1.6.1997

Söguþing - skólaslit - námskrár

Miðvikudaginn 28. maí síðdegis hófst fyrsta íslenska söguþingið. Nokkur misseri eru liðin síðan þau Anna Agnarsdóttir og Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingar komu á minn fund og leituðu eftir stuðningi við þá hugmynd, að vorið 1997 yrði efnt til Íslenska söguþingsins. Tók ég þeim vel og hét því að leggja þeim lið. Þingið var síðan haldið frá miðvikudegi til laugardags 31. maí og kom það í minn hlut að flytja lokaræðu þess.

Eftir því, sem ég heyrði á þinggestum þótti þeim öllum mikið til þingsins koma. Það var mjög vel undirbúið og dagskráin öll metnaðarfull. Því miður hafði ég ekki tök á að sitja þingið nema setningarathöfnina og síðdegis laugardaginn, þegar ég hlustaði annars vegar á þrjá fyrirlestra um stöðu Íslands í umheiminum, sem þeir fluttu Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur, Valur Ingimundarson sagnfræðingur og Sigurður Snævarr hagfræðingur. Þá hlýddi ég einnig á Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, ræða um efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga.

Raunar fór ég inn á sviðin, sem þeir Gunnar Helgi og Valur ræddu í ræðu minni við þingslitin. Ég get vel tekið undir það með Gunnar Helga, að hér á landi skorti stjórnmálamenn öfluga ráðgjöf um stefnumótun í utanríkismálum á hvaða sviði sem er. Sérfræðingar veita ráð um efnahagsmál, varðandi nýtingu auðlinda og unnt er að fá álit um lögfræðileg eða verlfræðileg efni. Á hinn bóginn er enginn viðurkenndur ráðgefandi aðili í utanríkis- og öryggismálum. Það er einnig rétt hjá Gunnari Helga, að sú staðreynd, að Íslendingar ráða ekki yfir eigin her skiptir sköpum varðandi mat á öryggishagmununum. Hef ég oft bent á það í umræðum um þau mál, að sú staðreynd, að við Íslendingar verjum ekki einni krónu til að tryggja hernaðarlegt öryggi okkar valdi því, að hér fari aldrei fram sambærilegar umræður um þessi mál og í öðrum löndum, þegar teknar eru ákvarðanir um útgjöld til hermála. Á hinn bóginn er ég þeirrar skoðunar eftir áralanga reynslu af þátttöku í ráðstefnum sérfræðinga um þessi mál og aðra þætti utanríkismála, að menn verða fljótt of heillaðir af viðfangsefnum sínum og mæla með hraðari þróun alþjóðlegs samstarfs, en hinn almenni borgari getur samþykkt. Tel ég það meðal annars eina af meginástæðunum fyrir því, að fylgið sveiflast jafnmikið og gerst hefur í kosningum í Bretlandi og Frakklandi undanfarið. Er ég þeirrar skoðunar, að nú muni hægja á samrunaþróuninni í Evrópu og ákveðið verði að fresta því, að hin sameiginlega Evrópumynt komi til sögunnar. Skilgreiningar Gunnars Helga á afstöðu íslenska valdahópsins og þróun íslenska þjóðfélagsins í samræmi við hana eru ekki sannfærandi í mínum huga. Við sjáum í hvern vanda valdahóparnir í öllum ESB-löndunum eru komnir, vegna þess að þeir hafa fjarlægst almenning of mikið í kappsemi sinni í nafni samrunaþróunarinnar í Evrópu.

Sigurður Snævarr fjallaði nokkuð um hagfræðingaálitið svonefnda, sem þeir Gylfi Þ. Gíslason, Jónas H. Haralz, Klemens Tryggvason og Ólafur Björnsson sömdu eftir fall nýsköpunarstjórnarinnar 1946. Mæltu fjórmenningarnir, sem tilnefndir voru af jafnmörgum stjórnmálaflokkum, með því að halda haftastefnunni frá 1931 áfram. Telur Sigurður þetta álit eitt hið versta, sem komið hefur fram í íslenskri stjórnmálasögu og það hafi orðið þjóðinni mjög dýrkeypt og haft hörmulegar afleiðingar, að eftir því var farið, raunar hafi þjóðin ekki losnað undan þeirri áþján fyrr en um 1960 með viðreisnarstjórninni. Tilraunin um 1950, þegar faðir minn fékk Benjamín H. J. Eiríksson til að semja greinargerð fyrir Sjálfstæðisflokkinn um leið út út haftakerfinu, heppnaðist ekki.

