17.6.1997

Kalmar-ferð

Í dag 17. júní 1997 eru 600 ár liðin frá því að Margrét I lét krýna systurson sinn Eirík af Pommern konung í Kalmar og sameinaði þannig undir einum konungi Danmörku, Noreg og Svíþjóð í Kalmarsambandinu svonefnda, sem stóð ekki lengi og er til lítillar fyrirmyndar í sjálfu sér nema fyrir þá hugsjón að betra sé fyrir Norðurlönd að standa saman en eiga í innbyrðis átökum. Á þessum árum myndaði Kalmarsambandið mótvægi við sókn Þjóðverja inn á Eystrasalt. Með stofnun Kalmarsambandsins lauk tilviljanakenndri atburðarás, sem sýnist eftirá byggð á hugsjón. Margrét er frekar tákn fyrir Kalmarsambandið en Eiríkur, sem var aðeins 15 ára við krýninguna, og hún sagði raunar við konunginn, að væri hann beðinn einhvers eða þyrfti að taka ákvörðun skyldi hann taka sér frest til að svara ogt nota hann til að ráðfærast við sig (Margréti) um hvernig að svari eða ákvörðun skyldi staðið. Árið 1448 braust Svíþjóð út úr sambandinu en það hélst milli Danmerkur og Noregs til 1814 og síðan milli Svíþjóðar og Noregs til 1905. 1397 fylgdi Ísland Noregi inn í Kalmarsambandið en síðan fluttist konungsvaldið yfir Íslandi í hendur valdsmanna í Kaupmannahöfn og hélst þar til 1944. Þannig varð Kalmarsambandið til þess að leggja grunn að miklu veldi Dana. Kalmar var í raun ekki annað en krýningarstaður Eiríks af Pommern. Hann hafði hvorki hirð þar né aðsetur.

Kalmarbúar hafa hins vegar nýtt sér 600 ára afmælið til hins ýtrasta í því skyni að koma bæjarfélagi sínu aftur á kortið, ef svo má að orði komast. Kalla þeir borg sína nú höfuðborg Norðurlanda og vísa þar til orða Pärs Stänbecks, þáverandi framkvæmdastjóra ráðherranefndar Norðurlandaráðs. Einkennist árið af stanslausum hátíðar-, funda- og ráðstefnuhöldum auk þess sem listamenn koma fram eða efna til sýninga. Hápunktur þessara norrænu hátíðarhalda var laugardaginn 14. júní, þegar þjóðhöfðingjar Norðurlandanna fimm komu siglandi á sænsku herskipi til Kalmar og óku í fimm opnum hestvögnum um Kalmar, tóku þátt í hátíðarkvöldverði, fylgdust með skrautsýningu um kvöldið og tóku síðan þátt í hátíðarmessu í Kalmardómkirkju að morgni sunnudagsins 15. júní, en henni var sjónvarpað beint um alla Svíþjóð.

Föstudaginn 13. júní hittust á fundi árdegis í Kalmar menntamálaráðherrar Norðulandanna og síðdegis menningarmálaráðherrarnir, sem einnig héldu sérstakan fund um þróun fjölmiðla á Norðurlöndunum. Tók ég þátt í þessum ráðherrafundum, sem snerust að verulegu leyti um samdrátt í fjárveitingum til Norðurlandaráðs á árinu 1998 að kröfu Svía, sem bera stærstan hluta af kostnaði við ráðið. Á fjölmiðlafundinum var rætt um útvarp í almannaþágu eða það, sem á ensku er kallað public service hlutverk útvarps- og sjónvarpsstöðva - en þetta enska hugtak, sem varð til þegar Margaret Thatcher vildi skilgreina hlutverk BBC með nýjum hætti, hafa aðrir Norðurlandamenn leitt inn í tungumál sitt og upplýsti danski menningarmálaráðherrann, að danska málnefndin hefði lýst yfir því, að þetta væri góð og gild danska. Innan Evrópusambandsins á public service undir högg að sækja, því að samin hefur verið skýrsla fyrir sambandið, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu, að um fjölmiðla eigi almennar samkeppnisreglur að gilda. Vilja Norðurlandaráðherrarnir innan ESB tryggja, að þar verði public service hugtakinu ekki alveg kastað fyrir róða og snerust umræðurnar í Kalmar meðal annars um það og ályktun, sem samþykkt var, en þar er lögð áhersla á gildi hugtaksins án þess að mælt sé beint fyrir, um að starfræktar séu sérstakar stöðvar til að rækja hlutverkið, sem í því felst, enda eru líklega hvergi meiri breytingar í vændum en einmitt á þessu sviði vegna nýrrar tækni.

Að kvöldi föstudagsins var okkur ráðherrunum boðið að sjá leiksýningu eftir Miu Törnqvist, sem heitir Margareta, berättelsen om en konung og hennes män og fjallar um Margréti Valdemarsdóttur I, konungsdóttur frá Danmörku, sem var aðeins 10 ára gefin Hákoni Magnússyni síðar Noregskonungi, en þau eignuðust einn son, Ólaf, sem dó 1387. Lýsir leikritið með áhrifamiklum hætti sambandi Margrétar við Hákon og son þeirra Ólaf. Staðfesti leikritið þá skoðun, sem fram kemur í íslenskum annáli við andlát Margrétar 1412, að ekki hafi fundist neinn hennar jafningi til að ráða og stjórna. Leikhópur Byteatern í Kalmar Läns Teater flutti verkið með eftirminnilegum hætti og félagar í hópnum komu víðar fram við hátíðarhöldin og vöktu athygli fyrir glæsilega framgöngu.

Laugardag og sunnudag beindist athyglin að komu þjóðhöfðingjanna fimm og þeirri hátíð, sem efnt var til vegna þeirra. Tókum við menningaramálaráðherrarnir þátt í því, sem í boði var.

Vonandi ber þetta átak stjórnenda í Kalmar þann árangur, að þeim takist að koma bæ sínum aftur á kortið eins og sagt er og laða til sín ferðamenn í menningarlegum og sögulegum tilgangi. Hátíðarhöldin marka ekki nein sambærileg spor í sögu Norðurlandanna eða þjóða við Eystrasalt og krýning Eiríks af Pommern fyrir 600 árum, enda alls ekki til, hestvagnaferða, skrautsýninga eða hátíðarmessu stofnað með stórpólitísk markmið í huga. Konungar og drottningar samtímans gegna táknrænu hlutverki en eru ekki valdsmenn eins og Margrét var á sínum tíma.