8.6.1997

Smáþjóðaleikar - LÍN-samkomulag - endurinnritunargjald

Síðdegis mánudaginn 2. júní hófust sjöundu Smáþjóðaleikar Evrópuríkja hér á landi og stóðu fram á laugardagskvöld 7. júní. Hér var um mesta alþjóðlega íþróttaviðburð að ræða, sem Íslendingar hafa skipulagt. Skýrðu forráðamenn leikanna mér frá því við lokaathöfnina í Laugardalshöll, að allar fjárhagsáætlanir þeirra hefðu staðist og þar með væri ekki stofnað til fjárhagsvanda fyrir íþróttahreyfinguna eða aðra vegna leikana. Er það mikils virði.

Ánægjulegt var að heyra hin lofsamlegu ummæli, sem fulltrúar annarra ríkja létu falla um skipulag leikanna hér, raunar var veðrið hið eina, sem fór úrskeiðis, ef þannig má að orði komast, því að kalt heimskautaloft lék um okkur.

Í tengslum við leikana var efnt til óformlegs fundar þeirra íþróttamálaráðherra í ríkjunum átta, sem þátt taka í leikunum. Hittumst við að morgni þriðjudags 3. júní á Hótel Lofleiðum og síðan bauð ég ráðherrunum í ferð til Þingvalla, var niðaþoka á leiðinni, þar til komið var að austurjaðri Mosfellsheiðar, og var glampandi sólskin á Þingvöllum.

Leikarnir hafa aldrei verið fjölmennari en hér. Þátttakendur voru um 400, þegar fyrst var efnt til leikanna í San Marino 1985 en nú um 1200 þar af nærri 800 íþróttamenn. Var greinilegt að ráðherrann í Liechtenstein, þar sem íbúar eru innan við 40.000 og leikarnir verða 1999 ætlar að virkja alla landsmenn við móttöku á íþróttamönnum og fylgdarliði þeirra. Hér hvíldi allur þunginn á Ólympíunefnd Íslands og undirbúningsnefnd á hennar vegum. Þótti hinum erlendu gestum með réttum hætti staðið að setningar- og lokahátíð, ekki hefði verið varið of miklum fjármunum í ónauðsynlega skrautsýningu. Leikarnir voru á Möltu fyrir 4 árum, þá kostaði setningarhátíðin 100.000 dollara og lokahátíðin 60.000 dollara og er enn verið að glíma við skuldahala vegna þessa fyrir utan að ekki hefur enn tekist að ljúka við öll þau íþróttamannvirki, sem þá var ráðist í að reisa. Við munum ekki draga neinn slíkan hala, enda samið um alla kostnaðarþætti fyrirfram og hvernig undir þeim skuli staðið.

Okkar íþróttamenn stóðu sig með ágætum á leikunum og þegar upp er staðið getum við þannig mjög vel við þetta stórmót unað og var það boðskapur minn í ræðu við lok leikanna í Laugardalshöll.

Sama sagan endurtekur sig nú og svo oft áður, að erfitt er að koma hinu jákvæða á framfæri. Menn þurfa ekki að lesa lengi í þeim pistlum, sem ég hef ritað á liðnum mánuðum, til að átta sig á því, að málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa verið ofarlega á dagskrá minni og í stjórnmálaumræðum.

Samkomulag tókst milli stjórnarflokkanna um breytingar á LÍN, þótt margir teldu þetta erfiðasta málið í stjórnarsamstarfinu. Við það samkomulag var haldið í meðferð málsins á þingi. Þegar niðurstaða stjórnarflokkanna lá fyrir komu fulltrúar námsmanna á minn fund og lögðu fyrir mig óskir um atriði, sem tekin yrðu til athugunar við afgreiðslu úthlutunarreglna LÍN á þessu vori. Beindi ég því til fulltrúa minna í stjórn LÍN, að þeir leituðu samkomulags við námsmenn um þessi atriði og önnur, sem kæmu til álita við breytingar á úthlutunarreglum. Þetta gekk eftir og hinar nýju reglur voru samþykktar einum rómi í stjórn LÍN og hafa nú tekið gildi, án þess að mikla athygli veki.

Hér hafa því orðið þátttaskil í samskiptum ríkisvaldsins við námsmenn vegna LÍN. Eftir áralangan ágreining ríkir nú bærileg sátt og góður samstarfsandi.

Mikilvægur áfangi til að stuðla að friði um skólastarf náðist einnig að morgni laugardagsins 7. júní, þegar ritað var undir kjarasamning til þriggja ára við framhaldsskólakennara. Hinn nýi samningur tekur mið af nýjum framhaldsskólalögum og á að auðvelda alla framkvæmd þeirra og nýbreytni í skólastarfi, tel ég, að slíkar breytingar verði seint metnar til fjár. Samningurinn við kennara er til marks, um að samskipti ríkisvaldsins og kennara hafa þróast með jákvæðum hætti undanfarið.

