24.8.1997

Fjárlagaumræður- sameiningarraunir

Í ágústmánuði þarf ríkisstjórnin að komast að niðurstöðu um meginlínur fjárlaga næsta árs. Þegar samkomulag hefur tekist meðal ráðherra eru meginatriði þess kynnt fyrir þingflokkum ríkisstjórnarinnar og síðan getur fjármálaráðherra lagt lokahönd á verkið og embættismenn hans gengið frá frumvarpi til fjárlaga, sem jafnan er fyrsta mál á hverju og þingi og tekið til umræðu á fyrstu dögum þinghaldsins, svo að unnt sé sem fyrst að vísa því til fjárlaganefndar, sem skoðar einstaka þætti frumvarpsins og fær til viðtals við sig fulltrúa ýmissa hagsmunahópa. Þá hefur sú skipan einnig verið tekin upp, eftir að þingið varð ein málstofa að fagnefndir þingsins taka þá kafla fjárlagafrumvarpsins, sem falla undir þær. til meðferðar. Að sumu leyti virðist því um tvíverknað að ræða milli fjárlaganefndar og fagnefnda, en fjárlaganefnd er greinilega treg til að framselja eitthvað af afskiptum sínum til fagnefndanna. Þannig mætti til dæmis spyrja, hvort ekki væri eðlilegt, að menntamálanefnd þingsins ræddi við menningarfólk og skólamenn, sem vilja koma fram með athugasemdir eða tillögur vegna fjárlagafrumvarpsins, en þetta væri ekki á verksviði fjárlaganefndar.

Nokkuð er um, að forráðamenn Alþingis beri stöðu þess og meðferð mála við það, sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Í sjálfu sér er það eðlilegt, þegar litið er til þess, hve margt er líkt með stjórnskipun okkar og Dana, svo að dæmi sé tekið. Í báðum ríkjum er til dæmis þjóðhöfðingi án nokkurs pólitísks valds, sem á beinlínis ekki að hlutast til um stjórnarmálefni nema í stjórnskipulegum neyðartilvikum. Hins vegar er ekki allskostar unnt að bera þá starfshætti, sem mótast hafa í danska þinginu, saman við það, sem hér er, eða gera kröfu um það, að við förum hér í einu og öllu að fordæmi danska þingsins. Meginreglan hjá okkur er, að ríkisstjórn hafi meirihluta þingmanna á bakvið sig. Stjórnmálaástandið hefur hins vegar verið þannig í Danmörku í nokkra áratugi, að það heyrir frekar til undantekninga, að ríkisstjórn hafi meirihluta þingsins á bakvið sig. Af því leiðir að sjálfsögðu í Danmörku, að fleiri ákvarðanir, sem ríkisstjórn og flokkar hennar taka hér á landi, flytjast inn í þingnefndir, þar sem leitast er við að ná þverpólitísku samkomulagi, meðal annars um fjárveitingar til ákveðinna málaflokka. Oft er staðið þannig að málum, að samkomulagið gildir um fjárveitingar til nokkurra ára. Þessi skipan hefur bæði kosti og galla. Hún gagnast líklega ágætlega fyrir málaflokka, sem valda litlum pólitískum deilum, og má þar nefna heilbrigðismál og menntamál, en getur verið erfiðari, þegar tekist er á um umdeildari málefni, eins og varnar- og öryggismál.

Nokkuð hefur borið á því síðustu mánuði, að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa leitast við að slá um sig á þeim forsendum, að flokknum sé ekki terystandi fyrir menntamálum vegna þess að hann sjái ekki til þess, að nægilegir opinberir fjármunir renni til málaflokksins. Á Alþingi hefur Ágúst Einarsson, prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands, gengið fram fyrir skjöldu með þennan boðskað. Ágúst var kjörinn á þing á lista Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur, en eins og kunnugt er hefur sá listi eða flokkur orðið að engu í höndum þingmanna hans og er nú orðinn að viðhengi við Alþýðuflokkinn, sem Jóhanna klauf einmitt, þar sem hún taldi sinn tíma í stjórnmálum kominn. Áður en kjörtímabilið var hálfnað lá fyrir, að þetta framboð var argasta tímaskekkja og þingmenn flokksins hafa ekki megnað að halda lífi í því, þótt þeir hafi í ýmsu tilliti verið iðnari en aðrir stjórnarandstöðuþingmenn við að vekja athygli á sér í fjömiðlum.

Þegar menn ræða um fjárveitingar til skólakerfisins, verður að gera þá kröfu til þeirra, ekki síst prófessora í viðskiptafræði og hagfræði, en Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði hefur tekið undir bölsönginn með Ágústi, að þeir færi rök fyrir máli. Raunar lenti Þorvaldur í nokkru basli í útvarpsþætti með Jóni Ormi Halldórssyni fyrir nokkru, þegar Jón Ormur hafði á orði, að hrakspár og svartsýni Þorvaldar væru nokkuð á skjön við það, sem Jón Ormur heyrði um efnahagslegan framgang íslenska þjóðfélagsins, hann hefði ekki í jafnlangan tíma heyrt jafngóðar fréttir á þessu sviði en einmitt nú undanfarið. Þorvaldur klifar hins vegar á því, að hér stefni allt á verri veg í menntamálum og virðist helst byggja á þróuninni í Svíþjóð.