Jóhannes Nordal sagði í erindi sínu, að þau ráð sem stjórn Landsbanka Íslands hafi gefið 1931 og voru forsendur haftabúskaparins hafi orðið þjóðarbúinu mjög skaðleg. Þá hafi það einnig verið mjög óheppilegt hjá Jóni Þorlákssyni og samherjum hans að sameina seðla- og viðskiptabanka í Landsbanka Íslands í stað þess að fela seðlaútgáfuna sérstökum ríkisbanka eins og afi minn Benedikt Sveinsson hafi viljað. Hin sameinaða bankastofnun hafi alls ekki verið í stakk búinn til að sinna efnahagslegri ráðgjöf sinni á nægilega faglegan hátt.

Síðan mátti ráða það af erindi Vals Ingimundarsonar, að það hafi verið stefnan í utanríkis- og öryggismálum, sem gerði íslenska hagkerfinu kleift að lifa af haftastefnuna, eftir að gróðinn af síðari heimsstyrjöldinni hvarf eins og dögg fyrir sólu. Íslendingar fóru fram á Marshall-aðstoð 1948 og fengu hana fyrst í apríl 1949 um sama leyti og skrifað var undir Atlantshafssáttmálann, fengum við síðan hlutfallslega mesta aðstoð miðað við höfðatölu. Vinstri stjórnin 1956 notaði síðan varnarleysisstefnu sína sem vopn, þegar hún knúði á um lántökur hjá Vesturlöndum og NATO. Féll hún frá öllum hugrenningum um að loka varnarstöðinni og fékk mikið af lánsfé. Var það síðasta ríkisstjórnin fyrir viðreisn með aðild Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks.

Af mörgu athyglisverðu við þessa fyrirlestra var, að í umræðum um hagfræðilega þætti og efnahagsmál var höfuðáherslan á stefnumótunina og afleiðingar rangra ákvarðana eða ráða, en ekki á aflabrögð og ytri aðstæður. Nú þegar Ísland er komið í hóp þeirra ríkja, sem talin eru búa við mest frjálsræði í efnahagsmálum, er þessi hafta- og skömmtunatími enn fjarlægari en ella og líklega er enginn, sem saknar sífelldra efnahagsúrræða stjórnmálamanna. Þau úrræði gengu sér til húðar á óðaverðbólgutímum níunda áratugarins.

Með hina hagfræðilegu ráðgjöf í huga og afleiðingar hennar á upphafsárum lýðveldisins má kannski þakka fyrir, að stjórnmálamennirnir treystu ekki of mikið á sérfræðilega ráðgjöf við mótun stefnunnar í utanríkis- og öryggismálum. Dómur sögunnar er sá, að þar hafi vel til tekist. Það er kannski einmitt þess vegna, sem við höfum ekki sambærilegar ráðgjafastofnanir í utanríkis- og öryggismálum og finna má erlendis?

Ég bið lesendur að afsaka, hve mjög ég teygi lopann í tilefni af þessum erindum á söguþingi, en fyrir mér vakir það eitt að festa á netið vangaveltur mínar, svo að ég gleymi þeim ekki og vegna þess að þau skerptu jafnframt fyrir mér hlut forfeðra minna að því efnahagsmál varðar, en líklega töldu þeir sig aldrei hafa mikla sérþekkingu á þeim heldur meta þau með almenna skynsemi að leiðarljósi, sem er jú að lokum öruggasta haldreipi stjórnmálamanna.

