26.6.1997

Útvarpsrekstur - samruni ólíkra miðla

Allt frá því einokun ríkisins á útvarpsrekstri var afnumin með lögum frá 1985 hafa menn rætt um nauðsyn þess að setja ný útvarpslög, sem tækju mið af hinni nýju stöðu, sem skapaðist við freslið. Lögin, sem heimiluðu það, eru barn síns tíma og taka mið af þeiri málamiðlun, sem náðist á Alþingi um afnám einokunarinnar. Margar nefndir hafa komið að málinu og menn úr öllum flokkum hafa lagt sitt af mörkum. Þrátt fyrir þetta mannvit og pólitískan vilja hefur ekki enn tekist að breyta öðru í útvarpslögunum en því, sem lýtur að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Að öðru leyti hefur þróunin orðið á þann veg, sem lögin heimila og eins og menn vita standa þau í raun hvorki í vegi fyrir því, að Ríkisútvarpið (RÚV) þróist eða einkastöðvar.

Af minni hálfu setti ég á laggirnar starfshóp til að semja skýrslu um stöðuna í útvarpsmálum og endurskoðun útvarpslaga. Skilaði hann skýrslu í mars 1996, var þeirri skýrslu fremur illa tekið af samstarfsflokknum í ríkisstjórn og á þingi leituðust stjórnarandstæðingar við að gera hana tortryggilega eins og vænta mátti.

Í skýrslunni er meðal annars fjallað um skipulag og starfsemi RÚV og lagt til að þar verði unnið að endurskipulagingu. Hefur að frumkvæði stjórnenda og starfsmanna RÚV verið að unnið að þessu undir kjörorðinu Betri rekstur og eru þær tillögur nú á framkvæmdastigi. Er greinilega unnt að endurskipuleggja innra starf RÚV á næsta róttækan hátt, án þess að lögum sé breytt. Hljóta allir að fagna því, að ætlunin er að spara í stjórnunarkostnaði í því skyni að hafa meira fé til dagskrárgerðar.

Í skýrslunni er einnig lagt til, að samið verði á nýjum forsendum við Póst og síma um dreifikerfi RÚV. Hefur þetta verið til meðferðar milli stjórnenda P&S og RÚV. Er ég þeirrar skoðunar, að það sé ekki markmið í sjálfu sér, að RÚV reki dreifikerfið.

Á fundi menningarmálaráðherra Norðurlandanna í Kalmar 13. júní síðastliðinn voru útvarpsmál til umræðu, eins og ég skýrði frá í pistli mínum 17. júní 1997. Þar var ályktað um gildi útvarps í almannaþágu eða public service útvarp/sjónvarp án þess að fram væri tekið, að það þyrfti endilega sérstök fyrirtæki til að sinna þeirri þjónustu.

Í tengslum við þennan sérstaka fund ráðherranna um útvarps- og sjónvarpsmál voru samdar athyglisverðar skýrslur um stöðu og þróun í útvarpsmálum. Þar á meðal er skýrsla eftir Eli Skogerbø dags. í maí 1997, sem heitir: Konvergens mellom telekommunikasjon og kringkasting, Kultur- og mediepolitiske utfordringer - eða Samruni milli síma og útvarps, Ný viðfangsefni við mótun stefnu í menningar- og fjölmiðlastarfi.

Þessi samruni, sem þarna er ræddur snertir dreifikerfi, þjónustu og markað. Stafrænar aðferðir við dreifingu og samþjöppun á bylgjum hafa rutt á brott hindrunum milli ólíkra dreifikerfa, stafrænt efni er unnt að senda með hvaða hætti, sem menn kjósa. Tölvur þjóna sem sími, sjónvarp eða póstmiðstöðvar og símafyrirtæki taka að sér að dreifa efni án tillits til uppruna þess, framleiðendur efnis velja þá leið, sem þeim hentar hverju sinni, þannig að þjónustusviðið verður ekki skilgreint með sama hætti og áður. Ekki er lengur litið á markaðssvið sem aðgreind heldur keppa ólík fyrirtæki á sama markaði.

Innan Evrópusambandsins (ESB) eru skiptar skoðanir um það, hvernig bregðast eigi við þessari þróun og þar takast á ýmis sjónarmið um leikreglur í upplýsingasamfélaginu. Þegar litið er til sjónvarpsstarfsemi hefur verið tilhneiging til þess, einkum að frumkvæði Frakka, að skilgreina kvótareglur um efnisval í því skyni að hlú á evrópsku efni til að halda hinu bandaríska í skefjum. Einnig hafa sumir vilja setja strangar reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Þegar litið er síma- eða dreifikerfisþjónustu innan ESB hefur iðnaðurinn á því sviði náð undirtökunum og þar vilja menn meiri samkeppni en þegar litið er á menningarlegt gildi þess efnis, sem er flutt um dreifikerfið. Yfirlit yfir þróunina innan ESB sýnir hins vegar, að hún ræðst meira af tæknikröfum en markaðsforsendum.