Viðskiptafræðingar og hagfræðingar verða eins og aðrir að gera mun á niðurskurði og samdrætti annars vegar og hæfilegu aðhaldi og kröfum um hagræðingu hins vegar. Þeir verða einnig að líta á heildarmyndina, þegar þeir ræða um fjárveitingar til menntamála eða einstakra stofnana. Þannig segja fjárlagatölur til dæmis ekki alla söguna um opinberar fjárveitingar til Háskóla Íslands, því að jafnframt þarf að taka mið af rannsóknarfé, sem aflað er úr innlendum og erlendum sjóðum. Þróunin er í þá átt, að menn keppa með umsóknum um rannsóknafé en kennslukostnaður er borinn af því fé, sem fæst á fjárlögum.

Yfir meðferð fjárlagafrumvarpsins hvílir mikill trúnaður, því að ekki er skýrt frá efni þess, fyrr en það er lagt fram á þingi. Að vísu spyrst, hvort ríkisstjórn stefni að afgangi eða halla, en frá hinu er ekki greint, hvernig fjárveitingar skiptast á einstök viðfangsefni. Tölurnar eru stórar, en að lokum kann að verða erfiðast að ákveða skiptingu á takmörkuðum fjármunum milli einstakra liða, en oft geta tiltölulega lágar fjárhæðir skipt miklu fyrir stofnanir eða einstaklinga. Í ljósi þessa ætla ég ekki að skýra frá neinum tölum eða áherslum í frumvarpinu fyrir næsta ár. Ástæða er til að árétta það sjónarmið, sem er stutt rökum hagfræðinga, að almennt er skynsamlegt við núverandi aðstæður íslenskra efnahagsmála að reka ríkissjóð með afgangi, hin almennu jákvæðu áhrif af þessu skipta miklu á öllum sviðum opinbers rekstrar og verða menn að hafa þau í huga, þegar þeir krefjast hærri ríkisútgjalda.

Vikan sem leið gaf mér tækifæri til að ræða við forráðamenn Félags framhaldsskólanema, Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Háskóla Íslands og Rannsóknarráðs Íslands auk þess átti ég fund með formanni Sambands ísl. sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands til að ræða um málefni grunnskólanna þegar ár er liðið frá því að þeir fluttust frá ríki til sveitarfélaganna. Jafnframt sat ég fund með hópi á vegum Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem vinnur að stefnumótun í menntamálum vegna þings SUS, sem hefst 12. september nk., þar sem Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn, er í formannsframboði og hefur ekki enn að minnsta kosti fengið neinn andstæðing.

Hér er ekki tilefni til að greina frá því, sem gerðist á þessum fundum, enda hef ég sett mér þá meginreglu við gerð þessara vikulegu pistla að skýra ekki frá einkasamtölum eða fundum eins og þeim, sem að ofan eru nefndir. Viðræður af þessu tagi missa marks, ef ekki ríkir trúnaður milli manna, sem taka þátt í þeim.

Laugardaginn 23. ágúst birtist svar mitt í Morgunblaðinu við opnu bréfi frá Guðnýju Guðbjörnsdóttur, prófessors og alþingismanns Kvennalistans, sem birtist í blaðinu 21. ágúst. Snerist opna bréfið um að ég hefði brotið lög með því að leita ekki með réttum hætti tilnefninga í Rannsóknarráð Íslands og skipa ekki sjálfur konur í ráðið. Ég vísa þessari gagnrýni frá þingmanni Kvennlistans á bug með því að minna á þá staðreynd, að sjálfur er þingmaður kjörinn á lista, sem er lokaður fyrir körlum og þannig ótvírætt brot á jafnréttislögum. Hið opna bréf þingmannsins dregur athygli að þeirri staðreynd, að Kvennalistinn á mjög undir högg að sækja vegna þess að málflutningur þingmanna hans er úr takt við það, sem ber hæst í þjóðlífinu.

Því miður fjallar enginn fjölmiðill af neinni alvöru um sameiningu vinstri flokkanna eða stöðu þeirra og framboðsraunir R-listans. Þess vegna fær almenningur ekki neina innsýn í það, sem er í raun og veru að gerast á þessum vettvangi. Er eins og hvert annað grín að lesa áskoranir um það, að Jón Baldvin Hannibalsson hætti við að verða sendiherra og taki að sér að leiða vinstri flokkana saman. Þetta hefur verið eitt helsta markmið Jóns Baldvins frá því að hann hóf virka þátttöku í stjórnmálum og á ferli hans klofnaði Alþýðuflokkurinn að minnsta kosti tvisvar með Bandalagi jafnaðarmanna fyrst og síðan Þjóðvaka.

Fréttir berast nú um það, að kratar sitji á lokuðum fundum með Alþýðubandalagsmönnum og leggi á ráðin um ályktanir á væntanlegum landsfundi Alþýðubandalagsins. Þar hefur farið fram val á formanni samkvæmt nýjum reglum, sem voru taldar hinar lýðræðislegustu á landinu ef ekki í heiminum öllum, þegar Ólafur Ragnar og Einar Karl kynntu þær á sínum tíma. Byggjast þær á því, að auglýst er eftir framboði og síðan tilkynnt, að sitjandi formaður, Margrét Frímannsdóttir, hafi ein sent inn umsókn og sé því sjálfkjörin. Minnir þetta lýðræði helst á það, sem var í Sovétríkjunum fyrrverandi.