17.7.1997

Austurríkisferð - R-listaraunir - HP og RÚV

Vorið 1996 kom frú Elisabeth Gehrer, menntamálaráðherra Austurríkis, hingað til lands og opnaði sýningu á verkum austurríska listmálarans Arnulfs Rainers í Listasafni Íslands við upphaf Listahátíðar í Reykjavík. Þá bauð hún okkur Rut að koma í opinbera heimsókn til Austurríkis og létum við verða af því dagana 11. til 15. júlí, fórum héðan á föstudegi og komum aftur á þriðjudegi með millilendingu í Kaupmannahöfn, sem leiddi til þess í utanförinni, að farangurinn varð eftir og kom ekki fyrr en um miðnætti.

Við skipulagingu ferðarinnar starfaði prófessor Helmut Neumann, skrifstofustjóri í austurríska menntamálaráðuneytinu, en hann er kvæntur íslenskri konu og kom hingað til lands í fyrsta sinn fyrir tæpum fjörutíu árum, var sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og er tónskáld. Var hann fylgdarmaður okkar Rutar og Guðríðar Sigurðardóttur ráðuneytisstjóra á ferð okkar um Austurríki - frá laugardagsmorgni og fram til klukkan 15.00 á mánudegi ókum við 1200 kílómetra um landið, skoðuðum listsýningar, klaustur og kirkjur auk þess sem við sóttum tónleika. Á mánudeginum var efnt til viðræðufundar í menntamálaráðuneytinu, þar sem við fórum yfir sameiginleg málefni og skiptumst á upplýsingum. Höfum við meðal annars farið í smiðju til Austurríkismanna vegna námskrárgerðar fyrir grunn- og framhaldsskólastigið. Þeir hafa áhuga á skipulagi framhaldsskólakerfisins hjá okkur. Þá lýsti ég yfir áhuga okkar Íslendinga á að taka þátt í starfi stofnunar á vegum Evrópuráðsins í Graz í Austurríki, sem sinnir kennslu í erlendum tungumálum og stuðlar að bættri menntun og þjálfun kennara.

Við fengum tækifæri til að hitta íslensku ræðismannshjónin í Salzburg Erich Eibl og konu hans og einnig Corneliu Schubrig aðalræðismann. Þá vorum við á frumsýningu óperettunnar Parísarlíf eftir J. Offenbach, þar sem Hlín Pétursdóttir sópransöngkona var með eitt af aðalhlutverkunum. Er óperettan sýnd næstu vikur við Mörbisch-vatn í nágrenni Vínar. Þá þáði nokkur hópur Íslendinga óformlegt kvöldverðarboð frú Gehrer síðasta kvöldið, sem við vorum í Vín.

Frá því að ég varð ráðherra er þetta eina boðið um opinbera heimsókn, sem ég hef þegið. Var ferðalagið í alla staði hið ánægjulegasta og tíminn svo sannarlega nýttur til hins ýtrasta til að kynna okkur sem flest og fjölbreyttast. Þau málefni, sem heyra undir menntamálaráðuneytið hér, falla undir mörg ráðuneyti í Austurríki. Þannig fer Viktor Klima kanslari til dæmis með íþróttamál og það, sem flokkað er sem menning, annað en málefni safna og sýninga í þeim. Gafst mér tækifæri til að ræða við Klima eftir frumsýninguna á Parísarlífi, snerist samtal okkar einkum um stækkun NATO en hugur margra ráðamanna í Austurríki stendur til þess að hverfa frá hlutleysisstefnunni og sækja um aðild að NATO. Hefur borgaralegi stjórnarflokkurinn ÖVP, þar sem utanríkisráðherra landsins er formaður, samþykkt NATO-aðild fyrir sitt leyti. SPÖ, sósíal-demókrataflokkurinn undir formennsku Klima, hefur ekki tekið afstöðu til málsins en kanslarinn hefur greinilega áhuga á að skoða það með opnum huga. Frú Gehrer fer þau málefni á menningarsviðinu, sem falla undir söfn og sýningar í þeim. Þá heyra skólamál að háskólastigi auk kennaramenntunar undir ráðuneyti hennar.