Ég taldi frétt, sem birtist í sjónvarpi ríkisins að kvöldi 7. júní um endurinnritunargjald í framhaldsskólunum stinga mjög í stúf við þann anda, sem að ofan er lýst og byggist á gagnkvæmum vilja til jákvæðra átaka á sviði menntamála. Þar tók Sigrún Stefánsdóttir, afleysingamaður á fréttastofu, sig til og ræddi um þetta gjald eins og það kæmi eitthvað sérstaklega á óvart núna og væri beint gegn þeim, sem minna mega sín í skólakerfinu. Umræður um málið voru töluverðar á haustmánuðum, þegar tillögur mínar um gjaldið voru til umræðu á Alþingi, en þar tóku þær breytingum meðal annars með hliðsjón af viðhorfum skólameistara og nemenda.

Megintilgangur þessa gjalds er ekki að hafa fé af nemendum heldur koma í veg fyrir hinn mikla kostnað, sem samfélagið ber vegna endurinnritunar í framhaldsskólum. Í sumum áföngum er fallið 20 til 30% og að meðaltali um 15%, sem getur ekki talist neitt náttúrulögmál. Við innritun ber skólum skylda til að benda nemendum á, að þeir skuli ekki færast of mikið í fang. Þá hefur gjaldtakan leitt til þess, að fulltrúar nemenda koma á minn fund og kvarta undan lélegum kennurum. Reglurnar, sem hafa verið settar um endurinnritunina, veita skólameisturum heimild en skyldar þá ekki til að innheimta gjaldið af öllum, ef um eðlilegar ástæður til undanþágu er að ræða.

Sjónvarpsfréttin var eins og ekkert hefði gerst í þessu máli, frá því að deilt var um það síðastliðið haust, fréttamaðurinn talaði um tossakatt og fallskatt. Engu var líkara en Margrét Friðriksdóttir, formaður skólameistarafélagsins, sem var heimildarmaður fréttarinnar teldi, að allir sem innrituðu sig í 18 eininga nám eða jafnvel 22 einingar féllu í 6 einingum og þyrftu þess vegna að greiða 3000 kr. í endurinnritun eða í 10 einingum og þyrftu þess vegna að greiða 5000 kr. Þetta gefur ekki rétta mynd af veruleikanum. Né hitt, að skólar eigi að hefja einhverjar njósnir um nemendur, þótt gera eigi kröfu til þess að þeir leggi fyrir skóla með umsókn um inngöngu yfirlit yfir námsferil sinn. Taldi ég raunar þennan þátt svo sjálfsagðan, að hann yrði ekki tilefni tortryggni.

Með gjaldtökuheimildinni er framhaldsskólunum veitt nýtt stjórntæki í því skyni að ná fram hagræðingu við skipulag innra starfs. Tel ég mikilvægt, að sem flest slík tæki séu fyrir hendi, þegar fjáhagslegt sjálfstæði skólanna er aukið og þar með ábyrgð skólameistara.

Þegar ég sá þessa frétt í sjónvarpinu og fylgdist með því, hvernig öllum málatilbúnaði var háttað, þótti mér ekki faglega að verki staðið. Ef til vill hafa allar umræður um málið á liðnum vetri farið fram hjá afleysingarmanni sjónvarpsins og ekki varð ég var við það þennan laugardag, að reynt væri að ná í mig til að skýra viðhorf mín og stjórnvalda til málsins. Ekki var heldur vakin athygli á því, að um gerð þeirra reglna, sem settar hafa verið um endurinnritunargjaldið var haft fullt samráð við skólameistara. Þegar umræður voru um málið á liðnu hausti var gjaldaákvæði framhaldsskólanna breytt til að koma til móts við óskir skólameistara um hærra álag á almenna innritunargjaldið fyrir þá, sem ekki láta skrá sig á réttum tíma, og til að auka heimildir við innheimtu á efnisgjaldi við verklegt nám. Hef ég í sjálfu sér ekki orðið var við, að skólameistarar séu andvígir gjaldtöku í framhaldsskólum. Á hinn bóginn þykir forráðamönnum skóla, að réttur til að innheimta gjöld fyrir skólasjóði sé of þröngur. Menntamálaráðneytið hefur nú sent skólameisturum nákvæmar reglur um það, hvernig að allri innheimtu gjalda í skólunum skuli staðið.

Ljóst er, að það er ekki markmið í sjálfu sér, að nemendur greiði endurinnritunargjald. Væri spornað gegn endurinnritun með betri námsárangri yrði komið í veg fyrir útgjöld, sem eru miklu hærri en tekjur af endurinnritun. Fram hjá þessari staðreynd getur enginn gengið. Það kostar námsmann meira en nokkur þúsund krónur á önn að innrita sig hvað eftir annað í sama áfangann eða hjakka sífellt í sama farinu í skólakerfinu. Verði hins vegar andvirði fáeinna bíóferða til þess að menn komist upp úr þessu fari, er til nokkurs unnið að halda inn á þessar nýju brautir.