6.7.1997

Sumartónleikar - sumarstjórnmál

Í vikunni gafst mér tækifæri til að skreppa út á land. Þótt ekki væri farið langt frá Reykjavík, dugði það til að hrista af sér bæjarrykið. Síðdegis fimmtudaginn 3. júlí hittist Þingvallanefnd á fundi á Þingvöllum og lukum við ströngum fundarhöldum með því að fara í tæplega klukkutíma bátsferð um vatnið með systkinunum frá Heiðarbæ, sem veita þá þjónustu að sigla með ferðamenn og lýsa fyrir þeim undrum vatnsins og náttúrunnar umhverfis það. Sigldum við meðal annars í kringum Sandey, sem Benedikt Sveinsson afi minn eignaðist á sínum tíma og þaðan inn í Hestvík. Vil ég nota þetta tilefni til að vekja athygli þeirra, sem koma inn á síðu mína, á korti um gönguleiðir á Þingvöllum, sem Gylfi Gíslason myndlistarmaður gerði og kom út á vegum Þingvallanefndar fyrir skömmu. Er það ómetanlegt hjálpartæki fyrir alla, sem vilja ganga um þjóðgarðinn fyrir utan að vera einstaklega falleg heimild um Þingvelli og umgjörð þeirra.

Frá Þingvöllum fór ég í Skálholt, þar sem Rut var komin til æfinga en hún efndi til einleikstónleika í Skálholtskirkju laugardaginn 5. júlí. Vorum við í góðu yfirlæti í einu af sumarbúðahúsunum fram á sunnudagskvöld. Þar var einnig söngflokkurinn Voces Thules, sem frumflutti Messu vorra daga eftir Oliver Kentish, sem er staðartónskáld Sumartónleika í Skálholti 1997. Einnig hlustaði ég á Kára Bjarnason flytja erindi um síra Einar Sigurðsson í Eydölum. Raunar skrapp ég síðdegis föstudaginn 4. júlí frá Skálholti til Borgarness og tók þátt í formlegri setningarathöfn 22. landsmóts Ungmennafélags Íslands þar um kvöldið.

Sumartónleikarnir í Skálholti hafa áunnið sér fastan sess og ber það að þakka hjónunum Helgu Ingólfsdóttur semballeikara og Þorkeli Helgasyni orkumálastjóra, sem í góðu samstarfi við sr. Guðmund Óla Ólafsson hafa haldið þessu starfi uppi í meira en 20 ár. Ætti framtakið að verða fleirum fyrirmynd um það, hvernig unnt er að nýta sér aðstöðu á sögustöðum til að leggja rækt við menningu okkar og list. Raunar finnst mér, að ferðamálafrömuðir hafi verið alltof hægfara við að nýta sér menningarstarf fyrir ferðamenn. Áhugasamir erlendir ferðamenn, sem hingað koma, telja, að alltof illa sé staðið að því að kynna list- og menningarviðburði fyrir erlendum gestum og auðvelda þeim að komast til þeirra staða, þar sem eitthvað er í boði. Þá finnst þeim, að merkingar á þjóvegum séu lélegar og erfitt sé að ferðast á eigin vegum um landið.

Enginn vafi er á því, að fáir staðir utan Reykjavíkur kalla á fleiri gesti en einmitt Þingvellir og Skálholt. Gestir til Þingvalla ár hvert nálgast óðfluga eina milljón. Undanfarið hefur verið unnið að því að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn í þjónustumiðstöðinni á Völlunum. Betur má ef duga skal og er Þingvallanefnd staðráðin í því að bæta þjónustuna jafnt og þétt. Gestir í Skálholtskirkju voru rúmlega 30.000 síðasta sumar og þeim mun vafalaust fjölga í ár. Markmiðið hlýtur að vera, að þjónusta fyrir ferðamenn á þessum stöðum sé sjálfbær og skili jafnframt einhverjum tekjum til að standa undir fjárfestingu í því, sem eykur gildi staðanna fyrir ferðamenn.

Nú er unnið að því að móta hugmyndir um nýtingu á Reykholti. Er ég viss um að þar verður unnt að sameina rækt við minningu Snorra Sturlusonar og þá þjónustu, sem almennir ferðamenn æskja. Raunar mætti á sumrin skipuleggja sögulegar ferðir um Reykholt, Þingvelli og Skálholt með kynnum af hálendinu með því að fara Uxahryggi.

