4.5.1997

Hvalveiðar - félagshyggja - samræmd próf

Davíð Oddsson forsætisráðherra setti umræðurnar um hvalveiðar okkar Íslendinga inn á nýjar brautir í ræðu sinni á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs í hádeginu laugardaginn 3. maí. Hann dró það fram, að við þyrftum að vita, hvort unnt væri að selja afurðir, ef stefnt yrði að veiðum umfram neyslu innan lands. Einnig þyrfti að átta sig á því hvaða dýr það væru, sem menn vildu veiða, hvort það væru einungis hrefnur eða stærri hvalir. Loks væri nauðsynlegt að taka til endurskoðunar þá ákvörðun að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Umræður um hvalveiðar verða oft tilfinningaheitar. Meirihluti þjóðarinnar segist vilja, að veiðarnar verði hafnar og fyrir því eru skýr vísindaleg rök, að í raun sé nauðsynlegt að grisja hvalastofna. Þá er mönnum illa við að þurfa að sætta sig við yfirgang andstæðinga hvalveiða, sem ganga fram með ofbeldi eins og dæmin sanna. Sagt er, að vinni friðunarsinnar í hvalamálinu snúi þeir sér að verndun fiskistofna næst og þá verði Íslendingum flestar bjargir bannaðar.

Rökin gegn hvalveiðum eru þau helst, að vegna mikilla áhrifa friðunarsinna tökum við of mikla áhættu með því að hefja hvalveiðar. Þetta muni bitna á fiskseljendum og draga úr heimsóknum ferðamanna. Þá megi hafa meira upp úr hvölum með því að sýna þá í stað þess að drepa.

Ég var einn þingmanna opinberlega andvígur því, að Ísland segði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ég er almennt þeirrar skoðunar, að fyrir smáríki skipti meiru að ýta undir þátttöku í alþjóðastofnunum en snúast gegn þeim. Ýmsir segja, að Alþjóðahvalveiðiráðið sé marklaus stofnun, af því að þar megi sjónarmið friðunarsinna sín of mikils, ráðið fari í raun ekki eftir eigin stofnskrá. Hvað segja þeir, sem þannig tala um Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna? Þar komast Kínverjar upp með að sitja án þess að svara til saka fyrir mannréttindabrot sín. Er sú nefnd ekki þarflaus kjaftasamkunda? Eða gildir öðru máli þegar réttindi mannskepnunar eiga í hlut en þegar rætt er um hvali? Ég tel nauðsynlegt fyrir okkur að fara í Alþjóðahvalveiðiráðið og gera það, ef unnt er, með fyrirvara á þann veg, að við áskiljum okkur rétt til hvalveiða. Hið eina, sem réttlætir í raun, að við hurfum úr ráðinu, er, að árið 1983 samþykktum við að lúta hvalveiðibanni þess. Nú eigum við að ganga í ráðið og aflétta þessari sjálfskipuðu kvöð af okkur samtímis. Þar með höfum við þjóðréttarlegar forsendur til að hefja veiðar, með þær og hin vísindalegu rök að vopni stöndum við betur en ella að vígi í óhjákvæmilegri baráttu við friðunarsinna.

Ég hef oft velt því fyrir mér, hvað felst í hugtakinu félagshyggja. Raunar get ég vísað til blaðagreina, þar sem ég beinlínis spurt þá, sem segjast fylgja félagshyggju sem stjórnmálaskoðun, að því, hvað í því felist. Hefur verið lítið um svör enda er þetta samheiti um eitthvað, sem er harla óljóst og gjarnan sett upp sem andstæða við frjálshyggjuna. Hugtakið frjálshyggju er auðvelt að skýra, en hún er andstæða við sósíalisma, það er stefnu forsjárhyggj- og ríkisafskiptasinna. Félagshyggjumenn segjast gjarnan vera eitthvað annað en þetta og alls ekki sósíalistar.

Eftir að hafa hlustað á ýmsa forystumenn í verkalýðshreyfingunni tala, til dæmis nú í kringum 1. maí og vegna kosningaúrslitanna í Bretlandi þann dag hef ég komist að niðurstöðu fyrir sjálfan mig um það, hvað felst í hugtakinu félagshyggja. Það er ofurtrú á verkalýðsfélögum og getu þeirra til að leysa allan vanda. Það eru í raun félögin, sem um er að ræða en ekki einhver félagsleg viðhorf. Raunar teygir þessi félagshyggja sig inn í raðir atvinnurekenda eins og sjá má á umræðum um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Kenningin er sú, að það þurfi að vera til öflug félög á vinnumarkaði, sem koma fram gagnvart þjóðkjörnum fulltrúum og segja þeim helst fyrir verkum og það á að tryggja þessum félögum örugga réttarstöðu og ótvírætt vald til að taka fé af mönnum, hvort sem þeir vilja vera í félaginu eða ekki.