Í skýrslunni kemur fram, að líklega sé skýrsla KPMG Management Consulting frá 1996, sem samin var fyrir framkvæmdastjórn ESB og heitir Public Policy Issues Arising from Telecommunications and Audiovisual Convergence, hin viðamesta, sem samin hefur verið um þennan samruna hinna ólíku miðla. Þar kemur fram, að Evrópa sé stöðnuð á þessu sviði í samanburði við Bandaríkin og Suðaustur-Asíu. Er bent á, að regluverk ESB, hinn sundurleiti evrópski markaður og vitlausar áherslur ESB í stuðiningi við framleiðslu á þessu sviði ráði mestu um stöðnunina. Leggur KPMG til, að evrópsk stjórnvöld setji sem fæstar sértækar reglur og láti almennar samkeppnisreglur duga á þessu sviði.

KPMG leggur þunga áherslu á, að þær reglur sem nú gilda um "telekommunikasjon" og sérstaklega fyrir útvarp og sjónvarp séu óviðunandi og tilgangslausar og það beri að fella þær úr gildi. Rökin fyrir þessu eru þau, að ekki sé lengur um það að ræða, að dreifileiðirnar séu af skornum skammti. Höfundur skýrslunnar fyrir Norrænu ráðherranefndina segir, að þessi ráð KPMG séu ekki í anda norrænna hefða á þessu sviði, þar sem lagt sé til það, sem KPMG kalli "light-handed regulation" og með því vísi KPMG til þess að markaðurinn fái að ráða sér sem mest sjálfur:

Öll ný þjónusta eigi að vera alfrjáls.

Almannaþjónustu ber að skilgreina nákvæmlega og hún njóti aðeins lögverndar, ef hún sé á mikilvægu sviði, sem ekki er unnt að sinna á markaðsforsendum.

Grípa má til sérstakra aðgerða til að efla menningarstarf, en þær eru taldar ónauðsynlegar.

Heimila má public service en óljóst er til hvers.

Fjölbreytni verður best tryggð með samkeppnisreglum, því að þannig er best stuðlað að samkeppni og alhliða málfrelsi.

Höfundarréttur er talinn gegna lykilhlutverki þegar litið er til virðisauka í þjónustu og þar ber bæði að huga að lagalegum og tæknilegum úrræðum.

KPMG afhenti þessa skýrslu í september 1996 og er talið að hún muni ráða miklu við mótun almennra evrópskra reglna á þessu sviði.

Hér ætla ég ekki að rekja þessa norrænu skýrslu frekar en eins og menn sjá af henni, er afstaða þeirra, sem kanna málið á hlutlægan hátt án þess að hafa hagsmuni einstakra opinberra stofnana í huga, að þróast frá því, að stórar ríkisstofnanir séu nauðsynlegar til að sjá fólki fyrir þjónustu á þessu sviði, aðalatriðið sé að hafa nægilegt efni til að mata hina nýju miðla, sem ferða fleiri en nokkru sinni fyrr og hafa fjölbreyttari leiðir en nokkru sinni til að koma efni sínu til neytenda.

Að þessu hljótum við Íslendingar að hyggja, þegar við leggjum á ráðin um framtíðarstefnu og löggjöf í þessu efni. Að sumu leyti stöndum við betur að vígi en menn gera annars staðar á Norðurlöndum, þar sem við höfum til dæmis vísað til almennra samkeppnislaga, þegar menn ræða eignarhald á fjölmiðlum og samþjöppun í því efni. Raunar las ég viðtal við Jón Óttar Ragnarsson, sem reynir nú krafta sína í frelsinu í Los Angeles, en telur á hinn bóginn nauðsynlegt að við festum í lög reglur að norrænni eða evrópskri fyrirmynd um eignarhald á fjölmiðlum.

Póstur og sími hefur boðað, að með breiðbandi sínu muni hann stuðla að samruna hinna ólíku miðla hér á landi. Verður fróðlegt að sjá, hver framvindan verður í því efni, en P&S hefur ekki sótt til Útvarpsréttarnefndar um heimild til að stunda sjálfstæða starfsemi í þessu skyni, það er dreifa öðru efni en framleitt er af útvarps- og sjónvarpsfyrirtækjum í landinu. Þá verður einnig forvitnilegt að fylgjast með því, hvort útvarps- og sjónvarpsfyrirtækin hér ætla að skipta við P&S eða einhverja aðra varðandi dreifingu á efni. Það er alls ekki svo almennt, að menn líti til breiðbandsins sem besta dreifikerfisins heldur veðja þjóðir frekar á gervihnetti í þessu skyni, en þaðan er ekki síður unnt að fá starfræn merki en af breiðbandinu. Er sagt, að nú sé offramboð á gervihnattarásum.

Hér ætla ég ekki að draga neina eina niðurstöðu af þessum vangaveltum. Hitt er ljóst, að það er of þröngt sjónarhorn að nálgast þetta mikla viðfangsefni frá sjónarhóli eins fyrirtækis og ef til vill kann sá tími að koma fyrr en síðar, að menn telji það beinlínis brot á jafnræðisreglum og valdi vanhæfi stjórnvalda til að fjalla um þessi mál, ef ríkið heldur áfram að vera stóraðili í framleiðslu og dreifingu útvarps- og sjónvarpsefnis, úr því ekki er lengur unnt að rökstyðja slíkt frá öryggissjónarmiðum.

Af minni hálfu hefur því jafnan verið haldið fram, að fyrir íslenska ríkið sé aðalatriðið að stuðla að því, að menningarlegt íslenskt efni sé fyrir hendi á þessum vettvangi. Það er áfram meginstefna mín í þeirri trú, að íslenska þjóðin sé samhuga, um að standa sameiginlega að átaki í þessu skyni.