Stærðfræðipróf - Eistlendingar - afreksverk
Nú liggja fyrir niðurstöður Rannsóknastofnunar um uppeldis- og menntamál (RUM) um hið umdeilda stærðfræðipróf. Samkvæmt þeim má draga þá ályktun, að hvellurinn vegna prófsins hafi verið heldur hávær. Á sama tíma og greint er frá niðurstöðunni birtir Morgunblaðið upplýsingar um stærfræðieinkunnir í menntaskólum og dregur þá ályktun af þeim í forystugrein, að tími sé til þess kominn fyrir rétt yfirvöld að grípa til sinna ráða, ekki megi lengur við svo búið standa. Er þá einnig vísað til niðurstöðunnar í alþjóðlegu TIMSS-könnuninni í vetur.
Þegar TIMSS-könnunin var til umræðu lét ég hafa það eftir mér, að ekki væri ástæða til að skýra frá aðgerðum vegna hennar, fyrr en öll kurl væru komin til grafar. Könnunin ætti eðli sínu samkvæmt að gefa til kynna, hvar væri veikasti hlekkurinn í skólakerfi okkar. Við þessa yfirlýsingu stend ég og bíð enn eftir því, að RUM skili niðurstöðu sinni. Finnst mér, að einkunnir í samræmda prófinu í stærðfræði og hlutlægt mat á því, meðal annars byggt á upplýsingum trúnaðarmanna um allt land, sýni, að ekki sé skynsamlegt að hrapa að niðurstöðu um það, hvað gera skuli.
Hitt gefur þó ranga mynd af stöðu stærðfræðikennslunnar ef látið er í veðri vaka, að ekkert sé verið að gera til að bæta hana. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að endurskoðun námskrár í stærðfræði og þokast það starf markvisst áfram. Þá hafa verið teknar ákvarðanir um sérstök endurmenntunarnámskeið fyrir stærðfræðikennara. Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um starfsréttindi kennara, sem miðar að því að auðvelda framhaldsskólum að ráða til starfa fólk með fagmenntun á kostnað kennslufræði, en gagnrýnar umræður um of miklar kröfur vegna kennslufræði urðu vegna birtingar TIMSS-niðurstöðunnar. Sumir töldu raunar, að samræmda stærðfræðiprófið í vor bæri þess merki, að menn væru að gera of miklar kröfur vegna TIMSS.
Ég tel með öðrum orðum rangt að halda því fram, að ekkert hafi verið gert til að auka veg stærðfræði í skólunum. Vandinn er hins vegar sá, að um árabil höfum við verið að þokast í núverandi stöðu og almennt dregur úr sókn í nám, þar sem lögð er áhersla á stærðfræði.
Miðvikudaginn 21. maí kom hingað til lands hópur Eistlendinga undir forystu Jaak Allik, menningarmálaráðherra Eistlands, til að fræðast um það, hvernig staðið er að opinberum stuðningi við íslenska menningu. Voru það Eistlendingarnir, sem höfðu frumkvæði að heimsókninni, en þátttakendur í henni sitja allir í nefnd, sem hefur það hlutverk að ákveða styrki til menningarstarfs, það er skipta tekjum af áfengi og tóbaki, sem renna í menningarsjóð í Eistlandi, líkt og hér var á árum áður og skemmtanaskatturinn svonefndi rann til slíkra verkefni. Hann er enn við lýði og hefur Menningarsjóður, sem notaður er til að styrkja bókaútgáfu, tekjur af honum. Skemmtanaskatturinn er orðin úrelt skattheimtuleið að mati sérfræðinga hér, en í Eistlandi skapar svipaður skattur enn verulegar tekjur.
Var ánægjulegt að hitta Eistlendingana og bjó menntamálaráðuneytið til dagskrá bæði fyrir hópinn í heild og fyrir einstaka nefndarmenn, sem allir sinna sérgreinum á listasviðinu. Svo skemmtilega vildi til, að efnt var til tveggja innlendra frumsýninga á meðan þeir dvöldust hér.
Að kvöldi miðvikudagsins 21. maí var óperan Tunglskinseyjan eftir Atla Heimi Sveinsson og Sigurð Pálsson frumsýnd í Þjóðleikhúsinu. Kvöldið eftir var Íslenski dansflokkurinn með frumsýningu í Borgarleikhúsinu. Fórum við með Eistlendingana á á báðar þessar sýningar.
Telja má hvoru tveggja afreksverk á listasviðinu. Íslendingar unnu einnig önnur afreksverk í þessari viku og ber þar að sjálfsögðu hæst sigurgönguna á tind Everest. Hitt var ekki síður mikils virði, hve handboltamönnunum gekk vel í Japan.