Framhaldsskólar um land allt eru nú að ljúka vetrarstarfinu. Þáðum við Rut boð um að verða við slit Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni sunnudaginn 1. júní, þar sem jafnframt var verið að kveðja Árna Guðmundsson skólastjóra, sem nú lætur af störfum fyrir aldurs sakir eftir 41 árs skólasjórn. Var ánægjulegt að fara til Laugarvatns þennan fyrsta fagra sumardag ársins, taka þátt í hátíðinni þar og ávarpa.

Ég hef heyrt á fólki, sem tekur þátt í skólaslitahátíðum, að heldur þyki því hvimleitt, þegar skólameistarar noti þær til að barma sér vegna fjárskorts og kvarta undan skilningsleysi fjárveitingarvaldsins á málefnum skólanna. Því finnist frekar að auka eigi ungu fólki bjartsýni með hvatningarorðum en láta í það skína, að enginn kunni í raun að meta gildi menntunar, hvað sem hátíðarræðum líði. Ekki var neinn slíkur barlómur hafður í frammi á Laugarvatni.

Nú er unnið að því að fara yfir fjármál og innra starf allra framhaldsskólanna í menntamálaráðuneytinu með það að markmiði að semja við þá um gegnsæjar fjárveitingar, einnig hefur ábyrgð skólameistara á fjármálastjórn og mannahaldi verið stóraukin. Þeim ber að haga útgjöldum í samræmi við fjárveitingar. Ábyrgð þeirra breytist ekkert, þótt þeir telji, að meira fé eigi að renna til fræðslumála. Þá sýna allar kannanir, að gæði í skólastarfi ráðast ekki af því, hve háu hlutfalli þjóðartekna er varið til menntamála. Þyngst vegur, hvernig staðið er að innra starfi skólanna og nýtingu á því fé, sem er til ráðstöfunar hverju sinni. Nálgist menn vanda skólakerfisins með því einu að ræða um fjárskort eru þeir í raun að forðast umræður um það, sem mestu skiptir, vilji menn ná árangri.

Nýtt skref var stigið í hinni víðtæku námskrárvinnu, sem nú fer fram á vegum menntamálaráðuneytisins, föstudaginn 30. maí, þegar ríkisstjórnin samþykkti tillögur mínar í því efni og þær voru síðan kynntar síðdegis sama dag á blaðamannafundi. Enskan verður fyrsta tungumálið í grunnskóla, kennsla í henni hefst í 5. bekk en í dönsku í 7. bekk. Umræður munu fara fram næsta haust um það, hvernig staðið verður að því að breyta samræmdum prófum. Markmið með námskrárvinnunni er að stytta nám fyrir háskóla úr 14 árum í 13 ár. Ljóst er að þetta markmið næst ekki nema með samræmdum aðgerðum og verður nú unnið að því að móta þær.

Léleg fréttamennska

Ég get ekki orða bundist um ótrúlegan fréttaflutning í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins sunnudaginn 1. júní, þegar sagt var frá niðurstöðum prestkosninga í Garðaprestakalli. Þar var í kynningu á fréttunum sagt, að sigurvegari í prestskosningunni væri þeirrar skoðunar, að sigurinn gæti hann þakkað, að andstæðingur hans studdist við svokallaða biskupsmenn og Sjálfstæðisflokkinn. Þegar fréttin var flutt kom hins vegar í ljós, að sigurvegarinn lét aldrei nein orð falla um þetta heldur var það fréttamaðurinn, Pálmi Jónasson, sem spurði leiðandi spurningar á þennan veg og lagði síðan þannig út af hlutlausu svari sigurvegarans, að hann samsinnti því, sem í spurningunni fólst. Með þeirri aðferð, sem þarna var beitt í fréttatíma, gefa útvarpsmenn tóninn í þjóðfélagsumræðum hvað sem staðreyndum líður og gengur aðferðin þvert á það, sem Arthur Marwick prófessor áréttaði hvað eftir annað í ræðu við upphaf söguþings, þegar hann hvatti sagnfræðinga til þess að byggja á staðreyndum og engu öðru.