17.8.1997

Skólagjaldaumræður

Í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 17. ágúst er haldið áfram að ræða skólagjöld en blaðið hefur tekið þá afstöðu að mæla með skólagjöldum, að minnsta kosti á háskólastigi. Ekki hefur reynt á það í atkvæðagreiðslu á Alþingi, hver er afstaða þingmanna til skólagjalda á þessu kjörtímabili. Nauðsynlegt er að gera greinarmun á innritunar- eða skrásetningargjöldum annars vegar og skólagjöldum hins vegar, en ég tel a. m. k., að skólagjaldahugtakinu felist, að nemendur greiði fyrir kennsluna, sem þeir njóta, innritunargjöld eru hins vegar fjárhagsleg staðfesting nemenda á því, að hann hyggist stunda nám í viðkomandi skóla.

Í íslenskum ríkisskólum eru aðeins innheimt innritunargjöld en einkaskólar innheimta skólagjöld. Á háskólastigi standa menn frammi fyrir hinu sama hér og annars staðar, að æ erfiðara verður að fá stærri hluta af skattfé almennings til að fjármagna háskóla, sem æ fleiri kjósa að sækja. Þess vegna er alls staðar rætt um skólagjöld, þótt umræðurnar hafi misjafnt yfirbragð eftir þjóðfélögum. Þá ber að huga almennt að því, hvort vilji skattgreiðenda stendur til þess að leggja af meira af mörkum til mennta- og skólamála eða hvort aðrir málaflokkar séu þeim meira að skapi. Á þetta atriði kann ekki að reyna nema kosningar snúist að verulegu leyti um forgangsröðun af þessu tagi milli einstakra útgjaldaliða ríkisins.

Morgunblaðið leitar til rektora háskóla og skólameistara við framhaldsskóla auk þess höfð eru ummæli eftir mér um skólagjöld. Eina atriðið, sem mér var sagt að kæmi fram hjá öðrum viðmælendum blaðsins, var hugmynd Þorsteins Gunnarssonar rektors Háskólans á Akureyri um sérstaka skattlagningu á fyrirtæki, sem hafa háskólamenntað starfsfólk. Sagði ég sem var, að ég hefði ekki heyrt um þessa hugmynd áður og gæti því ekkert sagt um hana að óathuguðu máli.

Ástæða hefði verið fyrir blaðið að kynna sér betur það, sem þar er sagt um endurinnritunargjaldið eða fallskattinn svonefnda, er þar enn einu sinni endurtekinn sami söngurinn þess efnis, að skólarnir hafi átt að ná 32 milljónum króna af nemendum með þessu gjaldi og hinu alveg sleppt, að meginmarkmiðið er að staðið sé með markvissari hætti að innritun og þar með stuðlað að hagræðingu í skólunum, sem jafna megi til þessarar fjárhæðar, samhliða því, sem innheimt sé endurinnritunargjald af þeím, sem innritast að nýju í samræmi við reglugerðina um það efni, þar sem skólameisturum er heimilað að taka tillit til sérstakra aðstæðna nemanda við ákvörðun um gjaldið.

Fram kemur í Morgunblaðinu, að í Singapore ætli menn að útvega sérhverjum nemanda á framhaldsskólastigi tölvu endurgjaldslaust. Í Bandaríkjunum hafa háskólar verið að feta sig inn á þá braut, að krefjast þess við innritun, að nemendi staðfesti, að hann eigi tölvu, annars hljóti hann ekki skólavist. Í Ísrael hafa skólayfirvöld sett fram þá stefnu, að í skólum verði ein tölva fyrir hverja 10 nemendur. Í Bandaríkjunum sýna rannsóknir, að ekki sé æskilegt að stefna að því í skólum, að þar sé tölva á hvern nemanda, heldur sé skynsamlegra, að sjö eða átta nemendur séu um hverja skólatölvu, því að reynslan sýni, að skynsamlegt sé að stofna til hóps nemenda um verkefni í tölvunámi, það auki áhuga og sköpunargáfu. Eins og fram hefur komið hafa ráðamenn í Sinagpore einhverjar áhyggjur af því, að úr skólum þeirra komi fremur framtakslaust, vel menntað fólk án mikillar sköpunargáfu. Ef hinar bandarísku rannsóknir um fjölda nemenda á hverja tölvu í skóla eru réttar, kunna Singapore-yfirvöld að stefna enn í þá átt að auka ekki sköpunargáfuna með því að láta hvern nemanda hafa eina tölvu.

