13.4.1997

Einkaháskólar - kennararéttindi - Hugvísir

Skömmu eftir hádegi mánudaginn 7. apríl kom það í minn hlut að taka fyrstu skóflustungu að byggingu nýs skólahúss við Verslunarskóla Íslands í Kringlunni. Þar er ætlunin að verði aðsetur viðskiptaháskóla, sem á að taka til starfa haustið 1998. Mál þetta hefur verið lengi á döfinni og um nokkurt skeið hefur Verslunarskólinn boðið tölvunám á háskólastigi samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið. Einnig hefur einkaskóli á háskólastigi starfað í Bifröst í Borgarfirði, það er Samvinnuháskólinn. Ríkissjóður hefur tekið þátt í kostnaði við rekstur skólans með samningi, en skólagjöld í Bifröst eru 120 þúsund krónur á ári.

Ég tel, að einkaháskólar eigi fullan rétt á sér. Hins vegar vil ég, að í lögum sé menntamálaráðherra veitt umboð til að semja um fjárveitingar til slíkra skóla með eðlilegum fyrirvara um samþykki Alþingis. Verði frumvarp til laga um háskóla samþykkt mun slíkt umboð liggja fyrir.

Þegar þetta mál var á döfinni síðastliðið sumar, birtist forystugrein í Morgunblaðinu, þar sem lagst var gegn þessum áformum Verslunarskólans og talið nær að styrkja forsendur fyrir starfi viðskiptaskorar við Háskóla Íslands. Aðrir hafa í sjálfu sér ekki beinlínis orðið til þess að mótmæla áformum þeirra, sem standa að þessum nýja háskóla. Hins vegar er ég ekki þeirrar skoðunar, að hinn nýi skóli spilli fyrir því starfi, sem unnið er í Háskóla Íslands.

Föstudaginn 11. apríl efndi ég til blaðamannafundar til að kynna niðurstöðu úttektar á háskólanámi í viðskipta- og rekstrarfræðum. Náði könnunin til Háskóla Íslands, Tækniskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Samvinnuháskólans í Bifröst. Liggja fyrir tvær skýrslur um málið, annars vegar á vegum stýrihóps úttektarinnar, sem starfaði undir formennsku Þorkels Sigurlaugssonar, og skýrsla svonefnds ytra matshóps. Eru þetta hin fróðlegustu skjöl fyrir alla, sem áhuga hafa á því að kynna sér störf þessara skóla og hvernig staðið er að því að meta innra starf þeirra. Er þetta í fyrsta sinn hér á landi, sem bornar eru saman háskólastofnanir og einnig í fyrsta sinn, sem borið er saman nám í ríkisskólum og einkaskóla, eða skólum í Reykjavík og annars staðar á landinu. Á blaðamannafundinum voru einnig fulltrúar skólanna og urðu þar fróðlegar umræður um skýrslurnar, sem því miður er engin grein gerð fyrir í frásögn af honum í Morgunblaðinu, en annars staðar hef ég ekki séð minnst á fundinn. Raunar kemur það ekki fram í Morgunblaðinu, hvernig menntamálaráðuneytið stóð að kynningu þessara skýrslna. Á þessum fundi sagði ég til dæmis, að í skýrslunum kæmi ekkert fram, sem benti til þess, að það væri röng ákvörðun hjá Verslunarskóla Íslands að stofna háskóla til viðskiptamenntunar.

Skólastofnanir starfa nú meira fyrir opnum tjöldum en nokkru sinni fyrr. Niðurstöður samræmdra prófa eru birtar til að unnt sé að bera saman skóla og unnið er að mati og úttektum. Eru fáar opinberar stofnanir, sem starfa við þessar aðstæður. Ég er sannfærður um, að þetta er hollt fyrir skólastarfið og í samræmi við kröfur tímans.

Sagt er, að fjölmiðlar nærist á því, sem fer úrskeiðis og þeir verði að sjá einhvern þann flöt á málum til að hafa áhuga á þeim. Nokkuð er liðið síðan frumvarp til breytinga á lögum um starfsréttindi kennara var lagt fram á Alþingi. Þar er fjallað um starfsréttindi grunn- og framhaldsskólakennara. Hefur lengi verið unnið að þessari endurskoðun og almennt í góðri sátt við viðmælendur úr hópi kennara, þótt þeir séu á engan hátt ábyrgir fyrir frumvarpinu.

