan 8, að Díana prinsessa hefði látist þá um nóttina í bílslysi í París. Ég fylgdist með framvindu sorgarfréttarinnar í Sky News fram eftir degi. Á milli sorgar og reiði er stutt bil og þegar leið á daginn varð reiðin í garð ljósmyndaranna, sem eltu Díönu á röndum og létu hana aldrei í friði, sífellt meiri. Einnig heyrði ég fréttamann í París undra sig á því, að frönsk yfirvöld hefðu ekki lagt til lögreglumenn til að hafa auga með Díönu í París, það hefði ekki þurft mikinn speking til að átta sig á því, að hinir ófyrirleitnu ljósmyndarar myndu fylgjast með ferðum prinsessunnar og vinar hennar Dódí, úr því að þau ákváðu að fara út að borða á jafnáberandi og opinberum stað og Ritz-hótelinu. Þá sagði talsmaður France Soir, götublaðs í París, að erfitt væri að ímynda sér, að ljósmyndarar hefðu verið á hælum bílsins á 200 km hraða. Slys af þessu tagi væru því miður ekki óalgeng í París. Díana var mest ljósmyndaða kona í heimi og nú er sagt, að hún hafi látið lífið vegna tilraunar til að ná af henni næturmynd í aftursæti á Mercedes Benz 600.
Saga Díönu og endalok eru með ólíkindum. Þótt hún færi víða, kom hún aldrei til Íslands og á sínum tíma, þegar Karl prins kom hingað til laxveiða, var látið í veðri vaka, að hún hefði engan áhuga á að slást í förina með honum. Þegar ég dvaldist í Oxford fyrstu viku mánaðarins og fylgdist lítillega með enskum fréttum á heimavelli, beindist mesta athyglin að Diönu og athöfnum hennar. Það verður því mikið tómarúm í fjölmiðlum við ótímabært og sorglegt brotthvarf hennar. Hvort atburðurinn verði til þess að auka virðingu ósvífinna fréttamanna fyrir einkalífi kóngafólks og annarra skal ósagt látið. Áhrifin hljóta að verða einjver, til dæmis sögðu þeir á Sky, að hróp hefðu verið gerð að þeim blaðamönnum og ljósmyndurum, sem fengu að fara inn í sjúkarhúsið í París, þegar kista Díönu var borin út úr því. Starfsmenn og sjúklingar, sem voru innan dyra í sjúkrahúsinu, hefðu ekki getað hamið reiði sína, þegar þeir sáu fjölmiðlafólkið.
Samtíminn er miskunnarlaus. Annars vegar helgaði Díana krafta sína þeim, sem máttu sín lítils vegna sjúkdóma eða ótta, hins vegar glímdi hún við eigið hlutverk sem ævintýraprinsessa fólksins. Árangri í fyrra hlutverkinu gat hún ekki náð sem skyldi nema að gegna hinu síðara í fjölmiðlaljósinu.