30.7.1997

Sögustaðaferðir - skólaárið - vinstri uppgjöf

Á ferð okkar Rutar um Austurríki sáum við það enn einu sinni, hvernig gömul klaustur og aðrir sögulegir staðir eru notaðir til að halda á loft sögulegum minjum. Raunar eru hinnar glæsilegu barokk-kirkjur Austurríkismanna þannig úr garði gerðar, að þær eiga leiða gestum fyrir sjónir, hvernig himnaríki er. Glæsileikinn, gullið og litadýrðin er með þeim hætti, að fyrri alda menn hafa áreiðanlega fallið í stafi, þegar þeir gengu inn í helgidóminn. Þá eru bókasöfn klaustranna, sem við heimsóttum ekki síður glæsileg, eða safnahúsin í Vínarborg, sem keisararnir gáfu þegnum sínum og standa enn sem minnisvarði um forna frægð og umgjörð um ómetanlega dýgripi. Athygli vekur í hinum veraldlegu byggingum, að þær eru skreyttar með myndum af hetjudáðum hinna grísku goða og táknmyndum úr þeirri heiðnu goðafræði. Leiðir það hugann að því, hve fátækir við norrænir menn erum af minjum um hin heiðnu goð okkar. Raunar var lagt svo hart að fólki að afmá áhrif þeirra úr huga sér við skírn til kristni, að minningin um goðin geymist aðeins í bókum Snorra Sturlusonar, hefði hann ekki skráð þann fróðleik allan og hann varðveist fram á okkar dag, værum við snöggtum fátækari af heimildum og menningarlega fortíð okkar og hefðum líklega lítinn eða engan skilning á því, sem í kvæðabrotum leynist.

Þetta kemur í hugann, þegar ég rifja upp ferðir um síðustu helgi, annars vegar í Skálholt, laugardaginn 26. júlí, og hins vegar í Reykholt, sunnudaginn 27. júlí. Í Skálholti hlýddi ég fyrst á Guðrúnu Kvaran, forstöðumann Orðabókar háskólans, flytja erindi um hljófæraeign Íslendinga til forna. Þá sótti ég tvenna tónleika Bach-sveitarinnar í Skálholtsdómkirkju, sem var þéttsetin. Sumartónleikarnir í Skálholti hafa áunnið sér fastan sess og sýna, að með glæsilegum og menningarlegum hætti má nýta aðstöðu á fornfrægum stað.

Að morgni sunnudagsins sótti ég gamlan vin minn frá Noregi, Lars Roar Langslet, sem á sínum tíma var fyrsti menningarmálaráðherra Noregs en sinnir nú ritstörfum á starfslaunum frá norska ríkinu, hefur hann meðal annars ritað bók um Ólaf helga og Ólaf V. Noregskonung. Var Lars Roar hingað kominn til að flytja erindi á Snorrahátíð í Reykholti í tilefni af því, að 50 ár voru liðin frá því, að Ólafur þá konungsefni kom hingað til lands með fríðu föruneyti og afhjúpaði styttu af Snorra Sturlusyni, gjöf frá Norðmönnum, í Reykholti.

Við ókum í Reykholt, sóttum þar hádegistónleika hjá þeim, sem stóðu fyrir tónleikum í hinni nýju Reykholtskirkju þessa helgi, tókum síðan þátt í messu sr. Geirs Waage og fluttum síðan ræður á Snorrahátíðinni. Stóðu þessi hátíðarhöld með litlum hléum frá hádegi fram til rúmlega 18 en einnig gafst tóm til þess í veðurblíðunni að skoða hið markverðasta á staðnum. Var þetta hin ánægjulegasta dagstund og sótti fjöldi manns allar þessar athafnir.

Frá Reykholti ókum við síðan Uxahryggi til Þingvalla og snæddum þar kvöldverð á leið í bæinn.

Þótt svipurinn yfir sögustöðum hér á landi sé annar en í Austurríki, ekki síst vegna þess að ekkert hefur varðveist af gömlum glæsimannvirkjum, er þróunin hér hin sama og annars staðar, að menn leggja rækt við þessa staði og þar með sögu sína og stefna fólki til þeirra til að hlusta á fagra tónlist. Er þess að vænta, að þeir, sem standa að ferðamálum, átti sig á gildi þessa menningarstarfs fyrir allan viðgang byggðarlaga, sem vilja styrkja sig með öðru en hefbundnum landbúnaði.

