11.5.1997

Hagfræðiskýrsla - þinglok - Skagafjörður - Norðfjörður

Af pólitískum tíðindum vikunnar vakti mesta athygli mína uppnámið, sem varð hjá talsmönnum veiðileyfagjalds, vegna skýrslu tveggja fræðimanna við Háskóla Íslands um skattaleg áhrif veiðileyfagjaldsins. Skýrslan var birt í tilefni af ráðstefnu, sem sjávarútvegsráðherra beitti sér fyrir og haldin var á Akureyri þriðjudaginn 6. maí. Ég sótti hvorki þá ráðstefnu né hef gefið mér tíma til að grandskoða þessa skýrslu. Á hinn bóginn fór ekki fram hjá mér frekar en öðrum, hvílíkar sviptingar urðu á ólíklegustu stöðum vegna birtingar skýrslunnar.

Fyrr í vetur fór ég þess á leit við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, að hún léti í té álitsgerð um gildi menntunar fyrir hagvöxt. Heldur hefði mér brugðið í brún, ef birting þeirrar skýrslu hefði leitt til þess, að rektor Háskóla Íslands gæfi út yfirlýsingu um það við hvað mætti leggja nafn stofnunarinnar og menn hefðu farið hamförum út af einhverjum formsatriðum, sem ávallt er unnt að finna til að fjargviðrast yfir telji menn hégómlega hluti skipta meira máli en efnislega þætti.

Uppnámið sem hin nýja skýrsla olli birtist ekki aðeins í yfirlýsingu rektors heldur á síðum Morgunblaðsins og í fréttatíma sjónvarps ríkisins, sem fékk greinilega ábendingu um, að viðskiptafræðinemi hefði verið að rita háskólaritgerð um áhrif kvótakerfisins á byggðaþróun og var fréttamanninum greinilega meira í mun að magna áhrifin en ritgerðarsmiðnum. Þá var Alþýðublaðið einnig að býsnast yfir skýrslunni og ráðstefnunni á Akureyri og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins lagði sitt af mörkum til að gera málatilbúnaðinn tortryggilegan með Morgunblaðsgrein.

Reynsla mín af blaðamennsku og stjórnmálabaráttu kennir mér, að grípi menn til þess bægslagangs, sem hér hefur verið lýst, í deilum um pólitísk úrlausnarefni hafi þeir yfirleitt vondan eða lélegan málstað að verja.

Nú dregur brátt að lyktum þessa þings. Öll mál, sem ég lagði fram nú í lokatörn vorþingsins, hafa verið send til umsagnar, en aðeins tvö hljóta afgreiðslu, það er breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og breytingar á þjóðminjalögum. Önnur bíða næsta þings og mun ég skoða umsagnir í sumar með sérfræðingum ráðuneytisins og síðan leggja frumvörpin fram að nýju næsta haust, ef til vill með einhverjum breytingum. Í frumvarpi til laga um háskóla og til laga um Kennara- og uppeldisháskóla var gert ráð fyrir, að gildistakan yrði 1. janúar 1998 í báðum tilvikum. Í ljósi þess er mjög mikilvægt fyrir framvindu málanna, að innan menntamálanefndar Alþingis hefur náðst samkomulag um að nefndin muni haga vinnu sinni þannig, að unnt sé að afgreiða frumvörpin á næsta haustþingi, það er fyrir áramót.

Þingflokkur og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins efndu til sameiginlegs fundar á Löngumýri í Skagafirði föstudag og laugardag (9. og 10. maí). Flugum við flest norður síðdegis á föstudeginum og vorum komin aftur til Reykjavíkur síðdegis á laugardeginum. Fyrir utan fundarhöld fórum við í skoðunarferð um Sauðárkrók og hlýddum á karlakórinn Heimi. Virtist mér, að allir teldu þessa för vel heppnaða og á fundi okkar voru teknar mikilvægar ákvarðanir um ýmis þingmál.

Að morgni sunnudagsins 11. maí flugum við Rut á Egilsstaði og ókum þaðan sem leið liggur í Neskaupstað, þar sem tekið var í notkun verkkennsluhús við Verkmenntaskóla Austurlands. Hefur heppnast mjög vel að breyta gömlu íþróttahúsi í þetta nýja kennsluhús, sem er ágætlega búið tækjum. Eftir vígslu hússins skoðuðum við bóknámsaðstöðu skólans og heimavistina einnig fórum við í barnaskólann, þar sem sýning var á handavinnu nemenda og kynning á starfi skólans. Tókum við síðan vél heim um kvöldmatarleytið. Var Egill Jónsson alþingismaður með okkur í ferðinni og áttum við þarna ánægjulegan og fróðlegan dag hjá gestrisnu fólki, þótt veðrið væri ekki eins sólbjart og hlýtt og það var í Reykjavík.

Í viðræðum við heimamenn kom fram, að þeir væri óánægðir með það áhugaleysi, sem fréttastofa sjónvarps ríkisins, sýndi málefnum á Austurlandi. Væri það greinilega meira en hjá Stöð 2, sem þvert á móti sýndi málefnum Austfjarða góðan áhuga. Sögðu þeir til dæmis, að ítrekuðum fyrirspurnum til fréttastofu ríkissjónvarpsins um það, hvort hún myndi ekki segja frá þessum merkisatburði í skólasögu Austfjarða, hefði verið mætt með því svari, að þetta væri ekki fréttnæmt fyrir sjónvarp.