Stjórnmálaumræður yfir sumarmánuðina bera yfirleitt þess merki, að fréttamenn vita ekki, hvernig þeir eiga að fara að því að fylla síður sínar eða mínúturnar í fréttatímunum. Atvik, sem endranær vektu litla athygli, geta hæglega orðið að fréttastórmálum. Nú eru þrjú ár liðin frá sveitarstjórnakosningum og tvö ár síðan kosið var til Alþingis. Þess vegna er við því að búast, að með haustinu hefjist nýtt báráttuskeið í stjórnmálunum, þar sem fyrst verði tekist á um stjórn sveitarstjórna og síðan forystuna í landsmálum. Nú er líka rétti tíminn fyrir þá, sem vilja hætta afskiptum af stjórnmálum á þessu kjörtímabili, að taka af skarið til að gefa nýjum mönnum tækifæri til að sýna, hvað í þeim býr í tæka tíð fyrir næstu kosningar.

Á undanförnum árum hafa breytingarnar orðið mestar í röðum vinstri manna. Ólafur Ragnar Grímsson hafði nýlega hætt formennsku í Alþýðubandalaginu, þegar hann ákvað að bjóða sig fram til ópólitísks starfs í nafni allrar þjóðarinnar á Bessastöðum. Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, er einnig sagður á förum til þjónustustarfa fyrir þjóðina, að vísu ekki á Bessastöðum heldur í utanríkisþjónustunni. Fetar hann þar í fótspor margra fyrirrennara sinna í Alþýðuflokknum. Einkennilegt er, hve hann kveður stjórnmálin með miklum sleggjudómum um menn og málefni, er þar skemmst að minnast ummæla hans um þá Ólaf Thors og Hermanns Jónasson í tímaritinu Heimsmynd, sem nú er farið að koma út aftur. Raunar er það líklega til marks um, að slíkir dómar Jóns Baldvins hafa ekkert gildi, að engum hefur þótt ástæða til að gera veður út af orðum hans. Verður fóðlegt að sjá, hvernig sagan dæmir Jón Baldvin. Sjálfur bregst hann illa við, þegar litið er gagnrýnið á störf hans, eins og sjá má af viðbrögðum hans við grein Karls Th. Birgissonar í Mannlífi um samskipti þeirra Vilmundar heitins Gylfasonar og Jóns Baldvins vegna ritstjórnar á Alþýðublaðinu.

Á sínum tíma fórum þeir Jón Baldvin og Ólafur Ragnar um landið og efndu til funda á rauðu ljósi til að hvetja til sameiningar vinstri manna, báðir hverfa þeir úr pólitík án þess að það markmið hafi náðst, en hins vegar hefur reitum verið ruglað með þeim hætti, að draga má tilvist hins gamla Alþýðuflokks í efa, þegar Jón Baldvin yfirgefur skipið, hann er að minnsta kosti svipur hjá sjón og treystir meira á lánsfjaðrir úr Alþýðubandalaginu en þá, sem lengst hafa staðið vörð um sósíal-demókratískar hugsjónir hér á landi.

Það er hins vegar dæmigert fyrir stjórnmálaumræður okkar, að fáir velta þessum staðreyndum fyrir sér eða þeirri þróun, sem orðið hefur á vinstri kantinum, en hún einkennist af dæmigerðri valdapólitík, þar sem hugsjónir mega sín æ minna. Kemur þetta best fram í R-listanum, sem er valdapólitísk samsteypa í kringum Ingibjörgu Sólrúnu, en hún sagði skilið við Kvennalistann og hugsjónir hans, um leið og hún hafði notað hann til að komast til metorða sem borgarstjóri - kaus til dæmis að vera í sumarleyfi á síðasta ári, þegar Kvennalistinn efndi til landsfundar síns.

Sumarstjórnmálaumræðurnar eru næsta staðnaðar og ekki mjög áhugaverðar, enda virðast fjölmiðlamenn ekkert vita um það, sem gerist á bakvið tjöldin í stjórnmálunum og halda sig því fast við klissjur og yfirborðslegt tal, einkum um peninga. Sé það gert er hins vegar erfitt að finna höggstað á þeim, sem stjórna efnahags- og fjármálum þjóðarinnar, því að þar gengur okkur allt í haginn. Hins vegar er ávallt auðvelt að finna einhverja, sem telja, að þeir eigi að fá meira af skattfé almennings til eigin ráðstöfunar í gegnum ríkissjóð.