Skálholt var á sínum tíma, 1963, afhent þjóðkirkjunni til eignar og reksturs. Reykholt hefur hins vegar verið skólasetur þar til nú í ár, þegar ákveðið var að leggja skólastarf af á staðnum. Er það vilji minn, að þau mannvirki, sem menntamálráðuneytið hefur yfir að ráða í Reykholti nýtist til að marka staðnum nýtt hlutverk, þar sem arfinn frá Snorra Sturlusyni beri hæst, tel ég, að það fari vel að því markmiði að alþjóðlegir fræðastraumar liggi um staðinn sé þess kostur. Er nú unnið að því að gera tillögur um framtíðarnýtingu þeirra mannvirkja, sem áfram munu standa í Reykholti. Tel ég einsýnt, að sum húsanna, sem þar standa hverfi, eins og íþrótta- og smíðahúsið, sem er fast við gamla skólahúsið. Þar með gefst nýtt tækifæri til að kanna minjar á staðnum og meðal annars göngin að lauginni, sem nokkuð hefur verið hugað að í sumar.

--------

Eins og þeir sem lesa þessar síður mínar sjá, hef ég lagt mig eftir því að rekja hér ýmsar fréttir í fjölmiðlum, sem tengjast starfi mínu með það í huga að greina, hvernig frá málum er greint. Í síðasta pistli fjallaði ég um fréttir af heimildinni til að hefja framhaldsskóla fyrr en áður, sem byggist á nýgerðum kjarasamningi við kennara. Hélt ég satt að segja, að allar hliðar málsins hefður verið skýrðar til hlítar.

Sunnudagskvöldið 27. júlí er frétt í hljóðvarpi ríkisins, sem ber með sér, að fréttamaðurinn hefur ekki hugmynd um hvað málið snýst og fullyrðir, að menntamálaráðherra hafi ákveðið að skólar hefjist tveimur vikum fyrr í ár en í fyrra. Síðan tekur hótelstjórinn í Valaskjálf til við að skammast vegna þessa og telur hér um aðför að landsbyggðinni að ræða til að koma ungmennum í Reykjavík í dagvistun fyrr en ella.

Þegar ég las útskrift á þessari vitlausu frétt bað ég um að koma hinu rétta á framfæri enn á ný og var stutt viðtal við mig í kvöldfréttum mánudaginn 28. júlí.

Þá sá ég í Vef/Þjóðviljanum, að það var talið til marks um fjárhagslegt svigrúm í menntamálum, að nú hefði skólaárið verið lengt í framhaldsskólunum. Þeir, sem þetta skrifa, hafa ekki áttað sig á því, að ekki er verið að lengja skólaárið heldur lengja haustönnina og stytta vorönnina.

Þegar maður les og heyrir slíka ónákvæmni um mál, sem maður nauðaþekkir, veltir maður því óhjákvæmilega fyrir sér, hvort allt hitt sé rétt, sem maður les og heyrir en þekkir ekki með sama hætti.

--------

Vinstri flokkarnir gáfust upp við sjálfstætt framboð flokka sinna í Reykjavík með R-listanum. Þeir eru nú að reyna að böggla saman nýjum lista en vita ekki, hvað hver flokkur hefur stóran kvóta. Samtímis berast fréttir af því, að vinstri flokkarnir séu að gefast upp á blaðaútgáfu og ætli að fela Frjálsri fjölmiðlun að sjá um hana fyrir sig.

Að sjálfsögðu reyna þeir, sem að þessum uppgjafasamningum standa að túlka þá þannig, að verið sé að leggja grunn að nýjum sigrum. Allt er það heldur ósannfærandi. Staðreynd er, að þessir flokkar standa ekki lengur undir framboði í höfuðborginni frekar en útgáfu blaða. Sameining vinstri flokkanna byggist ekki á styrkleika þeirra heldur veikleika.