--------

Í Vikublaði Alþýðubandalagsins birtist forsíðufrétt hinn 14. júlí, sem lýsir erfiðri fæðingu hjá R-listanum, sem fjallar nú um það, hvernig framboði á vegum listans skuli háttað í borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Í fréttinni er skýrt frá því, að erfiðlega gangi fyrir Reykjavíkurlistann að ná samkomulagi um fyrirkomulag framboðsins, þótt og snemmt sé að tala um mikinn ágreining (!) sé ljóst, að skoðanir séu mjög skiptar um hvernig velja skuli á framboðslistann. Allt er í óvissu með það, hvernig eða hverjir eiga að velja á listann. Blaðið minnir á, að við valið fyrir kosningarnar 1994 hafi Kvennalistinn fengið þrjá fulltrúa í fyrstu átta sætunum, þar á meðal Ingibjörgu Sólrúnu, en Alþýðuflokkurinn aðeins einn. Nú vilji kratar aukið jafnræði, þá krefst Gróska þess að fá fólk inn á listann. Hefur verið rætt um að raða í fjögur efstu sætin en hafa prófkjör í fjögur næstu.

Allt segir þetta mér, að miklu grynnra sé á ágreiningi innan R-listans en menn á þeim bæ vilja vera láta og telja nauðsynlegt að sýna út á við til að komast undan glundroðastimplinum, sem Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi framsóknar, vill koma á Sjálfstæðisflokkinn. Alfreð virðist fara sínu fram innan R-listans og skáka mjög í því skjóli, að hann sé formaður stjórnar veitustofnana. Hefur honum meira að segja tekist að skáka Ingibjörgu Sólrúnu í auglýsingamennsku og er sagt, að borgarstjóri hafi brugðist við með því að setja þá reglu, að ekki sé sagt frá neinum atburði í nafni borgarinnar nema málið fari fyrst í gegnum hendur ímyndahönnuða hennar, sem ákveði, hvort tengja eigi borgarstjóra viðkomandi ákvörðun og kynningu á henni.

Össur Skarphéðinsson, ritstjóri Alþýðublaðsins, þingmaður og helsti baráttumaður aukinna áhrifa Ingibjargar Sólrúnar, kvartaði undan því í vor, hve illa R-listinn héldi á kynningarmálum sínum í borgarstjórn og taldi þá, að hið eina jákvæða, sem vakið hefði athygli, væri sú ákvörðun að afhenda Rithöfundasambandi Íslands Gunnarshús við Dyngjuveg til ráðstöfunar. Gera þyrfti meira af því að vekja athygli á góðu málunum. Össur virðist gleyma því, að menn þurfa að hafa einhver mál til að vera trúverðugir í þeirri auglýsingamennsku, sem hann vill hefja í kringum Ingibjörgu Sólrúnu. Eftir að Össur hafði farið í skrúðgöngu 17. júní með Birtu, dóttur sinni, birti hann reiðipistil í málgagni sínu og sagði eitthvað á þá leið, að þeir, sem gætu ekki staðið sæmilega að því að skipuleggja skrúðgöngu, gætu varla vænst þess að fá fylgi við endurkjör í borgarstjórn, en það gerðist meðal annars í göngu Össurar, að ekkert heyrðist í lúðrasveitinni og þegar gangan kom að Austurstræti var því læst með hengilás. Eins og áður hefur komið fram hér á þessum síðum mínum er það Steinunn Óskarsdóttir kvennalistakona, sem er formaður þjóðhátíðarnefndar, og eiga menn ef til vill að setja sneið Össurar til hennar í samhengi við kröfur krata um fleiri sæti á R-listanum á kostnað hins deyjandi Kvennalista.

