26.7.1997

Skólaárið

Nokkrar umræður urðu um það í vikunni, hvenær framhaldsskólinn ætti að hefja störf í haust. Tilefnið var það, að um síðustu helgi, sunnudaginn 20. júlí, hafði Bryndís Hólm fréttamaður á Stöð 2 samband við mig og spurði, hvort hún gæti ekki rætt við mig þann dag vegna þess að það væri mikil reiði í ferðaþjónustunni, þar sem framhaldsskólarnir ættu nú að hefjast fyrr en áður. Ég sagði það sjálfsagt en benti henni strax á, að hér væri um heimild að ræða en ekki skyldu til að hefja skólastarfið fyrr.

Síðan kom viðtalið við mig eða stuttur bútur af því, sem ég sagði við Bryndísi, og þótt ég margtæki fram, að um það eitt væri að ræða, að samið hefði verið um það við framhaldsskólakennara, að unnt væri að kalla þá til vinnu fyrr en áður, hefðu engin fyrirmæli verið gefin út um það efni af ráðuneytinu, því að hér væri um ákvörðun einstakra skólameistara að ræða. Fréttin í Stöð 2 varð þó varla skilin á annan veg en þann, að ákveðið hefði verið að hefja skólastarf 25. ágúst í haust. Að gefa sér þá forsendu var raunar nauðsynlegt fyrir fréttamanninn, því að framhaldsvinnan byggðist á því að fá menn í ferðaþjónustu til að lýsa óánægju sinni með þetta, það væri verið að grafa undan starfsemi þeirra, heyrðist mér, að maður í Húsafelli gæfi til kynna í einhverri útvarpsstöðinni.

Menntamálaráðuneytið gaf út fréttatilkynningu um málið mánudaginn 21. júlí til að koma hinu rétta á framfæri og eftir því sem leið á vikuna tel ég, að það hafi síast inn meðal fólks, að hér væri um heimildarákvæði í kjarasamningum að ræða, sem að mati menntamálaráðuneytisins gæfi skólum færi á að skipuleggja starf sitt með betri hætti en áður miðað við lögbundinn rétt nemenda til 145 kennsludaga og að annaskipti færu fram um áramót. Skiljanlegt er, að tíma þurfi til að laga sig að nýjum ákvörðunum í þessu efni, en samkvæmt kjarasamningi við kennara má skólameistari nú kalla þá til starfa 19. ágúst. Skólaárið skal ekki vera styttra en 9 mánuðir og hefjist það fyrir 1. september á haustin lýkur því þeim dögum fyrr á vorin.

Þessi hlið málsins, að koma réttum upplýsingum á framfæri, eftir að látið hefur verið í veðri vaka, að með einhliða valdboði og of skömmum fyrirvara eigi að færa til skólaárið, er aðeins einn þáttur þess. Hitt er ekki síður umhugsunarefni, hvernig brugðist er við á hinum ýmsu stöðum í þjóðfélaginu, þegar rætt er um að breyta skólaárinu.

Þegar framhaldsskólafrumvarpið var lagt fram upphaflega á Alþingi, miðaði það að því, að skólaárið yrði 10 mánuðir. Var það snarlega fellt út úr frumvarpinu, þegar þingmenn létu í sér heyra um málið. Eftir að skólar hefjast 1. september en ekki 1. október eins og þegar ég var í skóla, er ekki lengur unnt að halda því fram, að breyting á skólaárinu raski vinnulagi í sveitum með því að hrifsa unglingana frá haustverkum á borð við göngur og réttir. Nú er hins vegar gefið til kynna, að ferðaþjónustan eigi allt sitt undir því, að skólaárið breytist ekki. Allur samanburður sýnir svo, að skólaárið hér er styttra en annars staðar og þess vegna meðal annars er útskriftaraldur úr menntaskóla hærri hér en annars staðar, einnig telja sérfræðingar að kennslustundir hér á landi séu of fáar miðað við það, sem hæfilegt teljist. Eru yfirvöld menntamála oft gagnrýnd fyrir að gefa skólunum ekki meira svigrúm að þessu leyti, auk þess hefur OECD, Efnahags- og framfarastofnunin bent á, að tiltölulega lág kennaralaun hér megi rekja til þess að skólaárið er styttra hér en almennt gerist.