Í máli eins skólameistaranna kemur fram, að fjárhagslegt sjálfstæði skólanna hafi verið þrengt og þess vegna sé ekki unnt að tala um að sjálfstæði þeirra hafi verið aukið, skólarnir hafi færri leiðir til að afla sér sértekna. Vill þessi skólameistari einnig, að skólanefndi ættu að hafa heimild til að ákveða skólagjöld. Ef sjálfstæði framhaldsskóla felst í því að ákveða sjálfir þau gjöld, sem nemendur greiða, má segja, að löggjafinn hafi gengið gegn þessu sjálfstæði með nýjum framhaldsskólalögum, þar fór Alþingi hins vegar að athugasemdum umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar, sem hafa talið, að í lögum verði að vera skýrar heimildir til allrar gjaldtöku af nemendum og nefndar fjárhæðir eða skýrar viðmiðanir. Ríkisendurskoðun fór ítarlega yfir skólasjóði og gerði ýmsar athugasemdir á sínum tíma og taka hin nýju lög mið af þeim. Raunar var þessum ákvæðum nýsettra framhaldsskólalaga breytt á síðasta vetri til að koma til móts við sjónarmið skólameistara. Annar skólameistari segir hins vegar, að skóli sinn sé kominn með verulegt fjárhagslegt sjálfstæði og það hafi betri skóla í för með sér. Báðir þessir skólar starfa samkvæmt sömu framhaldsskólalögunum og báðir eru ríkisskólar, þannig að skólameistarar nýta sér hin nýju lög greinilega með mismunandi hætti.

Ég sé, að rektor Háskóla Íslands lætur þess getið í hugleiðingum sínum, að annars staðar á Norðurlöndum sýni menn skólagjöldum engan áhuga en samið hafi verið milli landanna um að ríkin greiði með nemendum, sem sæki háskólanám innan Norðurlandanna utan heimalands síns. Þessi samningur er ekki enn kominn til framkvæmda vegna ágreinings milli Dana og Norðmanna, því að norskir læknanemar streymdu til Danmerkur í skjóli samningsins og vildu Danir ekki sætta sig við það. Ísland stendur utan við samninginn en hann er til þriggja ára. Sóttum við ekki um undanþágu frá samningnum heldur var um ákvörðun fjölmennari ríkjanna að ræða. Þegar gengið var frá málinu af okkar hálfu var lýst yfir því, að þessi þrjú ár yrðu notuð til að leggja mat á það, hvort Ísland ætti að gerast aðili að samningnum. Rektor HÍ gerir því skóna, að íslenskir námsmenn streymi til Norðurlanda, verði tekin upp skólagjöld í háskólanámi hér og það kunni að spilla stöðu okkar vegna þessa samnings. Ekki er unnt að slá neinu föstu um þetta mál á þessu stigi.

Erfitt er að átta sig á þeirri staðhæfingu Þorstein Gunnarssonar rektors Háskólans á Akureyri um að skólagjöld á háskólastigi yrðu landsbyggðarskattur, af því að háskólamenntað fólk vinni flest á höfuðborgarsvæðinu. Spyrja má, hvort þessi röksemdafærsla leiði ekki að lokum til þeirrar niðurstöðu, að ekki beri að háskólamennta aðra en þá, sem koma af höfuðborgarsvæðinu enda verði slík menntun ekki veitt annars staðar á landinu, þar með sé með háskólamenntastefnu miðað að því að fólk flytjist ekki af landsbyggðinni. Raunar er ég þeirrar skoðunar, að ekki beri að skipta landinu með þessum hætti, því að góð menntun nýtist allri þjóðinni, hvar sem menntamennirnir búa eða starfa.

Í síðustu viku bar það við í háskólaráði, að ný samtök, sem vilja bæta resktur háskólans, vildu taka að sér verkefni, sem háskólaráð hefur samið um við Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ), og vilja samtökin sinna þessum verkefnum fyrir minna fé en greitt er til Stúdentaráðs. Í háskólalögum er mælt fyrir um fjárhæð innritunargjalda, 24.000 kr., háskólaráði heimilað að semja við SHÍ ráðstöfun á hluta þessa fjár til að sinna umsömdum verkefnum. Fréttir herma að háskólaráð hafi vísað tilboði hinna nýju samtaka frá, af því að lög heimiluðu ekki annað. Að sjálfsögðu er það markmið háskólalaga, að þessir fjármunir frá nemendum nýtist sem best og séu samningar við SHÍ óhagstæðir samrýmist það hvorki tilgangi né anda laganna. Nú er unnið að endurskoðun á lögum um Háskóla Íslands og hljóta þessi ákvæði að koma til athugunar í ljósi þess, sem fyrir liggur, auk þess sem upplýsa þarf greiðendur innritunargjaldsins um það, hvernig verkefnabundnar fjárveitingar nýtist.