Andstaða félagshyggjumanna við Margaret Thatcher er skiljanleg, því að hún er sá stjórnmálamaður í Evrópu, sem best hefur tekist að brjóta þetta félagsbundna vald á bak aftur. Einnig hefur það verið gert á Nýja Sjálandi og þess vegna er það sérstakt kappsmál félagshyggjumanna að sverta þá stjórnarstefnu, sem þar hefur verið fylgt. Sá innlendi alþingismaður, sem er helsti talsmaður félagshyggjunnar um þessar mundir, er Ögmundur Jónasson, hinn óháði þingmaður í þingflokki Alþýðubandalagsins, sem er jafnframt formaður BSRB, félags ríkis- og bæjarstarfsmanna. Að sjálfsögðu vill hann ekki, að gengið sé á rétt síns félags, hann er beinlínis kjörinn á þing til að gæta þeirra hagsmuna. Fréttir af síðasta BSRB-þingi benda og til þess, að umræður þar séu að verða pólitískari en áður. Tony Blair og mönnum hans í Verkamannaflokknum er keppikefli að verða ekki stimplaðir félagshyggjumenn, það er sporgöngumenn forystumanna í verkalýðsfélögum. Trúverðugleiki þeirra í ríkisstjórn mun ráðast af því, hvort þeim tekst að halda þeirri ímynd.

Ég set þessa kenningu hér fram til umhugsunar.

Samræmdu prófin voru mjög til umræðu í vikunni. Raunar kom fram í fréttum, að lögreglan skýrði ólæti unglinga og nauðsyn þess að grípa til táragass til að hemja þá með þeim orðum, að brotist hefði fram svo mikil reiði vegna samræmdu prófanna. Vonandi er þetta orðum aukið, hitt er ljóst, að með öllur er óviðunandi að prófin séu með þeim hætti, að menn telji beinlínis um ósanngirni að ræða. Hef ég fengið fjölmörg tölvubréf um málið frá óánægðum og raunar sorgmæddum foreldrum. Menntamálaráðuneytið gaf út fréttatilkynningu um málið, sem er að finna á vefsíðu þess. Í ræðu, sem ég flutti við upphaf 8. fulltrúaþings Kennarasambands Íslands komst ég þannig að orði um prófin:

“Að sjálfsögðu hafa úrlausnarefni að því er varðar grunnskólann ekki horfið frá menntamálaráðuneytinu. Vorum við til dæmis minnt á það með næsta óskemmtilegum hætti í vikunni, þegar fréttir bárust af óánægju með framkvæmd samræmdu prófanna. Þótt allar reglur um prófin séu skýrari en áður og menn öðlist með hverju ári aukna reynslu, hefur ekki enn tekist að koma á þeirri skipan, sem tryggir snurðulausa próftöku.

Vil ég fullvissa ykkur um eindreginn vilja minn til að búa þannig um hnúta, að nemendur, kennarar og foreldrar geti vel við prófin unað. Með því er ég ekki að segja, að þau eigi eða verða létt og stutt, heldur hitt, að fullrar sanngirni sé gætt. Tekur alla, sem unna skólastarfi, sárt, þegar nemendur kveðja grunnskólann reiðir að lokinni 10 ára dvöl vegna þess að þeim finnst þeir ósanngirni beittir.

Mér er ljóst, að samræmdu prófin eru viðkvæmari þáttur í skólastarfi en áður vegna nýrrar upplýsingastefnu um niðurstöður í þeim og samanburð á milli skóla. Einnig eru inntökukröfur framhaldsskólanna að breytast og þess vegna er kapp nemenda meira en áður og sársaukinn í samræmi við það, ef ekki gefst tóm til að sýna kunnáttuna.

Málefni Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála hafa verið til athugunar á vegum menntamálaráðuneytisins og hinnar nýju mats- og eftirlitsdeildar innan þess. Er nú verið að leggja síðustu hönd á samning milli ráðuneytisins og stofnunarinnar, þar sem verkaskipting og hlutverk er skilgreint með skýrari hætti en áður. Þá vinna rektorar Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri að faglegri úttekt á stofnuninni. Fyrir nokkru sagði forstöðumaður RUM starfi sínu lausu og kemur nú að því, að nýr verði ráðinn. Þá tel ég, að lög um stofnunina beri að endurskoða í ljósi þeirra breytinga á stjórnsýslu, sem hafa orðið síðan núgildandi lög voru samþykkt."