Að mínu mati ber þetta allt að sama brunni og þeirri niðurstöðu, sem ég komst að í ræðu minni á menntaþingi 5. október 1996, að í raun sé menntun ekki nægilega í hávegum höfð hér á landi. Í orði telja allir, að framtíð þjóðarinnar eigi allt undir góðri menntun unga fólksins, en þegar til framkvæmda kemur, er annað oft uppi á teningnum. Menntun er ekki metin í launaumslaginu, atvinnulífið gerir ekki alltaf miklar menntunarkröfur. Hvernig eru þær til dæmis í ferðaþjónustunni? Þar eins og of víða annars staðar eiga menn miklu auðveldara með að fá lán og styrki til að festa fé í steinsteypu og öðrum mannvirkjum en því, sem lýtur að menntun, þróun og rannsóknum - svo kvarta menn undan offjárfestingu, þegar ekki tekst að fylla öll mannvirkin - til þess þarf hins vegar þekkingu á markaðnum erlendis. Þá þurfum við einnig vel menntað fólk til að nýta á besta og skynsamlegasta hátt allt, sem við höfum að bjóða heima fyrir. Með Lánasjóði íslenskra námsmanna komum við almennt til móts við lánsfjárþörf nemenda að loknum framhaldsskóla en sjóðurinn hefur ekki hannað reglur sínar að þörfum einstakra starfsgreina og þar held ég, að greinunum sjálfum væri hollt að leggja eitthvað fé til hliðar í því skyni að stuðla að þjálfun og menntun á þeim sviðum, þar sem helst er þörf starfsmanna, og einnig til þess að auka endurmenntun.


Þótt hásumar sé er ekkert lát á erindum í menntamálaráðuneytið. Hvarvetna vilja menn láta að sér kveða bæði í mennta- og menningarmálum auk rannsókna, íþrótta og æskulýðsmála. Að sjálfsögðu snúast erindin að verulegu leyti um fjárstuðning, þá finnst mér einnig fara í vöxt, að fólk nýti sér ákvæði nýrra laga til að leita eftir úrskurðum, telji það á sér brotið. Loks koma margir á minn fund, sem eru að vinna að verkefnum sem tengjast tölvum og hugbúnaði, þótt ekki sé að allt beinlínis á verksviði menntamálaráðuneytisins. Ríkisstjórnin hefur ákveðið, að forsætisráðuneytið fari með málefni er varða upplýsingasamfélagið og mun sérstakur starfsmaður hefja störf í forsætisráðuneytinu til að sinna verkefninu á næstunni. Þá er verið að koma á laggirnar nýsköpunarsjóði, þar sem menn eiga að geta fengið áhættufé til verkefna á þessu sviði eins og öðrum. Eins og málið horfir við mér er gífurlegur áhugi á því að tileinka sér hina nýju tækni og nú skortir okkur helst gott efni til dæmis í skólana til að tækjabúnaður nýtist sem best.

Um síðustu helgi var hátíðlega haldið upp á 50 ára afmæli Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) annars vegar með afmælishófi á Hótel Sögu, þar sem kom meðal annars í minn hlut að segja nokkur orð og síðan með afmælislandsleik Norðmanna og Íslendinga, en það var eitt af fyrstu verkefnum KSÍ að efna til landsleiks þjóðanna fyrir 50 árum í tengslum við Snorrahátíðina í Reykholti, þegar Ólafur konungsefni Norðmanna kom hingað með fríðu föruneyti og gaf og afhjúpaði styttu af Snorra Sturlusyni í Reykholti. Var vel að þessum hátíðarhöldum staðið af hálfu KSÍ, enda er sambandið öflugt og til stórræða.

Miðvikudagskvöldið 23. júlí fór ég með Önnu systur minni, sem hefur verið búsett erlendis í meira en 20 ár og meðal annars verið fréttaritari Morgunblaðsins víða um heim, nú síðast í Zürich, á frumsýningu í Loftkastalanum á Veðmálinu. Skemmtum við okkur hið besta. Anna er hér á landi vegna þess að sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir fermdi, fimmtudagskvöldið 24. júlí í Árbæjarkirkju, Önnu Valgerði Hrafnsdóttur Þórissonar og Guðrúnar systur minnar, en þau eru búsett í Brussel, eins og Valgerður systir mín og Kristófer Már Kristinsson maður hennar, sem einnig eru hér á landi þessar vikurnar og fagna meðal annars fyrsta barnabarni sínu, syni Guðrúnar Vilmundardóttur Gylfasonar og Gunnlaugs Stefánssonar kontrabassaleikara, en þau eru einnig búsett í Brussel, þar sem bæði eru við nám, hann í tónlist og hún í leiklist. Var fermingarveislan þannig tilefni fyrir okkur öll systkinin til að hittast í fyrsta sinn í mörg ár.

Síðdegis föstudaginn 24. júlí fórum við nokkrir félagar í gönguferð að hæsta fossi landsins, sem er Glymur í Botnsdal. Var grenjandi rigning, þegar við lögðum af stað úr Reykjavík, en í Botnsdalnum rigndi ekki og meira að segja sást til sólar, þegar við vorum uppi fjallshlíðinni austan Glyms. Eftir tæpa fjóra tíma settumst við að nýju í bílinn og héldum inn í rigninguna, sem tók við, þegar komið var út úr Botnsdalnum. Að kvöldi þessa föstudags fór ég á Skuggabarinn á Hótel Borg til að taka þátt í hófi stuðningsmanna Ásdísar Höllu Bragadóttur, aðstoðarmanns síns, sem býður sig fram til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS). Var þetta vel heppnað kvöld, sem gaf til kynna, að Ásdís Halla gæti náð þessu markmiði sínu. Reynsla mín af skipulagshæfileikum hennar og dugnaði segir mér, að SUS yrði í góðum höndum undir hennar stjórn.