Ingibjörg Sólrún hefur ekki gengið sérstaklega fram við það, eftir að hún komst í borgarstjórastólinn, að halda merki Kvennalistans á loft. Tók hún sér til dæmis frí erlendis þá daga um árið, sem Kvennalistinn efndi til landsfundar síns. Verður hún talin fulltrúi Kvennalistans í kvótakerfi R-listans? Eða verður hún hið nýja sameiningartákn A-listanna? Á kannski skilja forsíðuklausuna í Vikublaðinu, málgagni Alþýðublaðsins, á þann veg, að alþýðubandalagsmenn vilji ekki hverfa frá kvótakerfi, sem er bundið við flokka? Verður Ingibjörg Sólrún þá talin krati í vinstra-kvótakerfi R-listans?

Þessum spurningum þarf R-listinn að svara. Hið sérkennilega er, að enginn fjölmiðill spyr þessara spurninga eða bregður ljósi á vanda listans nema Vikublaðið. Sannar það aðeins fyrir mér þá kenningu, að fjölmiðlar umgangast listann af ótrúlegri nærgætni og bregða einkum upp glansmyndum af borgarstjóranum.

---------

Hitt málgagn Alþýðubandalagsins, Helgarpósturinn (HP), tók bakföll vegna RÚV hinn 10. júlí. Á forsíðu var gefið til kynna, að lánveiting Landsbanka Íslands til sr. Heimis Steinssonar hafi verið björgun á einkafjármálum hans, þegar hann hætti sem útvarpsstjóri og tók við starfi prests og staðarhaldara á Þingvöllum. Hafi þessi lánveiting með einhverjum hætti verið að mínum ráðum, af því að ég þurfti að losna við sr. Heimi frá RÚV.

Allt er þetta hugarburður, enda ekki vísað í neina heimild skrifunum til stuðnings. Þá er það einnig úr lausu lofti gripið, að ástæðuna fyrir því að sr. Hanna María Pétursdóttir hætti á Þingvöllum sé að finna í framgöngu minni, hér á heimasíðunni eða annars staðar. Rangfærslur alþýðubandalagsmanna undir forystu Svavars Gestssonar um þetta efni hef ég þegar hrakið á öðrum stað hér á síðunum.

Raunar er einfaldast fyrir hinna áhugasömu rannsóknablaðamenn Alþýðubandalagsins um brottför sr. Heimis frá RÚV að snúa sér til hans sjálfs, vilji þeir hafa það, sem sannara reynist. Frásögn Helgarpóstsins ber hins vegar enginn merki um, að blaðið vilji leita sannleikans í málinu.

Þá fjallar HP í fleiri en einni grein í þessu sama tölublaði um breytingar á starfsemi RÚV, sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum með beinni þátttöku fulltrúa starfsmanna. Þar telur HP það meðal annars til þess fallið að draga úr gildi þessara nýju starfshátta, að Eyjólfur Sveinsson, framkvæmdastjóri DV, sé stjórnarformaður ráðgjafafyrirtækisins auk þess að eiga í Íslenska útvarpsfélaginu. Í sömu andrá og ég set þetta á skjáinn berast þær fréttir, að HP sé ekki lengur prentaður í Odda heldur í Ísafoldarprentsmiðju, þar sem þessi sami Eyjólfur Sveinsson hefur tögl og hagldir. Er það til marks um að ekki sé lengur unnt að taka mark á HP?

Hið dæmigerða við þessa RÚV-frásögn HP er, að heimildarmenn blaðsins eða starfsmenn þess þora ekki að tala undir nafni og taka sér því skáldaleyfi. Blaðamennska af því tagi, sem HP stundar í þessum málum og tengir nafni mínu án þess einu sinni að reyna að fá afstöðu mína er í mínum huga endanleg staðfesting á því, að ekki er að marka eitt einasta orð af því, sem í þessu blaði stendur og birt er í skjóli nafnleyndar.