Frá upphafi hefur legið fyrir, að sjónarmiðin voru ólík að því er varðaði kröfur um nám í kennslu- og uppeldisfræði hjá þeim, sem annast kennslu á framhaldsskólastigi. Hefur ráðuneytið viljað draga úr þessum kröfum en kennarar halda í þær. Í hinum óformlegu umræðum skiptust menn á hugmyndum um þetta efni án þess að komast að niðurstöðu. Ég hef undanfarna mánuði ekki legið á þeirri skoðun minni, eins og fram kemur meðal annars hér á síðunum, að áherslan á kennslu- og uppeldisfræðina hafi verið of mikil, fagnámið eigi að vega þyngra, það er þjálfun í því að kenna einstakar námsgreinar. Að lokum tók ég ákvarðanir um starfsréttindafrumvarp kennara á þeim forsendum, sem ég hef reifað oftar en einu sinni opinberlega, það er ég stytti í 15 einingar úr 30 einingum nám í kennslufræði hjá þeim, sem hafa 120 eininga háskólanám að baki, og einnig geta tæknimenntaðir menn eða meistarar, sem mikla reynslu, látið 15 einingar í kennslufræði duga, tel ég það til þess fallið, að styrkja tengsl skóla og atvinnulífs og efla starfsmenntun. Er ljóst, að ýmsir forystumenn kennara eru þessu ósammála.

Á forsíðu Dags-Tímans 12. apríl birtist frétt undir fyrirsögninni: Kennarar saka Björn um svik. Kemur þar fram, að kennarar séu “mjög reiðir" vegna fyrrgreindra ákvæða í frumvarpinu og Guðrún Ebba Ólafsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, segir, að þessi ákvörðun mín hafi komið kennurum algjörlega í opna skjöldu og þeir séu mjög ósáttir við hana.

Þessi frétt kemur mér raunar í opna skjöldu. Ég hef jafnan sagt við kennara í okkar ágæta samstarfi og samráði, að í einstökum málum kunni ætíð að koma að því, að ekki sé lengur um samleið að ræða og þá verði hver að fara sína leið, án þess að það hafi samstarfsslit í för með sér. Ljóst var frá upphafi, að ólíkar skoðanir voru reifaðar í hinu óformlega samráði. Síðan fór ég mína leið og gerði tillögur, sem nú eru komnar fram á Alþingi. Er með öllu fráleitt að saka mig um svik, enda gerir Guðrún Ebba það ekki, þótt DT gefi það til kynna í fyrirsögn sinni.

Síðdegis laugardaginn 12. apríl var athöfn í Hinu húsinu við Aðalstræti í Reykjavík, þar sem í þriðja sinn voru afhent verðlaun í keppni, sem ber heitið Hugvísir. Þar geta nemendur í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum lagt fram verkefni eða niðurstöður rannsókna, sem síðan eru metnar af dómnefnd. Er bæði um rannsóknir á sviði hug- og raunvísinda að ræða. Til dómnefndarstarfa eru kallaðir kunnir vísindamenn og hafa þeir starfað undir formennsku Sigmundar Guðbjarnasonar prófessors. Í fyrsta sinn hlutu nemendur úr Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum fyrstu verðlaun, í fyrra voru það nemendur úr Menntaskólanum við Sund og að þessu sinni Sigrún Jóhannsdóttir, 15 ára stúlka úr Foldaskóla í Reykjavík, sem er grunnskóli, en innan veggja hans hefur nýsköpunarstarfi verið sýndur mikill áhugi og ber hann greinilega góðan ávöxt. Þurí Ósk Axelsdóttir í Flensborgarskóla í Hafnarfirði fékk önnur verðlaun. Verðlaunahafarnir fara síðan til þátttöku í samskonar keppni í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, en þetta framtak hér er hluti af svonefndir mannuðsáætlun Evrópusambandsins, en Ísaga, Hitt húsið og menntamálaráðuneytið standa að keppninni hér. Héðan fara í haust til Evrópukeppninnar, sem að þessu sinni er í Mílanó, þær tvær stúlkur, sem hlutu fyrstu og önnur verðlaun.

Keppni af þessu tagi skilar sér með margvíslegum hætti og er ástæða fyrir skóla til að huga að þessari leið til að efla áhuga nemenda sinna og skapa sér traustari stöðu. Áhugi kennara og viðleitni þeirra til að hvetja nemendur sína skiptir hér mestu.